Hin margumtalaða friðhelgi
23.4.2010 | 03:17
Auðvitað finn ég til með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. Hennar staða er langt frá því öfundsverð. Hins vegar verður því ekki neitað að þær fjárhæðir sem hún tók við fyrir sína eigin hönd eða flokksins eru svimandi háar. Svo háar að þær vekja upp spurningar sem hún hefur ekki gefið viðhlítandi svör við enn þó hún telji annað sjálf.
En málið snertir ekki hana eina. Þeir eru miklu fleiri þingmennirnir sem tóku við ótrúlega háum upphæðum. Þeir eru allir taldir upp í Rannsóknarskýrslunni. Þeir sem voru kosnir inn á þing í síðustu Alþingiskosningum og sátu enn þegar skýrslan kom út eru eftirtaldir:
- Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar og félags- og tryggingamálaráðherra
- Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingar og forseti Alþingis
- Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks
- Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar og formaður þingflokksins. Hefur vikið tímabundið.
- Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingar
- Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks
- Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar
- Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður þingflokksins. Ég hef reyndar ekki rekist á nafnið hann enn á þeim bls. sem ég hef skoðað en hann hefur vikið tímabundið
- Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar og forsætisráðherra
- Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar og iðnaðarráðherra
- Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
- Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingar, 3. varaforseti Alþingis og varaformaður þingflokksins
- Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks (bls. 141, 214 0g 276 í 8.bd)
- Ragnheiður E. Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður þingflokksins
- Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingar
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hefur vikið tímabundið.
- Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar og utanríkisráðherra
Mér þykir ástæða til að taka það fram að þeir sem gegndu þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn á þeim tíma sem upplýsingar Rannsóknarskýrslunnar ná til eru ekki lengur inni á þingi. Eins þykir mér rétt að benda á að Sigurður Kári Kristjánsson, sem hefur tekið sæti fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, er einn þeirra sem þáði styrk frá bönkunum á þeim tíma sem Skýrslan tekur yfir.
Þessi nafnalisti er sóttur í II. kafla áttunda bindis Rannsóknarskýrslunnar. Nánar tiltekið í undirkafla sem heitir: Styrkir og fríðindi til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. (Sjá hér bls. 165-169) Í upphafi hans segir: Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.
Það er vegna þessara augljósu staðreynda sem mér þykir það liggja beinast við að framantaldir stjórnmálamenn segi af sér. Alþingi Íslendinga býr við sífellt minnkandi traust og það ekki að ósekju. Sú staðreynd að þingmenn og stjórnmálaflokkar þáðu það sem þeir kalla styrki frá bönkunum til að koma sér áfram í pólitíkinni er síst til þess fallin að auka á tiltrú almennings á stjórnkerfinu.
Ef vel ætti að vera þá þyrftu allir sem sátu inni á þingi í aðdraganda hrunsins og sitja þar enn að víkja og hleypa nýjum að í sinn stað. En einhvers staðar verður að byrja og mér þykir það eðlilegt að þeir sem tóku við hæstu styrkjunum byrji með góðu fordæmi. Nú verða þeir að taka almannahag fram fyrir sinn eigin og segja af sér þingmennsku. Ekki aðeins tímabundið heldur til frambúðar.
Ástæðan er ósköp einföld. Þeir fengu sitt tækifæri en brugðust. Afleiðingarnar eru ekki aðeins efnahagskreppa heldur stjórnmálakreppa líka. Á meðan hér ríkir stjórnmálakreppa verður ekkert hægt að gera til að byggja upp nýtt samfélag á rústum þess gamla.
Sá almenningur sem hefur tekið það að sér fyrir hönd kjósenda að færa umræddum þingmönnum áminningu um að segja af sér hefur fengið nóg af sofanda- og roluhættinum sem viðgengst innan stjórnsýslunnar. Þeim er það fullljóst að á meðan stjórnsýslan snýst bara í kringum sjálfa sig og þá sem styrktu þá til þingsetunnar þá mun efnahagur landsins brenna endanlega upp og framtíðardraumurinn um áframhaldandi búsetu hér á landi verða að engu.
Þessir eiga því brýnt erindi við þá þingmenn sem þeir hafa heimsótt nú þegar. Fyrst var það Þorgerður Katrín, sem hefur tekið sér tímabundið leyfi að eigin sögn, nú er það Steinunn Valdís. Einhverra hluta vegna hafa margir tekið það í sig að þykja þessar heimsóknir óverjandi. Sumir hafa m.a.s. gengið svo langt að fordæma þessar heimsóknir á grundvelli eftirfarandi greinar úr Stjórnarskrá Íslands:
71. gr. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. (Sjá hér.)
Eins og öllum má vera ljóst þá er afar lítið hald af þessari grein Stjórnarskrárinnar í þessum tilvikum. Hins vegar þykist ég skilja að það er hvimleitt að láta minna sig á það sem samviska manns veit að er ekki rétt eða í það minnsta vafasamt. Það hlýtur líka að vera pínlegt að standa frammi fyrir spurningum barnanna sinna og nágranna um ástæður heimsókna af því tagi sem hér um ræðir.
En á meðan umræddir þingmenn taka eigin persónu fram yfir almannahag, og á meðan flokkakerfið og stjórnkerfið sjálf hlífir þeim við ábyrgðinni af verk- um þeirra, þá sé ég ekki hvernig þeir verða minntir á hvað þeim beri að gera við þær kringumstæðum sem nú eru uppi.
Ég sé ekki betur en almenningur sé tilneyddur til að bregðast við og þá er það að færa þingmönnunum áminningu eins og þá sem getur að líta hér til hliðar (smelltu á myndina þar til þú færð letur hennar í læsilega stærð) langt frá því að vera það versta sem hann getur tekið upp á.
Ég sjálf er of mikil geðluðra til að treysta mér í heimsóknir til þessara þingmanna en ég styð tilgang þeirra og dáist reyndar af þeim sem standa í þeim fyrir mig. Ég er þeim reyndar virkilega þakklát fyrir það að nenna að leggja svona mikið á sig til að verja hag heillar þjóðar. Þjóðar sem virðist kunna þeim ákaflega litlar þakkir fyrir framtakið.
Í þessu sambandi þykir mér ástæða til að minna á það að sumir þeirra þingmanna sem hér um ræðir hafa tekið sér það leyfi að banka upp á hjá kjósendum í aðdraganda kosninga. Sumir hafa m.a. segja farið saman í flokkum og ég man eftir einum sem tók fjölskylduna sína með á atkvæðaveiðar af þessu tagi.
Ég man ekki eftir neinum sem lét sér til hugar koma að væna þessa stjórnmálamenn um brot á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu þó þeir hafi lýst því yfir að þeim finnist slíkar heimsóknir hvimleiðar. Heimsóknir kjósenda, sem þær Þorgerður Katrín og Steinunn Valdís hafa haft ama af að undanförnu, varða miklu brýnna tilefni en stjórnmálaframa eins einstaklings. Tilefnið varðar almannahag því á meðan grunaðir sitja á þingi verða engar framfarir. Í þessu samhengi vitna ég í Rannsóknarskýrsluna þar sem segir:
Í flestum nálægum löndum gilda skýrar reglur eða lög um fjárreiður stjórnmálaflokka. Slíkum lögum og reglum er ætlað að vernda almenning gegn afleiðingum óeðlilegra fjárhags- og hagsmunatengsla á milli fjársterkra fyrirtækja, hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka. Þar hefur löggjafarvaldinu þótt rétt að reisa skorður við tilraunum fyrirtækja og hagsmunasamtaka til að kaupa sér áhrif á vettvangi stjórnmálanna. (Sjá hér athugasemd á spássíu bls. 165)
Við viljum fá að bera virðingu fyrir Alþingi okkar en á meðan þar sitja einstaklingar sem þáðu fjárframlög frá bönkunum, sem keyrðu efnahag landsins inn í gin kreppunnar, þá getur það ekki orðið. Alþingi sem nýtur ekki virðingar, nýtur ekki trausts og er af þeim sökum handónýtt. Á meðan málum er þannig háttað mun allt sitja fast.
Til að byggja upp traust almennings til stjórnkerfisins verða umræddir þingmenn að hverfa út af þingi. Þeir þáðu fjárframlög frá þeim sem hefur komið í ljós að stóðu í afar vafasömum fjármálaumsvifum og verða að taka afleiðingum þess. Þeir verða að hætta þessum hráskinnaleik og axla sína ábyrgð á því hvernig komið er.
Þeir hafa tækifæri núna til að sýna það hvort þeir eru atvinnupólitíkusar eða hugsjónapólitíkusar. Hugsjónapólitíkus tekur almannahag og hag samfélagsins fram yfir sjálfan sig. Þeim sem er annt um æru sína og samvisku taka að sjálfsögðu rétta ákvörðun og stíga til hliðar vegna þess að þeir hljóta að sjá að sá grunur sem á þá hefur fallið grefur undan þeirri virðingu sem Alþingi verður að njóta til að það sé starfhæft!
Segir ásakanir á hendur sér rangar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.4.2010 kl. 01:09 | Facebook
Athugasemdir
Kjarni málsins: "En á meðan umræddir þingmenn taka eigin persónu fram yfir almannahag, og á meðan flokkakerfið og stjórnkerfið sjálf hlífir þeim við ábyrgðinni af verk- um þeirra..."
Bendi einnig á gein Völu Andrésdóttur Withrow lögmanns í BNA. hér sem kemur inná þessa bitru staðreynd. Hún segir m.a.: "Siðleysið mun halda áfram á meðan lög gera stjórnmálaelítunni og góðvinum hennar kleift að hagnast með því að brjóta á rétti annarra og taka bæði æru og eigur íslensku þjóðarinnar án þess að dómstólar geti gengið þar á milli".
Þú vitnar orðrétt í skýrsluna þar sem höfundar setja viðmið. Áhugavert því að mér sýnist hún nýtist þannig einnig vel; en Vala bendir á það hve lélég undirstaðan hér er. Svo eru menn að streitast gegn Stjórnlagaþingi
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 23.4.2010 kl. 05:37
Alveg hárrétt
Takk fyrir að halda þessu til haga.
Daði Ingólfsson, 23.4.2010 kl. 09:32
Þetta fólk virðist ekki sjá sóma sinn í afsögnum, siðleysi þeirra virðist algjört.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.4.2010 kl. 00:36
Takk fyrir ábendinguna Hákon. Vala segir einmitt: „Siðferði verður ekki byggt á kviksandi stjórnmálaspillingar heldur einungis á klettum heiðarleika, réttlætis, frelsis og mannréttinda, þar sem allir standa jafnir fyrir lögum.“ Gæti ekki verið meira sammála henni.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.4.2010 kl. 01:49
Hef bent á það með ýmsum hætti flokksræðið vék fyrir lýðræðinu. Takk fyrir skrif þín þau eru einbeitt gott væri að sem flestir gætu lesið helst þingheimur allur og taka til sýn þeir sem eiga.
Sigurður Haraldsson, 25.4.2010 kl. 16:30
Algjörlega sammála og segi bara við verðum að standa saman um að þvinga þetta fólk til að axla ábyrgð. Ef þau segja ekki af sér, verður þetta aldrei meira en kattarþvottur. Og við slíkt er ekki hægt að una ef almenningur á að geta orðið sáttur og "fyrirgefið" eins og fólk er að biðja um nú í stórum stíl. Með svona kattarþvotti verður aldrei nein fyrirgefning heldur einungis einhver fljótaafskrift svona svipað og aflátsbréf katólsku kirkjunnar. Eða þannig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.4.2010 kl. 18:15
Takk fyrir hólið, Sigurður
Ásthildur: Ég er þér hjartanlega sammála! Ef kattarþvotturinn á að líðast þá spyr ég bara hvernig fer fyrir mennskunni í þessu landi???
Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.4.2010 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.