Þetta var aldrei einleikið
19.12.2012 | 00:47
Ekkert sem ég hef skrifað hingað til hefur tekið jafnlangan tíma og það sem fer hér á eftir. Ritunartíminn er orðinn að fullu hálfu ári en úrvinnslutími sumra atriðanna sem hér eru leidd fram hafa tekið miklu lengri tíma. Sum þeirra hafa valdið mér miklum heilabrotum. Það sem um er að ræða er eiginlega yfirlit eða uppgjör við þann tíma sem ég var samferða Hreyfingunni og grasrót hennar sem ég hef komist að niðurstöðu um að eigi erindi við fleiri en mig eina.
Grasrót verður til
Þegar ég las um fyrstu atvik hrunsins mánudaginn 29. september 2008 þá áttaði ég mig strax á því að þau væru ekki einleikin. Viðspyrnan sem byrjaði að láta á sér kræla í október var ekki einleikin heldur þó hún hafi reyndar strax í upphafi leitt fram nokkra einleikara sem urðu fyrirferðarmeiri en aðrir. Það er þó rétt að taka það fram að þetta var og hefur verið meira áberandi á viðspyrnuvettvangi höfuðborgarinnar en annars staðar á landinu.
Í hinum frjóa jarðvegi viðspyrnunnar í kringum miðju Reykjavíkurborgar spruttu líka upp hugmyndirnar um stofnun nýs stjórnmálaafls sem tæki meginkröfur mótmælanna upp á sína arma. Það er ljóst að þessar umræður voru á engan hátt einleiknar en alveg frá upphafi tókust ýmsir einleikarar þar á með þeim lyktum að einhverjir urðu ofan á og aðrir undir.
Þeir sem þekkja til vita að ég var búsett á Akureyri á þessum tíma þannig að ég var ekki viðstödd þessar fæðingarhríðir Borgarahreyfingarinnar en fylgdist með úr fjarlægð. Sú fjarlægð gerði það að verkum að margt af því sem fram fór í fæðingarferlinu skilaði sér ekki til mín fyrr en miklu síðar.
Ég get ekkert fullyrt um það rúmum þremur árum síðar hvort það sem ég veit nú hefði breytt einhverju um það að ég ákvað að taka þátt í að bjóða fram fyrir Borgarahreyfinguna vorið 2009. Það hefur hins vegar aldrei verið neitt launungamál að krafa mín í viðspyrnunni hefur aldrei snúist um það að knýja fram nýjar alþingiskosningar án þess að reyna einhverjar aðrar leiðir fyrst.
Hins vegar varð niðurstaðan í ársbyrjun 2009 sú að boða til alþingiskosninga og í því ljósi get ég ekki annað en fagnað því að Borgarahreyfingin hafi orðið til þó það sé langur vegur frá því að ég geti fagnað öllu því sem að tilveru hennar hefur snúið síðan. Það er ekki mitt að meta hver ber ábyrgðina á öllu því sem hefur gengið á þann tíma sem er liðinn frá því sú niðurstaða lá fyrir að Borgarahreyfingin kom fjórum þingmönnum inn á þing en þó tel ég einsýnt að ein ástæðan sé sú að einleikarnir voru of margir.
Fyrsta þingár grasrótarframboðsins
Það leið eitt ár frá því að þingmennirnir fjórir tóku sæti á Alþingi þar til ég flutti til höfuðborgarinnar. Ég hélt því áfram að horfa á framvinduna úr fjarlægð. Það er engan veginn hægt að gera sér grein fyrir því nú hver afstaða mín hefði verið, hvað varðar sundurlyndið milli þingmannanna og grasrótarinnar, hefði ég verið á staðnum. Þó finnst mér líklegra að ef ég hefði treyst mér til að velja þá hefði ég gert það sama og ég gerði þá einfaldlega af þeirri ástæðu að í mínum augum þá var von til þess að nýorðnir þingmenn myndu standa við það sem þeir sögðust ætla að gera.
Þ.e. það er mitt mat að það að viðspyrnan átti fulltrúa inni á þingi skipti meira máli en þær furðulegu skærur sem ég hafði veður af. Ég sat líka á fundinum haustið 2009 þar sem þingmennirnir tóku sig saman og gengu út af aðalfundi Borgarahreyfingarinnar. Það sem ég sá og heyrði á þeim fundi hefur fylgt mér síðan sem vitnisburður um það að þingmennirnir áttu engan betri kost en kljúfa sig frá þeim hópi sem þar sat eftir.
Auðvitað fannst mér það furðulegt að allur peningurinn sat eftir hjá flokknum en sú staðreynd var líka til vitnis um það hvurs konar hópur sat eftir í stjórn Borgarahreyfingarinnar. Ég vissi það þá og hef nokkrum sinnum síðar orðið beinlínis vitni að því hvurs lags áfall allur leikþáttur sumarsins 2009 var þingmönnunum þremur sem stofnuðu nýtt stjórnmálaafl. Stjórnmálaafl sem var nánast kópering af Borgarahreyfingunni sem kemur kannski ekki síst fram í því að heiti þess nýja varð eins og stytting á heiti móðurflokksins.
Frá mínum bæjardyrum séð var Borgarahreyfingunni hróflað upp á ótrúlega skömmum tíma og eflaust má skrifa ýmisleg byrjunarmistök hreyfingarinnar á þann stutta tíma sem einstaklingarnir, sem lögðu nótt við dag, höfðu til að koma framboðinu saman. Ég ætla ekki að tíunda þau hér en eins og áður sagði þá grunar mig að stærsta þáttinn megi rekja til þess að of margir einleikarar kölluðust til þessa verkefnis.
Þetta kom fram í undirbúningnum, röðuninni á lista og fyrstu vikurnar og mánuðina eftir að Borgarahreyfingin komst inn á þing. Svo kom skellurinn og Borgarahreyfingin sat eftir þingmannslaus. Einn þingmannanna var farinn yfir til Vinstri grænna en hinir þrír stofnuðu nýja hreyfingu og réðu til sín starfsmann. Á stofnfundi Hreyfingarinnar var ég kjörin varamaður í stjórn en var ekki viðstödd fundinn og vissi ekki af þeirri ráðstöfun sem mig varðaði fyrr en hálfu ári síðar.
Ræturnar stóðu ekki lengi
Sumarið eftir klofninginn flutti ég svo til borgarinnar og fór að taka virkari þátt. Þar var ýmislegt öðru vísi en ég hafði ímyndað mér úr fjarlægðinni. Þetta var að mörgu leyti góður hópur en hann var frekar einsleitur. Ef það var eitthvað sem einkenndi hann öðru fremur þá var það hvatvísin. Það var kannski fyrir hana sem Tunnumótmælin 4. október 2010 urðu að veruleika en við vorum þó ekki nema tvær sem stóðu þeim að baki sem tilheyrðum svokölluðum kjarnahópi Hreyfingarinnar. Hinir komu úr ýmsum áttum. Sumir flokksbundnir og aðrir ekki.
Það var hins vegar í Tunnubyltingunni sem það fóru að renna á mig tvær grímur varðandi það hvort ég væri á réttum stað með því að fylgja Hreyfingunni. Ástæðan fyrir því að ég hafði leiðst út í það að styðja þingmennina með svo áberandi hætti að mæta á landsfund Borgarahreyfingarinnar haustið 2009 og ganga með þeim út af fundinum var sú grundvallarhugsun sem kom fram í slagorði Borgarahreyfingarinnar: þjóðin á þing og sú yfirlýsing að þingmennirnir ætluðu sér að brúa bilið á milli þjóðarinnar og þingsins og stuðla að bættri samvinnu við grasrótina sem hafði að mestu sprottið upp úr sama jarðvegi og Borgarahreyfingin.
Í Tunnubyltingunni gat ég ekki betur séð en þessu væri þveröfugt farið. Þó einhverjir þingmannanna þriggja auk starfsmannsins tækju þátt í því að vekja athygli á Tunnuviðburðunum náðist aldrei samhent átak í þessum hópi við það sem Tunnurnar voru að gera. Starfsmaður Hreyfingarinnar setti saman hugmynd upp úr hugmynd einnar úr Tunnuhópnum sem Hreyfingin lagði fram á þingi á svipuðum tíma og undirskriftarsöfnun um utanþingsstjórn var í undirbúningi á vegum tveggja úr Tunnuhópnum.
Einn þingmannanna kórónaði svo verknaðinn með því að eigna þingflokki Hreyfingarinnar þann titring sem varð í kjölfar þess að undirskriftarsöfnunin fór í loftið án þess að víkja að því einu orði að hugmyndin var fengin að láni frá grasrótinni. Hvað þá að hann hefði fyrir því að minnast á undirskriftarsöfnun hennar. Þetta svo og viðbrögðin við gagnrýni á þessa framkomu vöktu mér tortryggni. Tortryggnin í garð Hreyfingarinnar minnkaði ekki þegar þingflokkurinn tók að hrósa þremur Samfylkingarþingmönnum sérstaklega fyrir mannkosti sem ég átti erfitt með að kannast við að þeir stæðu undir.
En svo kom Icesave. Það voru einhverjir sem veltu vöngum yfir því hvar þingmenn Hreyfingarinnar væru þar sem þeir höfðu vænst þess að stuðningur þeirra yrði meira afgerandi. Ég ætla ekkert að efast um afstöðu þeirra í Icesave-málinu en ég var líka of upptekin af þátttöku minni í einum baráttuhópanna til að velta því sérstaklega fyrir mér hvað þeir voru að gera. Hins vegar vakti það athygli mína að Hreyfingin ákvað að halda sérstaka kosningavöku, að kvöldi dagsins sem þjóðin kaus með eða á móti þessum þætti Icesave vorið 2011, þó þeim væri boðið að taka þátt í þeirri sem baráttuöflin héldu sameiginlega.
Í stað þess að þingmenn Hreyfingarinnar þæðu boð Samstöðu þjóðar gegn Icesave og Advice-hópsins, sem þessi öfl héldu sameiginlega með öllum þeim sem vildu koma og vera með, héldu þeir sína eigin kosningavöku með starfsmanni sínum og tryggustu stuðningsmönnum Hreyfingarinnar. Engin þeirra hafði tekið virkan þátt í viðspyrnunni sjálfri.
Þegar blómin fölna
Á fámennum aðalfundi Hreyfingarinnar í júní 2011 var ég sjálfri mér til mestrar undrunar kosin í stjórn Hreyfingarinnar en þá þegar var ég komin að þeirri niðurstöðu að tíma mínum væri betur varið í vinnu með grasrótinni en Hreyfingunni. Auk þess sem ég var tekin að hafa verulegar áhyggjur af þeirri gjá sem ég hafði áttað mig á þegar í Tunnubyltingunni að var á milli Hreyfingarinnar og hinnar eiginlegu grasrótar en hún hafði farið sístækkandi síðan.
Kannski var gjáin þarna á milli fyrir Tunnubyltingu en ég varð hennar ekki áþreifanlega vör fyrr en þá. Út frá mínum bæjardyrum séð þá hélt sú gjá áfram að breikka með ógnarhraða á meðan þingflokkurinn týndi sér alltaf meir og meir í því að hylla bæði menn og málefni sem þjónuðu frekar sérhagsmunahópum en almannahagsmunum.
Þetta kom ekki síst fram sumarið 2011 þar sem ég lagði það til að þingmenn Hreyfingarinnar legðu sig fram um að komast að samkomulagi við Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur um samstarf sem fór þannig að þegar þing kom saman þá um haustið varð ljóst að samstarf við ríkisstjórnina var Hreyfingunni mikilvægara en styðja þau málefni sem urðu til þess að Atli og Lilja sögðu sig frá ríkisstjórninni.
Þetta kemur líka fram í því sem kom út úr stofnun Grasrótarmiðstöðvarinnar. Ég, ásamt fleirum, lögðum okkur fram um að treysta því að allir þeir sem komu fram fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar við stofnun hennar væru ærlegir í því að skapa grasrótinni vettvang til að vaxa og dafna við lífvænlegar aðstæður. Að Grasrótarmiðstöðinni væri ætlað að verða vettvangur allra sem vildu vinna að heillavænlegum lausnum þeirra kreppna sem hafa komið út úr efnahagshruninu haustið 2008. Ég reyndar kom mér hjá því að sitja í stjórn Grasrótarmiðstöðvarinnar en lagði mig engu að síður fram um að gera hana að þeim vettvangi sem ég vildi trúa að henni væri ætlað að verða.
Auðvitað varð það mjög snemma ljóst að Grasrótarmiðstöðin var fyrst og fremst vettvangur umræðna sem leiddu til stofnunar þess stjórnmálaafls sem hefur kosið að kenna sig við Dögun. Það skal tekið fram að sjálf tók ég aldrei þátt í umræðunum sem leiddu til stofnunar Dögunar en fyrir tengsl mín við marga þeirra sem þar komu að vissi ég oft meira um það sem þar fór fram en ég kærði mig um að vita.
Skömmu eftir þingbyrjun haustið 2011 lét ég verða af því að segja mig úr stjórn Hreyfingarinnar með formlegum hætti. Þar benti ég á að mér fyndist kröftum mínum betur varið í að byggja upp grasrótina en sitja þar í stjórn. Það er að öllum líkindum skýring þess að þeir sem stýrðu þessari umræðu buðu mér aldrei til hennar.
Í nóvember 2011 varð ég þess áskynja að ýmsir í hópi Hreyfingar/Borgarahreyfingar höfðu hug á því að efna til samstarfs við ríkisstjórnina. Þegar umræðurnar fóru af stað var þingmönnunum gerð grein fyrir því af fulltrúum ríkisstjórnarinnar að samstarf kæmi ekki til greina nema þeir tækju stjórnarskrármálið fram yfir baráttuna fyrir heimilin. Þó þingmennirnir hafi reynt að neita því að af nokkru samkomulagi hafi orðið er ljóst að baráttumál þeirra frá síðustu áramótum hafa hvorki verið í takt við þá grasrót sem Borgarhreyfingin/Hreyfingin byggði tilveru sína á né í tengslum við grundvallaratriði lífsafkomunnar.
M.ö.o. þá hafa þingmennirnir fjórir sem komust inn á þing í kjölfar mótmælanna haustið 2008 glatað sambandinu við stærstan hluta þeirra kjósenda sem treystu þeim fyrir atkvæði sínu. Þeir hafa lokað sig af líkt og langflestir fulltrúar fjórflokksins inni í sínum eigin heimi. Þessi dapurlega staðreynd veldur mér sárari harmi en svo að mér takist að koma honum í orð. Harmurinn snertir þau sjálf, grasrótina sem treysti þeim, kjósendur þeirra og mig sjálfa.
Önnur leið
Til að fara hratt yfir sögu þá skráði ég mig í SAMSTÖÐU í febrúarbyrjun þessa árs. Á þessum tíma hafði ég setið í stjórn Grasrótarmiðstöðvarinnar um nokkurt skeið í afleysingum fyrir gjaldkera hennar. Í anda þess markmiðs sem Grasrótarmiðstöðinni var sett við stofnun hennar og í ljósi þess að SAMSTAÐA var húsnæðislaus vildi ég kanna hug annarra stjórnarmeðlima til þess að SAMSTAÐA fengi inni í Grasrótarmiðstöðinni.
Hugmyndin féll í afar misjafnan jarðveg og fannst einhverjum á fundinum það á engan hátt sanngjarnt að bera hugmyndina upp miðað við það hver staða innanhússumræðunnar um sameiningu ýmissa eldri smáflokka til nýs framboðs var stödd. Það var líka áberandi að þeir sem ætluðu sjálfum sér og sínum stað innan þess stjórnmálaflokks sem út úr sambræðslunni kæmi voru af einhverjum ástæðum viðkvæmari fyrir þeirri ákvörðun minni að gerast félagsmaður í SAMSTÖÐU.
Vissulega var þetta ekki einleikið en það var ljóst að ákvörðun mín ógnaði þeim sem voru uppteknari af sjálfum sér en hugsjónunum sem gerðu það að verkum að ég hafði lagt mig alla fram við að vinna að samvinnu og samtöðu allra þeirra sem eru sammála um að það eru lífskjör almennings, heimilin og atvinnulífið sem við þurfum að verja. Til að tryggja framtíð lands, þjóðar og menningar þarf meira til. Það þarf nýja hugsun og hugrekki til að reisa efnahagskerfið á innlendum stoðum.
Í aðdraganda þess að Borgarahreyfingin varð til fylgdist ég grannt með bloggum margra þeirra sem gengu síðar til liðs við Borgarahreyfinguna. Það fór ekki framhjá mér að margir þeirra tóku undir orð Lilju Mósesdóttur úr ræðum hennar á opnum borgarafundum í Iðnó og á Austurvelli. Það var svo að heyra þá að hugmyndir þeirra og hennar um ógnirnar sem steðjuðu að íslensku samfélagi og leiðirnar til lausnar færu saman.
Í kosningabaráttunni vísuðu frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar mjög í orð og hugmyndir Lilju varðandi hver vandamálin væru og hvaða lausnir bæri að skoða. Framan af var svo ekki annað að skilja en að þingmenn Borgarahreyfingar/Hreyfingar væru tilbúnir til að leggja hugmyndum Lilju lið og þessi ættu í nánu samstarfi við hana. Því miður bar þeim ekki nema takmörkuð gæfa til þessa samstarfs enda flest sem bendir til að hugur hafi ekki fyllilega fylgt máli.
Það má alla vega vera ljóst að þingmenn Hreyfingarinnar og þó nokkrir meðal þeirra dyggustu stuðningsmanna hafa ekki legið á liði sínu við þá ófrægingarherferð sem hefur verið viðhöfð til að kæfa niður vitræna og málefnalega umræðu um þær lausnir sem Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram á kjörtímabilinu. Það er sanngjarnt að taka það fram að það bar ekki á þessu í fyrstu þó eitthvað hafi kraumað undir lengi vel þá heyrðu hnútur á borð við þær sem hafa sést á þessu ári bæði á Fésbókinni og víðar til undantekninga fram til haustsins 2011.
Ástæða þess að ég hef látið verða af því að birta þetta, sem hefur tekið mig hálft ár að setja saman, er sú að mér finnst innihaldið koma fleirum við en mér einni. Ástæða þess að ég byrjaði að reyna að koma þessu efni niður á blað var sú hvernig margt af þessum fyrrum félögum og kollegum opinberuðu sig í framkomu sinni við mig eftir að ég kaus að fara aðra leið en villigötuna sem ég get ekki betur séð að þau hafi ratað til. Þessi skrif eru þar af leiðandi ekki einleikin frekar en annað sem þau innihalda en þau eru fyrst og fremst uppgjör mitt við þann tíma sem ég átti með Hreyfingunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:01 | Facebook
Athugasemdir
Blessuð Rakel og takk fyrir það hugrekki sem býr að baki þessum pistli.
Það er margt flókið í þessu og margar skýringar á að hlutirnir þróuðust eins og þeir gerðu.
Ég efast ekki um einlægni þess fólks sem endaði í framvarðasveit andófsins á þessum tíma, veit reyndar ekki hvað Þráinn var að hugsa, en að því slepptu tel ég að fólk hafi vilja vel og ætlað sér að gera vel.
Og margt gott hefur það lagt til mála, því verður að halda til haga.
Hvar það týndi sér veit ég ekki, ég sjálfur fór að efast þegar ég upplifði hálfvelgjuna í ICESave og hina meintu forystu sumarið 2009 við að milda Svavarssamninginn, sem var lítið annað en að láta okið ekki ganga að skuldaþrælnum dauðum. Og það sló mig rosalega að margt fólk innan hennar studdi hreinlega þessa fjárkúgun eða vildi ekki verjast henni. Af því að íhaldið hafði eitthvað komið nálægt málum.
Sem er grunnrökvilla þeirra sem rísa upp gegn kerfinu, þeir eru aldrei bundnir af óhæfu þess, heldur berjast þeir gegn henni með kjafti og klóm.
Og ég skildi aldrei þetta með stjórnarskrána, að halda að það væri hægt að byggja eitthvað nýtt í þjóðfélagi skuldaþræla.
En höfuðmein Borgarahreyfingarinnar var að hún var föst í fortíðinni, hún háði stríð sem löngu var liðið, áttaði sig ekki á að óvinurinn hafði endurskipulagt lið sitt, að fyrrum bandamenn voru orðnir liðsmenn hans. Og komnir í farmvarðasveit óhæfunnar.
Og sá sem er fastur í fortíðinni, boðar ekki Sýn fyrir framtíðina.
Festist í hávaðanum, nær ekki að móta lausnir út úr núverandi ógöngum sem varða stíginn inní nýtt og betra þjóðfélag.
Þá verða svona orð eins og latína í eyrum þess sem vildi vel en náði ekki að fylgja þeim vilja eftir.
Þetta er gömul saga og ný Rakel, byltingar vilja enda illa.
Takk fyrir þitt heiðarlega uppgjör.
Ómar.
Ómar Geirsson, 19.12.2012 kl. 08:29
Sæl Rakel og þakka þér fyrir athyglisverðan pistil.
Þar sem mér er málið skylt og ég þekki það vel tel ég rétt að koma að nokkrum leiðréttingum.
Í öðrum hluta erindisins (Fyrsta þingár grasrótarframboðsins) talar þú um sundurlyndið milli þingmannanna og grasrótarinnar. Í mínum huga var ekkert slíkt fyrir hendi og sé litið á þá sem fylgdu þingmönnunum yfir í Hreyfinguna og þá sem við höfum átt í samstarfi við síðan þá var þar ekki um neitt sundurlyndi milli þingmanna og grasrótar að ræða. Sundurlyndið í Borgarahreyfingunni var annars eðlis.
Í þriðja hlutanum (Ræturnar stóðu ekki lengi) talar þú um Tunnubyltingu sem er því miður rangnefni því Tunnumótmælin þó glæsileg voru byltu því miður engu. Sú hugmynd sem þú talar um sem hugmynd Tunnuhópsins um utanþingsstjórn var ekki tæk samkvæmt stjórnarskrá en þrátt fyrir ábendingar vildu Tunnur ekki leiðrétta hugmyndina. Hugmyndir um utanþingstjórnir eru ekki komnar frá einhverjum eða eign neins heldur er gert ráð fyrir þeim í Stjórnarskránni.
Það að halda því fram að þingmenn Hreyfingarinnar hafi ekki tekið þátt í „viðspyrnunni sjálfri“ gegn Icesave er ódrengilegt. Engir inni á þingi nema ef vera skyldi þingmenn Framsóknarflokksins lögðu eins mikið af mörkum og við í baráttunni gegn Icesave, öllum þrem samningum, og að halda þessu fram vegna þess að menn geta ekki verið á tveim stöðum í einu er hallærislegt og neðan beltis. Við meðal annars unnum sólarhringum saman í nefndum þingsins hvenær semhægt var og lögðumst í málþóf gegn frumvarpinu í þingsal vikum saman með öðrum á þingi á meðan verið var að safna undirskriftum.
Í fjórða hlutanum um hin fölnandi blóm virðist þú vera komin enn lengra inn í þann ímyndaða heim þinn um fjarlægð einhverrar grasrótar (sem þú virðist hafa eigin skilgreiningu og einkarétt á) frá þingflokknum og talar um að við hyglum meira og meira sérhagsmunahópum en almannahagsmunum. Þar nefnir þú þó ekki eitt einasta dæmi enda er ekki um þau að ræða heldur eru þarna rakalausar dylgjur á ferð.
Hvað varðar samstarfið vð Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur þá höfðum við unnið mikið með LM frá því töluvert fyrir kosningarnar 2009 og héldum því áfram eftir að inn á þing var komið og dyr okkar stóðu alltaf opnar fyrir henni í hennar hrakningum hennar innan VG. Hún og AG kusu hins vegar að starfa sjálfstætt sem þingmenn eftir boð um samstarf en það hafði ekkert að gera með eitthvert samstarf okkar við ríkisstjórnina að gera enda hefur slíkt samstarf aldrei verið til. Við hins vegar tryggðum þeim með harðfylgi sæti í nefndum þingsins eftir endurskipulagningu þingstarfa en fengum aldrei þakkir fyrir.
Hvað varðar Grasrótarmiðstöðina þá hefur Hreyfingin styrkt hana fjárhagslega og með vinnuframlagi félagsmanna alveg frá upphafi og aldrei skipt sér af því hvað þar færi fram utan að leggja áherslu á að húsið væri opið öllum.
Þarna ertu líka komin út í endurtekningar þínar á eignarhaldi á grasrót en það er rétt að árétta það að samkomulag okkar við ríkisstjórnina strandaði á því að JS og SJS vildu ekki taka undir kröfur okkar um leiðréttingu á skuldum heimilanna og slit okkar á þeim viðræðum vorum ákveðin á fundi með Kjarnaópi Hreyfingarinnar sem líka er grasrót.
Það eru svo aftur dylgjur hjá þér að við höfum ekki haldið stefnumálum þeim á lofti sem við vorum kosin út á. Við höfum frá upphafi og þing eftir þing lagt fram frumvörp um leiðréttingar á skuldum heimilanna og gagnrýnt og greitt atkvæði gegn forgangsröðun ríkistjórnarinnar eins og hún birtist í fjárlögum. Það er meira en stofnandi Samstöðu hefur gert enda studdi hún þessa ríkisstjórn, fjárlög, Icesave og allt, í þrjú ár.
Í fimmta hlutanum (Önnur leið) talar þú um að ákvarðanir þínar hafi ógnað einhverjum í Grasrótarmiðsöðinni sem er óskiljanlegt enda var það alfarið ákvörðum Samstöðu að fara annað með starf sitt eftir fjölda ágætra funda sem Samstaða hélt þar.
Hvað varðar hugmyndir LM eins og þær birtust á ræðum á Austurvelli og í kosningabaráttunni og þú eignar henni þá er rétt að árétta að samstarf okkar við LM hafði einmitt byggst á því að við vorum líkt þenkjandi. Hún hins vegar tók ákvörðun um að yfirgefa títt nefnda grasrót fyrir öruggt þingsæti hjá VG í kosningunum 2009. Ýmsar þær hugmyndir hafa svo ratað í þingmál okkar enda hluti af stefnumálunum sem við vorum kosin út á. Það að segja svo að hugur hafi ekki fylgt máli er rangt enda höfum við lagt fram mun fleiri tillögur um vanda heimilana en LM.
Við höfum líka alveg frá upphafi boðið LM að borðinu við stofnun Dögunar en hún ekki þegið boðið þrátt fyrir að stefnumálin séu nánast þau sömu. Það var hennar val og við höfum aldrei staðið að því að kæfa niður vitræna eða málefnalega umræðu LM heldur þvert á móti tekið undir með henni í mörgum tilvikum.
Það er hins vegar frekar leiðinlegt að sjá hvað Samstaða hefur verið neikvætt framboð og byggir málflutning sinn fyrst og fremst á kvörtunum og kveini um hvað aðrir eru vondir. Dögun hefur t.d. aldrei, ég endurtek aldrei, staðið að gagnrýni á Samstöðu. Neikævðum ásökunum og dylgjum úr þeirri átt hefur hins vegar verið svarað af þeim sem betur þekkja til. Margir, þ.á.m. ég höfum ítrekað bent á og reynt að leiðrétta þessar rangfærslur en engu að síður er haldið áfram. Við því er svo sem ekkert að gera nema að halda áfram að óska þess að Samstaða áttaði sig á öfugmæli nafn síns og sneri við blaðinu, eða skipti um nafn.
Sjálfur átta ég mig ekki á þessu persónulega uppgjöri þínu enda ekki sannleikanum samkvæmt nema að hluta. Þar sem ég trúi því að þú viljir ekki búa við falskar eða ímyndaðar minningar þá bíður það þín því væntanlega að endurskoða þessa færslu nú þegar bætt hefur verið úr ýmsum villum og staðhæfingar leiðréttar.
Gangi þér og félögum þínum í Samstöðu allt í haginn.
Með bestu kveðju,
Þór Saari
Þór Saari (IP-tala skráð) 19.12.2012 kl. 21:07
Þar sem þú klæðir svar þitt í svo formlega búning er sennilega rétt að ég geri það sama og óski þér sælu áður en ég sný mér að því að sýna þér þá virðingu að svara þér.
Miðað við þessi orð má þó draga þá ályktun að þú sést búinn að dæma mig sinnisveika og því þurfir þú ekki að taka mark á neinu því sem ég hef til málanna að leggja heldur sé það mitt að átta mig á því að þú einn ert marktækur þegar um mig og þig er að ræða: „Þar sem ég trúi því að þú viljir ekki búa við falskar eða ímyndaðar minningar þá bíður það þín því væntanlega að endurskoða þessa færslu nú þegar bætt hefur verið úr ýmsum villum og staðhæfingar leiðréttar.“
Því er ekki að leyna að mér finnst svar þitt allt hið furðulegasta en þó helst það hvernig þú staðfestir óbeðinn því sem þú reynir að halda fram að sé ranghermt í færslunni sem þú ert að bregðast við.
Það sem er furðulegast í þessu efni er að þú virðist líta á mig og það sem ég skrifa sem SAMSTÖÐU. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þú gerir þetta heldur hefur þetta komið í öllu því sem þú og margir kollegar þinna í Dögun hafa viðhaft í viðbrögðum sínum inni á Fésbókarvegg mínum.
En að efnisatriðunum sem ég hyggst bregðast við í þínu langa og atriðamarga svari (ég hef sem sagt ákveðið að skipta svörum mínum niður eftir efnisþáttum):
Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.12.2012 kl. 01:51
Takk fyrir þennan pistil Rakel, mjög fræðandi og sýna viðbrögðin líka að hægt sé að sjá suma atburði með ýmsu móti og því hægt að draga lærdóm til seinni tíma að nauðsynlegt sé að ræða mikið saman.
Brynjólfur Tómasson (IP-tala skráð) 20.12.2012 kl. 02:04
Tunnubylting eða tunnumótmæli:
Þú segir: „Í þriðja hlutanum (Ræturnar stóðu ekki lengi) talar þú um Tunnubyltingu sem er því miður rangnefni því Tunnumótmælin þó glæsileg voru byltu því miður engu.“
Þessi orðhengilsháttur og útúrsnúningur vekur vissulega spurningar fyrir margra hluta sakir:
1. Í fyrsta lagi fyrir það að þú ættir að vita það að sértækar vaxtabætur sem hafa haldið lífi í millistéttinni tvö síðastliðin ár eru einmitt tilkomnar fyrir Tunnubyltinguna/tunnumótmælin (sjá hér)
2. Í öðru lagi fyrir það að fyrsta vísbendingin um það að eitthvað mikið væri að í viðhorfi þingmanna Hreyfingarinnar gagnvart grasrótinni var einmitt það að eitt ykkar hellti sér bókstaflega yfir einn aðalskipuleggjanda Tunnumótmælanna og síðar hvernig þessi sami þingmaður beitti öllum ráðum með tilstuðlan starfsmanns þingflokksins til að hafa puttana í því sem hópurinn sendi frá sér. Þú vísar í raun í þennan yfirgang hér:
Ég kem betur að þessu hér á eftir í sérstöku svari um utanþingsstjórnina.
3. Í þriðja lagi hefur það verið nokkuð áberandi í mínum augum a.m.k. hvernig Hreyfingarþingmennirnir hafa almennt látið eins og Tunnubyltingin/-mótmælin hafi engum árangri skilað og reyndar lítið um hana talað bæði í ræðu og riti.
Eins og ég benti á hér að ofan þá er og verður það sem kom fram í kringum Tunnubyltinguna/ Tunnumótmælin það sem gerði það að verkum að ég byrjaði að efast að ég væri á réttum stað með því að gefa Hreyfingunni krafta mína.
Es: Og svona að lokum, bara rétt til að stríða þér þar sem þú virðist vera svo móttækilegur fyrir stríðni Hverju umbylti Búsáhaldabyltingin? Í sinni ströngustu merkingu merkir nefnilega orðið bylting: °kollvörpun °gagnger umbreyting > umbylting / stjónarbylting / þjóðfélagsbylting.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.12.2012 kl. 02:47
Utanþingsstjórn:
Þór segir: „Sú hugmynd sem þú talar um sem hugmynd Tunnuhópsins um utanþingsstjórn var ekki tæk samkvæmt stjórnarskrá en þrátt fyrir ábendingar vildu Tunnur ekki leiðrétta hugmyndina. Hugmyndir um utanþingstjórnir eru ekki komnar frá einhverjum eða eign neins heldur er gert ráð fyrir þeim í Stjórnarskránni.“
Í ljósi þessara staðhæfingar er rétt að minna Þór á að tvær úr Tunnuhópnum fóru á fund forsetans eftir Tunnumótmælin 4. október 2010. Báðar voru með vissar hugmyndir um neyðarráðstafanir varðandi þá stjórnmálakreppu sem var mjög í umræðunni á þessum tíma. Í þessu sambandi má minna á að þingmenn Hreyfingarinnar töluðu margoft um „handónýtt Alþingi“ fram að Tunnubyltingunni.
Önnur þeirra sem fór á fund forsetans haustið 2010 hafði velt verklagi þeirra stjórnvaldsaðgerða sem gætu orðið samfélaginu til bjargar meira fyrir sér þannig að hún lýsti hugmynd sinni nokkuð nákvæmlega á fundinum með forsetanum. Eins og Þór sjálfsagt veit þá er forsetinn ákaflega fróður maður og þá einkum í stjórnmálafræðum og þekkir m.a. Stjórnarskrána eins og handarbakið á sér.
Hann benti á að þar væri ekkert að finna sem samræmdist hugmyndum okkar um svokallaða bráðabirgða- eða neyðarstjórn. Hins vegar mætti heita að viss stjórnskipunarhefð hefði skapast í tíð Sveins Björnssonar fyrir skipun utanþingsstjórnar þannig að sú leið gæti verið tæk þó hennar væri ekki getið í íslensku Stjórnarskránni.
Þór segir að: „hugmynd Tunnuhópsins um utanþingsstjórn var ekki tæk samkvæmt stjórnarskrá en þrátt fyrir ábendingar vildu Tunnur ekki leiðrétta hugmyndina“ án þess að rökstyðja það frekar. Ég átta mig ekki á hvað Þór er að benda á að hafi ekki verið tækt þar sem grasrótin fékk aldrei tækifæri til að útlista sína hugmynd nákvæmlega nema hér á þessu bloggi.
Ástæðan fyrir því að grasrótin fékk aldrei tækifæri til koma sinni hugmynd almennilega á framfæri var ekki síst sú að þingmenn Hreyfingarinnar tóku fram fyrir hendurnar á henni og lagði fram sína tillögu áður en grasrótin var tilbúin með sína. Hugmyndir beggja voru vissulega ekki óskyldar enda tillaga Hreyfingarinnar í mörgum atvikum orðrétt upp úr því sem kom út úr tíðum símtölum starfsmanns Hreyfingarinnar við þann grasrótarmeðlim sem vildi reyna að finna skipun utanþingsstjórnar einhverja lýðræðislegri leið en þá sem Sveinn Björnsson hafði viðhaft í sinni forsetatíð.
Eins og kemur fram í bloggpistlinum hér að ofan olli þessi umgegni bæði starfsmanns og þingmanna Hreyfingarinnar við umrætt málefni mér sárum vonbrigðum og vakti eðlilega tortryggni ekki síst fyrir þetta hér:Á þessum tíma langaði mig auðvitað til að útskýra hvað olli því að hugmyndin um viðbrögð við stjórnmálakreppunni brotlenti en fyrir hana var það þó skynsamlegra að reyna að sætta sig við orðinn hlut og snúa sér að öðru. Auðvitað gæti ég útlistað þessa atburðarrás, sem átti sér stað þessar vikur sem undirskriftarsöfnunin var í undirbúningi, nánar læt það vera að svo stöddu.
Það má reyndar benda á að undirskriftarsöfnunin er enn aðgengileg hér á Netinu en ýmislegt úr sögunni í kringum utanþingsstjórnarviðleitni grasrótarinnar virðist því miður vera horfið eftir uppstokkun Svipunnar. Sumt af því er þó varðveitt hér á þessu bloggi og þar á meðal bréf sem Hreyfingarþingmennirnir ásamt öðrum þingmönnum fengu sent þ. 4. nóvember 2010 sem endar þannig:
Því miður þá hafði ég tekið áskorun eins þingmanna Hreyfingarinnar um að bjóða mig fram til stjórnlagaráðs sem varð þess valdandi að viðtal sem var tekið við mig fyrir Kastljós kvöldsins 4. nóvember 2010 var hent. Því miður fékk ég ekki tækifæri til á að svara því hvort ég væri tilbúin til að draga framboð mitt til baka til að viðtalið fengist birt.
Sannast sagna hef ég ekki nagað mig jafn mikið í handarbökin yfir neinu sem ég hef tekið mér fyrir hendur í viðspyrnusögu minni eins og því að taka áskorun viðkomandi Hreyfingarþingmanns um að bjóða mig fram til stjórnlagaráðs.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.12.2012 kl. 04:52
???
Þór segir: „Í fimmta hlutanum (Önnur leið) talar þú um að ákvarðanir þínar hafi ógnað einhverjum í Grasrótarmiðsöðinni sem er óskiljanlegt enda var það alfarið ákvörðum Samstöðu að fara annað með starf sitt eftir fjölda ágætra funda sem Samstaða hélt þar.“ [feitletrun mín]
Hvað áttu við með því að segja að SAMSTAÐA hafi haldið „fjölda funda“ í Grasrótarmiðstöðinni en svo ákveðið að fara með starf sitt annað? Eins og ég segi í bloggpistli mínum þá komu fram mjög sterk andmæli á stjórnarfundinum þar sem ég lagði fram þá hugmynd að SAMSTAÐA fengi inni í Grasrótarmiðstöðinni.
Rökin fyrir því voru þau að slíkt gæti ekki gengið á meðan viðræður þeirra sem stóðu að Breiðfylkingarumræðum væru á svo viðkvæmu stigi. SAMSTAÐA hefur því aldrei í Grasrótarmiðstöðina komið hvorki með fundi eða annað.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.12.2012 kl. 05:04
Gagnrýni:
Þór er tíðrætt um gangrýni SAMSTÖÐU á Dögun en nefnir þar engin dæmi þannig að ég geri ráð fyrir að hann hafi aldrei lesið þær færslur sem ég setti inn hér í apríl þar sem ég talaði fyrir samvinnu þessara framboða. Til að gefa tóninn bendi ég á þessa athugasemd sem ég setti við blogg frá Gunnari Skúla:
Á þessum tíma var því miður strax farið að bera á einhverri sérkennilegri illkvittni gagnvart SAMSTÖÐU af hendi sumra innan Dögunar og virtist á þeim tíma a.m.k. einkum beinast gegn Lilju. Þessu mætti ég svo sjálf, einkanlega í maí og júní, frá fyrrum Hreyfingarfélögum og endurheimtum félagum þeirra úr Borgarahreyfingunni. Þeir sem nenna geta rennt yfir athugasemdir á Fésbókarvegg mínum frá þessum tíma vilji þeir kynna sér um hvað er að ræða.
Auðvitað er það rétt hjá Þór að bloggpistillinn hér að ofan er upplifun mín og túlkun á þeirri atburðarrás sem ég rek þar. Frá mínum bæjardyrum séð þá gerir innlegg Þórs þó lítið annað en færa rök fyrir því að ég hafi nokkuð rétt fyrir mér hvað það varðar það að mótmælaframboðið bar ekki gæfu til að verða sú bjarta von sem við það var bundin. Má vera að ástæðan sé skorturinn á umburðarlyndi og virðing fyrir viðhorfum annarra.
Jafnvel eitthvað fleira en ég set fram mínar hugmyndir í því sambandi í næsta pistli. Ef Þór finnur sig knúinn til að svara því líka þá vona ég að hann hafi það hugfast að ég starfaði með honum í Hreyfingunni í full tvö ár þar sem ég gengdi bæði varamanns- og stjórnarfulltrúastöðu. Ég hef ekkert breyst við það að fara annað. Mér finnst hins vegar málefnaáherslan hjá þingmönnum Hreyfingarinnar hafa breyst og fjarlægst þau baráttumál sem ég hef upplifað að viðspyrna síðustu fjögurra ára hafi einkanlega snúist um.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.12.2012 kl. 06:13
Þessi pistill vekur mann til umhugsunar um hvað olli því að eitt mikilvægasta mál þessa kjörtímabils er varla rætt á alþingi í dag sem er skuldir heimilanna og hvernig þær verða gerðar upp. Og síðan auðvitað snjóhengjan s.k. og framtíðarskipan peningamála þjóðarinnar en þau mál verður ekki hægt að ræða framhjá fólkinu sem býr í þessu landi.
„Þegar umræðurnar fóru af stað var þingmönnunum gerð grein fyrir því af fulltrúum ríkisstjórnarinnar að samstarf kæmi ekki til greina nema þeir tækju stjórnarskrármálið fram yfir baráttuna fyrir heimilin.“
Fólk sem hefur beðið milli vonar og ótta eftir því að stjórnvöld grípi til neyðarréttar til verndar heimilunum gagnvart skuldaeigendum er að örmagnast. Svengd og áhyggjur er vandamál mörg þúsund heimila, ekki stjórnarskráin, bókmenntasjóður, opinber stuðningur við vísindarannsóknir, eða annað sem rætt er af miklum móð á alþingi í dag eða á að ræða fyrir jólafrí.
Og hvernig geta þingmenn leyft sér að fara í jólafrí, án þess alla vega, að lýsa því yfir að skuldamál heimilanna verða tekin fyrir strax eftir áramót, að það liggi fyrir að leggja algjört bann við fullnustuaðgerðum og útburði sem gildi næstu fimm árin hið minnsta og að tíminn verði notaður til að skrifa niður skuldir sem greiðslugeta er ekki fyrir án þess að heimili fólks fari í sölumeðferð.
Boðaðu til blaðamannafundar Þór Saari, þar sem þú lýsir því yfir að ekkert mál verði afgreitt í þinginu með þínum stuðningi fyrr en heimilin eru kominn í skjól fyrir lánardrottnum sínum. Og fáðu Margréti og Birgittu í lið með þér. Það munu fleiri þingmenn fylgja í kjölfarið, vittu til.
Toni (IP-tala skráð) 20.12.2012 kl. 15:27
Ég myndi ekki treysta á að Þór leiði til blaðamannafundar fyrir heimilin þar sem hann og aðrir þingmenn Hreyfingarinnar samþykktu þeirri leið ríkisstjórnarinnar að klastra á verst setta hópinn vaxtabótum sem mér skilst að eigi að greiða út núna fyrir kosningar til að þagga niður í kjósendum svo þeir þegi fram yfir kosningar. Eftir þær má svo setja almenning í landinu á guð og gaddinn.
Það sem þingmenn Hreyfingarinnar tóku undir með ríkisstjórninni að hefði slíkan forgang að það mætti setja heimilin á ís fyrir eru: stjórnarskrármálið, rammaáætlunin í virkjanamálum og kvótamálin. Þessu komu þingmennirnir svo rækilega inn hjá sínu fólki að þær tvær sem koma úr stjórnmálaflokkunum sem þessi hafa komið á fót og tengjast Tunnunum útilokuðu það að þessi mál væru nefnd á nafn í sameiginlegu bréfi Tunnanna sem sent var á þingmenn fyrir Tunnumótmælin sem voru við þingsetninguna nú í september síðastliðnum.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.12.2012 kl. 16:00
Þeim mun hefnast fyrir sín svik við heimilin.
Toni (IP-tala skráð) 20.12.2012 kl. 17:57
Sæl Rakel og gleðilega hátíð.Ekki veit ég hvort mér finnst sérkennilegra að lesa þetta blogg eða athugasemdirnar sem því fylgja.Í báðum tilvikum gleymist þér að nefna það að þú hafðir fyrir síðustu tunnumótmæli sjálf sagt þig frá hópnum þar sem:þú værir nú komin í trúnaðarstarf fyrir samstöðu og teldir því ekki viðeigandi að "bendla Samstöðu við það sem Tunnurnar væru að gera".Þín eigin orð.Þannig að önnur kona tók þinn stað,kona sem mér vitanlega hefur aldrei verið bendluð við neitt stjórnmálaafl.Þetta var við eldhúsdagsumræður síðasta þings.Við síðustu stefnuræðu er hugarfarsbreyting hjá samstöðu þannig að þá er allt í einu orðið viðeigandi að taka þátt í tunnustarfinu aftur,enda gengu þá liðsmenn Samstöðu mjög hart fram að vekja athygli á viðburðinum.Þú komst ein með það innlegg að hverfa frá upprunalega markmiði tunnuhópsins að halda sig við heimilin og draga í þetta önnur mál sem ekki komu þeim neitt við.Mig rekur ekki minni til að stuðningur við það sjónarmið hafi komið neins staðar og sérkennilegt þykir mér að þú skulir taka þessar tvær útúr sem tilheyra kjarnahópnum t.d. með það í huga að önnur þeirra var meðframbjóðandi þinn til stjórnlagaráðs og virðist hafa tekið það framboð af meiri alvöru en þú virðist hafa gert.Þú hvetur fólk til að skoða fb. vegginn þinn sem er mér ákaflega erfitt,því eftir að ég lýsti þeirri skoðun minni að framboð Samstöðu myndi litlum eða árangri skila kaust þú að stöðva aðgang að honum
Páll Heiðar (IP-tala skráð) 25.12.2012 kl. 04:09
Many are stubborn in pursuit of the path they have chosen, few in pursuit of the goal.
Nietzsche
Jeff Garland (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 20:12
Páll Heiðar, þér er einkar lagið að taka orð og atburði úr slíku samhengi að þeir verða illþekkjanlegir þeim sem um ræðir. Þannig er það í þessu tilviki þó ég kjósi að elta ekki ólar við rangfærslur þínar hér. Hins vegar skal á það bent að þú ættir ekki að þurfa að hafa aðgang að Fésbókarveggnum mínum til að rifja upp útúrsnúninga, beinar rangfærslur og upphrópanir sem þú komst upp með að viðhafa á veggnum mínum.
Þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir til að halda uppi samræðum við þig á öðrum nótum en þeim sem þú viðhafðir hélst þú áfram í þínum farvegi. Stundum verður mér m.a.s. nóg boðið þannig að ég ákvað að loka þig úti af mínum vegg og hef ekki í hyggju að breyta því nema þú temjir þér aðra framkomu. Ég vona að þú vaxir einhvern tímann upp til þess skilnings að með því gerði ég ekki aðeins sjálfri mér greiða heldur sjálfum þér líka.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.12.2012 kl. 02:13
og hvar fer ég með rangfærslur hér.Þú hafðir sjálf sagt þig frá hópnum með þessum orðum sem ég hef hér eftir.Mig minnir reyndar að allar hinar tunnurnar 4 hafi verið þér ósammála,en ein þeirra kýs að hlaupa með þér núna og er það svo sem ekki í fyrsta sinni sem þið 2 hafið hlaupið ut undan ykkur í þessu samstarfi.Mér er það alveg sársaukalaust þó þú rifjir upp rangar minningar en þegar þú á þeirri vegferð ræðst að 2 af þínum heiðarlegustu samstarfskonum sem ekki hafa minni rétt til að kalla sig grasrótarfólks en þú sit ég ekki aðgerðarlaus hjá.Svo er mér alveg sársaukalaust þó þú kjósir frekar að umkringja þig fólki sem segja þér ósatt með rósablöðum en segja þér satt
Páll Heiðar (IP-tala skráð) 27.12.2012 kl. 05:05
og hvar fer ég með rangfærslur hér.Þú hafðir sjálf sagt þig frá hópnum með þessum orðum sem ég hef hér eftir.Mig minnir reyndar að allar hinar tunnurnar 4 hafi verið þér ósammála,en ein þeirra kýs að hlaupa með þér núna og er það svo sem ekki í fyrsta sinni sem þið 2 hafið hlaupið ut undan ykkur í þessu samstarfi.Mér er það alveg sársaukalaust þó þú rifjir upp rangar minningar en þegar þú á þeirri vegferð ræðst að 2 af þínum heiðarlegustu samstarfskonum sem ekki hafa minni rétt til að kalla sig grasrótarfólks en þú sit ég ekki aðgerðarlaus hjá.Svo er mér alveg sársaukalaust þó þú kjósir frekar að umkringja þig fólki sem segja þér ósatt með rósablöðum en segja þér satt
Páll Heiðar (IP-tala skráð) 27.12.2012 kl. 05:24
Páll Heiðar, þú undirstrikar rangfærslur þínar sjálfur hér t.d. með því að segja að ég hafi sagt mig frá Tunnunum þegar það rétta er að ég var upptekin af launavinnunni tunnumótmælakvöldið sem þú vilt gera að aðalatriði hér.
Það og annað sem þú vilt gera að aðalatriði hér eru hins vegar alger aukaatriði. Hvorki ég, þú eða nokkur annar einstaklingur á eða ætti að vera neitt aðalatriði þegar framtíð heils samfélags er í húfi. Kjósir þú að draga sjálfan þig fram sem einn þeirra einleikara sem hér er áttt við kemur það engum meira á óvart en mér þar sem hugur minn hvarflaði aldrei að þér við ritun þessara skrifa.
Það kemur mér líka á óvart hversu vel heima þú þykist vera í öllu því sem fram fór við undirbúning tunnuviðburðanna þar sem mér var ekki kunnugt um að þú hefðir verið í þeim hópi sem stóð að undirbúningi þeirra. Perónurnar á bak við tunnurnar voru heldur aldrei það aðalatriði að þessari færslu hafi verið ætlað að snúast um þær þó vissulega blandist málefnin sem mótmælin sem þær stóðu á bak við ásamt svo miklu fleirum inn í þetta uppgjör.
En hinu er ekki að neita að það sem varð Tunnunum að bráð varð að öllum líkindum sú ríka tilhneiging að geta ekki komist að málamiðlunum eða kunna ekki að sætta sig við þær sem verða að lokum ofan á. Þegar margir starfa saman verða væntanlega allir að taka ábyrgð á slíkum lyktum og í þessu tilviki ekki síður ég en aðrir.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.12.2012 kl. 09:04
.... Og nu klappar fjorflokkurinn!
Anna Hauksdottir (IP-tala skráð) 27.12.2012 kl. 13:30
Ég ætla svo sannarlega ekki að fara að gera þennan umrædda viðburð að aðalatriði.Vera kann að persónur skifti ekki höfuðmáli en ein ykkar skiftir mig miklu máli og ég hef fullan rétt á að láta mér misslíka það þegar hún er borin þeim sökum að vera handbendi þeirra stjórnmálamanna sem þér mislíkar í það og það skifti.Kannski er náið samband mitt við þessa sömu konu ástæða þess að ég "þykist vita"svona mikið um tunnuviðburðina.Alla vega við síðasta viðburð var hún í þvílíka uppnámi vegna deyjandi foreldra sinna að ég vék ekki langt frá henni.Við skulum athuga það þegar nútímasagan er sögð að henni fylgir fólk og fólk sem stendur að því hversu litlu máli sem manni finnst það skifta í heildina.Þessi komment voru aum jólalesning og margar minningar komu í hugann ásamt máltækinu sjaldan launar kálfur ofeldi
Páll Heiðar (IP-tala skráð) 27.12.2012 kl. 17:58
Páll, þú velur sjálfur hvað þú gerir að aukaatriðum og hvað aðalatriðum. Þú velur líka sjálfur hvort þú gerir sjálfan þig eða einhvern/-hverja aðra að aðalatriði og hvaða persónulegu aðstæður þú velur að draga inn í athugasemdafærslu við bloggfærslu sem snýst í reynd um ekkert af því sem þú hefur kosið að draga hérna fram.
Þú ræður líka hvað þú lest og í raun læt ég mig einu gilda hvað þér fannst en að reyna að halda því fram að ég sé eitthvað tengdari þér en öðrum sem ég hef verið samferða í gegnum þessa baráttu, hvað þá að ég skuldi þér eitthvað það gengur fram af mér.
Þess vegna langar mig til að biðja þig allra auðmjúklegast að halda þig fyrir utan athugasemdakerfið á mínu bloggi eða í það minnsta auðsýna öðrum þá sömu virðingu og þú ætlast til að þér sé sýnt.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.12.2012 kl. 18:58
þú kýst að misskilja mínar athugasemdir að venju og ég tek undir þú skuldar mér ekkert,þú skalt sjálf meta hvað þú skuldar þínum samstarfskonum.Ég hefði algjörlega látið þessa lesningu lönd og leið ef þú hefðir ekki gróflega vegið að þeim í kommentum þínum.Ég skora á þig að sÝna þann lágmarksmanndóm að biðja þær báðar afsökunar
Páll Heiðar (IP-tala skráð) 27.12.2012 kl. 19:08
Anna, eins og ég bendi á þá varð þingflokkur Hreyfingarinnar sennilega að fylgitungli ríkisstjórnarinnar og/eða Samfylkingarinnar öðru hvoru megin við síðustu áramót. Þetta hefur aldrei verið viðurkennt formlega en þó viðurkenndi Þór Saari um miðjan mars sl. að ef þingflokkur hans kæmist í þá stöðu að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar þá vildi hann helst vinna með ríkisstjórnarflokkunum sjá hér: http://www.dv.is/beinlina/thor-saari/
Það eru litlar líkur á því að hinn svokallaði fjórflokkur fylgist með jafnlítið lesnu bloggi og mínu hvað þá að þeir verði margir sem hafa tíma eða nennu til að fara í gegnum það argaþras sem hlaupið er í kommentin við þessa færslu. En vissulega er mikið til í því að sundurlyndi á milli nýrra framboða sparar fjórflokknum mikla fyrirhöfn og vinnu.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.12.2012 kl. 19:32
Það er sorglegt að sjá ef aðilar grasrótar eru komnir í hártoganir. Mitt mat er að aðilar sem berjast fyrir breytingum ættu frekar að vinna saman en að kasta eggjum hvert í annað. Því sameinuð stöndum við - annar ekki.
Lísa Björk Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 28.12.2012 kl. 15:03
Það er sorglegt að lesa þessar athugasemdir. Er grasrótin farin að kasta fúleggjum inná við? Fólk sem vann saman að bættu lýðræði og almannahagsmunum komið í hár saman? Sameinuð stöndum við, en svona bitlingar gera síst gagn í þeim efnum.
Hvaðan kemur þetta eiginlega?
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 28.12.2012 kl. 15:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.