Sorglegir forystumenn fjórflokkanna og ljósið í myrkrinu
12.4.2010 | 18:04
Ég ákvað að láta mig hafa það að hlusta á ræður formanna flokkanna í tilefni af útkomu skýrslunnar í dag. Það var dapurlegt framan af. Jóhanna og Bjarni orkuðu á mig sem tilfinningalausar talvélar sem væru í engu sambandi við orðin sem þeim var ætlað að flytja af þessu tilefni. Svo kom Steingrímur og ég áttaði mig enn og aftur á því hvers vegna margir dá hann sem stjórnmálamann.
Hann er nefnilega greinilega meistari í því að skrifa og flytja ræður. Svo leið að lokum ræðu hans og þá var hann dottinn í sömu gryfju og hin tvö. Þar fór ræðan hans að snúast um eitthvað sem ég kalla gjarnan: ég, um mig, frá mér, til mín og minna. Það var heldur ekkert í ræðu þessara þriggja sem vakti mér von um að til stæði að bregðast við niðurstöðum rannsóknarskýrslunnar með öðru en orðum í ræðum og ritum.
Að mínu mati stóð þó Sigmundur Davíð sig verst af formönnum gömlu flokkanna. Ég er enn að velta því fyrir mér hvaða mikilvægu skilaboðum hann vildi koma til þjóðarinnar í ræðu sinni. Ég hef ekki komist að neinni niðurstöðu enn.
Þegar ég hlustaði á framantalda sannfærðist ég enn frekar um að stjórnmál á Íslandi eru sýndarveruleiki sem hefur verið gerður að raunveraleikaþætti sem tekinn er upp í Stúdíói Alþingi. Þátturinn er sendur út í beinni í þeim tilgangi að viðhalda þeirri blekkingu kjósenda að þar fari fram það sem skiptir máli. Það versta er að vel flestir þingmenn eru haldnir þessum misskilningi sjálfir.
Mér sýnist að þingmönnum sé haldið uppteknum þarna inni svo þeir nái engri yfirsýn yfir það sem raunverulega fer fram í samfélaginu og skiptir máli. Alþingi þjónar þess vegna hlutverki einhvers konar gæslustofnunar. Þingmönnum er haldið innilokuðum þarna inni svo þeir sem hafa sölsað samfélagið undir sig geti haldið áfram að fara með það eins og þeim hentar.
Það er þó ljóst að þessi aðferð dugir ekki til að draga athygli Birgittu Jónsdóttur frá því markmiði sem knúði hana til að bjóða sig fram til alþingiskosninga fyrir u.þ.b. ári síðan. Frá upphafi hefur hún kallað eftir réttlæti og lýðræðisumbótum. Í dag var hún líka sú eina sem kallaði eftir raunverulegum og eðlilegum viðbrögðum við niðurstöðum rannsóknarskýrslunnar.
Þar krafði hún þingheim til að bregðast við og krefjast þess að útrásarvíkingarnir skili ránsfeng sínum. Hún vill að fyrirtæki þeirra verði tekin af þeim og aðrar eignir þeirra frystar. Hún tók það líka fram að þeir þingmenn sem sæju nafn sitt í skýrslunni hlytu að hugsa sinn gang. Í því sambandi tók hún það fram að nú komi í ljós hverjir séu menn og hverjir séu mýs.
Mikilmenni muni axla sína ábyrgð og stíga til hliðar en lítilmenni muni halda áfram að láta sem ekkert hafi í skorist. Hún sagði það sitt mat að hér hefðu verið framin landráð og minnti enn einu sinni á að hér þyrfti að fara fram almennilegt uppgjör áður en lengra væri haldið þó minnti hún á þá nauðsynlegu aðgerð að leiðrétta húsnæðislán einstaklinga hið bráðasta. Hún benti á að niðurstöður rannsóknarskýrslunnar undirstrikaði réttmæti þessarar kröfu.
Birgitta tók það fram að því miður væri fátt sem bendi til að á meðal stjórnmálamannanna ríki raunverulegur vilji til að læra af hruninu og ráðast í nauðsynlegar breytingar á stjórnsýslunni. Í þessu sambandi vísaði hún til þess að hún hefði setið fund með fulltrúum fjórflokkanna í gær þar sem ákveðið hafi verið að stjórnmálaflokkarnir myndu áfram þiggja fjárframlög frá fyrirtækjum. (ræða Birgittu Jónsdóttur er hér)
Þráinn Bertelsson flutti líka áheyrilega ræðu þar sem hann dró saman framkomnar fyrirsagnir fjölmiðlanna í dag. Þessi samantekt undirstrikaði fyrst og fremst hversu fáránlega ber spillingin hefur verið og hversu siðvilltir gerendurnir eru. Óneitanlega minntu orð Þráins enn einu sinni á fáránleikann sem liggur í aðgerðarleysinu varðandi þá einstaklinga sem rannsóknarskýrslan staðfestir að eru sekir. Hann vakti líka áherslu á því að enginn þeirra hefðu viðurkennt sök sína.
Margt þegar vitað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér fannst ræðan hennar Birgittu bera af í dag.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.4.2010 kl. 18:50
Hjatanlega sammála. Sú eina sem virtist hugsa út fyrir veggi alþingishúsins og til samfélagsins og kjósenda.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.4.2010 kl. 19:28
Sammála
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.4.2010 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.