Gæti utanþingsstjórn styrkt ímyndina?
8.11.2010 | 00:52
Ég man enn skömmina sem ég fann til við fyrstu fréttirnar af hruninu. Ekki styrktist sjálfsímyndin við fréttir næstu daga. Ég lýsti tilfinningum mínu í ræðu sem ég hélt á fyrsta borgarafundinum sem var haldinn á Akureyri með þessum orðum:
Sjálfsmynd mín sem Íslendings hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli vegna þess sem hefur dunið á þjóðinni að undanförnu. Ég er reyndar viss um að það eru margir í sömu sporum og ég hvað það varðar. Framkoma stjórnvalda gagnvart íslensku þjóðinni í kjölfar nýliðinna atburða veldur því að sjálfsvirðing mín heldur áfram að molna niður. (Sjá hér)
Ég hef aldrei velkst í neinum vafa um það að íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á því hvernig fór. Eins er ég í engum vafa um að þau bera ábyrgð á núverandi stöðu. Það mátti láta sig dreyma um það að eitthvað myndi breytast við kosningar eins og háværasta krafa búsáhaldabyltingarinnar hljóðaði upp á en ég deildi ekki þeirri bjartsýni með meginþorranum.
Því miður hefur það komið í ljós að svartsýni mín, og reyndar fleiri, var á rökum reist. Þess vegna hef ég átt þátt í því að endurvekja þá kröfu sem mér var alltaf efst í huga (sjá hér). Þ.e.a. leysa gömlu flokkanna sem áttu allir sína hlutdeild í því að sitja sofandi hjá viðvörunarmerkjunum um það hvert stefndi. Sumir stýrðu þjóðinni beinlínis í hrunið með gjörðum sínum og/eða andvaraleysi. Aðrir gegndu ekki hlutverki sínu sem stjórnarandstöðuflokkar.
Í dag er það orðið fullljóst að fjórflokkurinn er sekur um að gegna fyrst og síðast eigin hagsmunum. Þeir hafa allir komið að stjórn landsins á undanförnum fimm árum með þeim árangri að sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins er í molum!
Eitthvað þarf að gera til að leiðrétta þær alvarlegur afleiðingar sem stjórnir þessara flokkar hafa haft á: efnahagslífið, stjórnmálinn, sjálfsmynd þjóðarinnar og ímynd landsins. Enginn framantalinna flokka er fær um það. Enginn annar flokkur eða stjórnmálaafl hefur aflað sér nægilegs fylgis til að geta tekið við af gömlu flokkunum.
En landið þarf að lúta einhverri stjórn. Sveinn Björnsson sem var ríkisstjóri á árunum 1942-1944 leysti úr þeirri stjórnmálakreppu sem hann stóð frammi fyrir með utanþingsstjórn. Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti, hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að þessi leið sé fær í núverandi kreppu sem er mun umfangsmeiri og alvarlegri en sú sem Sveinn Björnsson stóð frammi fyrir á sínum tíma.
Þessi undirskriftarsöfnun er einhvers konar svar við þessum hugmyndum forsetans. Það er hins vegar ljóst að hún veldur umfangsmiklum titringi meðal þeirra sem ég leyfi mér að kalla fylgismenn vinstri sértrúarsafnaðanna. (Sjá viðbrögð mín við skrifum sumra þeirra hér)
Hræðsluáróðrinum gagnvart hugmyndinni um utanþingsstjórn er ábyggilega hvergi nærri lokið. Nýjasta dæmið sem ég hef rekist á er frá Össuri Skarphéðinssyni og hinn sérlundaði Ármann Jakobsson dælir frá sér niðurrifinu á allt og alla sem hafa gert sér dælt við hugmyndina. Árásinra verða eflaust fleiri og sennilega illskeyttari. Ég met það svo að ástæðan sé sú að hér er um raunhæfa og framkvæmanlega hugmynd að ræða. En ef hún yrði að veruleika myndi hún að sjálfsögðu svipta núverandi stjórnvöld þeim sérréttindum sem þeir búa að nú.
Þeir eru þó til sem velta þessari hugmynd fyrir sér út frá allt öðrum forsendum. Áður en ég vík að sterkasta dæminu um það þá ætla ég að bregða upp möguleikunum sem eru fyrir hendi við núverandi kringumstæður:
- Þjóðstjórn
- Kosningar
- Utanþingsstjórn
- Blóðug bylting
- Landflótti
Í mínum huga hefur núverandi þing sýnt það og sannað að þeim er gjörsamlega ómögulegt að vinna saman. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með að rökstyðja það neitt sérstaklega þar sem dæmin eru svo mýmörg að allir þeir sem hafa á annað borð fylgst með því sem fram hefur farið á yfirstandandi þingi hljóta að gera sér grein fyrir sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar að samvinnugrundvöllur er ekki fyrir hendi.
Kosningar myndu vafalaust skila einhverju nýju fólki inn á þing. E.t.v. myndu líka koma fram ný framboð sem kæmu einhverjum að en miðað við skoðanakannanir myndi Sjálfstæðisflokkurinn að öllum líkindum verða sá flokkur sem yrði í bestri aðstöðu til að mynda meirihluta stjórn. Auðvitað yrði það óskastaða þeirra sem vilja viðhalda óbreyttu kerfi. Þ.e. því kerfi sem keyrði efnahagslíf landsins í þrot. Það ætti því að segja sig sjálft að ný stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi væri síst af öllu til þess fallinn að bæta ímynd landsins hvað þá sjálfsmynd þjóðarinnar.
Þá er það þriðji möguleikinn sem hlýtur að teljast fýsilegri en möguleikar 4) og 5). Að mínum viti er hann illskásti möguleikinn af öllum fimm. Þess vegna gerðu aðstandendur tunnumótmælanna utanþingsstjórn að kröfu sinni sl. fimmtudag. Við Ásta Hafberg sem erum þær sem eru ábyrgðarmenn undirskriftarlistans um utanþingsstjórn (Sjá hér) skrifuðum þingmönnum bréf þar sem við drógum fram ástæður þess að þeim væri ekki treystandi lengur fyrir stjórn landsins. Bréfinu lukum við á þessum orðum:
Þess vegna skorum við á ykkur að svara kalli tunnanna um slíka lausn. Þið hafið tækifæri til að brúa það bil sem er á milli þings og þjóðar með því að taka af skarið núna og samþykkja utanþingsstjórn þegar í stað. Þið eruð líka í aðstöðu til að bregðast við þessu kalli með því að skapa henni lýðræðislega umgjörð og taka þátt í umræðunni um það hvernig að skipun hennar verður staðið í samvinnu og sátt við íslenska þjóð. (Sjá hér)
Svör hafa borist frá fimm þingmönnum (eins og kemur fram hér). Ég hef fengið leyfi eins þeirra til að birta svar hans. Það er líka sínu merkilegast af þeim sem hingað til hafa borist. Ég ætla ekki að birta nafn viðkomandi þingmanns strax en tek fram að hann er í stjórnarandstöðunni og hefur setið á Alþingi frá 2007. Þetta er svarið sem hann sendi ekki bara á mig og Ástu heldur alla þingmenn líka:
Sæl Rakel,
það að krefjast utanþingsstjórnar er fullkomlega réttlætanlegt að mínu mati. Ég bendi líka á að fyrir ekki svo löngu síðan sátu í ríkisstjórninni tveir utanþingsráðherrar. Án vafa þeir tveir sem nutu hvað mest trausts hjá þjóðinni.
Þó að forseti myndi skipa utanþingsstjórn þá sæti Alþingi áfram. Hinir lýðræðislega kjörnu fulltrúar þjóðarinnar, Alþingismenn, sætu áfram í sínum stólum. Þetta myndi líklega gera það að verkum að Alþingi myndi styrkjast gagnvart framkvæmdavaldinu en eins og staðan er í dag má halda því fram að Alþingi sé valdalaust gagnvart hinu svokallaða ráðherraræði eða flokksræði.
Ég er algerlega ósammála því sem haldið er fram hér að neðan að verið sé að framselja umboð almennings í hendur eins manns. Bendi líka á að hann er lýðræðislega kjörinn af þjóðinni og hefur það stjórnarskrárbundna hlutverk að koma á starfshæfri Ríkisstjórn.
Bestu kveðjur,
Nú velti ég því fyrir mér hvaða þýðingu þetta bréf muni hafa og hvort þeir þingmenn sem hafa talað um handónýtt Alþingi muni bregðast við og styðja það sem hér segir. Ég sjálf hef heyrt sex þingmenn viðurkenna að þingið sé valdalaust eins og segir í þessu bréfi. Þrjá stjórnarþingmenn og þrjá stjórnarandstöðuþingmenn.
Hins vegar er ljóst að þeir sem vilja viðhalda því kerfi, sem hefur ekki aðeins sökkt ímynd landsins heldur lætur þjóðina gjalda glæpamannanna sem tryggðu þeim völdin með bitlingum og bónusum, eru skíthræddir um að glata sérréttindunum og fríðindunum sem þeir njóta.
Efnahagur landsins og sjálfsímynd landans líða fyrir það að þjóðin situr uppi með stjórnvöld sem hafa verið meira og minna kostuð til valda af einstaklingum sem finnst það eðlilegt að þeir njóti þeirra forréttinda að lifa í vellystingum þó verkamennirnir sem halda þeim uppi hafi varla í sig á fyrir það hvað þeir eru frekir á fóðrum.
Á meðan stjórnvöld láta slíka mismunum líðast munu afleiðingar hrunsins halda áfram að elta þjóðina í formi atvinnuleysis, gjaldþrota, eignamissis, brottflutninga og sjálfsmorða. Ef stjórnvöld ráða ekki við að horfast í augu við sína pólitísku ábyrgð og fara einu skynsamlegu leiðina sem nú er í sjónmáli þá eigum við annað tveggja víst: blóðuga byltingu eða landflótta nema hvort tveggja verði.
![]() |
Ímynd Íslands í molum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)