Sóun
5.5.2012 | 06:44
Það er alltaf fleira og fleira sem bendir til að það sé eingöngu sóun á dýrmætum tíma og peningum að hökta áfram í þessu aðildarferli sem aðildarviðræður íslensku samninganefndarinnar við Evrópusambandið hefur verið og stefnir í að verða um einhver ókomin ár. Það eru að verða þrjú ár síðan þetta ferli byrjaði en á meðan hefur samfélagið mátt liggja á ís með þeim afleiðingum að atvinnuleysi hefur aukist, sífellt fleiri tapa ævistarfinu og fjölskyldur og einstaklingar láta sig hverfa.
Frá því að umræðan um aðild hófst hefur þjóðin að mestu skipst í tvær fylkingar með eða á móti aðild. Síðustu kosningar, sem búsáhaldabyltingin knúði fram, snerust í aðalatriðum um afstöðu stjórnmálaflokkanna til Evrópusambandsaðildar. Eftir kosningar kom reyndar fljótt í ljós að kjósendur gátu ekki treyst á þann stjórnmálaflokk sem lýsti hvað einarðast yfir andstöðu gegn aðildinni.
Af þessum ástæðum hafa þó nokkrir kjósendur bent á að það að Ísland er komið inn í aðildaviðræðurferlið stríði gegn lýðræðinu. Nú er svo komið að þeim röddum sem krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þessum viðræðum verði haldið áfram fer stöðugt fjölgandi. Hinir sem þverskallast við og vilja halda aðildarviðræðunum áfram bregða gjarnan fyrir sig þeim frasa að það sé ástæða til að kíkja í pakkann áður en afstaða verður tekin. Það er því ekki óvitlaust að reyna að setja það sér fyrir sjónir hvernig þessi svokallaði pakki gæti litið út.
Í augum aðildarsinna lítur hann væntanlega svona út:
Í augum þeirra sem segjast ekki geta gert upp hug sinn nema kíkja í pakkann hlýtur hann að líta einhvern veginn svona út:
Í augum þeirra sem eru alfarið á móti samningi lítur pakkinn og innihald hans svona út:
Frá því að ég heyrði fyrst af EES samkomulaginu á sínum tíma fannst mér eitthvað bogið við að smáþjóð sem byggi langt frá öðrum sæktist eftir því að binda hendur sínar inni í sameinaðri Evrópu með öllum þeim fórnarkostnaði sem það þýddi fyrir innanlandsframleiðsluna. Frá því að ég þurfti að lesa ESB-löggjöfina vegna náms míns í hagnýtri fjölmiðlun árið 1995 hefur mér þótt það fráleit hugmynd að smáþjóð fórnaði sjálfsákvörðunarrétti sínum með því að ganga þangað inn. Eftir að ég heimsótti Iðnaðarsafnið á Akureyri og las dánarfréttir akureysk iðnaðar á söguspjöldunum með dánardægrum í kjölfar gildistöku EES-samkomulagins þá fylltist ég harmi yfir því að þeir væru til sem gætu horft fram hjá því sem mér finnst blasa við.
Evrópusambandsaðild er ekki fyrir heildarhagsmuni íslensks samfélags. Það þjónar hvorki fjölbreyttum atvinnugreinum né sjálfstæðri ákvörðunartöku íslenskra borgara um innanlandsmál að ganga þangað inn. Íslenskir stjórnmálamenn, fjármagnseigendur og aðrir sem hafa haft forystu í málefnum þjóðarinnar hafa vissulega farið illa með íslenskt samfélag en almenningur hefur tækifæri til að breyta því kerfi sem þessir hafa byggt utan um sig eins og málum er háttað nú en það er nánast vonlaust ef Ísland gerist aðildarríki Evrópusambandsins.
Þetta vita þeir sem aðhyllast inngöngu og væntanlega líka þeir sem segjast vilja kíkja í pakkann áður en ákvörðun verður tekin. Væntanlega vita þeir að pakkinn svokallaði mun ekki innihalda neitt fyrir almenning annað en það að núverandi kerfi verður tryggt í sessi. Þ. e. einkavinavæðing og fákeppni mun halda áfram að sliga sjálfsbjargarviðleitnina og hugmyndaauðgina sem hefur einkennt innlendar atvinnugreinar og völdin verða endanlega færð frá fólkinu inn í harðlæst embættismannakerfi. Það er kannski af þessum ástæðum sem myndin af fíflinu, sem sprettur á gormi upp úr kassanum, kemur alltaf upp í huga minn þegar ég heyri klisjuna um að kíkja í pakkann:
10. mars sl. hélt Frosti Sigurjónsson erindi á laugardagsfundi, sem þá voru fastir liðir í Grasrótarmiðstöðinni, um það hvers vegna það væri skynsamlegt að leggja aðildarumsóknina til hliðar. 18. apríl sendi stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík frá sér ályktun, sem meirihluti hennar hafði samþykkt, þar sem aðildarviðræðunum voru sett tímamörk. Ef þeim yrði ekki lokið fyrir 1. ágúst n.k. skyldi það vera lagt fyrir dóm þjóðarinnar hvort þeim yrði framhaldið eða ekki.
Alþingiskosningarnar vorið 2009 snerumst um afstöðuna til Evrópusambandsins. Stór hluti þjóðarinnar hafnaði aðild og kaus flokka sem höfðu lýst sig andvíga aðild fyrir kosningar. Eftir kosningarnar kom það hins vegar í ljós að lítið var að marka yfirlýsta stefnu; a.m.k. Vinstri grænna. Eftir að aðildarviðræðuferlið hófst hefur það svo komið í ljós að loforð um tímalengd aðildarviðræðanna eru ekki innanlandsákvarðanir heldur eru þær teknar utanlands.
Á tímum sem þeim sem íslenskt samfélag er að ganga í gegnum nú hefur almenningur ekki efni á þeirri leiksýningu sem honum er boðið upp á af umboðsmönnum Evrópusambandsaðildar meðal stjórnarliða. Íslensk þjóð verður að fá svigrúm til að snúa sér að því að standa saman í því að leysa málefni heimilanna og til þess að það megi verða verður að hafa milliliðalaust samband við leikjaregluverkið sem hannaði það kerfi sem við búum við nú.
Það hefur sýnt sig að gulrót um Evrópusambandsaðild leysir engan vanda en hún tefur sannarlega fyrir. Það má þess vegna ekki verða að næstu alþingiskosningar snúist um slíka gulrót í stað alvörumálefna sem hægt er að fylgja eftir hér heima. Framtíð þessa samfélags hefur ekki efni á því að þjóðin sitji áfram aðgerðarlaus heima við og láti sig dreyma um að bjargræðið komi að utan. Saga Íslands sýnir að það hefur litlu skilað nema auknum álögum.
Vanti lesendur frekari rökstuðning fyrir því hvers vegna draumurinn um Evrópusambandsaðild er samfélaginu ekki hollur ætti áðurnefndur fyrirlestur Frosta að bæta úr:
Breytt gjöld í göngin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.5.2012 kl. 02:08 | Facebook
Athugasemdir
En og aftur kemur það í ljós að Alþingi Íslendinga er stimpilstofnun og sér um þýðingar fyrir ESB að láta þýða tilskipanirnar yfir á íslensku sem þingið hefur stimplað samþykkt sem lög hvort sem þingið líkar eða ei. EES samningurinn er stjórnaskrábrot það þarf ekki að vera lögfróður til að sjá það. Afhverju var verið að dæma Geir fyrir stjórnarskrábrot í Landsdómi?? Ég tel að byrjað var á vitlausum enda á lönguvitleysu sem íslensk pólitík er því þeir sem samþykktu EES á sínum tíma samþykktu að leggja niður Lýðveldið Ísland í áföngum án heimildar í stjórnarskrá eða með vilja þjóðarinar. Forsetin sem samþykkti inngöngu okkar í EES á sínum tíma var Vigdís Finnbogadóttir. Ég tel að þessi lög um inngöngu okkar í EES áttu að fara í þjóðaratkvæði en Vigdís hugsaði um það á yfirborðinu a.m.k í nokkra daga og skrifaði svo undir lögin því miður. Það þarf Grettistak til að bjarga okkur úr gini Evrópusambandsins Ég sé það ekki í kortunum að til sé nægur mannskapur sem er til í að fórna sínum tíma til að bjarga landi og þjóð úr þessari stöðu sem Ísland er í. Þröngir hagsmunahópar ráða Íslandi og þeim er sama hvernig fer því þeir hugsa bara um sig hvað sé best fyrir þá á morgun. Ég frá mér til mín pólitíkin.
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 07:24
Tilskipunin kemur í gegnum EES samninginn og hefur því ekkert með ESB umsóknina að gera.
Sleggjan og Hvellurinn, 5.5.2012 kl. 15:49
Sæl Rakel,
mjóg góð færsla og algjörlega sammála!
E.s. mikið ertu orðin árrisul...
Gunnar Skúli Ármannsson, 5.5.2012 kl. 22:13
Algjörlega sammála þér Rakel í þessu máli. Góð grein og skilmerkileg.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.5.2012 kl. 11:26
Flott grein hjá þér Rakel.
Guðni Karl Harðarson, 6.5.2012 kl. 23:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.