Einstakur þingmaður!

Lilja MósesdóttirLilja Mósesdóttir er einn af mínum uppáhaldsstjórnmálamönnum. Hún hugsar út fyrir þann ramma sem íslensk stjórnmál eru búin að takmarka sig inni í. Þegar hún fjallar um sérfræðisvið sitt styðst hún við orðaforða sem allir hafa möguleika á að skilja. Með öðrum orðum er Lilja óhrædd við að standa með almenningi án nokkurra felutjalda orðskrúðs og klisja enda er hún heil í stuðningi sínum við hann.

Ég, eins og aðrir landsmenn, kynntist málflutningi Lilju fyrst í gegnum borgarafundina í Reykjavík. Þar kom hún fram á einum af fyrstu fundunum sem haldnir voru í Iðnó og vakti þegar athygli fyrir það að fjalla um það sem lýtur að hennar sérfræðisviði, hagfræði, á mjög skýran og auðskiljanlegan hátt. 

Þetta sætti tíðindum haustið 2008 þar sem langflestir innlendir spekingar sem gáfu sig út fyrir að kunna eitthvað fyrir sér í hagfræði töluðu þannig að enginn skildi upp né niður. Það er reyndar ákveðin aðferð sérfræðinga sem líta svo stórt á sig að þeir telja það til vitnis um stórfengleik þekkingar sinnar að tala þannig að enginn skilji þá.

Hitt er svo ekki síður algengt að þeir sem gefa sig út fyrir að vera sérfræðinga á tilteknu sviði tala þannig að enginn geti skilið til að útiloka efasemdir og spurningar varðandi kenningar þeirra. Því miður nota líka einhverjir þessa aðferð til að fela sína eigin vanhæfni. M.ö.o. það skilja því miður ekki allir fagið sem þeir hafa menntað sig til þó þeir hafi náð tilskildum árangri á háskólaprófi og þannig hlotið leyfi til að titla sig sérfræðing á tilteknu sviði. Þeirra leið til að breiða yfir getuleysið er tungutak sem einkennist af óskiljanlegum en innihaldslausum orðavaðli sem við fyrstu áheyrn kann að hljóma gáfulega en um leið situr ekkert eftir.

Lilja fer allt aðra leið eins og kom svo vel fram í ræðu hennar á borgarafundinum í Iðnó sem var haldinn 27. október 2008: 


Ég man enn eftir því hvað margir fögnuðu þessum fyrirlestri Lilju. Ekki síst fyrir heiðarlegan málflutning hennar sem kom hvað best fram í því að hún talaði um „flókna“ hluti á skeleggan og auðskilinn hátt. Þeir sem hlýddu á ræðu hennar áttuðu sig á því að umfjöllun um hagfræði þurfti alls ekki að vera svo flókin. Það fór allt eftir þeim sem talaði. Þeir hagfræðingar sem höfðu ekkert að fela töluðu um sitt sérfræðisvið á þann hátt að allir áheyrendur gátu fylgt honum eftir og skilið.

Lilja flutti annan fyrirlestur á borgarafundi í Iðnó 8. nóvember 2008. Í fyrirlestrinum varaði hún við viðskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þeim seinni lýsti hún yfir áhyggjum sínum yfir ráðaleysi íslenskra ráðmanna sem væru „fastir í vinnubrögðum og hagsmunatengslum gamla Íslands“.

Það er vel þess virði að rifja það upp sem núverandi þingmaðurinn, Lilja Mósesdóttir, sagði í þessum fyrirlestrum sínum á borgarafundunum sem haldnir voru í Iðnó á áliðnu hausti 2008. Ég hvet ykkur líka til að fylgjast vel með því sem þessi réttlætissinnaði og kjarkaði þingmaður hefur til málanna að leggja inni á þingi og í fjölmiðlum. Það er full ástæða til að taka það fram hér að sem betur fer þá heyrist rödd hennar eitthvað í fjölmiðlum þó fjölmiðlamenn mættu vissulega stuðla að því að rödd hennar fengi að njóta sín í miklu ríkari mæli bæði í prent- og ljósvakamiðlum !

Upphaflegt tilefni þessara skrifa var að vekja sérstaka athygli á grein á visir.is eftir Lilju Mósesdóttur. Þessi grein hennar ber yfirskriftinni Icesave er uppgjör almennings við fjármagnseigendur. Þar segir Lilja m.a:

Ef þjóðin hafnar frumvarpinu taka gildi lög um ríkisábyrgð sem samþykkt voru í lok ágúst með fyrirvörum Alþingis. Fyrirvarar Alþingis voru afar mikilvægt fordæmi fyrir skuldsettar þjóðar um að hægt væri að rísa upp og segja hingað og ekki lengra. Skilaboð Alþingis með fyrirvörunum voru að Íslendingar viðurkenni skuldbindingar sínar en borgi aðeins þær skuldir sem þjóðin ræður við að greiða án þess að fórna velferð komandi kynslóða.

Það er ljóst að Icesave snýst ekki um líf vinstristjórnar heldur hagsmuni íslenskra skattgreiðenda. (leturbreytingar eru mínar)

Ég hvet alla til að lesa þessa grein Lilju Mósesdóttur í heild. Ómenguð réttlætiskennd hennar og skýr málflutningur, sem koma fram þar og í öllu öðru sem ég hef séð og heyrt til hennar hingað til, gerir allt sem frá henni kemur ákaflega aðgengilegt. Hún sjálf er líka einstakur þingmaður enda einn af örfáum sem ég treysti af heilum hug!


mbl.is Þing klukkan 10:30 á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þeir sem standa sig vel og reyna að verja þjóð sýna eiga hrós skilið Lilja er ein af þeim

Sigurður Haraldsson, 8.1.2010 kl. 00:47

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Greinin hennar Lilju er mjög góð, ég er samt að vona að við sleppum við að borga IceSlave með fyrirvörunum líka.  Að sest verði að samningaborði eða að dómstólaleiðin verði farin.  En það eru víst óraunhæfar væntingar hjá mér.  Mér finnst það vera réttlætismál að dómstólaleiðin verði farin. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 8.1.2010 kl. 00:48

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég tek undir með þér Jóna Kolla. Hins vegar finnst mér Icesave-lögin frá því í sumar illskárri kostur vegna þess m.a. að þar er ekki lokað á dómstólaleiðina eins og í þeim sem við fáum nú tækifæri til að kjósa um. Sjá t.d. hér.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.1.2010 kl. 01:00

4 identicon

Sæl. Hjartanlega sammála þér um Lilju.

Má samt til með að bæta þessu við þar sem þú bloggar um þinghald á morgun.

Því miður virðist það vera svo að stjórnin sem þegar á eitt frumvarp lyggjandi á þinginu um þjóðaratkvæðagreiðslur, virðist ekki hafa áhuga á að afgreiða almennilegt, framtíðar líðræðis frumvarp frá þinginu. Það er lagt til hliðar, rétt eins og þetta hér:

http://www.althingi.is/altext/138/s/0005.html      Sem gengur lengra.

 þetta er bara einnota bastarður sem þau ætla að reka nú í gegn með látum. Til að tjónka 4flokka batteríinu sem vill eingöngu lýðræði í orði en ekki á borði. Og fussum svei, alls ekki færa það til fólksins. Væri til betri áramótagjöf til fólksins en að færa þeim alvöru lög um þessa hreinustu lýðræðis gjörð sem  þjóðaratkvæðagreiðslur eru?

P.S.  Jóhanna á sjálf um 10 tillögur á alþingi fyrir lögum hér að lútandi . En þær henta ekki Forsætisrádherrum.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 8.1.2010 kl. 01:00

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlitið og innleggið Arnór. Ég er þér líka hjartanlega sammála um vitleysisganginn varðandi þjóaratkvæðagreiðsluna. Til hvers að semja einnota frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðsluna og eyða tímanum í að karpa um það fram og til baka í stað þess að vinna áfram með þau sem þegar eru fyrir hendi? Svarið virðist einmitt vera það sem þú gefur þér.

Endurbætur á lýðræðinu virðist alls ekki vera á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Reyndar veit ég að flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru alfarið á móti slíkum lýðræðisumbótum og felast í þeim hugmyndum sem þegar hafa verið ræddar inni á þingi um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir spila úr stöðunni varðandi þetta mál núna

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.1.2010 kl. 02:47

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Lilja er hetja og talar íslensku.

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 8.1.2010 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband