Þegar okkur er ekki ætlað að skilja

Ég hef heyrt marga segja að þeir nenni ekki að setja sig inn í það sem fram fer í stjórnmálaheiminum. Þegar ég spyr hvers vegna er langalgengasta svarið það að það hafi ekki hundsvit á pólitík. Sumir segjast hafa reynt að setja sig inn í stjórnmálaumræðuna en að þeir hafi gefist upp þar sem þeir skilji hreinlega ekki það sem pólitíkusarnir eru að segja.

Ég hef stundum spurt á móti hvort þeim hafi aldrei dottið í hug að pólitíkusar sem tala þannig hafi ekki hundsvit á því sem þeir eru að tala um. Viðbrögðin eru misjöfn. Ég hef sjaldnar varpað fram þeirri staðhæfingu að stjórnmálamenn sem tala þannig að við eigum í erfiðleikum með að skilja þá og/eða fylgja þeim eftir hafa eitthvað að fela.

Við ættum öll að vera búin að átta okkur á því núna að við búum við handónýtt Alþingi þar sem kostaðir þingmenn halda uppi málþófi, útúrsnúningum og tittlingatogi af því að þeir eru að vinna fyrir þá sem borguðu þeim en ekki almenna kjósendur. Þeir ástunda blekkingarleik af ásettu ráði. Þeir tala tungumál sem engum er ætlað að komast í botn í og því miður kemur það ósjaldan fyrir að þeir eru í reynd að tala um málefni sem þeir hafa ekki hundsvit á sjálfir. 

Ég rakst á eftirfarandi texta sem mér finnst ágætt dæmi um tilbúnað þar sem orðin eru sett þannig saman að við fyrstu sýn mætti ætla að þeim væri ætlað að vera til upplýsingar en þegar betur er að gáð þá eru þau bara bull:

Til þeirra er málið varðar.

Verkfræðileg skýring á röri

Rör er framleitt úr lögnu gati sem umlukið er stáli eða plasti, samhverfu um miðju gatsins.


Allt rörið verður að innihalda gat í fullri lengd. Gatið þarf að vera jafnlangt rörinu.

Innra þvermál rörsins verður að vera minna en ytra þvermálið. Að öðrum kosti lendir gatið utan við rörið.

Rörið má eingöngu innhalda gat þannig að vatn eða annað efni geti runnið hindrunarlaust um það.

Löng rör skulu merkt „löng rör“ á hvorum enda þannig að eftirlitsmaðurinn sjái hvort um er að ræða langt rör eða stutt rör.

Mjög löng rör skulu merkt „mjög löng rör“, líka á miðjunni svo að eftirlitsmaðurinn þurfi ekki að fara að enda til að sjá hvort rörið er stutt, langt eða mjög langt ef hann kemur að miðju rörinu.

Þegar 30°, 45° eða 90° beygjur eru pantaðar verður að taka fram hvort um sé að ræða vinstri eða hægri beygju. Annars er hætta á að lögnin liggi ekki í rétta átt.

Merkja verður straumstefnu á lóðrétt rör. Annars er hætta á að vökvinn renni í öfuga átt.

Skrúfaður fittings skal annað hvort vera með hægri eða vinstri gengjum. Aldrei blandað. Þá skrúfast ein gengjan í, á meðan önnur skrúfast úr.

Tvö hálfrör eru jafngild einu heilu.

 Endastöð


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær grein, verkfræðingamálið er meiriháttar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.6.2010 kl. 23:58

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er auðvitað ekki annað hægt en brosa yfir þessu en því miður held ég að það sé alltof mikið til í því hjá mér að margur stjórnmálamaðurinn raðar orðum sínum þannig saman að þau hljóma eins og þar sé eitthvert innihald sem er ekki fyrir hendi enda tilgangurinn sá að dylja.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.6.2010 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband