Ísbjörg í stað Iceslave

Nú væri auðvitað vel við hæfi að skrifa eitthvað spekingslegt um ákvörðun forsetans frá því fyrr í dag og hugsanlegar afleiðingar hennar. Ég veit ekki hvort það er í mínu valdi. Ég ætla a.m.k. að láta það vera því þegar eitthvað er aðeins hugsanlegt finnst mér heillavænlegra að bíða og sjá hver útkoman verður.

Mig langar hins vegar að nota tækifærið og skoða stjórnarparið sem hefur svo hátt og ástundar nú sem aldrei fyrr bölmóð og hræðsluáróður í tilefni þess að forsetinn ákvað að vísa þessu risastóra máli, sem Icesave-samningurinn er, til ákvörðunar þjóðarinnar. Mig langar líka til að velta upp nokkrum atriðum sem þeir, sem taka undir með áróðursmaskínunni, bera fyrir sig.

Nú veit ég að þeir eru allnokkrir sem treysta Jóhönnu og Steingrími J. best allra til þess að leiða okkur út úr þeim ógöngum sem þeir kenna Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki fyrst og fremst um. Það er sennilega best að taka það fram að það er alls ekki markmið mitt að draga úr sekt þessara flokka á hruninu sem varð hér haustið 2008.HreingerningarliðiðAð mínu viti er málið hins vegar alls ekki svona einfalt. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið í stjórnmálunum lengi. Þar af leiðandi þykir mér það í hæsta máta undarlegt að það sem var að gerast næstum því fyrir framan nefið á henni hafi farið svo fullkomlega fram hjá henni og flokkssystkinum hennar að þau hafi ekki haft neina möguleika á því að vara við hruninu eða reyna að afstýra því.

Það má heldur ekki gleymast að Samfylkingin hafði setið í stjórn í rúmt ár áður en hrunið átti sér stað. Af þessum ástæðum er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja hvernig nokkur getur ætlast til þess að mark sé takandi á rökum eins og þeim að Jóhanna sé gamalreyndur stjórnmálamaður og hafi alltaf unnið skjólstæðingum sínum af heilindum.

Viðsnúningurinn á Steingrími J. Sigfússyni er mér aftur á móti ákveðin ráðgáta. Ég velti því þó fyrir mér hvernig allar viðvaranir og önnur merki í aðdraganda hrunsins gátu farið svo fram hjá honum að hann og fylgismenn hans hafi ekki átt þess kost að spyrna við fótum og krefjast upplýsinga og skýringa. Ég er heldur alls ekki sátt við viðbrögð hans við hruninu sjálfu en allra síst því hvernig hann hefur leikið úr spilunum eftir að hann komst í ríkisstjórn!

Frá því að Steingrímur J. komst í stjórn hefur hann svikið hvert loforðið við kjósendur sína á fætur öðru. Hann hefur því miður gerst sekur um bein ósannindi líka. Ég veit ekki hvað veldur. Sumir halda því fram að ástæðan sé eftirsókn hans í völd. Ósannindin og hræðsluáróðurinn, sem hann hefur viðhaft til að styðja gjörðir sínar, séu til þess ætluð að viðhalda þeim. Einhverjir hafa líka vísað til orða Johns Perkins til að styðja þá ályktun að þessi óvænta framkoma hans stafi af því að honum hafi beinlínis verið ógnað.

Hvað sem veldur þá finnst mér viðsnúningur Steingríms J. vera svo ber að ég furða mig á því að þeir eru enn allnokkrir til sem treysta honum best til þess að leysa vanda okkar Íslendinga. Ég furða mig jafnmikið á því trausti sem hann nýtur og Jóhanna Sigurðardóttir. Ég furða mig ekki síst á því vegna þess að ég kem alls ekki auga á það að þau hafi neina stjórn á aðstæðum eða því sem þau segjast vera að vinna að.
LeiðtoginnÉg viðurkenni það að ég hafði fulla trú á Samfylkingunni þegar hún kom fyrst fram. M.a.s. svo mikla að ég hélt mér enn við þann flokk fyrst eftir að Vinstri grænir komu fram. Það var eitthvað í málflutningi og aðferðafræði Steingríms við að vinna málstað sínum og flokkssystkina sinna fylgi sem mér féll alls ekki við.

Ég kaus þó Vinstri græna við alþingiskosningarnar 2007. Reyndar fyrst og fremst vegna þess að mér fannst þeir skástir! Við hrunið haustið 2008 missti ég trú á þeim líka og nú hef ég endanlega misst alla trú á flokkakerfinu í núverandi mynd.

Ég get einfaldlega ekki haft trú á einstaklingum í ríkisstjórn og/eða stjórnarandstöðu sem forgangsraða þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir núna þannig að samskipti við erlend ríki og fjármálastofnanir gangi fyrir þeim ógnum sem heimilin í landinu þurfa að glíma við. Sú skjaldborg og þau bjargráð sem ríkisstjórnin, undir handleiðslu Jóhönnu og Steingríms, hafa reynt að telja okkur trú um að séu forsendurnar í forgangsröðun þeirra hefur ekki komið almenningi að neinu gagni, þvert á móti, enda virðast þau fyrst og fremst miða að því að skapa hér sama gróðabrallsvettvanginn og var hér í tíð útrásardólganna.
Undanhald eða sjálfsvörnEins og hefur komið fram í undanfarandi færslum mínum hér á blogginu var ég í fyrsta skipti beinn áhorfandi að því sem fram fer í þingsal alþingishússins síðustu daga þriðju umræðu um ríkisábyrgðina á Icesave. Þar rann það það upp fyrir mér, sem mig grunaði reyndar áður, að það sem gerðist við síðustu kosningar var ekkert annað en það að stjórnar- og stjórnarandstöðuliðar skiptu um hlutverk. Það eru því miður alltof, alltof fáir sem tala þar af sannfæringu eða eru í fullkomnum tengslum við það sem raunverulega fer fram úti í samfélaginu.

Ef ég mætti ráðleggja þeim Jóhönnu og Steingrími myndi ég segja þeim að byrja á því að reka ráðgjafa sína, þá Hrannar B. Arnarson og Indriða G. Þorláksson. Loka á fulltrúa fjármagnseigendanna sem keyrðu hér allt í kaf í eiginhagsmunagæslunni og snúa sér að almenningi. Í öllu því viðspyrnustarfi sem hefur sprottið hér upp úr grasrótinni eru margir sem hafa nú þegar unnið gríðarlegt starf í þeirri viðleitni að byggja upp lýðræðislegra samfélag. Ég myndi ráðleggja þeim að snúa sér að þessum aðilum.

Meðal þeirra eru miklu ábyggilegri matsaðilar en þeir sem sögðu að íslensku bankarnir væru í skínandi góðum málum fyrir hrun en segja nú að lánshæfismat íslenska ríkisins hafi lækkað niður í ruslflokk í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar (sbr. tengda frétt). Þar eru líka aðilar sem eru vel ritfærir á erlenda tungu og margir þeirra m.a.s. í góðum samböndum við hina ýmsu erlenda fjölmiðla. Margir þeirra hafa t.d. reynt ítrekað að vekja athygli á raunverulegri stöðu Íslendinga í meintri millríkjadeilu. 

Mörg okkar höfum haft af því verulegar áhyggjur hvort og hvernig ríkisstjórnin hefur kynnt stöðu okkar út á við. Það hefur svo sannarlega komið í ljós að þær  áhyggjur eiga við rök að styðjast. Ef það er virkilega markmið ríkisstjórnarinnar „að draga úr þeim skaða sem orðspor Íslands hefur beðið og byggja trúverðugleikann upp að nýju“ þá verða leiðtogar hennar að sýna það með heiðarlegri verkfærni en hingað til annars munu þau áfram sitja föst á byrjunarreit!Föst á byrjunarreit Að lokum ítreka ég enn og aftur það sem ég hef sagt aftur og aftur með mismunandi orðum: Gamli tíminn er liðinn og af honum hefur nýr tími tekið við! Gömlu aðferðirnar duga ekki til uppbyggingarinnar. Við þurfum hugarfarsbreytingu til að byggja upp það samfélag sem við höfum tækifæri til að reisa okkur og framtíðinni núna.

Hugmyndafræðin sem byggir á sérhagsmunagæslu peningavaldsins er stærsti óvinurinn í þeirri uppbyggingu sem ég er tilbúin til að taka þátt í. Ég vil samfélag þar sem jöfnuður og réttlæti ríkja! Samfélag þar sem ég get snúið mér aftur að hversdagslífinu án þess að hafa stöðugar áhyggjur af því að þeir sem veljast til valda séu að vinna að duldum hagsmunum örfárra útvaldra. 

Ef Jóhanna og Steingrímur J. telja sig hæfa til þess að taka þátt í slíkri uppbyggingu þá er tíminn til að sýna fram á það runninn upp núna! Ég treysti þeim ekki til að gera sér grein fyrir því miðað við áherslur þeirra hingað til. Þolinmæði mín gagnvart úrræðaleysi þeirra og vanhæfni er á þrotum en ég á kannski ekki annað val í stöðunni en bíða enn um sinn...


mbl.is Sammála um að lágmarka ókyrrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heitir ráðgjafinn ekki Hrannar B Arnarsson? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.1.2010 kl. 01:14

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mistök Jóhönnu og Steingríms voru að hunsa þjóðina, alveg eins og hrunstjórnin.  Stjórnin hefði getað komið betur fram við þjóðina, okkur fólkið sem borgum skattana.  En stjórnin kaus að gera það ekki, það reyndist henni dýrkeypt.  Takk fyrir góðann pistil. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.1.2010 kl. 01:18

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Júbb og takk fyrir ábendinguna Jóna Kolla Hvísla því kannski að þér síðar hvaðan hitt nafnið kom

Ég er sammála því sem þú segir um það í hverju mistök Jóhönnu og Steingríms J. gagnvart þjóðinni liggja en samkvæmt þessari greiningu Egils Jóhannssonar er e.t.v. einhverra stefnubreytinga að vænta a.m.k. hjá fjármálaráðherranum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2010 kl. 01:33

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég þekki bara einn Arnar Hauksson, hann var í gamla daga kvensjúkdómalæknirinn minn.   :)

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.1.2010 kl. 01:35

5 Smámynd: Óskar

þið torfkofaspekingar og þjóðrembupakk fáið ósk ykkar nú uppfyllta.  Forsetinn hefur tekið far með hrunlest sjálfstæðis og framsóknar sem ætlar sér að koma Íslandi til helvítis.  Megi skömm þessa fólks verða ævarandi.  Viðbjóðslegt kúlulánahyski, landráðapakk, þjófar og smásálir.  Forsetinn verstur.

Óskar, 6.1.2010 kl. 01:41

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

PS: Myndirnar hans Halldórs eru alveg yndislegar, hann er næmur á það að finna veiku punktana hjá stjórnmálamönnunum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 6.1.2010 kl. 01:42

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Óskar: Þú mátt svo sannarlega blóta þeim sem ollu hruninu og það m.a.s. á minni síðu! Hins vegar veit ég ekki hvað þú meinar með fyrstu málsgreininni. Núverandi ríkisstjórn vill meina að það sé skylda þjóðarinnar að taka á sig skuldir þeirra sem opnuðu útibú íslenskra banka í evrópskri lögsögu. Þessir bankar voru í einkaeigu þegar spilaborg þeirra hrundi.

Það er óhjákvæmilegt að þetta gróðabrall bitni á íslensku samfélagi en finnst þér virkilega réttlætanlegt að við verðum svo kyrfilega knésett að íslenskur almenningur eigi að borga þær skuldir sem eigendur þessara bakna stofnuðu til? Taktu líka eftir því að þeir leika enn lausum hala. Sumir þeirra hafa m.a.s. komið sér svo vel fyrir í skjóli Samfylkingarinnar að þeir hafa tryggt sér meiri hluta eign í gagnaveri sem er verið að reisa vestarlega á Reykjanesi í skjóli iðnaðarráðherra sem kemur úr röðum Samfylkingarinnar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2010 kl. 01:59

8 Smámynd: Óskar

Rakel það er margbúið að fara í gegnum þessa umræðu, INNISTÆÐUTRYGGINGASJÓÐURINN VAR TÓMUR en hann átti ekki að vera það. Honum ber að vernda innistæður upp að 20.887 Evrum. Það er álitaefni hvort það sé lagaleg skilda Íslands að borga þetta en líklega er það nú þannig- allavega er það siðferðislega skilda eða finnst þér réttlætanlegt að allt tjónið lendi á SKATTBORGURUM ANNARRA LANDA SEM ÁTTU ENGAN ÞÁTT Í ÞESSU?

Svo segir þú að almenningur eigi ekki að borga það sem hann stofnaði til. já semsagt, bara láta almenning í öðrum löndum borga þetta! svo eru menn hissa á að gífurleg reiði ríkir í garð Íslendinga í Bretlandi og Hollandi og ENGIN, ÉG ENDURTEK ENGIN þjóð tekur upp málstað okkar vegna þess að hann er einfaldlega ansi ljótur.

Já Rakel, stundum borgar maður eitthvað sem maður á engan þátt í, ég kem aldrei norður í land og mun ALDREI aka Héðinsfjarðargöng eða aðrar holur norðan Hvalfjarðar. Samt fara skattarnir mínir í þetta byggðastefnurugl. Þú þarft ekki að hafa áhyggur af gagnaveri eða annarri stóriðju,- ákvörðun forseta þýðir að hingað kemur ekkert fjármagn til slíkra verka, atvinnuleysi eykst stórlega, krónan hrynur endanlega og allt lamast hér. Þessu virðist þú fagna. Ég er ansi hræddur um að þú og fleiri nagið ykkur í handarbökin þegar þið sjáið hvað forsetinn hefur kallað yfir þjóðina.

Þetta hefur Ekkert með það að gera að útrásarpakkið gengur allt laust, ég er alveg sammála þér að allt þetta pakk á að vera komið inná Litla Hraun fyrir löngu en það kemur þessu máli bara ekkert við.

Óskar, 6.1.2010 kl. 02:39

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég sé að þú tilheyrir hræðsluáróðursmaskínunni sem ég er m.a. að gagnrýna í færslunni minni hér að ofan. Ég veit ekki hvaða miðlar það eru sem þú treystir á en ég sé að ég myndi seint gera þá að mínum miðað við þá framtíðarsýn sem þú situr uppi með. Ég hef svar mitt ekki lengra þar sem mér sýnist þú sitja fastur í því svartnætti sem þú hefur reist þér. Ég vona bara þín vegna að þú losnir þaðan fljótlega!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2010 kl. 02:48

10 Smámynd: Óskar

já Rakel þú getur kallað þetta hræðsluáróður, en bíddu við , HVAÐ HÖFUM VIÐ ÞEGAR SÉÐ INNAN VIÐ SÓLARHRING FRÁ ÁKVÖRÐUN FORSETA ? LÁNSHÆFISMAT ÍSLANDS FALLIÐ Í RUSLFLOKK! Kanski veist þú ekki hvað það getur þýtt fyrir þjóðina en þá mæli ég með því að þú bloggir frekar um íþróttir og hannyrðir frekar en flókin fjármál og milliríkjadeilur. Afneitun ykkar "nei sinna" á ástandið er alveg með ólíkindum. Fyrst var hún hlægileg en nú er þetta hreinlega orðið sorglegt, sorglegt að forseti á vinsældaveiðum hlusti á ykkur og sorglegt að þeir Íslendingar sem áfram vilja góð samskipti við siðmenntaðar þjóðir þurfi nú að líða fyrir atburði þessa dags sem verður merktur í sögubókum sem einn sá svartasti í Íslandssögunni.

Óskar, 6.1.2010 kl. 04:37

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Menn sem grípa til persónulegs niðurrifs á engum forsendum eru að mínu mati í of miklu tilfinningalegu uppnámi til að hægt sé að eiga við þá heiðarlega rökræðu. Ef þú telur þig hins vegar hafa forsendur til að álykta sem svo að ég viti ekkert um það sem þú kallar „flókin fjármál og milliríkjadeilur“ þá skil ég ekki af hverju þú ert yfir höfuð að eyða orðum í athugasemdir á þessa færslu!

Hvað framtíðina varðar þá myndi ég ráðleggja þér að tala við annan miðil. 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.1.2010 kl. 04:58

12 Smámynd: Ólafur Als

Rakel, hér mælir þú af skynsamlegu viti þó svo að ekki sé ég þér sammála um allt - en það er nú eins og það er. Það er erfitt að henda reiður á sumar rangfærslur Óskars en ein er t.d. sú að tryggingasjóðurinn var ekki tómur, heldur veigalítill vegna þess hve stórt hlutfall bankakerfisins féll. Hann hefði e.t.v. ráðið við fall Sparisjóðs eða lítils banka en eins og menn vita féll um 90 % bankakerfisins. Hann var því aldrei í stakk búinn til þess að mæta svo stóru áfalli og um þetta hefur m.a. verið fjallað útfrá tilskipuninni frægu sem við undirgengumst og var ætlað að taka á falli lítils hluta bankakerfisins hverju sinni.

Það er vissulega vont ef málið er sett þannig fram að Íslendingar ætli að koma sér undan ábyrgð en verra er ef takast á við kvaðir sem ekki verður ráðið við. Kvaðir, sem slá t.d. við klifjunum sem settar voru á þýska þjóð að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni. Í erlendum fjölmiðlum ganga menn svo langt að segja að Íslendingar ætli sér ekki að greiða lán sem þeim hafi verið veitt. Þess konar rangfærslur ráða m.a. viðhorfi margra erlendis og íslensk stjórnvöld, m.a. með dyggum stuðningi einstaklinga á borð við Óskar, er fyrirmunað að tala máli íslenskra skattgreiðenda erlendis.

Eins er ítrekað af sumum að siðferðisskylda okkar sé rík og þó svo að ekki sé vilji hjá mér að koma mér undan henni þá verður að styðja hana með umræðu og rökum. Íslensk yfirvöld bera vissulega ábyrgð en það hefur komið skýlaust fram að hún liggur einnig hjá breskum og hollenskum stjórnvöldum. Einnig má á það benda að hávaxtareikningar Icesave eru í eðli sínu áhættureikningar, alltjent er það viðhorf algengt erlendis að líta svo á þegar mun hærri vextir bjóðast en almennt gerist á markaði.

Annars er talið um lánshæfismat frekar skondið en nokkuð annað. Lánalínur til Íslands eru lokaðar, hvort sem við erum í ruslflokki eða flokki þar fyrir ofan. En vissulega er það ekki til eftirbreytni að eitt lánshæfisfyrirtækjanna fari þessa leið. Ætli upplýsingar um skárri efnahag, að skuldastöðunni slepptri, hafi komist almennilega til skila á erlendum vettvangi. Hvar eru talsmenn ríkis og Seðlabanka að kynna þá góðu stöðu sem efnahagurinn er þó í og ríkisstjórnin virðist stæra sig af? Að hann skuli ekki vera verri en orðið er?

Ég held að ríkisstjórninni bjóðist nú einstakt tækifæri til þess að sameina þjóðina ef hún og fylgismenn hennar láta af hræðsluáróðri sínum og fari að vinna að hagsmunum þjóðarinnar á erlendir grund. Jafnvel með því að skjóta málinu til Evrópusambandsins, það ætti að hugnast krötum að leiða málið til lykta á þeim vettvangi. Að vísu hef ég ekki áhuga á bitlingum frá Brussel en hagur okkar í þessu máli er aðalatriðið - annað verður afgreitt á öðrum vígstöðvum.

Ólafur Als, 6.1.2010 kl. 05:22

13 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Vel skrifað Rakel og hefði ég aðeins brot af þínum gáfum yrði ég hamingjusamur

Umskipti Steingríms eru stórundarleg. 

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 6.1.2010 kl. 20:31

14 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Frábært innlegg Rakel.

Sigurður Haraldsson, 7.1.2010 kl. 00:53

15 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Óskar spyrjum að leikslokum notum allt sem við eigum til að ná fram réttlæti óháð einhverri flokkspólitík og svívirðingum.

Sigurður Haraldsson, 7.1.2010 kl. 08:15

16 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ólafur: Þakka þér fyrir innlit og innlegg. Ég er alls ekkert viðkvæm fyrir því þó það séu ekki allir sammála mér en mér þykir vænt um að þér þyki ég mæla af skynsamlegu viti. Mér finnst það líka eiga við um innlegg þitt og dáist af þolinmæði þinni við að svara Óskari.

Ég mætti sennilega taka þig til fyrirmyndar hvað þolinmæðina varðar Ekki það að ég hafi neitt á móti skynsamlegum og málefnalegum rökræðum en mér finnst skorta töluvert upp á þetta tvennt hjá Óskari. Mig skortir alls ekki þolinmæðina í slík skiðanaskipti en þegar gagnaðilinn gerir sig uppvísan af vafasömum fullyrðingum bæði um málefnið og þann sem að hann er að ræða við dreg ég oftast nær í hlé. A.m.k. er tilraunir til að leiða umræðuna inn á vitsmunalegt plan eru virtar að vettugi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.1.2010 kl. 20:43

17 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ari: Þú hefur enga ástæðu til að gera lítið úr þínum gáfum! Þú hefur sjálfur skrifað marga góða pistla sem ég hefði sjálf ekki treyst mér og skrifa. Gaman að fá staðfestingu á því að þú lítur sömu augum á einhverja af mínum

Sigurður: Takk fyrir það og fyrir síðast!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.1.2010 kl. 20:45

19 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Óskar - hver íslendingur þarf að bera 2,4 milljónir Kr. á meðan að hver hollendingur eða breti þarf að borga 10 þúsund Kr. per haus - þ.e. ef þeir bera kostnaðinn.

Þetta er því sem munar, að deila upphæð með 300þús. manns eða 77 milljón.

Breskumr og hollenskum skattborgurum, munar ekki um þetta.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.1.2010 kl. 23:16

20 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Annars er talið um lánshæfismat frekar skondið en nokkuð annað."

Nákvæmlega, fengum engin lán - hvorki til að endurnýja lán né til að dreifa byrðum á lengri tíma frá óhagstæðu láni - á síðasta ári.

Allt hefur verið lokað, síðan eitt stórt lán fékkst í tíð ríkisstj, Geira og Sollu, til að endurfjármagna Seðló.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.1.2010 kl. 23:19

21 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Samkvæmt þeim yfirlýsingum sem hafa verið viðhafðar af þeim sem eru fylgjandi því að við, íslenskur almenningur, greiðum Icesave er allt búið að vera á leið til fjandans  nema við göngum að því í einum grænum hvelli í meira en hálft ár. Merkilegt nokk þá höfum við ekkert færst nær þeim stað en við vorum fyrir. Við erum enn á sama stað og við hrun bankanna.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.1.2010 kl. 03:25

22 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Rakel við erum ekki á sama stað og við hrun bankana við erum á verri stað því enn er verið að hlífa þeim sem komu okkur í þessi vandræði, þeir ganga lausir og toga í spotta til að stjórna sér í hag. Þetta með icesave er mjög gruggugt það átti að fara í gegn sama hvað það kostaði ein og ég hef bent á þá var þar um að ræða pólitískri nauðgun á hendur sumra flokksbræðra ríkisstjórnarinnar og einn ellihrumur maður vanheill á geði var látin kjósa með því er til marks um hvað alvarlegt mál var á ferð. Herra Ólafur Ragnar Grímsson gerði okkur mikinn greiða með því að neita að skrifa undir nú er tækifærið að stokka upp.

Sigurður Haraldsson, 10.1.2010 kl. 12:15

23 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég tek undir með því með þér að við erum ekki á sama stað og við hrunið. Okkur miðar heldur aftur á bak. A.m.k. lítur út fyrir það einmitt núna. Ég er þó á því að ef rétt verður spilað úr ákvörðun forsetans þá muni okkur miða áfram. Sú samfélagsvakning sem hefur orðið sýnileg á Austurvelli, á hlaðinu á Bessastöðum og víðar eru þau framfaraskref sem við höfum orðið vitni að þrátt fyrir allt.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.1.2010 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband