Vegvillt viðspyrna
20.12.2012 | 11:13
Ein grundvallarforsenda þess að ná góðum árangri í hverju því sem maður tekur sér fyrir hendur er að gera sér skýra grein fyrir markmiðinu sem maður vill ná. Það er þó ekki alltaf alveg nóg því ef markmiðið er hugmyndafræðilegs eðlis þá þarf ýmislegt fleira að koma til. Eitt grundvallaratriðið er þó að gera sér fulla grein fyrir merkingu hugtakanna sem eru bundin markmiðinu og því hvernig þeim verður best þjónað þannig að markmiðið geti orðið að veruleika.
Viðspyrna verður til
Það leggur engin af stað í langt og strangt ferðalag sem samfélagslega meðvituð viðspyrna útheimtir nema vera knúin áfram af markmiði. Viðspyrnulestin sem lagði af stað haustið 2008 fylltist af farþegum sem töluðu sumir hærra en aðrir um réttlæti, jöfnuð, gangsæi og fleiri hugmyndafræðileg hugtök sem flestir hugðu að um ríkti sameiginlegur skilningur.
Eftir því sem liðið hefur á ferðalagið er þó ljóst að þeir sem tóku sér far með þessari lest voru margir hverjir með annaðhvort afar óljósar hugmyndir um hvert ætti að stefna eða tilgangur þeirra var frá upphafi allt annar en sá að vinna að hagsmunum samfélagsheildarinnar.
Á því fjögurra ára ferðalagi sem ég á að baki innan viðspyrnunnar hefur það runnið upp fyrir mér að viðspyrna alltof margra hefur aldrei snúist um annað en koma sér og sínum að við stýrishjólið án þess að skeyta nokkuð um heiðarleik- ann, lýðræðishallann eða kerfisvilluna.
Þrátt fyrir að þessir hafi barist undir sömu merkjum og aðrir innan við- spyrnunnar hefur barátta þeirra snúist um tilteknar persónur eða andlit en ekki málefni. Þessir hafa haldið á lofti merkjum gegn því sem allir eru sammála um að sé óréttlæti, misskipting og spilling með annarri hendinni en á sama tíma hefur hin strokið malandi fressköttum misskiptingarinnar.
Hin eiginlega grasrót lét lengi vel blekkjast en nú þegar raunverulegur tilgangur þeirra sem skipuðu sjálfa sig til forystu hefur verið að koma æ, betur í ljós er grasrótin sundruð og villuráfandi enda alls ekki allir sem vilja kannast við að viðspyrna þeirra hafi verið misnotuð á þennan hátt. Þar af leiðandi hefur komið upp ágreiningur um það hvað hrinti viðspyrnunni af stað í upphafi og hvað hefur knúið hana áfram síðan.
Í síðustu alþingiskosningum varð töluverð endurnýjun á þingmönnum bæði í gegnum gamla fjórflokkinn og svo með mótmælaframboðinu sem bauð sig fram í fyrsta skipti. Margir væntu breytinga með nýsamsettri stjórn en flestir þeirra áttu líka í erfiðleikum með að viðurkenna það í orði að Samfylkingin var í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum þegar efnahagskerfið hrundi. Úrslit kosninganna var því ekki sú endurnýjun sem margir vildu halda fram.
Hálmstráin í grasrót viðspyrnunnar
Eins og alþjóð veit er vanhæfnin síst minni í núverandi stjórnarsamstarfi en árin á undan enda einhverjir sem áttuðu sig á því fyrir kosningarnar að litlar líkur væru á breytingum þar sem engin meðal núverandi stjórnarflokka talaði af sannfæringu fyrir raunverulegum breytingum í aðdraganda þeirra. Þvert á móti var talað í óljósum slagorðum sem innihéldu traustvekjandi hugtök eins og: skjaldborg heimilanna, uppgjör við hrunið og samfélagssáttmáli.
I reynd getur engin mótmælt því að núverandi stjórn hafi ekki unnið að þessu hörðum höndum en það var aldrei ætlunin að útkoman tæki til alls samfélagsins eins og að var látið liggja. Það er útlit fyrir að örlög viðspyrnunnar gætu orðið þau sömu. Þeir sem höfðu hæst þar skipuðu sjálfa sig foringja hennar og leiddu hina með sér eftir ógreinilegum vegvísum sem miðuðu að því að koma þeim sjálfum eitthvað áleiðis.
Áföllin sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum frá haustinu 2008 eru mörg og kreppurnar sem þau hafa orsakað margvíslegar. Þær eru ekki aðeins af veraldlegum toga heldur andlegum líka.
Það er óneitanlega aðgengilegra að bregðast við því sem er áþreifanlegt en hinu sem byggir á hugmyndafræðilegum grunni. Þannig má frekar búast við fjöldaaðgerðum við efnahagshruni sem kemur fram í heimilisbókhaldinu en því þegar hugmyndafræðilegum innistæðum er rænt í þeim tilgangi að endurreisa áhrifahópa sem stjórnuðu öllu fyrir hrun.
Það sem dregur enn frekar úr líkum þess að fjöldinn bregðist við þessum svikum er að meðal þeirra sem vinna þeim brautargengi eru andlit margra sem komust til áhrifa í krafti þess að vera hugmyndafræðilegir leiðtogar viðspyrnu fólksins.
Mótmælaframboðið sem kom fram í síðustu kosningum setti ekki síður en hinir flokkarnir fram óljós slagorð sem innihéldu traustvekjandi hugtök eins og: brú þjóðarinnar inn á þing, vera rödd grasrótarhópa og opna glugga þingsalarins út á Austurvöll. Í stuttu máli var svo að sjá að hér væri lýðræðið, sem viðspyrnan var sammála um að hefði verið fótum troðið, komið í góðar hendur. Þar af leiðandi bjuggust þeir sem studdu mótmælaframboðið við því að hagsmunir almennings fengju meira vægi með því að fulltrúar þess komust inn á þing.
Til að byrja með var ekki annað að sjá en það framboð sem eignaði sér mótmælin og grasrót þeirra væri trútt upprunanum sem það kenndi sig við. En frá og með haustinu 2011 fóru línurnar að skýrast þannig að hverjum mátti vera það ljóst í hvað stefndi. Grasrótin varð óskilgreindur massi sem fleytti þeim sem komust inn á þing í þægilegri staði en misstórfenglegar mótmælaaðgerðir og oft og tíðum gustmiklar umræður grasrótarinnar um lausnir.
Fæstir átta sig á því hvar og hvernig þessi atburðarrás byrjaði og þeir eru nokkrir sem vilja ekki skilja það enn að þeir sem skipuðu sér til forystu þess málstaðar sem mótmælin gengu út á hafa flestir heillast af misvitrum en slóttugum einstaklingum sem tilheyra hópnum sem viðheldur núverandi kerfi.
Sviðinn viðspyrnuvöllur
Það er ekki annað að sjá en þeir sem komu sér til áhrifa á hávaðaöldum búsáhaldanna hafi verið fljótir að læra. Þeir hafa því ekki aðeins sagt skilið við baráttumál grasrótarinnar heldur tekið upp málstað hópsins sem á enga hugsjón nema viðhalda eigin sérhagsmunum. Það hefur heldur ekki farið fram hjá neinum sem vill við þetta kannast hvernig þessi hópur hefur tileinkað sér hugsjónir þeirra og aðferðir sem byggja stöðu sína og forréttindi á því að þeir séu réttbornir til valda.
Kannski fór þetta svona af því markmiðin sem lagt var af stað með í upphafi voru ekki nógu skýr. Kannski fór þetta svona af því skilningurinn á grundvallarhugtökum eins og réttlæti og jöfnuði var aldrei sameiginlegur. Kannski er grundvallarmisskilningurinn tengdur hugmyndinni um lýðræðið. Kannski má líka skrifa þessa útkomu á skortinn á spurningum og svörum eða m.ö.o. að engin uppdráttur var til af því hvernig útkoman skyldi líta út eða leiðarvísir að áfangastaðnum eða markmiðinu.
Hins vegar er það ljóst nú í aðdraganda næstu alþingiskosninga að stór hluti þeirra sem hafa komið sér til áhrifa í krafti þess að hafa verið meðal Austurvellinganna haustið 2008 hafa tekið sér sama vald og aðrir pólitíkusar á undan þeim. Þ.e. að nýta sér hópa til að koma sér áfram án þess að vera í vitsmunalegu og/eða jafnræðislegu sambandi við þá.
Sá hópur sem hefur komið sér saman um annars ágæta stefnuskrá Dögunar hefur þannig sett á svið það sem má kenna við lýðræði, málfrelsi og gangsæi. Útkoman hefur verið sú að sá frekasti hefur ráðið, lokað hefur verið á þá sem eru ekki sammála eða þeir verið gerðir brottrækir og stjórnmálaflokknum hefur verið tryggt fjármagn úr ríkissjóði fyrir opnum tjöldum með því að taka upp kennitölu þess stjórnmálaflokks sem þingmennirnir í hópnum tilheyrðu í upphafi núverandi kjörtímabils.
Einhverjum kann að finnast að það verði ekki betur farið með lýðræðið en láta þeim sem eru flinkastir að beita valdi það eftir að ráða og loka um leið háværar og/eða hvassyrtar gagnrýnisraddir úti. Einhverjum kann jafnvel að finnast að það sé líka eðlilegt að stéttskipta lýðræðinu þannig að sú grasrót sem mótmælaframboðið byggði tilveru sína á sé öguð til þess að líta upp til malandi fresskatta í tækifærisbúningi viðspyrnupenna.
Penna sem komu e.t.v. aldrei nær mótmælunum en svo að þeir voru áhorfendur þeirra á einhverju kaffihúsinu við Austurvöllinn þar sem þeir höfðu tyllt sér niður til að upplifa stemminguna í kringum það að þá hnarreist grasrót berði sér til hita í baráttunni fyrir samfélagsumbótum haustið 2008 fram til janúarloka 2009. Þessir jafnt og aðrir fulltrúar nýja framboðsins, sem vill rekja uppruna sinn í þennan vettvang, koma sér þannig undan því að viðurkenna það fyrir vinum sínum í grasrótinni að þeir eru og hafa aðallega alltaf verið uppfyllingaratriðið til að koma tilteknum einstaklingum til valda.
Eins sorglegt og það er að segja það þá er útkoman, þegar upp er staðið, út úr þeirri viðspyrnu, sem margir hafa lagt ómældan tíma, orku og vitsmuni í, sú að ótrúlega stór hópur einstaklinga sem áttu ekki aðra hugsjón en leiðrétta stöðu sína í samfélaginu hefur væntanlega tekist að lappa upp á sitt eigið egó.
Viðspyrnan á betra skilið
Allur sá fjöldi sem hefur hvað eftir annað fyllt Austurvöllinn og aðra vettvanga víða um land frá efnahagshruninu haustið 2008 á annað og betra skilið en að barátta þeirra sé misnotuð í þágu þeirra sérhagsmuna sem grundvalla og viðhalda óréttlætinu sem rak það til viðspyrnunnar. Fólkið, sem mætti til að mótmæla eða hlusta á erindi á borgarafundum og víðar til að standa með viðspyrnunni án þess að trana sér fram til stórtækari áhrifa af því það treysti, verðskuldar ekki slík svik.
Þetta fólk treysti þeim sem töluðu um leiðréttingu gjaldeyrislána, afnám verðtryggingar, lýðræðisumbætur, uppgjör við hrunið, aukið réttlæti og plan B í efnahagsaðgerðum. Fólkið sem hefur komið tugþúsundum saman til að berja búsáhöld og síðar tunnur stóð saman í kröfunni um að fá tækifæri til að lifa af.
Það barðist fyrir launakjörum sem dygðu fyrir framfærslunni, vörn gegn bönkum og innheimtustofnunum sem ógna eignarétti heimila og smáfyrirtækja, vörn gegn stórfyrirtækjunum sem ógna atvinnuvegunum í landinu og krafðist þess að þingið settu heimilin og atvinnuvegina í forgang.
Það treysti að einmitt þeir sem fóru inn á þing fyrir mótmælin myndu hlusta. Þeir sem vilja við það kannast sjá það hins vegar af málefnaáherslum framboða þeirra að hlustir þeirra hafa bilað. Annað er upptekið af vernd heimildamanna og hitt stjórnarskrármálinu.
Það átakanlegasta er þó það að í stað þess að þingmennirnir í þessum hópi standi með þeim fáu á Alþingi sem hafa reynt að standa uppi í hárinu á ríkisstjórninni þá hafa þeir orðið stöðugt ríkisstjórnarhollari eftir því sem liðið hefur nær næstu alþingiskosningum.
Sannir viðspyrnendur snúa baki við þeim sem bregðast en gefast aldrei upp enda framtíð heils samfélags í húfi. Samfélags sem við búum í og berum ábyrgð á að hlúa þannig að, að það komist heilt í hendur næstu kynslóða.
Viðspyrnendur, sem átta sig á því að það að gefast upp nú er það sama og leyfa því sem olli hruninu að blómstra hér á ný, spyrna enn við fótum. Engin sem kann að hugsa það til enda myndi heldur kæra sig um að verða undir í þannig samfélagi sem tekur við ef ekkert verður að gert. Engin sem á afkomendur getur heldur óskað þeim þeirrar framtíðar sem blasir við fái fjármálaöflin að leika hér óheft sinn gráa leik með afkomu og líf óbreyttra borgara.
Allt sem þarf til að viðspyrnan nái árangri er: Að skapa samstöðu fólks með ólíkan bakgrunn, með ólíkar lífsskoðanir en á það sameiginlegt að eiga líf sem þarf að vernda og vilja til að vernda það. (sjá þessa færslu Ómars Geirssonar) Við þurfum að mynda samstöðu þar sem málefnin ráða för frekar en persónur og læra að greina á milli. Við þurfum líka að átta okkur á því hvaða persónur standa fyrir málefnum sem varða almannahagsmuni og hvaða persónur standa bara fyrir sitt eigið egó.
Við þurfum nefnilega að hlusta eftir innihaldi og kynna okkur málin. Við þurfum líka að gæta okkar sérstaklega gagnvart eftirprentunum og leita að frumútgáfunni. Við þurfum að gera kröfur! Það er ekki nóg að sópa upp flokkum og fólki. Því miður duga þeir sem ástunda sófabyltingar í plussófum með lærðar kenningar um mannréttindi að vopnum lítt gegn þeim hrægömmum sem hafa blóðmerkt sér Ísland. Í slíkt sérverkefni þarf þéttan hóp sem endurspeglar a.m.k: þekkingu, færni, úthald og skynsemi!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hreint út sagt framúrskarandi pistill, skrifaður af miklli glöggskyggni og vandaðri greiningu. Hafðu mikla þökk fyrir þennan pistil Rakel.
Vafalaust eiga þó einhverjir eftir að vilja afneita orðum þínum hér, sem þó eru jafn sönn og vegurinn eilífi,
en án þeirra kókaleiða sem þeim hinum einhverjum eru tamari og gefa sér æði langan taum til, sem þrælar eigin ótta og smæðar og sérvalinnar framtíðarblindu eigin dögunar.
Nei, kannski er það borin von að í dagrenningu renni upp ljósið fyrir þrælum valdsins, sem þeir dansa nú með, sameinaðir úr mörgum smáum sjálfskipuðum kóngum og drottningum og falbjóða okkur puntudúkkur hirðarinnar og notfæra sér ríkisstyrkt kennitöluflakk til þess og fala prófessora.
Pétur Örn Björnssun (IP-tala skráð) 20.12.2012 kl. 15:05
Sæl Rakel. Of margt í pistli þínum er því miður satt og rétt.
Það er ekki auðvelt að skilja tómlæti þeirra, sem nú um árabil hafa lifað á þingfarakaupinu, gagnvart neyð heimilanna. Og það verður erfitt að fyrirgefa þeim, þó þeir þykist ekki vita hvað þeir eru að gera og sú stund mun renna upp þegar þeir sem hafa svikið svona illa okkur þurfa á fyrirgefningu okkar að halda.
Það er viðbúið að bæði Dögun og Björt framtíð fái brautargengi í komandi kosningum á kostnað núverandi stjórnarflokka sem bæði þessi framboð hafa stutt og haldið lífi í. Því miður eru of fáir sem sjá eða vilja sjá þá staðreynd.
En fyrirgefningu mun þetta fólk biðja um þegar skuldir heimilanna verða innheimtar. Því þegar innheimtan fer í fimmta gír og hundruð heimila verða borin út á næsta eða þar næsta ári munu einhverjir missa stjórn á sér og grípa til ofbeldis.
Ég kvíði framtíðinni, óttast að ofbeldi verði eina mögulega svar fólks þegar það renni upp fyrir því að það hefur verið blekkt eina ferðina enn og húsnæði þess komið undir hamarinn.
Staðan er nefnilega þannig að mörg þúsund heimili hafa verið í miklum vanskilum um árabil. Þegar nauðungaruppboðinn byrja þá verður hamrað á óreglu þessara heimila og kröfuhafar munu fá hrós frá annaðhvort Róberti Marshall eða Þorvaldi Gylfasyni fyrir að hafa hlíft þessum fjölskyldum svo lengi og skilning þeirra á því að ekki sé hægt að bíða lengur, ef þeir verða svo óheppnir að verða spurðir að því hvað þeir ætli að gera í málinu.
Mér sýnist ljósið vera að slokkna.
Toni (IP-tala skráð) 20.12.2012 kl. 16:46
Ég er sammála þér að of margt í þessum bloggpistli er bæði satt og rétt en til að taka af allan vafa þá er hann ekki skrifaður í þeim tilgangi að kveikja hefnd heldur skilning. Fyrsta merki skilningsins á stórum og erfiðum hlutum er gjarnan reiði en ofbeldi er aldrei lausn heldur elur hún á reiðinni. Samfélagið þarf á því að halda að við finnum lausn á vandamálum okkar. Ég mæli með því að við það verkefni verði orðin notuð sem verkfæri en ekki hnefinn.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.12.2012 kl. 01:18
Takk fyrir okkur Rakel, þú veist hug minn til pistla þinna, orða og gjörða.
Valkyrjur vallarins fóstra vonina sem einn daginn mun blómstrar um allt samfélagið.
Ljósið slokknar ekki á meðan einhver varðveitir það í huga sínum og hjarta.
Og Toni, svo þarf að hjálpa Valkyrjunum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2012 kl. 10:25
Ómar, kærar þakkir fyrir þitt ómetanlega og birturíka ljós
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.12.2012 kl. 11:39
Takk fyrir mig Rakel ég er svo sannarlega sammála þér.
Við þurfum svo sannarleg að taka höndum saman! Gerum nýtt ár mjög áhrifaríkt og komum með stormsveip inn í þjóðmálin.
Kveðja,
Guðni Karl
Guðni Karl Harðarson, 22.12.2012 kl. 22:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.