Að einkavæða skuldirnar og þjóðnýta tapið

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í gær og mér þykir við hæfi að tengja hana við þessa frétt. Ég tek það fram að fréttin sló mig verulega þar sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, hefur ekki tjáð sig fyrr um það sem fram hefur farið í samfélaginu frá hruninu haustið 2008. Það hefur hún ekki gert þrátt fyrir að á hana hafi verið gengið en hún kýs að gera það nú degi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um þetta viðkvæma Icesave-mál.

Frá bankahruninu haustið 2008 hefur það blasað við öllum sem vilja skilja að krafa fjármálaelítunnar á kostaða stjórnmálastétt er sú að hún tryggi það að gróði hennar verði einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Þetta er kjarni þess sem skilur að hinar andstæðu fylkingar sem hafa verið kenndar við JÁ-ið og NEI-ið.

Einhverjir hafa reynt að halda því fram að Icesave-málið sé alltof flókið fyrir „venjulegt“ fólk að skilja. Ég bið fólk um að varast slíkan áróður. Í reynd snýst málið fyrst og síðast um tvo andstæða póla sem má kalla A og B.  

A) Snýst um það hvort hagsmunir fjármagnseigenda eru settir á oddinn með því að herða að kjörum almennings í gegnum skatta- og velferðarkerfið.

B) Snýst um það hvort réttlætið verður látið ráða ríkjum þannig að sömu lög gildi um hvítflibbaglæpi og aðra auðgunarglæpi eins og bókhaldssvik og innbrot.

Það er okkar almennings að gera upp hug okkar hvað þetta varðar. Ef við segjum JÁ erum við þar með að viðurkenna að almenningi beri að taka á sig skuldir einkafyrirtækja en ef við segjum NEI erum við að kalla eftir því að þeir sem stofnuðu til Icesave-skuldanna verði látnir bera tjónið af sinni glæfrastarfsemi sjálfir.

Ég bið kjósendur að hafa það hugfast að íslenskur almenningur nýtur þeirra öfundsverðu forréttinda að fá að segja til um það sjálfur hvort hann tekur á sig skuldir einkabanka, eins og Landsbankans, eða ekki. Ég bið kjósendur jafnframt að taka sérstaklega eftir því að þeir sem reka stífan áróður fyrir því að almenningur eigi að bera byrðarnar af Icesave er sama eigna- og valdastéttin og leiddi okkur í hrunið haustið 2008.

Hér hefur nefnilega ekkert uppgjör farið fram þannig að það eru sömu spillingaröflin sem reyna að afvegaleiða okkur nú og þau sem töldu okkur trú um að allt væri í himnalagi í aðdraganda hrunsins. Það ætti öllum að vera í fersku minni hvert það leiddi samfélagið að taka mark á orðum þeirra þá.

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

og meðlimur í Samstöðu þjóðar gegn Icesave


mbl.is Vigdís styður samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-ælan

Við Helga Þórðardóttir erum meðal þeirra sem hafa starfað undir merkjum Samstöðu þjóðar gegn Icesave undanfarnar vikur. Eitt af því sem við höfum lagt til baráttunnar gegn því að þessi nýi Icesave-samningur verði lagður á þjóðina er þátttaka í ritun bréfs til forseta Evrópusambandsins og stuðningur við bréf Gunnars Tómasonar til framkvæmdarstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og forseta Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins.

Erindunum sem var komið á framfæri í þessum bréfum hefur lítt eða ekkert verið sinnt. Það sem er enn sorglegra er að íslenskir ráðmenn svo og nær öll fjölmiðlastéttin hafa tæpast virt brýn erindi þessara bréfa viðlits. Við Helga lögðumst því í það að skrifa greinar til að draga frekari athygli að innihaldinu. Allt kom fyrir ekki.

Greinarnar urðu alls fjórar. Morgunblaðið birti eina þeirra (ég birti hana líka hér) en Fréttablaðið sniðgekk tvær og pressan.is þá fjórðu. Ein þessara greina birtist á svipan.is í morgun, önnur á kjosum.is nú undir kvöld en sú fjórða birtist hér. Það er sú sem pressan.is sniðgekk en eins og fyrirsögnin og innihaldið bera leggjum við út af þessum orðum  Tryggva Þórs Herbertssonar. En hér er greinin:

                               ><>   ><>   ><>  ><>

Æla er magainnihald sem líkaminn hefur ákveðið að losa sig við vegna þess að það er líkamanum skaðlegt. Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður, hefur líkt Icesave við ælu en ætlar samt að kyngja henni. Gunnar Tómasson, hagfræðingur, telur aftur á móti að hún sé best komin í dallinum.

Gunnar skrifaði bréf til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominiques Strauss-Khan og forseta Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuels Barrosos. Við vorum ellefu sem skrifuðum undir þetta bréf.  Þar bendir Gunnar Tómasson á að Icesave-ælan gæti reynst þjóðinni hættuleg.

Í bréfinu kemur fram að horfur Íslands séu verri en menn gerðu ráð fyrir við gerð hinna svokölluðu Brussels-viðmiða í nóvember 2008. Þar var gert ráð fyrir að taka ætti tillit til efnahagsaðstæðna Íslands við gerð Icesave-samninganna.

Nú hefur komið fram að á næstu árum verða tekjur landsins minni og skuldir hærri en gert var ráð fyrir. Gunnar Tómasson bendir á að í núverandi Icesave-samningi er ekki tekið mið af þessu staðreyndum. Álit sitt byggir hann á nýútkominni skýrslu AGS. Hann vann þar árum saman og skilur því manna best tungutak þeirrar stofnunar.

Gunnar bendir á þá staðreynd að skuldir Íslands eru það miklar að ekki er hægt að standa við Icesave-samninginn. Hann bendir  reyndar á að skuldirnar gætu vel verið ósjálfbærar og það án Icesave. Þess vegna telur Gunnar Tómasson að Icesave-ælan sé best komin í dallinum og ekki sé á það hættandi að kyngja henni. Timburmennirnir eftir fylliríið fyrir 2008 eru Tryggva Þór hins vegar svo þungbærir að honum virðist Icesave-ælan jafnvel svalandi.

Að ætla okkur hinum að kyngja ælunni með honum er engan veginn við hæfi!


Bloggfærslur 9. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband