Stjórnmálakreppan dýpkar og hinar með
21.11.2010 | 19:07
Það er ljóst að þeir sem hafa talið hugsjónum sínum best borgið innan Vinstri grænna naga sig margir í handabökin nú. Sumir hafa sagt sig úr þessum stjórnmálasamtökum og enn fleiri íhuga úrsögn. Allir þeir sem hafa kynnt sér helstu stefnumál svo og kosningarloforð Vinstri grænna sjá það svart á hvítu að flokkurinn er kominn langt út fyrir þær hugmyndafræðilegu áherslur sem hann hefur gefið sig út fyrir að séu hans.
Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir þeim hræðilegu staðreyndum að traust almennings gangvart stjórnvöldum er í sögulegu lágmarki eða innan við 10%. Hér er ekki eingöngu við Vinstri græna að sakast heldur alla þá sem tilheyra svonefndum fjórflokkum. Ef gengið yrði til kosninga, eins og Lilja Mósesdóttir bendir á að hefði verið eðlilegt í framhaldi af niðurstöðu kosninganna um landsdóm 28. september síðastliðinn, hefði stór hluti kjósenda staðið frammi fyrir þeim vanda að þeir treysta, því miður, engu núverandi stjórnmálaafli fyrir atkvæði sínu.
Kosningar eru því ekki raunhæfur möguleiki nú enda ljóst að í kjölfar útkomu nýrrar Stjórnarskrár verður boðað til nýrra alþingiskosninga. Af öllu samanlögðu þá er illskásti möguleikinn frammi fyrir núverandi aðstæðum sá að fara að tillögum þeirra sem hafa bent á utanþingsstjórnarleiðina. Nýlega var settur af stað undirskriftarlisti með áskorun á forseta Íslands um að skipa utanþingsstjórn nú þegar. Sjá hér http://utanthingsstjorn.is/
Það er ljóst að þegar þessi krafa kom fram olli hún titringi á ýmsum stöðum eins og er rakið um miðbik þessarar færslu hér. Eðlilega má velta því fyrir sér hvaða hagsmunum það þjónar að búa við áframhaldandi stjórnmálakreppu sem viðheldur kreppuástandinu á öðrum sviðum samfélagsins. Það er ljóst að það eru a.m.k. ekki hagsmunum almennings. Samkvæmt verkefnalistanum sem settur er fram í áðurnefndri áskorun til forsetans eru það hagsmunir hans sem eru þar í forgrunni:
- Það þarf að setja neyðarlög til að leysa bráðavanda skuldsettra heimila sem tekur mið af tillögum hagsmuna- og faghópa.
- Utanþingsstjórnin hefur auk þess það verkefni að vinna að skynsamlegum og raunhæfum langtímalausnum á skuldavanda heimilanna.
- Þar sem atvinnumissir er orðið stórt vandamál er það ekki síður brýnt verkefni utanþingsstjórnarinnar að vinna að uppbyggingu atvinnuveganna á skynsaman og raunhæfan hátt um allt land.
- Gagnger endurskoðun á efnahagsstefnu landsins. Þ.m.t. samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Eins og hefur komið fram sendu aðstandendur tunnumótmælanna bréf á alla þingmenn þ. 4. nóvember sl. í tilefni af mótmælum sem báru yfirskriftina: Tunnurnar kalla á utanþingsstjórn. Þar kynntu þeir kröfuna sjálfa svo og tilefni hennar. Bréfinu lauk á þessum orðum:
Þess vegna skorum við á ykkur að svara kalli tunnanna um slíka lausn. Þið hafið tækifæri til að brúa það bil sem er á milli þings og þjóðar með því að taka af skarið núna og samþykkja utanþingsstjórn þegar í stað. Þið eruð líka í aðstöðu til að bregðast við þessu kalli með því að skapa henni lýðræðislega umgjörð og taka þátt í umræðunni um það hvernig að skipun hennar verður staðið í samvinnu og sátt við íslenska þjóð. (Sjá hér)
Sú sem þetta skrifar hefur útfært þær hugmyndir sem er ýjað að hér enn betur í bréfaskiptum sínum við ónefndan þingmann með þessum orðum:
Þú sem þingmaður hefur tækifæri til að semja frumvarp til bráðabirgðalaga til að skapa skipan utanþingsstjórnar lýðræðislega umgjörð. Þar má t.d. leggja til skipun ráðgefandi samráðshóps valdhafa og almennings um skipun utanþingsstjórnar, hver/-jir sæju um að skipa í þennan hóp og hvernig, hvaða kröfur þeir sem yrðu skipaðir í utanþingsstjórnina verða að uppfylla og síðast en ekki síst að mæla með þjóðatkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hefur tækifæri til að kjósa úr einhverjum hópi hæfilegan fjölda fulltrúa í utanþingsstjórnina.
Það skal tekið fram að þar sem umræddur þingmaður hafði sent mér póst sem allir þingmenn gátu lesið gerði ég slíkt hið sama þegar ég svaraði honum. Þ.e. ég sendi svar mitt þar sem ofangreint kemur fram á alla þingmenn.
Að lokum vil ég hvetja alla sem lesa þessar línur til að velta vandlega fyrir sér stöðunni sem íslenskt samfélag er í dag og hvernig er hægt að leysa úr því ófremdarástandi sem við búum við. Það hef ég gert. Eftir gaumgæfilega íhugun og fund með forsetanum komst ég að þeirri niðurstöðu að illskásta leiðin er utanþingsstjórn.
Líkjast kommúnistaflokkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:52 | Facebook
Athugasemdir
Það hríslast um mann þegar maður sér fréttir af flokkráðsfundi VG. Ég mætti ekki á fundinn. Valdi að fara frekar á Harry Potter með krökkunum. Segir sitt um trú mína á VG í dag.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.11.2010 kl. 20:54
Ég reikna með að það að fara á Harry Potter hafi skilað ykkur öllum miklu meiru en mæta þar. Þær fréttir sem ég hef bæði frá þeim sem mættu og úr fjölmiðlum gefa frekar vísbendingu um trúarsamkomu en vitsmunalega samkomu stjórnmálamanna sem ætla sér að vinna að heildarhagsmunum lands og þjóðar.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.11.2010 kl. 21:07
Höldum uppi heiðri barnanna sem leika sér í sandkassanum og sláum SKJALDBORG um Þjóðarleikhúsið .
Þakka góða bloggfærslu .
Hörður B Hjartarson, 22.11.2010 kl. 01:52
Frábær eins og venjulega. Og ég er 100 % sammála þér eins og yfirleitt alltaf rakel mín. Ég er búin að prenta út undirskriftarblöðin, en á eftir að fara með þau niður í Samkaup og fleiri staði. Ætla að drífa í því.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.11.2010 kl. 11:07
Frábært að heyra það Ásthildur. Verð í sambandi við þig fljótlega og fæ fréttir Vonandi taka fleiri þig sér til fyrirmyndar.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.11.2010 kl. 01:08
Málflutningur Steingríms og hægri arms Vinstri Grænna, er með ólíkindum.... Hér eftir kalla ég hann bara Denna Dæmalausa.... Hann er úti á túni, og með höfuðuð uppi í skýjunum....
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.11.2010 kl. 02:15
Rakel þú getur treyst því hvar minn stuðningur lendir lifi lýðræðið!
Sigurður Haraldsson, 23.11.2010 kl. 08:47
Góð nafngift Jóna Kolla
Ég verð í sambandi við þig, Sigurður, mjög fljótlega
Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2010 kl. 03:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.