Hvert klúðrið á fætur öðru!
25.1.2011 | 19:10
Það væri hægt að segja svo margt. Rekja söguna, segja frá voninni sem margir bundu við stjórnlagaþingið, telja upp áhyggjur sumra sem vöruðu við því að fjórflokkurinn myndi sjá til þess að eyðileggja drauminn um stjórnlagaþingið. Það hefur tekist og ljóst að landið og þjóðin hefur orðið fyrir enn einum álitshnekkinum.
Íslensk stjórnvöld hafa gert lítið annað á undanförnum misserum en sannfæra bæði innlenda og erlenda aðila um vanhæfni sína. Þeim er gersamlega fyrirmunað að vinna að hagsmunum lands og þjóðar. Þau hafa gefið fjármála- kerfinu ákveðið sjálfdæmi og komið sér þægilega fyrir í bólstruðum setustofum þess og þykjast þess vegna óhult. Fulltrúar valdsins eru velflestir orðnir svo veruleikafirrtir að þeir eru farnir að trúa því að þau séu réttborin til valda.
Þau neita að horfast í augu við það sem blasir hvarvetna við. Þau hafa steypt íslensku samfélagi í glötun. Annar hver maður veltir því fyrir sér í fullri alvöru að flytja úr landi af ástæðum sem stjórnmála- og embættismannastéttin þykjast ekki skilja. Á meðan þessir ganga erinda græðgismafíu fjármálastéttarinnar þá eru kjör almennings klessukeyrð með alls konar aðgerðum sem stuðla öll að því að hér er orðin til fjármagnseigenda- aðall sem lifir í vellystingum á öllum þeim gjaldtökum sem almenningur þarf að þola.
Ég gæti haldið áfram en ég minni á það enn einu sinni að ef við ætlum ekki að láta hrekja okkur úr landi þá verðum við að grípa til aðgerða. Við höfum reynt mótmæli. Þau hafa skilað árangri en við sitjum þó alltaf uppi með sams konar stjórnendur og sama embættismanna- og fjármálakerfið. Sömu verkalýðsforystu og sömu stjórnendur i lífeyrissjóðunum. Á meðan engu verður breytt innan þessara kerfa þá mun þetta brjálæði sem við búum við núna halda áfram.
Við getum spyrnt við fótum. Við höfum til þess nokkrar leiðir. Við getum haldið áfram að mótmæla og krafist kosninga. En hvað ætlum við að kjósa? Fjórflokkarnir, svokölluðu, hafa sýnt það og sannað á undanförnum árum að þeir gegna allir einum og sama herranum. Þ.e. fjármálakerfinu. Hreyfingin ætlar að leggja sig niður þegar hún hefur náð fram lýðræðisumbótum. Henni hefur heldur ekki tekist að þjappa óánægðum kjósendum utan um sig.
Ef það kæmi fram réttlætissinnað framboð sem setti brýnustu hagsmunamál þjóðarinnar á oddinn þá myndi ég hvetja til þess að við sameinuðumst öll í viðlíka byltingu og þeirri sem hefur verið kennd við búsáhöld og linntum ekki látum fyrr en Jóhanna og Steingrímur segðu af sér. En miðað við núverandi aðstæður hvet ég alla til að kynna sér vel og rækilega þennan undirskriftarlista hér: http://www.utanthingsstjorn.is/
Það er ljóst að það eru margir hræddir við hugmyndina um utanþingsstjórn en ég minni á að við sem settum þessa kröfu fram höfum hvatt þingmenn til að búa skipun utanþingsstjórnar lýðræðislegri umgjörð þannig að víðtækt samráð verði um skipun slíkrar stjórnar sem mætti líka kalla neyðarstjórn og/eða bráðabirgðastjórn. Ég myndi vilja sjá þjóðaratkvæðagreiðslu um bæði þá sem tækju sæti í slíkri stjórn og sérfræðingana sem yrðu þeim til ráðgjafar.
Staðan er í reynd sú að það verður hver og einn að gera það upp við sig hver af eftirtöldum kostum honum líst best:
a) Óbreytt ástand
b) Aukinn landflótti
c) Blóðug bylting
d) Kosningar
e) Utanþingsstjórn
Ég sé það líka þannig fyrir mér að slíkt andrúm myndi skapa kærkomið tækifæri til að byggja upp nýja stjórnmálaflokka og/eða -öfl sem myndu bjóða fram til kosninga í lok stjórnartímabils utanþingsstjórnarinnar. Ég bendi á að ég tók saman nokkrar spurningar og svör varðandi utanþingsstjórnina hér.
Íhaldið er skíthrætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
f) Fólkið taki sig saman og snúi baki við úreltum valdastofnunum og stofni einfaldlega nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá. Það er ljóst að gömlu valdastofnanirnar muni ekki afnema sig sjálfar, og því fólki þarf jafnframt að finna nýtt hlutverk.
"Andstöðuleysi gegn gerræðislegri valdbeitingu og kúgun er fáránlegt, þrælslegt, og eyðileggjandi fyrir velferð og hamingju mannkyns." - Stjórnarskrá Tenessee, gr. 1.2.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.1.2011 kl. 20:43
Gott innlegg Guðmundur en er það framkvæmanlegt? Ég spyr ekki af því ég vilji skjóta hugmynd þína í kaf heldur þvert á móti vegna þess að mér finnst hún fullrar athygli verð.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.1.2011 kl. 21:34
Íhaldið á fiskinn í sjónum. -> http://www.youtube.com/watch?v=6XLOP2rMH5U&feature=related
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.1.2011 kl. 01:47
Eitthvað þarf að gera, en í millitíðinni verðum við að halda áfram að krefjast utanþingsstjórnar. Það er ekki hægt að fara í kosningar eins og málin eru í dag, því það myndi jafnvel skila verri úrlausnum en nú er hrollur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.1.2011 kl. 13:25
Rakel: "er það framkvæmanlegt?"
Var stofnun fyrsta lýðveldisins ekki framkvæmanleg?
Þér vantrúaðir. Spyrjið ekki hvort heldur hvernig!
Frakkland er á sínu fimmta lýðveldi, líka Fillipseyjar og Venezúela.
Suður-Kórea er á sínu sjötta !
Guðmundur Ásgeirsson, 26.1.2011 kl. 14:35
Athyglisvert: Fjórða lýðveldið í Frakklandi hrundi í kjölfar langvarandi stjórnarkreppu sem lauk vorið 1958 með blóðlausri uppreisn franskra hersveita frá Alsír sem þá var frönsk nýlenda. Skipuð var bráðabirðgastjórn með takmarkað umboð sem hafði á verkefnalista sínum að láta gera nýja stjórnarskrá. Franska þjóðin fékk svo að kjósa um hina nýju stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar með var komið nýtt lýðveldi, löglega stofnað á lýðræðislegum grunni, haustið 1958.
Þessi uppskrift virkar auðvitað ekki óbreytt fyrir okkur hérna á Íslandi, en er ágætis hugleiðing til að örva ímyndunaraflið.
Guðmundur Ásgeirsson, 26.1.2011 kl. 19:48
:)
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.1.2011 kl. 23:29
Þakka þér fyrir að útskýra þetta betur Guðmundur Mér persónulega líst best á þá hugmynd að henda öllu gamla draslinu og byrja upp á nýtt. Lög, reglur, rammar og kerfi eru mannanna verk. Þau sem við látum stjórnast af í dag eru flest eftir einhverja löngu dauða karla. Hversu fáránlegt er það að við látum njörva okkur niður í gamalgrónum skít þegar allt sem til þarf er kjarkurinn til að stíga upp úr honum!?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.2.2011 kl. 18:56
Sannála Rakel.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2011 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.