Hið magnaða tákn lífsviljans

Þær eru ómældar hörmungarnar sem íslensk þjóð hefur mátt þola í gegnum tíðina. Frá upphafi byggðar hefur þjóðin agast af legu landsins, landslaginu, veðurfarinu og síðast en ekki síst ógnarkröftum náttúruaflanna. Enn erum við minnt á þann ógnarkraft sem býr í náttúrunni.

Þessir kraftar geta orðið að eyðileggingaröflum þegar minnst varir og þess vegna megum við til að taka mark á hættunum sem af þeim stafar. En það eru fleiri eyðileggingaröfl sem hafa áhrif á líf okkar nú á tímum en þau sem búa í náttúrunni. Hér er ég að tala um græðgisöflin sem sumir hafa ofalið svo á brjóstum sér að þau ógna ekki síður afkomu þjóðarinnar en eldgos og aðrar viðlíka náttúruhamfarir.

Það er þó eðlismunur á þar sem við getum náð tökum á verkum mannanna ólíkt því sem gildir um náttúruöflin (þó sumir láti sig vissulega dreyma um að ná tökum á því síðarnefnda). Við getum þó lært af náttúrunni og í því sambandi langar mig til að minna á litla dæmisögu sem ég byrjaði að læða inn hér á blogginu og inni á Fésinu sl. haust.

Það er sagan um fífilinn sem er harðgerðasta blóm Íslands. Hann finnur sér alltaf leið til að lifa og blómstra. Hann brýtur sér alltaf leið; jafnvel þó það sé malbikað yfir hann þá skýtur hann kollinum upp úr malbikinu og breiðir úr sínum sólgula kolli framan í vinkonu sína sólina. Nú á dögunum benti ágætur Fésbókarvinur og bloggvinur minn mér á að kíkja á forsíðu síðasta Bændablaðs (sjá hér) og það sem við mér blasti vakti mér svo sannarlega óskipta gleði:

Hinn magnaði fífill Í myndatextanum undir myndinni segir m.a. að „Þessi fífill sem tróð sér upp úr öskunni er ágætt dæmi um“ lífsviljann sem þarf til að lifa af hörmungar af náttúrunnar hendi. Íslenska þjóðin er að ganga í gegnum hörmungar af ýmsu tagi. Ekki bara náttúruhamfarir heldur ýmis konar hörmungar af mannavöldum líka.

Við eigum þess vegna ekki bara í baráttu við náttúruöflin heldur mennsk öfl sem kjósa að hundsa vilja okkar og koma sínu fram á okkar kostnað. Mér finnst fífillinn sem brýtur sér leið í gegnum malbikið og þykkt lag af ösku koma sínu á framfæri með sínum óbilandi lífskrafti. Myndin hér að ofan hreifir við einhverju í mér. Mér finnst hún ekki eingöngu vera skilaboð um það að lífið haldi áfram heldur líka skilaboð um mátt hins óbilandi styrks!

Það er ekki síst fyrir þennan styrk sem mér finnst fífillinn svo viðeigandi sem tákn á fánanum sem Kristján Ingimarsson lét upphaflega framleiða fyrir útileikverk sitt Byltingu fíflanna og nokkrir meðal mótmælenda hafa nú gert að tákni sínu. Fáninn er tákn hins sterka vilja til að knýja fram réttlæti fyrir almenna borgara. Við gefumst ekki upp þó það sé hraunað yfir okkur með ósvífni og orðavaðli. Við komum alltaf aftur eins og fífillinn því við skynjum ekki aðeins okkar djúpu löngun til að lifa heldur réttinn til þess líka.

Saga fánans er svolítið eins og raunveruleiki blómsins sem hann ber. Þrátt fyrir að njóta ekki fullrar lýðhylli þá hefur hann komið víða við og skýtur alltaf upp kollinum aftur og aftur.

Fyrsta mótmælagangann á Akureyri Fáninn tók þátt í fyrstu mótmælagöngunni sem var genginn á Akureyri

Janúarbyltingin á Akureyri Hann tók líka þátt í janúarbyltingunni sem fór fram á Ráðhústorginu á Akureyri

1. maí á Akureyri 2009 Hann tók þátt í 1. maí-göngum á Akueyri bæði 2009 (þegar þessi mynd er tekin) og núna í vor. Það má taka það fram að Kristján Ingimarsson, höfundur fánans, er með á þessari mynd. Hann er næst til vinstri á myndinni.

Fáinn hans GeorgesEftir 1. maí 2009 lagðist fáninn nær alveg í dvala. Þó er það einn sem dró hann að húni við heimili sitt og fjölskyldu sinnar þar sem fáninn hefur staðist vinda og úrkomu á annað ár. George Hollanders flaggar fána samstöðu, réttlætis og vonar allan ársins hring en hann er einn af upphafsmönnum grasrótarsamtakanna Byltingar fíflanna sem varð til hér fyrir norðan upp úr hruninu haustið 2008.

Þá var komið að þætti okkar Ástu Hafbergs sem bar ávöxt haustið 2009. Eftir að við fegnum Kristján Ingimarsson, höfund fánans, til að lána okkur hugmyndina og Fánasmiðju Þórshafnar til að annast prentun og dreifingu fánans hófst þriðja uppskerutíð hans. Útbreiðsla fánans hefur þó ekki orðið neitt veruleg en upp frá síðasta hausti fór hann þó að skjóta upp kollinum við hin ýmsu tilefni þar sem krafan um réttlæti var höfð í frammi á höfuðborgarsvæðinu.

BílafániSennilega sást hann í fyrsta skipti í Reykjavík sem bílafáni og vakti reyndar óskipta athygli en reyndar á vitlausum forsendum. Ásta var fyrst til að mæta með hann á mótmæli á Austurvelli þar sem sumir könnuðust reyndar við hann héðan að norðan.

Sjálf mætti ég með hann á nokkur laugar- dagsmótmæli þar. Auk þess sem hann fylgdi mér víða í kringum síðustu áramót. Hann var m.a. sýnilegur niður á Austur- velli, á Bessastöðum og í Öskjuhlíðinni. 

Skerum upp 
herör gegn óréttlætinuÞessa kalla ég alltaf: „Skerum upp herör gegn óréttlætinu“. Fáninn er þegar orðinn merktur af byltingunni gegn stöðum öflum peningahyggjunnar. Myndin er tekin í lok desember á síðasta ári

Fáninn á Bessastöðum Fáninn var líka mættur fyrir framan Bessastaði á gamlársdag í fyrra

Fáninn margfaldur Svo kom að því eina helgina í janúar sl. að fáninn varð áberandi um allan Austur- völl. Þessa helgi tóku tveir aðilar sig saman, pöntuðu nokkur handflögg og seldu á kostnaðarverði. Sá sem átti hugmyndina að framtakinu vildi meina að fánarnir hefðu selst eins og heitar lummur. Það voru a.m.k. allir fánar uppseldir áður en útifundurinn hófst.

Þriðja uppskerutímabilinu var lokið og sennilega er hæpið að tala um að það fjórða sé hafið fyrir alvöru enn. Þó er ljóst að fræ fíflafánans hafa dreift sér víðar og í reynd skýtur hann oftar og oftar upp kollinum án þess að nokkurt þeirra fjögurra sem áttu einhvern þátt í að koma honum að sem tákni fyrir baráttunni fyrir réttlætið og þá hugarfarsbreytingu sem við erum öll sammála um að þurfi að eiga sér stað; ekki bara í íslensku samfélagi heldur um allan heim.

Alþingi götunnar Við stofnun Alþingis götunnar var þeim sólgula haldið hátt á lofti. Það er einn af fjórmenningunum sem hafa staðið á bak við það að vekja athygli á fánanum sem fann honum þetta gælunafn en það kemur af sólgulu og vondjörfu fíflunum sem eru einkennismerki hans.

Mig langar líka til að taka það fram að Hörður Torfason samdi ljóð og lag um fífilinn og þær hugsjónir sem höfundur fánans tengdi hann við. (Textann má lesa hér) Hörður frumflutti ljóð og lag á tónleikum sínum í Iðnó núna í vor. Ég var svo lánsöm að vera viðstödd seinni tónleikana hans þar sem hann miðlaði á sinn einstaka hátt kjarnanum í þeim boðskap sem höfundur fánans hugkvæmdist að miðla með myndbirtingu hins sóllitaða en harðgerða fífils á fánanum sem hann skapaði.

Á útitónleikunum til styrktar níumenningunum, sem haldnir voru niður á Austurvelli, mætti höfundur fánans með dreifimiða með fánanum á. Miðinn er á stærð við póstkort og táknmyndir fánans beggja vegna. Þessi miði hefur fengið að sitja í bílnum mínum síðan.

Síðustu daga hafa nokkrir mótmælendur komið saman á Austurvelli. Tilgangurinn er enn sem fyrr að vekja athygli á aðgerðarleysi stjórnvalda sem keppast við að bjarga fjármagnseigendum og -stofnunum á meðan almenningur missir vinnuna, tapar heimilinu og ... hvað gerir fólk í slíkum sporum svo??

Mótmælendurnir kalla mótmælin tjaldborg heimilanna til háðungar einu kosningarloforði núverandi ríkisstjórnarflokkum sem var það að reisa „skjaldborg í kringum heimilin“. Ég rakst á myndir inni á Fésinu frá þessum mótmælum og hvað haldið þið nema fíflafáninn standi nánast í stafni tjaldborgarinnar:
Fáninn leiðir

Ef þig langar til að lesa meira um fánann get ég t.d. bent á þennan pistil sem ég skrifaði um hann í september í fyrra. Ef þig langar til að panta þér fána bendi ég þér að smella á þess krækju hér. Þú getur líka sent bréf á fanar@fanar.is (hægt að skrifa beint hér ) og lagt fram séróskir ef þú vilt.


mbl.is Loka Þórsmörk vegna flóðahættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þegar kreppir að í þjóðfélögum koma oft náttúruhamfarir í kjölfarið ástæðan er ekki ljós en þetta er að gerast hjá okkur svo um munar!

Sigurður Haraldsson, 12.6.2010 kl. 09:19

2 Smámynd: Hörður B Hjartarson

Æ - já fífillinn  , - hann vekur upp blendnar tilfinningar hjá mér , því hann er enginn sérstakur aufúsugestur í grasinu hjá mér , frekar en öðrum , eða baráttan , maður minn að reyna að útrýma honum jesús Pétur Jónsson hann er hreint skaðræði - já satt best að segja .

Hörður B Hjartarson, 15.6.2010 kl. 04:55

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Svona eins og þessir helv... mótmælendur sem gefast aldrei upp sama hvað það er reynt að koma þeim í skilning um að þeir séu mikið fyrir Það er ekki nokkur leið að útrýma réttlætiskennd þeirra enda reikna ég með að þeir sem hafa reynt það upplifi elju mótmælenda sem hreint skaðræði!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.6.2010 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband