Samstöðufundur viðspyrnunnar á Austurvelli
9.12.2011 | 02:07
Á morgun, laugardag, verður samstöðu- og sameiningarsamkoma á Austurvelli. Dagskráin hefst klukkkan 14:00 og lýkur klukkan 17:00 en hún samanstendur af framsögum og músíkatriðum en auk þess koma jólasveinar í heimsókn.
Af þessu tilefni hefur verið stofnaður viðburður inni á Facebook (sjá hér). Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega áttatíu manns meldað sig en plakatið sem er á myndinni til hliðar hefur líka verið dreift víða um höfuðborgarsvæðið.
Í texta viðburðarins inni á Facebokk segir:
Að standa saman er enginn skömm...
Þú veist að það sem þú þarf að gera er að takast á við vandann en ekki að geyma hann og bíða eftir að hann hverfi. Þú þarf að stíga fyrsta skrefið. Raunveruleg endurreisn mun ekki takast nema með sátt og samstöðu okkar allra.
Þess vegna er boðað til samstöðu- og sameiningarsamkomu með framsögum og músík á AUSTURVELLI þann 10. des þar sem við munum minnast þess sem liðið er og láta vita að við erum ennþá til staðar.
Eins og við vitum þá er ekkert sameiningarafl sem er virkt í samfélaginu. Það er því í okkar höndum að haldast í hendur sama hvort þú ert: leikskólakennari, heilbrigðisstarfsmaður, smiður, sjómaður, bankastarfsmaður, kennari, nemandi, ellilífeyrisþegi, öryrki, atvinnulaus eða eitthvað annað.
Framsögumenn eru eftirtaldir:
Ásgerður Jóna Flosadóttir, frá Fjölskylduhjálpinni
Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari
Jóna Guðleif Sigurjónsdóttir, ellilífeyrisþegi (áttræð)
Kristján Jóhann Matthíasson, öryrki
Jón Bjarki Magnússon les upp úr ljóðabók sinni: Lömbin í Kambódíu (og þú)
Á milli verður lifandi tónlist í flutningi: LAME DUDES, Blússveitar Þollýar og Jólakórs Grasrótarmiðstöðvarinnar við undirleik Hjartar Howsers.
Fundarstjóri er Halldór G. Gunnarsson sem segist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að jólasveinar muni líka láta sjá sig á þessari samkomu.
*************************************************************
Í sambandi við það hvort þú mætir eða situr heima langar mig til að endurbirta hér fundargerð sem er gerð eftir fyrirlestri Þórodds Bjarnasonar, prófessor við félagsvísindadeildina við Háskólann á Akureyri, sem hann kallaði Félagslegur auður Akureyrar: Brýr eða bönd? Þessi fyrirlestur var fluttur á borgarafundi á Akureyri sem var haldinn í mars 2010. Fundurinn bar yfirskriftin: Samheldnin í akureysku samfélagi
Ég vil vekja athygli á að glærur Þórodds, sem eru mjög skemmtilega myndskreyttar, fylgja þessari færslu. Krækja sem leiðir inn á þær er að finna hérna neðst.
Framsaga Þórodds Bjarnasonar
Þóroddur byrjaði á því að útskýra hvað hugtakið samfélagssamheldni stendur en það eru: fjárhagslegur auður, mannauður (menntun, hæfileikar, reynsla) og félagslegur auður og tók það fram að í meginatriðum myndi framsaga hans fjalla um það sem sneri að því sem felst í hugmyndinni um félagslegan auð eða auðnum sem er fólginn í tengslunum á milli fólks.
Í því sambandi talaði hann um að þegar fólk hjálpast að gangi hlutirnir hraðar fyrir sig eins og þegar ráðist er í stórframkvæmdir líkt og það að að byggja hlöðu. Slík samhjálp kostar ekkert nema stuðninginn. Þá vék hann að því að peningar geta orðið jafnt til góðs eða ills og að menntun gerir engan góðan. Hana má nota bæði til góðra og illra verka.
Í framhaldinu nefndi Þóroddur nokkur dæmi um það hvernig þessir þættir nýttust í mismunandi verkefnum en sneri sér þá aftur að aflinu sem byggi í hinum félagslega auði. Þar nefndi hann búsáhaldabyltinguna sem gott dæmi um það hverju samvinna og samstaðan getur skilað. Samstaðan sem skapaðist þar varð til þess að koma heilli ríkisstjórn frá.
Hann tók það fram að ýmis samfélög eða hópar verða til þar sem aðilar hjálpast að. Sumir til góðs aðrir til ills. Sem dæmi um jákvæða samhjálp nefndi hann íbúa stúdentagarða sem hlaupa undir bagga hver með öðrum. T.d. í sambandi við barnapössun. Hins vegar benti hann á að hópurinn sem hefur orðið til getur upplifað samstöðuna og hlunnindin sem hann nýtur af tengslunum innan hans sem eitthvað jákvætt.
Upplifun hópsins á gæðum samstöðunnar segir hins vegar ekkert til um það hvernig hún kemur út fyrir þá sem standa utan hans. Sem dæmi um þetta nefndi Þóroddur m.a. Hells Angles og hópinn sem er samankominn á myndinni hér fyrir neðan.
Næst sneri Þóroddur sér að því að skýra hugtakið félagslegan auð enn frekar en það samanstendur að eftirtöldum þáttum: trausti, samstöðu og gagnkvæmum stuðningi. Í gegnum hópinn verður svo til ákveðið tengslanet sem getur einkennst af tvennu. Annars vegar böndum innan hópa en hins vegar brúm á milli hópa.
Félagslegu böndunum, sagði Þóroddur, fylgir eftirtalið:
- Fjöltengsl styrkja innviði samfélagsins.
- Langvarandi samskipti byggja traust.
- Viðhald sameiginlegra viðmiða.
- Virkt félagslegt taumhald.
- Heildin er sterkari en summa hlutanna
Félagslegu brúunum aftur þetta:
- Veik tengsl stækka tengslanet.
- Fjölbreytt tengsl virkja margar bjargir.
- Nýsköpun og miðlun nýrra hugmynda.
- Frelsi til að byggja sitt eigið net.
- Heildin er sterkari en summa hlutanna.
Í framhaldi þessara skilgreininga varpaði Þóroddur fram spurningunni um það að hve miklu leyti akureyskt samfélag einkenndist af böndum og brúm? Í því samhengi byrjaði hann að skoða hvar íbúar Akureyrar eru fæddir.
Eins og sjá má á glæru 19 (sjá viðhengi með glærum Þórodds neðst í þessari færslu) þá eru 61% Akureyringar fæddir hér en 39% eru fæddir annars staðar. Samkvæmt skilgreiningu Þórodds mynda þessir 39% félagslegar brýr vegna þess að þeir hafa tengsl út fyrir virkið.
Þá vísaði Þóroddur í heimild frá Birgi Guðmundssyni (sjá glæru 20 í glærupakkanum sem er krækt neðst við þessa færslu) sem er samantekt frá árinu 2006 á því hversu lengi akureyskir kjósendur hafa búið á Akureyri. Niðurstöður Birgis sýna að árið 2006 hafði um þriðjungur Akureyringa alltaf búið hér en annar þriðjungur hafið líka búið annars staðar en á Akureyri í meira en 20 ár.
Akureyringar sem eru fæddir á Akureyri eru 10.000 en alls eru íbúar bæjarins 17.000 á móti 250.000 sem búa á Suðvesturhorninu. Ef við lítum á sveitarfélögin við Eyjafjörðinn þá verðum við 24.000. Ef við víkkum sjóndeildarhringinn enn frekar og samsömum okkur með þeim sem búa í nágrenni við okkur þá telur heildin 36.000 íbúa.
Þóroddur endaði framsögu sína á því að benda á að brýr liggja í báðar áttir og því fleiri sem standa saman þeim mun líklegra er að sameiginlegir hagsmunir heildarinnar nái fram að ganga. Hins vegar varpaði hann fram þeirri spurningu hvort annað þyrfti endilega að útiloka hitt? Þ.e. að ef við kjósum að byggja félagslegar brýr yfir til nágrannabyggðarlaganna þá þarf það ekki að þýða að við þurfum að henda kostum félagslegra banda.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eins og venjulega verð ég með ykkur í huganum. Gangi ykkur vel og vonandi verður vel mætt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.12.2011 kl. 11:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.