Borgarafundur: Hver vinnur Akureyri?

Fyrstu opinberu umræður þeirra sem bjóða fram til bæjarstjórnarkosninga á Akureyri fóru fram á fundi sem borgarfundanefndin hér fyrir norðan stóð fyrir. Borgarafundurinn fór fram í Deiglunni sl. fimmtudagskvöld. Þetta var fjölmennasti fundur vetrarins en þeir voru rúmlega hundrað sem sóttu þennan síðasta borgarafund á þessum vetri.

Sex framboð hafa tilkynnt þátttöku í komandi bæjarstjórnarkosningum sem fara fram í lok maí og sátu fulltrúar þeirra í pallborði. Þeir voru eftirtaldir:

Edward H. Huijbens, fulltrúi Vinstri grænna
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, fulltrúi Framsóknarflokks
Logi Már Einarsson, fulltrúi Samfylkingar
Oddur Helgi Halldórsson, fulltrúi L-listans
Sigrún Björk Jakobsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks
Sigurður Guðmundsson, fulltrúi Bæjarlistans

Embla Eir OddsdóttirEmbla Eir Oddsdóttir var fundarstjóri þessa fundar sem var með töluvert öðru sniði en þeir sem hafa verið haldnir hingað til. Í stað fram- sagna sem fulltrúar framboðanna fengju svo tækifæri til að bregðast við voru fjórir spyrlar, hver með sitt málefni. Valdís Viðarsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvarinnar á Akureyri, átti hugmyndina að því að hafa spyrla sem ég þáði og útfærði á þann hátt að hver spyrill sá um eitt afmarkað málefni. Þeir sem voru í spyrilhlutverkunum voru eftirtaldir:

Jóhann Ásmundsson: Atvinnumálin
Jóna Lovísa Jónsdóttir: Velferðarmálin
Knútur Karlsson: Miðbæjarskipulagið
Erlendur Steinar Friðriksson: Framtíðarsýnin

Borgarafundur á Akureyri 8.04.10

Atvinnumálin

Jóhann Ásmundsson reið á vaðið en málaflokkurinn sem hann sá um voru atvinnumálin. Sennilega vita það flestir að hér á Norðurlandi eystra er næsthæsta atvinnuleysishlutfall á landinu. Jóhann spurði fulltrúa framboðanna sérstaklega eftir því hvort þeir byðu upp á einhverjar nýjungar til að bæta úr þessu háa hlutfalli.

Logi: Undirstrikaði að fiskveiðar og landbúnaður verða áfram grunnatvinnugreinar á svæðinu en hann sá ekki fyrir sér að þar væri hægt að fjölga störfum. Vélvæðingin og tæknistig þessara atvinnugreina hefur nú þegar fækkað höndunum sem þurfa að koma að framleiðslunni í þessum greinum. Hér á Akureyri vantar þó 200-300 störf þannig að það þarf að finna upp á einhverju nýju.

Sigrún: Sagði að það væri ekki hægt að skapa þeim 200-300 manns, sem væru án atvinnu, störf í þjónustugreinunum. Það væri því nauðsynlegt að finna nýjar leiðir í atvinnumálunum.

Edward: Benti á að atvinnusamsetningin hér byggðist upp á: samgöngum, verslun, þjónustu og svo frumvinnslugreinunum; sjávarútvegi og landbúnaði. Þetta eru fjölbreyttar atvinnustoðir en þeim þarf að fjölga og benti m.a. á aukna tengingu skólanna í bænum við atvinnulífið í því sambandi. 

Guðmundur: Lagði ríka áherslu á gildi samvinnunnar. Að hans mati er best að nýta það sem er fyrir en það er líka nauðsynlegt að bæta við. Í þessu samhengi vísaði hann í hugmyndir sem komu fram í þessu sambandi á fundi Samherja nýlega (vikudagur.is hefur flutt einhverjar fréttir af þessum fundi. Sjá t.d. hér)

Sigurður: Benti á nýsköpun og frumkvöðlastarf og sagði að bæjaryfirvöld þyrftu að standa sig miklu betur í því að styðja við slíkt. Hann benti líka á að bærinn ætti að standa að því að kalla eftir nýjum hugmyndum hvað varðar ný tækifæri til atvinnusköpunar.

Oddur Helgi Halldórsson og Sigurður GuðmundssonOddur: Hóf mál sitt á því að segja að það væri líka ástæða til að minnast þess sem væri hér fyrir. Akureyringar búa m.a. við góða skóla og heilbrigðis- þjónustu. Hann talaði um að það væri ástæða til meiri savinnu og sameiningar sveitarfélaga hér í firðinum sem myndi t.d. stuðla að því að hægt væri að koma upp hafnaraðstöðu á Dysnesi sem væri fyrir löngu orðin tímabær.

Auk þess benti hann á að hér væri komin vistvæn stóriðja á vegum Becromal og útlit fyrir að fleiri störf myndu skapast af samstarfi við þá. Hann tók hins vegar undir það að bærinn ætti að skapa aðstöðu fyrir þá sem væru með atvinnuskapandi hugmyndir og styðja við það að að hrinda þeim í framkvæmd.

Spyrillinn, Jóhann Ásmundsson, fékk orðið aftur og nýtti það tækifæri til að benda á að 60% þeirra sem væru atvinnulausir hér á svæðinu væru karlmenn. Þeir höfðu flestir atvinnu í byggingariðnaðinum áður. Hins vegar snýst hlutfallið við þegar litið er til langtímaatvinnuleysis því að fleiri konur, sem eru á atvinnuleysisskrá, hafa verið atvinnulausar í sex mánuði eða lengur.

Hann bað fulltrúanna í pallborðinu að huga sérstaklega að því hvernig vandi þessara yrði best leystur. Jóhann, benti Oddi á að afstaða bæjarbúa og fleiri til Becromal væri afar misjöfn. Oddur greip fram í og undirstrikaði það að hvað sem um þá mætti segja þá rækju þeir mengunarfría stóriðju hér í firðinum.

Jóhann lauk svo máli sínu á því að undirstrika það að uppbyggingin sem er framundan þurfi ekki síður að taka mið af siðferðilegum þáttum.

Velferðarmálin

Jóna Lovísa Jónsdóttir sá um þennan þátt. Hún hóf mál sitt á því að benda á að þær væru margar spurningarnar sem brynnu á henni en hún hefði ákveðið að skera þær niður í þrjár. Fyrst vék hún að skólamáltíðum. Þar vildi hún fá viðbrögð við kröfu um fríar skólamáltíðir og benti á að sumar fjölskyldur hefðu einfaldlega ekki efni á að kaupa slíkar máltíðir.
Jóna Lovísa JónsdóttirJóna Lovísa tók það sérstaklega fram að hún væri ekki að biðja um svör frá öllum fulltrúunum en langaði til að heyra viðhorf þeirra sem hefðu myndað sér skoðun á þessum málaflokki. Mig langar líka til að benda á að landposturinn.is birti frétt af þessum fundi þar sem viðbrögð eins fulltrúans við þessum þætti voru gerð að umfjöllunarefni og pressan.is tók þessa frétt svo upp þaðan.

Sigurður: Sagði að þetta málefni væri honum mjög hugleikið. Það á ekki að mismuna börnum í skólum. Þar er líka allt jafnt þar til kemur að hádegismatnum. Hann sagði að honum þætti það mjög óeðlilegt. 

Sigrún: Sagðist vera honum algerlega ósammála. Hún sagði að hún vildi finna aðrar leiðir til að styrkja þá sem kæmu frá heimilum sem væru svo illa stödd að ekki væri hægt að kaupa skólamáltíðir handa börnunum sem þaðan kæmu. Hún ítrekaði það að það þyrfti að finna leiðir til að mæta þeim vanda sem Sigurður dró upp í máli sínu.

Þá vék Jóna Lovísa að styrkjum til tómstundaiðkunar og spurði hvort ekki væri ástæða til að hækka núverandi aldursviðmið.

Oddur: Sagðist vera því mjög fylgjandi að hækka aldurinn.

Guðmundur: Sagðist vera fylgjandi þeirri leið að mæta þeim sem væru í vanda bæði hvað varðar það að greiða þann kostnað sem fylgir tómstundaiðkun barna þeirra og kostnað af skólamáltíðum.

Logi: Gerði það að sérstöku umtalsefni varðandi tómstundir barna að þar væri alltaf talað um íþróttir. Hann sagði að sum börn vildu miklu frekar verja frítíma sínum í einhverja menningarstarfsemi eins og listsköpun. Að hans mati þarf að tryggja öllum börnum jafna aðstöðu til að taka þátt í einhverju tómstundastarfi hvort sem um er að ræða börn sem hneigjast til íþrótta eða listsköpunar.

Næst vék Jóna Lovísa að aftöðu fulltrúanna til þess að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll göngudeildar SÁÁ hér á Akureyri en tilefnið er sú ákvörðun að loka henni í sparnaðarskyni (Sjá hér)

Sigurður: Minnir á viðbrögð bæjarstjórans við þessari lokun og vísaði til þess að það var haft eftir honum í blaðaviðtali að bærinn hefði ekki bolmagn til að bregðast við þessu þó lokunin væri að sjálfsögðu bagaleg fyrir bæjarfélagið. Sigurður sagði að sumt væri þannig vaxið að bærinn gæti bara ekki vikið sér undan því að bregðast við því og taka þátt.
Borgarafundur á Akureyri 8.04.10Edward: Vék að þeirri grundvallarspurningu hvernig við vildum sjá samfélag okkar í framtíðinni. Hann sagði það vera á ábyrgð samfélagsins að sjá um sína og þess vegna bæri stjórnvöldum, hvort sem það væri bæjarstjórn Akureyrar eða íslenska ríkið, að standa vörð um velferðarmálin. Hér værum við vissulega komin að spurningunni um forgangsröðunina. Hann benti á að Vinstri grænir á Akureyri vildu raða velferðarmálunum fremst í þeirri röð.

Sigrún: Benti í þessu sambandi á mikilvægi samvinnu t.d. við verkalýðsfélögin og lífeyrissjóðina sem hún taldi að ættu að koma að því að tryggja göngudeild SÁÁ áframhaldandi rekstrargrundvöll hér á Akureyri. Hún talaði líka um að það væri ástæða til þess að ríkið skilyrti ákveðna peningaupphæð í fjárframlögum sínum til SÁÁ við starfsemi þeirra hér á Norðurlandi. Í þessu sambandi talaði hún um að það mætti alls ekki fara of geyst í sameiningu ríkisstofnana þar sem sú hætta væri fyrir hendi að sameiningin myndi bitna á landsbyggðinni.

Miðbæjarskipulagið

Eins og mörgum er eflaust kunnugt þá hefur þó nokkuð verið tekist á um hugmyndir sem lúta að nýju skipulagi miðbæjarins hér á Akureyri. Framkomnar hugmyndir má m.a. kynna sér hér en það var Knútur Karlsson sem sá um að spyrja fulltrúa framboðanna sem bjóða fram til bæjarstjórnarkosninganna nú í vor Knútur 
Karlssonum þennan málaflokk. 

Knútur hóf mál sitt á þeim orðum að ef fulltrúarnir samþykktu ýmsar af breytingartillögum hans í sambandi við miðbæjarskipulagið þá yrðu eftir nægir peningar til að standa vörð um velferðar- málin í bæjarfélaginu. Þá sneri hann sér að sínum málaflokki og þá fyrst því hvort fulltrúarnir væru með eða á móti síkinu sem er stærsta ágreinings- efnið varðandi skipulag miðbæjarins hér. Hann óskaði jafnframt eftir því að þeir héldu sig við það í svörum sínum að svara þessu eingöngu.

Oddur: Sagðist aldrei hafa verið með hugmyndum um síki í miðbæ Akureyrar og uppskar mikið lófaklapp.

Sigurður, Guðmundur og Edward sögðust vera á móti síkinu.

Sigrún: Sagðist vilja láta kjósa um síkið þegar að því kæmi að ráðast í framkvæmdir varðandi nýja miðbæjarmynd.

Logi: Sagðist vera opinn fyrir því að falla frá hugmyndum um síkið miðað við þá miklu óánægju sem það hefur mætt.

Þá vildi Knútur fá að heyra hvað fulltrúunum þætti um það að miðað við núverandi skipulagshugmyndir þá færu mikið af þeim bílastæðum sem væru nú við miðbæinn undir háreistar byggingar.
Logi Már 
Einarsson
Logi: Vill að við stefnum að því að byggja hér upp evrópska smáborg. Sjálfur segir hann að hann væri alveg til í að búa í blokk en hann muni ekki láta verða af því nema að hann geti búið við það sem gert er ráð fyrir í þessu nýja skipulagi. Það sem honum finnst heillandi við þá blokkarbyggð sem gert er ráð fyrir í miðbænum er það að á kvöldin þá getur hann tekið lyftuna niður á neðstu hæð og keypt sér bjór og/eða kaffi og skellt sér svo upp í lyftunni og í rúmið.

Sigrún og Edward tóku að miklu leyti undir það með Loga að þau vildu stuðla að því að hér yrði unnið að því að breyta yfirbragði miðbæjarins í þá átt sem gert er ráð fyrir í skipulaginu.

Guðmundur: Sagðist hins vegar hafa áhyggjur af bílastæðamálunum. Hann taldi að miðað við núverandi skipulag yrðu þau of fá.

Sigurður: Sagði að hann vildi henda núverandi tillögum og byggja upp miðbæ í þeim anda sem er þar fyrir. Logi skaut þeirri spurningu inn í þetta hjá honum hvort hann vildi kannski mæta í smalabúningi í vinnuna líka?

Oddur: Sagðist vera á móti núverandi miðbæjarskipulagi. Hann sagði að þar væri farið eftir dyntum arkitektsins og vildi meina að myndirnar væru villandi. Af þessu tilefni bendi ég á myndina hér til hliðar sem sýnir hugmyndir um síkið sem samkvæmt núverandi hugmyndum á að ganga upp frá fjöru og upp að Hafnarstræti sem er aðalverslunargatan hérna á Akureyri. Blekkingin sem einkum hefur verið bent á liggur í hæð ljósastauranna sem gagnrýnendur hafa bent á að dragi úr þeirri staðreynd að blokkirnar eru fjögurra til fimm hæða.
Síkið á AkureyriÞá benti Knútur á þau vandamál sem hlytust af því að blanda saman þjónustu- og íbúðabyggð. Hann taldi það liggja í augum uppi að íbúarnir myndu ekki sætta sig við það ónæði sem hlytist af veitinga- og verslunarrekstri. T.d. í sambandi við umgengi við ruslagáma eftir miðnætti og móttöku vara eldsnemma á morgnana. Ennfremur minnti hann á skort á bílastæðum í og við miðbæinn miðað við núverandi skipulagshugmyndir.

Logi: Sagði að þeir sem vilja búa í miðbænum ætli sér ekki að vera að þvælast á bílum út um allan bæ. Hann benti á að til að leysa bílastæðamálið mætti byggja bílastæðahús á einhverjum af þeim reitum sem miðbæjarskipulagið tæki til.

Sigrún: Tók undir með Loga hvað varðaði bílastæðahúsið og benti jafnframt á að útfærslan á hverjum reit fyrir sig væri að miklu leyti eftir þannig að það væri alls ekki út úr myndinni að koma slíku húsi fyrir á einhverjum þeirra.

Edward: Sagðist hrylla við afmarkaðri byggð þar sem skýr skil væru á milli íbúðahverfa og annars konar byggð. Hann sagðist sjálfur aðhyllast blandaða byggð og benti á að sá sem kysi að búa yfir veitingastað hlyti að ætla sér að aðlaga sig því.

Guðmundur: Tók hins vegar að nokkru leyti undir ábendingar Knúts einkum hvað varðaði bílastæðin og sagði að það yrði að tryggja greiðan aðgang þeirra sem vildu koma á bílum í miðbæinn með því að gera ráð fyrir því að þeir gætu lagt bílum sínum í nágrenni hans.

Sigurður: Tók undir það að það yrði að tryggja bílastæði fyrir alla þá starfssemi sem áætlað er að fari fram í miðbænum svo og íbúa hans og aðra sem þurfa að sækja þangað þjónustu.

Oddur: Sagði að það væri ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að það eru allir á bílum. Hann gagnrýndi það sem hann kallaði „grænt snobb“ og hvatti til þess að miðbæjarskipulagið tæki mið af staðreyndum.

Í lok þessarar umræðu fékk Knútur aftur orðið þar sem hann notaði tækifærið og bað fulltrúanna að velta því alvarlega fyrir sér að 30% íbúa Akureyrar hafa mótmælt núverandi miðbæjarskipulagi og því hvernig þeir ætla sér að bregðast við þeirri staðreynd. Logi benti á að hann væri afar ósáttur við að fá ekki tækifæri til að bregðast við þessu og vísaði til þess að honum þætti þessi framsetning vera í ætt við útúrsnúning.

Framtíðarsýnin

Erlendur Steinar Friðriksson var fjórði spyrillinn sem spurði fulltrúa framboðanna sem bjóða fram í bæjarstjórnarkosningunum hér á Akureyri. Hann vildi heyra hvernig þeir sæju fyrir sér innra og ytra skipulag akureysks samfélags í framtíðinni.

Oddur: Sagði að hann vildi viðhalda einkennum samfélagsins þannig að Akureyri væri áfram líkara sveitaþorpi en borg.

Sigurður: Vill fyrst og fremst bæta atvinnustigið. Hann vill fleiri íbúa og fleiri fyrirtæki. Hann benti hins vegar á að Akureyri væri ekki borg og yrði það tæpast á næstunni.

Guðmundur: Sagði að sennilega væri það best að Akureyri yrði áfram bær. Hann vill þó sjá einhverja fjölgun íbúanna og benti á að fjölgun upp í kringum 20.000 myndi ná að skapa hér sterkara samfélag.

Edward: Tók undir það að það væri nauðsynlegt að gera sér skýra mynd af því hvernig samfélag við viljum hér í framtíðinni. Í því sambandi benti hann einkum á skipulags- og atvinnumálin.

Sigrún: Benti á að hér hefur verið stöðug og jöfn fjölgun á undanförnum árum og það yrði að tryggja það að svo yrði áfram. Hún benti á hve frjáls félagasamtök væru mikilvæg fyrir samfélagsheildina og tók það fram að okkur mætti t.d. ekki fækka svo mikið að þetta tapaðist.

Logi: Vill að bærinn vaxi áfram og tók það fram að það væri hæpið að miða við einhverja tölu eins og 20.000 því tæplega væri hægt að ætlast til að fólk hætti að sofa hjá þegar þeim fjölda væri náð. Hann ítrekaði það að hann vildi að bærinn yxi þannig að hér væri hægt að bjóða upp á margháttaða þjónustu svo og menningu.

Þá fékk Erlendur Steinar aftur orðið og spurði fulltrúanna eftir stjórnskipulagi framtíðarinnar. Hver væri m.a. afstaða þeirra til einstaklingskjörs og íbúalýðræðis.

Logi: Sagðist vera með auknu lýðræði og benti á hvernig íbúalýðræðið hefur komið fram í sambandi við  miðbæjarskipulagið. 

Sigrún: Sagðist vera fylgjandi persónukjöri. Hún benti á að íbúalýðræði væri samráð og samræða en ekki undirskriftarlistar. íbúalýðræði væri uppbyggilegar umræður sem miðuðu að lausnum.
Borgarafundur á Akureyri 8.04.10Edward: Nefndi hverfisnefndir sem dæmi um aukið íbúalýðræði. Hann sagði að ferlið í kringum íbúalýðræði væri gjarnan langt og flókið og af þeim sökum tafsöm þolinmæðisvinna en niðurstaðan yrði alltaf málamiðlun og lausnir.

Guðmundur: Sagði að hann væri sammála þeim sem hefðu tekið til máls á undan honum varðandi persónukjör og íbúalýðræði. Hann benti hins vegar á að það þyrfti að bæta upplýsingaflæðið frá bæjaryfirvöldum út í samfélagið. 

Sigurður: Mælti með einstaklingskjöri. Hvað íbúalýðræðið varðaði var hann því fylgjandi en það þyrfti að setja því ramma hvernig það ætti að virka.

Oddur: Benti á að íbúalýðræðið virkaði því aðeins að það færi saman við vilja meirihlutans. Hann sagði að honum litist ekki á einstaklingskjör vegna þess að það þarf hóp til að halda utan um nefndarstörfin. Menn þurfa að tala sig saman um stefnumörkun.

Fyrirspurnir úr sal

Fundartíminn var ríflega hálfnaður þegar  fundarstjórinn, Embla Eir, opnaði fyrir fyrirspurnir úr sal. Eins og kom fram hér í upphafi var mjög góð mæting á fundinn eða nokkuð yfir hundrað manns. Þetta þýðir að meginsalurinn var fullsetinn og stiginn meðfram svo og fordyrið (svona fyrir þá sem þekkja til í Deiglunni).
Borgarafundur á Akureyri 8.04.10Þar sem flestar spurningarnar sem komu fram snerust um sama efni og spyrlarnir höfðu komið að áður voru sum svör fulltrúanna nokkuð áþekk því sem þegar hafði komið fram hjá þeim. Ég ætla þess vegna að fara fremur hratt yfir sögu.

Þannig snerist fyrsta spurningin úr sal um miðbæjarskipulagið og atvinnumálin. Varðandi miðbæjarskipulagið kom þó fram að miðað við ferlið í því máli hingað til væri ekki líklegt að tekið yrði tillit til þeirra athugasemda sem væru komnar fram núna með undarskriftarlistanum sem var afhentur fyrir rétt um hálfum mánuði.

Logi, Edward, Guðmundur og Oddur ítrekuðu ýmist það sem þeir höfðu þegar sagt um þessi efni og/eða tóku undir það sem kom fram í svörum Sigrúnar og Sigurðar við þessum fyrirspurnum.

Sigrún: Lagði áherslu á það að það yrði tekið tillit til þeirra athugasemda sem nú væru komnar fram. Hins vegar taldi hún ekki tímabært að kjósa um þær núna í vor. Varðandi atvinnumálin sagði hún að þau væru okkar brýnasta úrlausnarefni en benti á að skattastefna ríkisins gerði bæjarfélaginu ekki auðvelt fyrir í þvíefni. Hún benti á að Akureyrarbær gæti stutt við atvinnulífið með því að leiða menn saman og safna hugmyndum um úrlausnir og ný atvinnutækifæri.
Sigurður 
Guðmundsson
Sigurður: Vildi sjá beina eign bæjarins í nýjum atvinnu- fyrirtækjum sem stuðning og til að koma fyrirtækjum af stað. Í því sambandi benti hann á að það tæki 6-12 mánuði að koma slíku í gegnum Atvinnuþróunarfélagið. Það er alltof langt ferli og þess vegna er eðlilegt að koma einhverju batteríi á fót sem getur komið með fjármagn og styrkt góðar hugmyndir þannig að þær verði að veruleika.

Þá lýsti einn áheyrenda eftir afstöðu fulltrúanna til framhalds Dalsbrautarinnar en lagning hennar hefur verið ágreiningsefni hér á Akureyri allt frá því að þessi tengibraut var kynnt í fyrstu. Helmingur hennar er kominn en ekki er fyrirséð hvernig og hvenær framhaldi hennar verður lokið.

Nýlega voru kynntar niðurstöður athugunar á þörf fyrir Dalsbrautina sem voru á þann veg að ekki væri þörf á að ljúka henni vegna núverandi umferðarþunga en hún myndi samt sem áður verða töluverð samgöngubót. (Sjá nánar hér)

Logi: Sagði að forsendur þéttbýlis sem stendur saman af afmörkuðum hverfum væru greiðar samgöngur. Naustahverfið þyrfti þess vegna á Dalsbrautinni að halda hvað sem öðru liði.

Sigrún: Sagði að það væru mjög skiptar skoðanir um þetta mál innan Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri og menn væru hreinlega ekki búnir að komast að niðurstöðu enda væri svo stutt síðan að niðurstöður athugunarinnar um þörfina voru kynntar fyrir skipulagsnefnd bæjarins. Áheyrendur gengu á hana varðandi afstöðu hennar til málsins og viðurkenndi hún að hún væri fylgjandi því að ljúka lagningu Dalsbrautar.

Edward: Ítrekaði að Vinstri grænir væri líka stór flokkur á Akureyri eins og Sjálfstæðisflokkurinn og þess vegna við því að búast að þar væru uppi mismunandi skoðanir á þessu málefni eins og þar. Hann sagði að hann væri sjálfur frekar á móti Dalsbrautinni. Stór hópur áheyrenda lét vandlætingu sína í ljós gagnvart þeirri afsöðu hans.

Guðmundur: Sagði að það væru líka uppi mismunandi afstaða innan Framsóknarflokksins varðandi framhald á lagningu Dalsbrautarinnar. Hann benti þó á að engu að síður þá yrði brautin lögð vegna þess að sú tenging sem hún skapaði væri nauðsynleg og þess vegna óhjákvæmileg.

Sigurður: Sagðist einfaldlega vera fylgjandi lagningu Dalsbrautarinnar.

Oddur: Hóf mál sitt á því að skýra frá því að hann hefði verið á móti skipulagi Naustahverfis sem honum hefði alltaf þótt ákaflega illa heppnað en fyrir þá sem rötuðu á annað borð út úr því þyrfti tengingu við önnur hverfi svo þeir kæmust lengra til. Þess vegna væri Dalsbrautin nauðsynleg. Hann benti á að hann hefði mælt fyrir yfirbyggðum stokki þannig að ekki þyrfti að raska því svæði sem KA Hjörleifur 
Hallgrímshefði undir sína íþróttastarfsemi.

Þá var komið að síðustu fyrirspurnunum úr sal. Það voru þau Hjörleifur Hallgríms og Sigurbjörg Árnadóttir sem komu þeim á framfæri. Hjörleifur vildi ganga betur á eftir því hvernig fulltrúarnir ætluðu að mæta atvinnuleysinu í bænum með aukinni atvinnuuppbyggingu.

Sigurbjörg spurði aftur á móti um það hvernig væri hægt að réttlæta þann kostnað sem færi í undirbúning á miðbæjarskipulaginu, sem miðað við það sem fram hafði komið á fundinum stæði jafnvel ekki til í að fara í að framkvæma fyrr en eftir áratug, á meðan börn á grunnskólaaldri mættu svöng í skólann að morgni og færu þaðan svöng í lok skóladags.

Sigrún: Fékk orðið fyrst og sagði að það þyrfti að huga að framtíðinni líka um leið og það væri brugðist við þeim vandamálum sem kæmu upp.

Logi: Benti á að honum þætti samanburðurinn sem kom fram í máli Sigurbjargar ósanngjarn. Hann þakkaði svo Hjörleifi, sem er kominn með yfirvararskegg, fyrir að kynna sig því annars hefði hann staðið í þeirri meiningu að Burt Reynolds hefði setið þetta kvöld á borgarafundi norður á Akureyri annað eins og hann minnti á leikarann með þetta yfirvararskegg. Þessi athugasemd vakti mikinn hlátur bæði hjá Hjörleifi sjálfum svo og öðrum fundargestum.

Edward: Taldi ástæðu til að skoða forgangsröðunina.

Guðmundur: Tók undir með Sigrúnu og Loga og ítrekaði það mat að ekki væri hægt að setja hlutina upp á þann hátt sem Sigurbjörg gerði.

Oddur: Benti á að fulltrúar þeirra sem nú væru í meirihluta héldu því fram að ekki yrði farið í framkvæmdir við hið nýja miðbæjarskipulag fyrr en eftir fjögur, átta eða tíu ár. Að hans mati yrði það aldrei. Hann sagði viðbrögð fulltrúa meirihlutans ekkert annað en sjálfsvörn því að auðvitað væri það fáránlegt að vera að setja peninga í það sem kannski yrði aldrei. Sjálfur kallaði hann síkið ræsi.

Sigurður: Vísaði til ábyrgðar kjósenda. Ef þeir vildu breytingar myndu þeir kjósa eftir því í kosningunum núna í vor.

Þeir sem þekkja til í Deiglunni átta sig sennilega á því að þegar yfir hundrað manns eru samankomnir þar vill verða mjög heitt í salnum og loftlaust. Fundarstjórinn var farinn að finna verulega til þess og sagði um leið og hann sleit fundi að hann gæti ekki betur séð en svo væri ástatt um fleiri. Þess vegna væri rétt að slíta þessum fundi á þeim tíma sem ráð var fyrir gert þó það væri ljóst að enn brynnu ýmis mál á viðstöddum.


mbl.is Heitar umræður oddvitanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband