Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur í veginum
7.11.2010 | 15:48
Þessi frétt segir af fundi Hreyfingarinnar með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Birgitta segir frá því að á fundinum hafi komið fram staðfesting á því að það er samningurinn sem ríkið hefur gert við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem kemur í veg fyrir almenna skuldaleiðréttingu heimilunum til handa.
Af þessu tilefni þykir mér ástæða til að endurbirta færslu sem ég setti inn í byrjun júlí sl. Á þeim tíma reyndu nokkrir mótmælendur að vekja athygli á þeirri ógn sem íslensku samfélagi stafar af veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi. Því miður virðist enn vera langt í land með að almenningur átti sig á þvílíkri nöðru hefur verið komið fyrir á hálsi hans.
Ég hvet alla Íslendinga til að kynna sér sögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er t.d. hægt með því að gúggla skammstöfunina IMF og velja úr upplýsandi greinar um starfsaðferðir sjóðsins og afleiðingarnar sem efnahagsaðstoð frá honum hafa haft á samfélögin sem hafa látið glepjast til að þiggja efnahagsaðstoð hans. Ég bendi líka á þessa heimildamynd um efnahagshrunið í Argentínu og afleiðingarnar sem aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafði á lífsskilyrði argentínsku þjóðarinnar.
En hér er greinin sem ég skrifaði í sumar. Hún er ágætis inngangur:
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekkert annað en sníkjusamfélag!
Það hefur enginn verið jafnduglegur við að fræða okkur um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eins og Gunnar Skúli Ármannsson. Hann hefur verið mjög iðinn við að afla sér upplýsinga um afleiðingar efnahagsaðstoðar sjóðsins í hinum ýmsum löndum og kynna þær fyrir öðrum bæði á blogginu sínu og með fyrirlestrum
En þeir eru fleiri sem hafa reynt að vekja athygli á því hvernig þetta sjóðsskrímsli hefur rústað efnahag hinna ýmsu landa. Þ.á m. Argentínu sem ákvað að losa sig við þennan afætusjóð. Auðvaldshringurinn, sem gefur sig út fyrir að vera neyðarlánastofnun, er að fara eins með Lettlandi núna eins og hann fór með Argentínu á sínum tíma.
Lífskjör okkar stefna þangað líka! Það er framkvæmdastjóri sjóðsins hér á landi sem er hinn eiginlegi landsstjóri. Hann selur ríkisstjórninni fyrst þá hugmynd að til að tryggja efnahagslegan stöðugleika þurfi ríkissjóður að þiggja af þeim ægistórt neyðarlán. Þetta lán er látið heita gjaldeyrisvarasjóður og er nú þegar orðinn margfalt hærri en hann var á árunum áður en fór að hylla undir efnahagshrunið. (Sjá nánar hér) Svo þarf ríkið að borga vexti af þessu láni. Áætlaðir vextir af láninu fyrir þetta ár nema sömu upphæð og kostar að reka allt íslenska menntakerfið! eða um fjórðungi af skatttekjum ríkissjóðs!
En lánið er líka háð ákveðnum skilyrðum. Ríkisstjórnin þarf að vinna skipulega að nýfrjálshyggjunni sem flestir eru sammála um að hafi verið sú stefna sem upphaflega setti hér allt á hausinn. Það er þess vegna ekki skrýtið þó við sjáum engar breytingar aðrar en þær að stöðugt fleiri stefna í fátækt og landsflótta.
Ég hef ekki heyrt neinn sem mótmælir því að inni í nýfrjálshyggjunni er kreppugildra. Gildra sem má búast við að verði vart á 10 ára fresti. Í hverri kreppu sem dynur yfir þá færast verðmæti úr höndum margra aðila, sem hafa fjárfest í húsnæði og/eða atvinnutækifærum, yfir á hendur fárra fjármagnseigenda og/eða lánastofnana.
Hitt skilyrðið er niðurskurður í ríkisútgjöldum. Niðurskurðurinn kemur þannig fram að fyrst er það sem má kalla velferðarkerfið skorið niður til algjörrar örbirgðar. Þar er m.a. átt við mennta- og heilbrigðiskerfið. Laun almennra opinberra starfsmanna eru skert og framlög til framkvæmda og uppbyggingar eru skorin af. Þetta ferli er hafið hér hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki. (Viðbót: Fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram nú í haust er enn frekari staðfesting þessa.)
| |
Við höfum dæmin allt í kringum okkur um það hvernig þeir hafa rústað lífskjörum þeirra þjóða sem hafa þegið hina svokölluðu neyðaraðstoð þeirra. Þeir lifa sníkjulífi á efnahagskerfum sem hafa orðið fyrir skakkaföllum og tryggja að þau riði til falls. Þeir mæta eins og hrææturnar yfir helsærðu fórnarlambi og tæta það svo í sig.
Er einhver tilbúinn til að standa hjá á meðan þannig fer fyrir öllu því sem tryggir okkur og afkomendum okkar lífsafkomu í þessu landi?
************************************************************
Viðbót: Vil vekja athygli á þessari yfirlýsingu frá Hagsmunasamtökum heimilanna sem þeir settu inn sunnudaginn 7. nóvember. Þar segir m.a:
Við lestur viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda frá 7. apríl 2010 vakna upp áleitnar spurningar um tilgang efnahagsáætlunarinnar. Í þeirri yfirlýsingu ber allt að sama brunni, það er að leita allra leiða til að lágmarka tjón fjármálakerfisins á kostnað almannahagsmuna. Fólkið er gert ábyrgt fyrir óráðsíu fjármálakerfisins og vanrækslu stjórnvalda við að taka á þeirri óráðsíu. Nýtilkomin ofurskuldsetning ríkisins er til merkis um það og skuldaþrældómur þjóðarinnar er orðinn að veruleika.
Birgitta: Almennar aðgerðir fyrir suma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.11.2010 kl. 02:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.