Færsluflokkur: Spaugilegt
Fórnarlömb kynhormónasveiflna!?
8.2.2009 | 05:04
Ég verð að viðurkenna að mér var töluvert skemmt þegar ég las stuttu fréttina sem ég tengi þessari færslu. Hún byggir á þessari grein Rogers Boyes sem birtist í netútgáfu Times í gær.
Mér finnst myndin sem fylgir fréttinni ekki síður skemmtileg í ljósi innihaldsins sem er í meginatriðum það að konur séu nú að taka við völdum af körlunum hér á landi. Ég reikna með að allir taki eftir því að Steingrímur J. Sigfússon er meðal kvennanna á þessari mynd. Það er þess vegna spurning hvort þeir sem völdu myndina yfirsást það að hann er á myndinni eða hvort þeir vilji telja hann með konunum
Í grein Rogers Boyes líkir hann góðærinu svokallaða við hamfarir eins og eldgos og aðrar náttúruhamfarir sem hafa riðið yfir íslensku þjóðina á undangengnum öldum. Góðærið rekur hann hins vegar til þeirra hamfara sem karlmenn með yfirdrifna testósterónframleiðslu geta valdið. Hann hefur það eftir einum viðmælenda sínum úr hópi íslenskra kvenna að efnahagskreppan sé bein afleiðing slíkra manna sem misstu dómgreindina og tóku of mikla áhættu.
Fréttin á mbl.is vakti upp minningar um grein sem ég las fyrir margt löngu og hafði mikið gaman af. Ég gróf þessa grein upp og langar til að endursegja hana hér að einhverju leyti. Vona að einhver hafi gaman að. En áður en ég sný mér að endur- sögninni langar mig til að vekja athygli á myndinni sem Roger Boyes lætur fylgja sinni grein. Það er ekki ónýtt að það skuli vera Heiða B. Heiðarsdóttir sem er orðin andlit bús- áhaldabyltinarinnar úti í heimi!
Greinin sem ég minntist á hér á undan heitir: Hormónar karla sveiflast daglega. Vinkona mín færði mér hana í ljósriti fyrir u.þ.b. tuttugu árum vegna þess að hún vissi að ég mundi hafa gaman að henni. Ég get hins vegar ekki sagt ykkur hvar hún birtist eða hvenær. Gæti þó verið að tímaritið heiti Vogin?
Ég þykist sjá það á blogginu hennar Sigríður Sigurðardóttir að það eru fleiri sem kannast við innihald þessar greinar en ég. Sigríður bloggar nefnilega um sömu fréttina og ég hér þar sem hún vísar í ræðu Robins Williams sem byggir greinilega á sömu speki og kemur fram í greininni sem mér var svo skemmt yfir fyrir tuttugu árum.
Speki þessi er rakin til bandarískra vísindamanna sem hafa rannsakað muninn á hegðun kynjanna. Samkvæmt þeirra kenningum er miklu líklegra að skýringanna á þeim mun sé að finna í mismunandi líffræðibyggingu heilans en að hún liggi í uppeldinu.
Þeir segja nefnilega að hvelatengslin milli vinstra og hægra heilahvels séu stærri í konum en körlum. Taugafrumurnar í fremri hluta heiladyngjubotns virðast hins vegar stærri í gagn- kynhneigðum körlum en í konum og samkynhneigðum körlum.
Þess má geta að samkvæmt greininni hefur heiladyngjubotninn áhrif á kynferðislega hegðun. Miðstöðin fyrir tungumálahæfileika er líka breytilegur. Hjá konum er hún oftast undir ennisblaði heilans en yfirleitt undir hvirfilbeini hans hjá körlum.
Þessar niðurstöður voru birtar á sínum tíma í bandaríska fréttatímaritinu Time. Það kemur kannski fæstum á óvart að þessar kenningar ollu töluverðum deilum hvarvetna í Bandaríkjunum. Það er reyndar ekki nákvæmlega þessi vinkill sem vakti mesta kátínu mína heldur þær vangaveltur sem settar eru fram í í samhengi við þær í íslensku greininni.
Ég ætla ekki að rekja þær allar heldur láta nægja að segja frá þeirri sem tengist kenningunni sem Roger Boyes segir í grein sinni að sé orsakavaldur þess hvernig komið er í íslensku samfélagi. Fyrst þarft ég reyndar að halda mig aðeins lengur við þá hlið sem snýr að vísindalegum niðurstöðum hárnákvæmra rannsókna en nú í sambandi við hormónasveiflur hjá báðum kynjum.
Sú goðsögn heyrist oft að konum sé ekki treystandi vegna mánaðarlegra hormónasveiflna en nú hefur fengist staðfest að karlar eigi líka við hormónasveiflur að stríða. Þeirra hormónasveiflur eru þó ekki bara mánaðarlegar heldur daglegar! Magn karlhormónsins, testósteróns, er hæst í körlum klukkan fjögur á nóttunni og lægst klukkan átta á kvöldin.
Það verður þó að segjast að daglegar hormónabreytingar karla eru engan veginn sambærilegar við þær mánaðarlegu hjá konum. En ef óeðlilega mikið er af testósteróni í líkama karlmanns getur það orsakað tarfshátt óbilgirni, frekju og óþolinmæði eins og haft er eftir einum ónafngreindum sérfræðingi í títtnefndri grein.
Í framhaldi af þessum hávísindalegu upplýsingum frá virtustu rannsóknarstofnunum heims í kynjafræðum er svo saga. (Rannsóknarstofnanirnar eru reyndar svo virtar að það má ekki nefna þær á nafn í greininni sem ég byggi þetta á). Sagan sem ég ætla að taka eftir greininni er sett upp sem ímynduð frétt og hljómar svona:
Hingað til hafa ríkisstjórnarfundir verðið haldnir á morgnanna en í ljósi nýjustu rannsókna á áhrifum karlhormóna hefur verið ákveðið að halda þá framvegis klukkan átta á kvöldin. Með þessari breytingu er þess vænst að samstarf einstakra ráðherra muni batna og friðvænlegar horfi í samskiptum ríkisstjórnar og landsmanna. Árangur þessa er þegar farinn að koma í ljós.
Dæmið sem er tekið um það hvaða alvarlegu afleiðingar morgunfundirnir gátu haft í för með sér minnir mig óneitanlega á nýlegt atvik úr stjórnartíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er fallin. Það getur ekki farið fram hjá neinum við hvað er átt. Þess vegna er kannski rétt að ítreka það að greinin sem þetta er tekið úr er u.þ.b. tuttugu ára gömul: Einn ráðherra hafði á orði að ákvörðunin um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu hafi verið fólskuráð og ómannúðlegur stundaræsingur ættaður úr eistum misviturra stjórnmálamanna.
Er furða þó manni sé skemmt! eða er þetta bara dæmi um afspyrnu- lélegan kvenrembuhúmor
Öld testósterónsins lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hamfararsaga útrásarinnar
5.11.2008 | 18:03
Ég rakst á eftirfarandi sögu a síðunni hans Egils; Silfri Egils. Hann getur þess ekki hver samdi hana þannig að ég veit ekkert meira um höfundinn en það sem eigandi hennar segir af sjálfum sér í upphafi sögu sinnar. Ég setti þetta hérna inn vegna þess að hér eru hörmungarnar sem hafa verið að ganga yfir þjóðina undanfarnar vikur settar fram á afar spaugilegan hátt en kaldhæðnin lekur líka af hverju orði.
Hin alvarlega atburðarrás sem leiddi til efnahagshruns þjóðarinnar og sú sem átti sér stað dagana í kringum bankahrunið eru sett þannig fram í þessari sögu að þeir verða grátbroslegir. Sögupersónurnar eru stjórnendur þjóðarskútunnar og útrásarvíkingarnir sem þeir gáfu lausan tauminn. Stíll sögunnar er skoplegur en efnið grafalvarlegt þannig að hann er alveg í stíl við alla tvíbendnina sem einkennir þá sem sagan fjallar um.
Hamfarasaga
Mig langar til að segja þér dálitla sögu. Þetta er hamfarasaga, en ég er jarðfræðikennari og skútukarl, og það er einmitt traust reynsla þegar greina skal atburði þá er hér verður lýst. Þeir sem til þekkja munu staðfesta þessa frásögn eftir því sem þeir best vita. Það getur þó reynst hverjum manni ofraun að grafa upp sannleikskorn úr þeim harðskafli sem nú hylur landið þar sem flokkshollusta þykir meiri dyggð en almenn skynsemi og sannleiksást.
Á liðnu sumri hreppti þjóðarskútan brælu en sigldi þó beina stefnu fyrir fullum seglum með skerjagarðinn framundan. Stjórnendur töngluðust glaðbeittir á því hvað skipið væri gott og að skerin væru hró. Því miður sýnir reynslan að galgopaháttur af þessum toga er til marks um óhæfa stjórnendur og ósamkomulag í brúnni.
Lengi vel höfðu allar stefnubreytingar verið á stjórnborða en nú var svo komið að skipið var farið að sigla til baka eftir allar hægribeygjurnar. Auk þess voru nú áberandi sker komin upp stjórnborðsmegin. Þeim sem aðhylltust stjórnborðsstefnu þótti minnkunn af því að láta opinberlega af trú sinni. Því var áfram siglt beint og hátt. Í brúnni ríkti þögnin ein. Hásetarnir stóðu klárir við skautin en engin skipun barst um að breyta seglum. Kallarinn Hannes sem hafði gegnt því hlutverki að kalla hægri snúúúú ! fyrir skipstjórann var nú þagnaður.
Að lokum kom að því að menn tóku að ræða um það hverju ætti að bjarga ef allt færi á versta veg. Davíð skipstjóri, Geir undirsáti, Hannes kallari og fleiri úr stjórnborðsliðinu vildu bjarga sjóðum vina sinna þeirra Kjartans og Björgólfsfeðga. Þeir áttu þar greiða að gjalda því Kjartan og Björgólfsfeðgar höfðu um langa hríð fjámagnað sjóði stjórnborðstrúboðsins á laun. Einnig var rætt um að senda neyðarkall til breska flotans.
Sá galli var þó á þessari ráðagerð allri að bakborðsmönnum í brúnni þótti rétt að eitt skyldi yfir alla skipsverja ganga þegar kæmi að björgunaraðgerðum eins og kveður á um í sjóferðalögum. Einnig þótti það ókostur að þeir Kjartan og Björgólfsfeðgar höfðu farið með ránum og ófriði um strendur Bretlands og skilið þar eftir sviðna jörð. Því þótti víst að sjóðir þeirra yrðu gerðir upptækir sem hvert annað vogrek ef til björgunar kæmi. Einnig þótti líklegt að skipsbrotsmenn yrðu hengdir ef þeir féllu í hendur Bretum hvort sem þeir hefðu tekið þátt í sjóránum útrásarvíkinga eður ei. Því var enn siglt og ákveðið að láta reyna á skerin.
Nú kemur til sögunnar Þorsteinn nokkur Már. Hann var skipstjórnarmaður góður og þrautreyndur úr mörgum óveðrum. Þá var um borð í skútunni sjóðurinn Glitnir. Hann var hluti af ránsfeng Jóns víkings Ásgeirs úr Bónhúsum sem herjað hafði víða á vinveittar nágrannaþjóðir. Þorsteinn tók Davíð tali og lagði það til að sjóðnum Glittni yrði bjargað og hann hafður sem kjölfesta í björgunarbátnum.
Davíð tók þetta óstinnt upp enda var hann óvildarmaður Jóns og vildi hans sjóði til einskis góðs nýta. Hrifsaði hann sjóðinn úr höndum Þorsteins svo hart að fygldu með neglurnar. Það herma kunnugir að Þorsteinn hafi ei í annan tíma brugðið svo svip enda var hann handlama eftir. Eigi brást honum þó ákvæðaskáldskapurinn og kastaði hann fram vísu þessari:
Sárt er þann sjóð að missa
svíður í undir handa
stafnkvígs brot sé og blástur
beljandi Rán mun hrista
en svalbúinn sulluraftur
sökkva mun fjár í vanda
Björgúlfum báðum svikinn
botninn af hann mun gista.
Davíð vildi nú afhenda þeim Björgólfsfeðgum sjóðinn Glitni en þeir voru þá þegar rónir á björgunarbátnum. Bað hann þá snúa við og þiggja sjóðinn sem kjölfestu. Þeir töldu sig hafa ærna kjölfestu þegar og myndu þeir halda áfram sjóránum er veðrinu slotaði. Lét nú Davíð bera alla sjóði út á lunninguna og bað þá snúa við og hirða. Þeir vildu eigi þiggja enda var margt þar illa fengið og ekki gott að hafa innanborðs ef þeir leituðu griða hjá Bretum.
Kom þá til þess er vísir menn höfðu fyrir séð að Þjóðarskútunni hvolfdi, enda kjölfestan öll á lunningunni. Gekk þar allt eftir er Þorsteinn hafði fyrir séð. Réru þeir Björgólfsfeðgar við svo búið á brautu og vildu engum bjarga þó svo margir mætir stjórnborðsmenn veltust í brimgarðinum. Launuðu þeir þar með kinnhest þann er Björgólfur eldri hafði eitt sinn fengið í svallveislu þeirra stjórnborðsliða.
Það sást síðast til skipsbrotsmanna að sumir voru þá þegar drukknaðir í hafrótinu og flutu búkarnir víða. Allir sjóðir voru þá horfnir fyrir borð og þeir sem komist höfðu á kjöl áttu von á því að verða hengdir fyrir sjórán ef einhver hirti um að bjarga þeim. Mændu nú skipsbrotsmenn grátbólgnum augum upp til himnadísarinnar Evrópu, en hún var enn í sárum eftir samskiptin við Seif, dauf og lítt fallin til áheita. Vildi hún ekkert með þá hina blautlegu karla hafa nema ef þeir færðu henni þjóðarskútuna góðu á réttum kili. Reyndu nú skipsbrotsmenn sem ákafast að rétta við skútuna til þess að færa hana himnadísinni að gjöf.
Engar fregnir eru af því hvernig til tókst en mörgum líkum hefur þegar skolað á land. Þar á meðal eru flestir úr liði stjórnborðsmanna. Er til þess tekið hve rýrir búkar þeirra eru nú en þeir voru allir nokkuð þykkvir fyrir enda hafði Davíð alið þá vel. Skipsstjórnin er nú öll talin af enda héldu þeir of lengi í sjóðina þegar skútunni hvolfdi. Fé það er þeir vildu svo ákaft afhenda dró þá á botninn.
Ekki alveg óttalausar:-/
17.7.2008 | 00:16
Ég kynntist Ósk fyrir einhverjum áratugum síðan og í dag erum við frekar sérstakar vinkonur. Þegar við erum saman gerum við oftast það sem venjulegir vinir gera saman eins og fara t.d. í ferðalög saman. Hér er mynd sem var tekin af okkur í Flókalundi sl. sumar.
En stundum högum við okkur ekki alveg eins og aðrir. Það er kannski vegna þess að við erum álíka bilaðar báðar Það hefur t.d. sannað sig að við erum báðar alveg ótrúlega huglausar eða m.ö.o. þá er ekki mikið mál að hræða okkur þannig að við verðum alveg glórulausar af hræðslu.
Ég vissi ekki að ég væri svona mikil skræfa og er reyndar ekki alveg tilbúin til að viðurkenna að ég sé það, þrátt fyrir allt. En með Ósk er ég allt annað en óttalaus. Sennilega er það bara hún sem kallar gunguna fram í mér
Ósk útskrifaðist sem ljósmóðir vorið 2005. Ég var ekki í útskriftarveislunni hennar en vildi endilega halda upp á það með henni á einhvern eftirminnilegan hátt. Við skipulögðum smáferðalag austur fyrir fjall (miðað við Reykjavík með nokkrum athyglisverðum viðkomustöðum sem við völdum saman. Viðkomustaðirnir voru að sjálfsögðu valdir með tilliti til þess að þessi dagur yrði sem ánægjulegastur fyrir Ósk...
Einn af þeim viðkomustöðum sem Ósk langaði afskaplega mikið að skoða var Draugasetrið á Stokkseyri. Ég samþykkti hann gjörsamlega grunlaus út í hvað við vorum að fara Þessi ferð varð ein sú eftirminnilegasta sem ég hef farið í. Ég tel mig reyndar mjög heppna að hafa fengið tækifæri til að minnast einhvers eftir að við fórum inn í þetta draugabæli!
Þetta byrjaði allt með svona yfirdrifinni þolinmæði af minni hálfu yfir áhuga Óskar á þessum stað. Ég ætlaði mér sko aldeilis að vera töffarinn í þessu dúói sem hræðist ekki neitt Ég reiknaði engan vegin með því að þessi yfirgengilega skelfing sem náði strax tökum á Ósk myndi hreyfa við mér...
Ég byrjaði á því að lenda í einhverjum átökum við tæknina. Það var hreinlega eins og einhver draugur hefði hlaupið í vasaleiðsögumanninn sem ég fékk úthlutað í afgreiðslunni. Ég var þess vegna uppteknari af því að koma honum í lag en horfa í kringum mig. Ósk fór á undan en var alveg að fara yfir um af ótta við það að hún mætti draugum
Þegar ég elti hana inn í annað - eða þriðja rýmið, baukandi við að koma vasaleiðsögumanninum til að virka rétt, þá rekur Ósk upp svona skerandi vein... Ég leit upp staðráðin í því að horfa óttalaus á það sem hafði hrætt hana og reyna svo að lækna hana af þessar hræðslugirni... en þegar ég kom auga á það sem hafði hrætt hana gargaði ég eins og glórulaus hálfviti
Það fór ekki á milli mála að viðbrögð af þessu tagi virka einkar vel á draugana þarna. Við lentum í þvílíkri ásókn enda görguðum við og góluðum, grenjuðum og báðumst vægðar. Auðvitað flissuðum við líka yfir því hvað við værum vitlausar en DRAUGARNIR VORU ÓTRÚLEGA RAUNVERULEGIR!!
Það er alltof langt mál að rekja allar hremmingarnar sem við lentum í á þessum rökkvaða, villugjarna stað. En í lok þessa ógnvænlega ferðalags beið okkar enn einn ásóknin þannig að við stukkum undan henni gólandi og í faðmlögum fram í afgreiðsluna. Við þóttumst eiga fótum okkar fjörið að launa en mættum engum skilningi í þeim augnaráðum sem við mættum þangað komnar enda vissi þetta fólk ekkert um það hvað við vorum búnar að ganga í gegnum
Ég trúi ekki öðru en að draugunum hafi þótt við ákaflega skemmtileg fórnarlömb en ég veit ekki hvað gæti orðið til þess að ég skemmti þeim aftur með nærveru minni Hins vegar mæli ég með því að allir aðrir skoði þessa sýningu
Sennilega ættum við Ósk alls ekki að fara saman á svona skelfilegar sýningar en... þegar ég var í heimsókn hjá henni núna í byrjun júlí. Ákváðum við að skreppa enn einu sinni yfir Hellisheiðina og kíkja við á Selfossi. Svo var Ósk voðalega áhugasöm gagnvart álfa- og tröllasetrinu sem er nýbúið að opna á Stokkseyri.
Það hljómar kannski ótrúlega en ég var alveg búin að gleyma meðferðinni sem við fengum á Draugasetrinu Álfar eru heldur ekkert skelfilegir og hvað getur svo sem verið skelfilegt við tröll... Við fórum sem sagt en fengum eitthvert veður af því í afgreiðslunni að einhver lítilsháttar skelfing gæti beðið okkar í lokin.
Þetta byrjaði líka allt voðalega vel hjá okkur nema Ósk var eitthvað kvíðin yfir framhaldinu og... tja, það er kannski best að ég segi ekkert of mikið vegna þeirra sem eiga eftir að fara og skoða þetta en ég hef sannast sagna aldrei verið styttri tíma inni á neinni sýningu Ástæðan er ekki sú að sýningin hafi ekki verið áhugaverð en tröllin eru skelfilegri en ég hafði ímyndað mér
Eftir þessa ferð er ég hreinleg ekki viss um hvort mér þykja draugar eða tröll ógnvænlegri fyrirbæri. Ég velti því reyndar líka fyrir mér hvort við Ósk ættum ekki að láta það vera að fara saman á svona sýningar en eins og ég sagði í byrjun þá erum við svolítið sérstakar Það er þess vegna alveg spurning hvort við lærum það sem liggur í augum uppi af þessum uppákomum
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)