Borgarafundur: Er verðtryggingin að kæfa heimilin?

Á meðan þingheimur snýst í kringum naflann á sjálfum sér eins og sjálfhverfur táningur, sannfærður um skjólið af peningavörðum forréttindum og blindaður af kastljósi fjölmiðla og þeirrar ímyndunar að frægðin sé viðurkenning fyrir farsæl störf. Á meðan þjóðin býr í sambýli við handónýtt þjóðþing getur hún engum treyst nema sjálfri sér.

Það rennur upp fyrir stöðugt fleirum að það er ekki bara „óreglufólk“ sem missir vinnuna, verður gjaldþrota, tapar eigum sínum og flytur úr landi. Það er fólk á öllum aldri, af báðum kynjum, af öllum menntunarstigum og úr vel flestum atvinnugreinum sem stendur frammi fyrir því að hafa glatað öllu sem það hefur lagt líf sitt í eða horfa fram á það að missa það allt út úr höndunum.

Þeir sem eru enn skráðir eigendur þaksins sem þeir búa undir berjast og berjast við að standa undir síbreytilegri skuldabyrði en vita innst inni að þeir gætu orðið næstir á götuna. Þeir sem hafa tapað öllu flytja margir úr landi. Aðallega ungt fólk en slíkur raunveruleiki kemur fljótt tilfinnanlega niður á fámennri þjóð.

Þegar horft er til fortíðar og nútíðar er ljóst að sjálfhverfum þingheimi er á engan hátt treystandi. Fulltrúunum, sem þjóðin hefur viljað trúa að starfi að almannahagsmunum, stendur langflestum hjartanlega á sama um annað en sérhagsmuni eigna og valda. Slíkt er ekki ásættanleg staða og þess vegna ekkert í boði nema almenningur taki sig saman og komi vilja sínum á framfæri við valdið með áhrifaríkari ráðum en kosningum þingfulltrúa á fjögurra ára fresti.

Skuldafangelsi heimilanna

Borgarafundir eru kjörin leið til að mynda þrýsting, setja fram skoðanir og skapa umræður um þau mál sem brenna á þjóðinni. Annað kvöld verður borgarafundur haldinn í Háskólabíói þar sem staða lánþega verður í brennidepli. Fundurinn hefst klukkan 20:00 og stendur í tvo tíma. Auk reynslusagna verður farið í það hvernig verðtryggingin virkar og bent á lausnir.

Fundurinn er sjálfstætt framhald fjölmenns fundar sem haldinn var á sama stað síðastliðið haust. Sá fundur bar yfirskriftina: Er lögmætur eigandi skuldarinnar að rukka þig? Á bak við undirbúning hans voru nokkrir félagar sem stóðu fyrir borgarafundunum í Reykjavík og á Akureyri frá haustinu 2008 til vorsins 2010. Nú hafa fleiri bæst í hópinn enda fundurinn með nokkru öðru sniði en sá í haust.

Framsögumenn eru allt þekktir bloggara og/eða greinahöfundar sem hafa látið málefni lánþega til sín taka. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt, skrifaði þó nokkrar greinar á visir.is síðastliðið sumar (Sjá t.d. hér). Karl Sigfússon, verkfræðingur, skrifaði greinina: „Ég er kúgaður millistéttarauli“ sem vakti gríðarlega athygli. Þessi segja sögu sína á fundinum en setjast þá í pallborð með Sverri Bollasyni, skipulagsverkfræðingi, sem er meðal þeirra sem standa á bak við Fésbókarsíðuna: „Skuldabyrði ungs fólks“.

Áherslan á seinni hluta fundarins beinist að lausnum og því hvernig verðtryggingin virkar. Framsögumenn í þeim hluta eru: Marinó G. Njálsson, ráðgjafi, sem er vel þekktur fyrir skelegg og skýr bloggskrif um málefni lánþega gagnvart bönkunum. Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi, er ekki síður skeleggur bloggari en hann hefur líka gert fræðslumyndband í þremur hlutum um verðtrygginguna sem er aðgengilegt inni á You Tube. (Fyrsti hlutinn er hér)

Með þessum tveimur í pallborði verða: Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, sem allir ættu að þekkja af einarði baráttu í þágu heimilanna í landinu og Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, sem er sennilega best þekktur fyrir að ylja stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna undir uggum með beinskeyttum bloggskrifum.

Fundarstjóri er Rakel Sigurgeirsdóttir en Eiríkur S. Svavarsson stýrir pallborðsumræðum.

Fésbókarviðburður hefur verið stofnaður til að vekja athygli á þessum fundi. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 300 manns boðað komu sína. Þess má svo geta að þingmönnum hefur verið sent boð á fundinn og hafa sex þeirra látið vita að þeir ætli sér að mæta.


mbl.is Titringur og erfiðleikar á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er frábært og ef ég væri stödd sunnan heiða er engin spurning um að ég myndi mæta.  Vonandi verður troðfullt og miklar og góðar umræður.  Gangi ykkur vel.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 22:11

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Segi það með þér! og takk fyrir góðar kveðjur

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2012 kl. 22:44

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott gengi Rakel mín, fundurinn verður í góðum höndum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband