Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Pólitískir verðurvitar
15.5.2013 | 04:25
Þetta er þriðji og síðasti hluti framhaldsbloggsins sem byrjaði á Egómiðuð geðþóttapólitík og var framhaldið með Þegar pólitískt innsæi þrýtur sem var birt hér síðastliðinni sunnudag. Í þessum lokahluta verður fullyrðing Egils Helgasonar um það að stjórnmálamenn séu áhrifalausir nema þeir eigi sæti á þingi skoðuð ásamt sérstæðum opinberunum hins fullyrðingaglaða Jónasar m.a. um það sem hafði farið framhjá honum varðandi offjölgun Dögunar.
Á þeim tíma sem sú sem þetta skrifar starfaði með Hreyfingunni furðaði það hana alltaf jafnmikið að sjá það í hve miklu uppáhaldi bæði Egill Helgason og Jónas Kristjánsson voru meðal bæði þingmanna Hreyfingarinnar og annarra mestráðandi þar innanborðs. Auðvitað hefur það borið við að báðir hafa sagt eitthvað spaklegt um pólitík en ef betur er að gáð eru þeir langt frá því að vera þeir einu sem segja einstaka sinnum eitthvað gáfulegt um það efni án þess að hafa uppskorið viðlíka dreifingu og þessir tveir.
Það sem er verra, er að báðir virðast vera óþarflega háðir geðþóttamiðuðum dægursveiflum auk þess að vera bæði hlutdrægir og hallir til sleggjudóma. Hvorugur hefur heldur sýnt því mikinn áhuga að rökstyðja dóma sína sem er sínu alvarlegra í tilviki Egils Helgasonar miðað við stöðu hans sem þáttastjórnanda í einum vinsælasta stjórnmálaumræðuþætti landsins.
Sporgengill eða villuljós
Egill Helgason er meðal þeirra fjölmiðlamanna sem hafa af einhverjum ástæðum verið mjög hlutdrægir gagnvart SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar. Hlutdrægni hans hefur m.a. komið fram í því að fulltrúum flokksins hefur almennt ekki staðið til boða að taka þátt í umræðuþættinum sem hann stýrir í sjónvarpi allra landsmanna. Þannig var einum fulltrúa, og stundum fleirum, allra nýju flokkanna, sem komu fram fyrir síðustu jól, boðið í Silfrið til kynningar á framboðum sínum og málaefnaáherslum nema SAMSTÖÐU.
Þó athugasemdir hafi verið gerðar við þetta af hálfu SAMSTÖÐU hefur Egill Helgason enga tilburði sýnt til að bæta ráð sitt. Auk útilokunar SAMSTÖÐU frá Silfrinu hefur Egill birt lítilsvirðandi skrif um núverandi formann hans; Lilju Mósesdóttur (sjá hér). Þannig hefur hann ekki aðeins lagt sitt af mörkum í því að grafa undan starfsferli hennar sem stjórnmálamanns heldur tekið þátt í því að viðhalda orðrómi um persónu hennar sem er ekki útilokað að geti haft skaðleg áhrif á starfsferil Lilju utan pólitíkunnar.
Þrátt fyrir að alþingiskosningar án þátttöku Lilju Mósesdóttur séu nú um garð gengnar skiptir Egill Helgason ekki um kúrs í geðþóttamiðaðri dægursveiflupólitík sinna:
Stór hópur yfirgaf flokkinn [VG] á síðasta kjörtímabili, þingmennirnir Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Jón Bjarnason.
Ásmundur gekk í Framsókn, Guðfríður Lilja hætti, hin reyndu fyrir sér í pólitík á öðrum vettvangi og mistókst hrapallega. Áhrif þeirra eru engin (sjá hér)
Það er ekki nóg með að Egill Helgason geri sig sekan um þá vafasömu fullyrðingu að áhrif viðkomandi einstaklinga í pólitík eigi upphaf sitt og endi í þingveru viðkomandi heldur stappar hann þessari staðhæfingu fram með gildishlöðnu orðavali eins og reyndu fyrir sér í pólitík, mistókst hrapalega og svo loks áhrif þeirra eru engin.
Sjálfur virðist hann svo leggja sig fram við það að tryggja það að áhrif Lilju Mósesdóttur verði að engu með því að boða hana hvorki í panel né einkaviðtal þó sérsvið hennar og/eða útfærslur á lausnum hennar við efnahagsvanda Íslands séu til umræðu. Þetta kom vel fram í upphafspanel síðasta Silfurs. (sjá hér) Ég geri ráð fyrir að þeir hafi verið fleiri en ég sem söknuðu þess að sérfræðingur síðasta þings í efnahagsáföllum skyldi ekki vera boðaður til að fjalla um Skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og tillögur svokallaðs samráðsvettvang um aðgerðir til að efla hagvöxt á Íslandi.
Það vakti ekki síður athygli í Silfri síðastliðins sunnudags hvernig Gunnar Tómasson var skyndilega orðinn einn helsti talsmaður skiptigengisleiðarinnar í munni Egils Helgasonar. Það var reyndar ekki hægt að skilja framsetningu hans öðru vísi en svo að enginn nema Gunnar Tómasson hafi komið nálægt því að benda á hana frá því að Vestur-Þjóðverjar nýttu þessa leið til að rétta úr efnahagskútnum.
Því miður eru þessi dæmi ekki einsdæmi um það sem mætti e.t.v. kalla meinfýsna hlutdrægni Egils Helgasonar og af þeim ástæðum hefur mér þótt það undarlegt hve þeir sem vilja kenna sig við byltingu og ný stjórnmál og/eða vinnubrögð hafa verið uppteknir af því að halda skoðunum hans og skrifum á lofti. Enn meiri furðu hefur það þó vakið hve örblogg Jónasar Kristjánssonar hefur notið mikilla vinsælda meðal þeirra sem vilja rekja pólitískan uppruna sinn til umróta Austurvallar í kjölfar bankahrunsins.
Meinvillandi álitshnekkjari
Það hlýtur að vera öllum þeim sem gera kröfur um vönduð vinnubrögð og faglega framsetningu hulin ráðgáta hvers vegna séð og heyrt-vædd dægurmálaumræða Jónasar Kristjánssonar hafi það vægi sem hún í raun hefur hvað varðar það hvað ber hæst á umræðuvettvangi þeirra sem hafa hann að veðurvita í pólitík. Jónas byggir nefnilega almennt öll sín örskots-blogg á því sem honum finnst eða hann heldur. Það er spurning hvort það er akkúrat fyrir þetta samkenni sem hópurinn, sem bauð fram þrí- eða fjórklofið fyrir nýliðnar kosningar, hefur haldið bloggum hans svo á lofti.
Það væri synd að segja að Jónas hafi ekki launað aðdáendahópnum, sem tilheyrði Borgarahreyfingunni upphaflega en dreifði sér síðan í margklofning Dögunar, fyrir það hve mjög hann hefur haldið örbloggi hans á lofti. Í aðdraganda nýliðinna alþingiskosninga reyndist hann afar liðtæk málpípa þeirrar sundrungar- og sundurlyndispólitíkur sem þar var/er undirliggjandi og hvatti kjósendur til að velja einhvern þeirra flokka sem urðu til út úr tilrauninni til að sameina í eina breiðfylkingu fólk sem gæti komið raunverulegu málefnaframboði inn á þing til höfuðs Fjórflokknum. (sjá hér).
Það má reyndar vera að aðdáendahópur hans innan Dögunarþrennurnar segi örbloggsskrifum hans upp nú í kjölfar þess að hann beindi spjótum sínum að þessum margklofna stjórnmálaflokki í einu þeirra örblogga sem hann birti 30. apríl sl:
Smám saman heyrast hálfar og heilar fréttir af sundrun Dögunar. Einn segir Andreu Ólafsdóttur hafa hafnað framboði Þorvalda Gylfasonar og viljað stýra öllu. Andrea segir Lýð Árnason hafa klofið Lýðræðisvaktina út úr flokknum. Flokkur heimilanna sé líka klofningur, bæði framboð byggð á eins manns egó. Friðrik Þór Guðmundsson segir Pírata líka vera klofning úr Dögun.
Allt er þetta mjög forvitnilegt. Hvernig verður flokkur til, hvernig sogast menn að starfinu og af hverju klofnar flokkurinn vikulega kruss og þvers. Er ekki að tala um að finna sökudólg, heldur bara heyra um sérstæð samskipti fólks. (sjá hér)
Það hlýtur að vekja upp spurningar af hverju Jónas Kristjánsson nýtur svo mikils lestur í bloggheimum þegar hann ástundar ekki betri vinnubrögð en þau sem hann opinberar hér. Fyrst hvetur hann kjósendur ítrekað til að velja einhvern flokk Dögunarþrennunnar en svo rétt eftir kosningar opinberar hann það að hann hafði í raun bara bitið það í sig að þetta væri álitlegri kostur en bófarnir og bjánarnir í fjórflokknum.
Jónas opinberar það með öðrum orðum að hann gerir engar kröfur til sjálfs sín sem örbloggara heldur nýtir afburðastöðu sína sem eins mest lesna bloggarans skv. Blogggáttinni (sjá hér) til að hjala og slúðra um grafalvarlega hluti eins og það hvaða stjórnmálaflokkum er treystandi og hverjum ekki. Hins vegar sleppir hann alveg að færa gild rök fyrir því hvers vena hann treystir sumum alfarið en öðrum alls ekki.
Nokkrum dögum eftir að hann birti traustsyfirlýsingu sína á Dögunarþrennunni, en þó ekki fyrr en eftir kosningar, opinberar hann það að hann hefur fylgst svo illa með því pólitíska umróti sem átti sér stað í aðdraganda nýliðinna kosninga að hann vissi ekki einu sinni hvað lá stofnun þeirra sem hann gæðavottar til grundvallar.
Hann lætur það hins vegar undir höfuð leggjast að biðja lesendur sína afsökunar á því fáviskulega ábyrgðarleysi sem varð til þess að hann hvatti þá til að flykkja sér um þrjá sundurlyndisættaða stjórnmálaflokka í þeim tilgangi að hreinsa Alþingi 100% af bófum og bjánum í fjórflokksins. (sbr. örbloggspistil Jónasar á myndinni hér aðofan).
Viðhaldið er undir lesendum komið
Það fer varla fram hjá þeim sem vilja byggja á staðreyndum hvernig Jónas Kristjánsson opinberar það með ýmsum hætti hve óáreiðanlegur hann er í örbloggspistli sínum frá 24. mars sl. Það er ekki nóg með að hann kalli alla þingmenn fjórflokksins: bófa og bjána og hvetji kjósendur til að kjósa þrjá flokka, sem hann viðurkennir rétt rúmum mánuði síðar að hann þekki lítið sem ekkert til, heldur minnist hann á SAMSTÖÐU eins og sá stjórnmálaflokkur hafi enn verið valkostur þegar hann skrifaði umræddan texta og notar tækifærið til að opinbera smásálarlega óvild sína gagnvart þeirri sem hann nefnir gjarnan Lilju Mós.
Eins og öllum, sem fylgjast með í pólitík, má vera fullkunnugt um þá dró Lilja Mósesdóttir fyrirhugað framboð sitt til baka 22. desember á síðasta ári með opinberri yfirlýsingu (sjá hér). Landsfundur SAMSTÖÐU sem var haldinn 9. febrúar á þessu ári tók síðan þá ákvörðun að draga fyrirhugað framboð til nýafstaðinna alþingiskosninga til baka (sjá hér). Jónas Kristjánsson heldur því sem sagt blákalt fram að Lilja Móseddóttir verði meðal valkosta sem fulltrúi SAMSTÖÐU í kosningunum þremur mánuðum eftir að Lilja dró fyrirhugað framboð sitt til baka og rúmum einum og hálfum mánuði eftir að öllum þeim sem fylgjast þokkalega vel með mátti vera það ljóst að ekkert yrði af framboðinu.
Jónas Kristjánsson hefur margsinnis opinberað óútskýrða óvild sína í garð Lilju Mósesdóttur (sjá hér) og SAMSTÖÐU (sjá hér). Þar hefur hann ekki aðeins opinberað þá eineltislegu skaðvaldapólitík sem virðist vera í uppáhaldi hjá honum heldur fáfræði sem vekur upp enn frekari spurningar um það hvers vegna nokkrum dettur í hug að hafa hann að pólitískum veðurvita.
Það er ekki útlit fyrir að Bófinn og bjáninn sem ástundar svo ófagleg vinnubrögð sem raun ber vitni hafi í hyggju að bæta ráð sitt. Það er heldur ekkert útlit fyrir að lesendum hans þyki það nokkurt tiltökumál þó ekkert sé að marka skrif Jónasar því enn trónir hann á toppnum meðal mest lesnu bloggarana (sjá hér).
Það væri sannarlega óskandi að þeir sem hér hafa verið til umfjöllunar horfðust í augu við þá ábyrgð sem því er samfara að vera í þeirri aðstöðu að festa sig í sessi sem marktækur álitsgjafi um bæði innanflokksmálefni svo og pólitík almennt.
Á meðan Egill Helgason er enn þáttastjórnandi eins fárra stjórnmálaumræðuþátta í sjónvarpi er hann í góðri aðstöðu til að breyta ímynd sinni með því að vanda bæði val sitt á viðmælendum og leggja af þá persónulegu og eineltismiðuðu pólitík sem honum hættir til að ástunda á bloggvettvangi sínum. Jónas Kristjánsson ætti, miðað við það sem Egill heldur fram um þau: Atla Gíslason, Jón Bjarnason og Lilju Mósesdóttur, að vera áhrifalaus í pólitískri umræðu þar sem hann er ekki lengur í stöðu ritstjóra eða blaðamanns. En er hann það?
Hvað Jónas Kristjánsson varðar er ljóst að það eru fyrst og fremst lesendur hans sem halda sundrungarfullum örbloggum hans á lofti. Það er á þeirra ábyrgð að hann kemst upp með það að halda áfram að skemmta skrattanum með því að leggja því helst lið að brjóta það niður sem til framfara horfir en upphefja þá sem ástunda sömu sundrungarpólitíkina og hann sjálfur. Ef hann heldur áfram að efast um Dögunarþrennuna má þó vera að tími hans í bloggheimum muni loks líða undir lok!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar pólitískt innsæi þrýtur
12.5.2013 | 13:38
Þetta er framhald af bloggpistli gærdagsins, Egómiðuð geðþóttapólitík, sem lauk á því að ég gaf til kynna hvert yrði efni framhaldsins sem verður í tveimur hlutum. Í þessum hluta verða skoðaðar fullyrðingar tveggja frambjóðenda Dögunar um að Lilja Mósesdóttir og/eða SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar beri ábyrgð á slöku brautargengi stjórnmálaflokksins sem þeir voru í forsvari fyrir í nýliðnum alþingiskosningum.
Afbökun Þórs
Á þessum bloggvettvangi hefur áður (sjá hér) verið vikið að þeirri afbökun sem Þór Saari setti fram í bloggpistli sínum daginn fyrir kosningar eða þann 26. apríl sl. Þar er ýmsu haldið fram sem væri þess vert að skoða betur en í því samhengi sem hér er til umfjöllunar vekur þetta mesta athygli:
Hvað nýju framboðin varðar þá er um marga ágæta valkosti að ræða og engin afsökun til staðar um að þar sé ekki að finna hæft fólk. Mannvalið á listum sumra þessara nýju framboða er með eindæmum gott og ber af miðað við þreyttan klíkuhóp Fjórflokksins. Sjálfur er ég á lista hjá Dögun sem var tilraun til að sameina í eina breiðfylkingu fólk sem gæti komið raunverulegu málefnaframboði inn á þing til höfuðs Fjórflokknum.
Því miður náðu egóin tökum á sumum upprunalegu félögum okkar og til urðu Lýðræðisvaktin, Píratar, Samstaða (sem svo hvarf), Hægri grænir og fleiri. Flokkar með ágætis fólk innan borðs en byggðir upp í kringum einstaklinga og fá eða jafnvel bara eitt mál og sem slíkir munu þeir ekki ná mikilli vigt á Alþingi. (sjá hér (feitletrunin er blogghöfundar)
Hér lætur Þór að því liggja að SAMSTAÐA sé ekki aðeins flokksbrot úr Dögun heldur segir að flokkurinn sé horfinn án þess að færa fyrir hvorugu nokkur rök. Hægri grænir eru heldur ekki flokksbrot úr Dögun eins og mætti skiljast á framsetningunni enda stofnaður tveimur árum áður en stjórnmálaflokkur Dögunar varð til.
Hvað ræður þessari framsetningu bráðum fyrrverandi þingmanns er ekki gott að segja en hún er þó í stíl við þau vinnubrögð sem Árni Páll Árnason gerði þessa eftirminnilegu athugasemd við varðandi framgöngu Hreyfingarþingmannanna á lokadögum nýliðins þings (sjá ummæli Árna Páls í samhengi hér).
Eins og lesendur eru e.t.v. meðvitaðir um þá varð útséð um að af nokkru samstarfi gæti orðið á milli Hreyfingarinnar annars vegar og Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur hins vegar við þingsetninguna haustið 2011. Þetta hefur reyndar verið rakið áður í samhengi við þessa vafasömu staðhæfingu Þórs:
Hér er ástæða til að minna á að haustið 2011 tók Þór Saari nefndarsæti af Atla Gíslasyni í Íslandsdeild vestnorræna ráðsins (sjá hér og hér) meðvitaður um það hversu mikils virði sætið var Atla. Enginn Hreyfingarþingmannanna hafði heldur neitt við það að athuga að á sama tíma var Þuríður Bachman sett í sæti Lilju Mósesdóttur í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins (sjá hér og hér). Þetta var gert þremur dögum áður en Lilja átti að fara til Strassborgar og flytja ræðu sem fulltrúi flokkahópsins hennar um skýrslu OECD um efnahagsmál (sjá hér). (þennan tekst má lesa í samhengi hér)
Það ætti því að vera fullljóst að pólitískt höfðu þingmenn Hreyfingarinnar útilokað Lilju Mósesdóttur fyrirfram frá tilrauninni sem hófst í Grasrótarmiðstöðinni síðla haustið 2011 til að sameina í eina breiðfylkingu fólk sem gæti komið raunverulegu málefnaframboði inn á þing til höfuðs Fjórflokknum (sjá hér).
Það skal svo áréttað SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar var stofnaður 15. janúar 2012, tæpum fjórum mánuðum eftir að Hreyfingarþingmennirnir höfðu opinberað þjónkun sína við ríkisstjórnina. Dögun var ekki stofnuð fyrr en tveimur mánuðum eftir að SAMSTAÐA var stofnuð eða 18. mars það sama ár.
Þegar málefnagrundvöllinn vantar
Þegar kemur að samstarfi í pólitík hljóta allir að gera sér góða grein fyrir því að ef vel á að takast þarft slíkt samstarf að byggja á grundvelli málefna eða m.ö.o. því að málsaðilar séu sammála um stjórnmálastefnuna í grundvallaratriðum. Miðað við það að Borgarahreyfingin bauð fram efnahagsstefnu á sínum tíma sem var grundvölluð á hugmyndum Lilju Mósesdóttur og í ljósi þess að í nýliðnum alþingiskosningum höfðu tveir oddvitar Dögunar lært lausnarmiðaðar hugmyndir Lilju Mósesdóttur til efnahagsumbóta utanbókar er ekki óeðlilegt að það komi einhverjum spánskt fyrir sjónir að fulltrúar Dögunar og SAMSTÖÐU hafi ekki lagt meira á sig til að af einhvers konar samstarfi gæti orðið.
Það blasir þó væntanlega við hverjum þeim sem eitthvað þekkir til í pólitík að með framkomu Þórs haustið 2011 gaf hann mjög skýr skilaboð um bæði hæfni sína og vilja sinn til pólitísks samstarfs. Hér má líka minna á að mánuði eftir að Atli Gíslson og Lilja Mósesdóttir gegnu út úr ríkisstjórninni með því að segja skilið við þingflokk VG vorið 2011 sendu þingmenn Hreyfingarinnar frá sér þessa yfirlýsingu:
Þingmenn Hreyfingarinnar eru ekki fráhverfir samvinnu eða samstarfi við núverandi ríkisstjórn, jafnvel stjórnarþátttöku um tiltekin mál. (sjá hér á vef Hreyfingarinnar og hér á vef DV)
Hér má minna á að Atli og Lilja héldu blaðamannafund þann 21. mars 2011 þar sem þau opinberuðu þá ákvörðun sína að segja skilið við þingflokk VG (sjá hér). Viljayfirlýsing Hreyfingarinnar til samstarfs við ríkisstjórnina var gerð opinber þ. 27. apríl 2011.
Það verður varla skýrara að það voru Hreyfingarþingmennirnir sjálfir sem kipptu öllum stoðum undan því að Lilja Mósesdóttir gæti átt samleið með breiðfylkingunni sem átti stefnumót í Grasrótarmiðstöðinni með það að markmiði að koma saman raunverulegu málefnaframboði til höfuðs Fjórflokknum (sjá hér).
Áður en fyrsti fundur höfuðpauranna, sem fundu sig sem félaga undir þessum málefnahatti, var boðaður höfðu Hreyfingarþingmennirnir tekið þátt í refsiaðgerðum Samfylkingar og Vinstri grænna gegn Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur fyrir það að yfirgefa ríkisstjórnina. Eins og glöggir lesendur átta sig væntanlega á þá hafa báðir flokkar almennt verið taldir til þess sama fjórflokks og fulltrúar Dögunar hafa haldið fram að flokkur þeirra sé teflt gegn til höfuðsetningar.
Það skal svo áréttað að vorinu áður höfðu Hreyfingarþingmennirnir gefið út opinbera yfirlýsingu um það að þeir væru tilbúnir til samstarfs við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Áður en kom til stofnunar SAMSTÖÐU í janúar 2012 og svo Dögunar í mars það sama ár höfðu þessir sömu þingmenn Hreyfingarinnar nýtt meginpart jólafrísins síns með ríkisstjórnarparinu, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, á samningafundum um stuðning við þann hluta fjórflokksins sem myndaði síðustu ríkisstjórn (sjá hér).
Viðhaldsafbökun
Gunnar Skúli Ármannsson kemur inn í Dögun í gegnum Frjálslynda flokkinn sem hefur væntanlega ákveðið að ganga í breiðfylkingu með Borgarahreyfingunni og Hreyfingunni í þeirri von að ná þannig aftur fimmtaflokksfylginu sem Borgarahreyfingin tók frá Frjálslyndum vorið 2009.
Til að uppfylla þennan draum er líklegt að stjórn flokksins hafi endanlega tekist að jarða sinn gamla flokk sem hafði átt mjög í vök að verjast ekki síst vegna þungrar áróðursöldu um meintan rasisma flokksmeðlima. Vinstri grænir héldu slíkum áróðri mjög á lofti í þingkosningunum vorið 2007 og svo ýmsir frambjóðendur og stuðningsmenn Borgarahreyfingarinnar i þingkosningunum vorið 2009.Þrátt fyrir yfirlýsingar um eindregna samstöðu flokkanna sem komu saman til myndunar breiðfylkingarinnar sem síðar varð Dögun (sjá hér) þá var Gunnar Skúli einn af fáum fyrrverandi félagsmönnum Frjálslynda flokksins sem nutu þeirrar náðar kjördæmaráðs Dögunar að fá sæti á framboðslista flokksins.
Enginn fulltrúi Frjálslyndra fékk oddvitasæti en eiginkona Gunnars Skúla og mágur voru meðal þeirra fjögurra flokksmeðlima sem komu úr Frjálslynda flokknum sem hlutu sæti í fimm efstu sætum framboðslista Dögunar (sjá hér). Þrátt fyrir þá meðferð sem samherjar Gunnars Skúla úr Frjálslyndum hlutu frá þeim sem höfðu með röðun á lista Dögunar að gera hefur hann séð ástæðu til að styðja við þá afbökun Þórs Saari sem gerð hefur verið grein fyrir hér að ofan.
Þetta er ekki síst merkilegt í ljósi þess að Gunnari Skúla var fullkunnug um framkomu Hreyfingarþingmannanna gagnvart Atla og Lilju haustið 2011. Þá fannst honum hún ámælisverð. Nú tekur hann undir með Þór varðandi það að Lilja Mósesdóttur sé meðal þeirra sem eiga sök á því að grafa undan vaxtarmöguleikum Dögunar. Hann lætur sér þó ekki nægja að halda þessu fram fyrir nýliðnar alþingiskosningarnar (sjá hér) heldur tekur afbaksturinn upp aftur að þeim loknum:
Stofnaður var samráðshópur sem gekk undir vinnuheitinu Breiðfylkingin. Reynt var að bjóða öllum sem unnið höfðu í grasrótinni. Eftir nokkra mánaða vinnu fæddist Dögun í mars 2012. Því miður vildi Lilja Mósesdóttir ekki vera með og stofnaði Samstöðu. Sá flokkur bauð síðan aldrei til þings. [...]
Alveg fram í rauðan dauðann reyndi Dögun að sameina öll þessi atkvæði en allt kom fyrir ekki, menn vildu endilega bjóða fram klofið. (sjá hér)
Af málflutningi Gunnars Skúla verður ekki önnur ályktun dregin en stjórnmálaflokkur SAMSTÖÐU hafi verið stofnaður á eftir Dögun. Auk þess má skilja það sem svo að öll þau framboð sem komu fram í kjölfar stofnunar SAMSTÖÐU, þ. 15. janúar í fyrra, hafi fyrst og fremst verið stefnt til höfuðs Dögunar.
M.ö.o. þá kýs Gunnar Skúli að setja mál sitt þannig fram að eðlilegast er að álykta að Dögun hafi verið fyrst nýju stjórnmálaflokkanna til að koma fram og þess vegna hefði verið eðlilegast að hin framboðin hefðu sameinast undir hatti Dögunar. Þannig hefði það líka verið tryggt að þau atkvæði sem önnur ný framboð fengu í nýafstöðnum alþingiskosningum hefðu ratað til Dögunar og orðið að gagni.
Ekki veit ég hvort Gunnar Skúli og Þór séu sannfærðir um það sjálfir að þeir mæli af mikilli pólitískri visku í umræddum bloggpistlum en væntanlega sjá það flestir, sem hafa á annað borð gefið sig út fyrir það að setja höfuðið inn í raunheim pólitíkunnar, að ef t.d. fimmflokkurinn sameinaðist í einn er útilokað að öllum hefði líkað ráðahagurinn svo stórkostlega að samanlagt fylgi sameinaðra flokka hefði verið 83,1% (sjá hér).
Þetta er sú prósentutala sem fæst út ef fylgi Bjartrar Framtíðar, Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í nýliðnum alþingiskosningum er lagt saman. Fylgistölur nýju framboðanna, að Bjartri framtíð undanskilinni, var samtals 17%. (sjá hér)
Svo má böl bæta...
Það væri óskandi að þeir tveir sem hér hefur verið vitnað til horfðust í augu við þá ábyrgð sem þeir bera sjálfir á því hvernig pólitískt landslag hefur skipast draumum þeirra og framboði í óhag. Geri þeir það þá átta frambjóðendur Dögunar sig á því að þeir skaða engan meir en sjálfan sig með því að halda því fram að aðrir stjórnmálaflokkar, félagsmenn þeirra og/eða frambjóðendur beri meiri ábyrgð á áhugaleysi kjósenda gagnvart Dögun en þeir sjálfir.
Sú skýring sem liggur beinast við varðandi áhugaleysi kjósenda er vissulega sá skortur á trausti sem Hreyfingarþingmennirnir höfðu skapað sér með störfum sínum inni á þingi. Ekki síst stuðningur þeirra við ríkisstjórnina og það að fórna hagsmunum heimilanna fyrir óstýriláta stjórnarskráráráttu. Af einhverjum ástæðum ákváðu kjósendur þó að treysta Birgittu Jónsdóttur og flokknum sem hún stofnaði.
Þrátt fyrir ýmis skakkaföll varðandi frambjóðendur á lista Pírata ákváðu samt 5,1% kjósenda að treysta flokk hennar og fyrirgefa Birgittu það sem kollegum hennar innan þingflokks Hreyfingarinnar var refsað fyrir með því að sniðganga framboð Dögunar.
Það má líka vera að það hafi ekki farið fram hjá öllum kjósendum hvernig Dögun komst yfir það ríkisframlag sem hafði verið stílað á kennitölu Borgarahreyfingarinnar frá síðustu alþingiskosningum (sjá hér) þó fjölmiðlar hafi sýnt gjörningnum lítinn sem engan áhuga. Þeir sem voru upplýstir um þetta atriði hafa að öllum líkindum þótt það ótrúverðugt að framboð sem grundvallaði áberandi þátttöku sína í kosningabaráttunni á kennitölufifferí væri líklegt til að reynast betur en þeir flokkar sem Dögun hélt svo mjög á lofti að þyrfti að hreinsa út af Alþingi m.a. vegna þess að framboð fjórflokksins hafi einkennst af þreyttum klíkuhópi (sbr. orð Þórs Saari hér ofar).
Það segir sig væntanlega sjálft að þeir oddvitar Dögunar sem voru í stjörnuhlutverkum í nýafstaðinni kosningabaráttu hafi ekki þótt trúverðugir til stórra afreka með efnahagsstefnu sérfræðings í efnahagsmálum meðal oddamála (sjá hér.) Það er líka mögulegt að kjósendur hafi kynnt sér það að þessir frambjóðendur höfðu hvorki menntun né afrekaskrá á bak við sig sem studdi það að þeir hefðu til að bera þekkingu eða reynslu til að hrinda henni í framkvæmd. Það má líka vera að einhverjir hafi þekkt til uppruna efnahagsstefnunnar og líkað það illa hvernig oddvitar Dögunar sneiddu hjá því að nefna upprunann og brugðust sumir ókvæða við væri þeim bent á þetta atriði (sjá hér).
Þess má svo að lokum geta að fylgi Dögunar hefur aldrei mælst hærra en á bilinu 0,7-5,4% (sjá hér) frá því flokkurinn var stofnaður í mars í fyrra. Það er auðvitað hlutdrægt mat að það sé með ólíkindum að flokkurinn hafi fengið 3,1% fylgi út úr nýliðnum kosningum en væntanlega líta frambjóðendur og félagsmenn Dögunar svo á að hér vanti ekki nema herslumuninn.
Í ljósi þess að næstu fjögur árin mun flokkurinn fá úthlutað ríkisframlagi er ekki ólíklegt að þeir stefni að því að halda áfram og bjóða fram aftur. Það kemur e.t.v. í ljós þegar í næstu sveitarstjórnakosningum hvort flokksmenn hafi lært eitthvað af reynslu nýafstaðinna kosninga og bæti þau innanflokksmein sem orkuðu fráhrindandi á kjósendur þannig að þeir treystu þeim ekki til þess verkefnis að verða þingmenn þjóðarinnar á nýhöfnu kjörtímabili.
*******************************************************
Í þriðja og síðasta hluta þessa framhaldsbloggs, sem nefnist Pólitískir veðurvitar, verður fullyrðing Egils Helgasonar um að vísasta leiðin til áhrifaleysis í pólitík sé að vera ekki inni á þingi fyrir Vinstri græna skoðuð ásamt sérstæðum játningum hins fullyrðingaglaða Jónasar Kristjánssonar um það sem hafði farið framhjá honum varðandi offjölgun Dögunar. Af einhverjum ástæðum treysti hann sér samt til að mæla með Dögunarþrennunni í aðdraganda alþingiskosninganna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.5.2013 kl. 02:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Egómiðuð geðþóttapólitík
9.5.2013 | 03:36
Þeir sem fylgdust með þessum bloggvettvangi í aðdraganda nýafstaðinna alþingiskosninga komust að raun um að á þeim tíma var megináherslan lögð á að draga fram atvik og vangaveltur sem sneru að þeim framboðum sem komu fram á nýliðnu ári í kringum Grasrótarmiðstöðina. Einhverjir hafa eflaust velt ástæðu þessarar áherslu fyrir sér.
Ein ástæðanna er sú að vorið 2009 taldi ég það skynsamlegt að verða við því að taka sæti á framboðslista Borgarahreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi. Á þeim tíma féll ég fyrir þeim rökum að þeir sem hefðu tekið opinbera afstöðu í viðspyrnuátt í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 bæri skylda til að fylgja viðspyrnu sinni eftir með því að bjóða upp á valmöguleika í alþingiskosningunum sem voru boðaðar í kjölfar þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sagði af sér.
Ég er enn á því að það vanti valkost fyrir íslenska kjósendur. Valkost sem er óháður flokkseigendafélögum og öðrum egómiðuðum smáhópum og þar af leiðandi óbundinn af því að setja sérhagsmuni ofar almannahagsmunum. Borgarahreyfingin lofaði góðu á sínum tíma hvað þetta varðaði og það gerðu þingmennirnir þrír, sem tóku upp stefnuskrá hennar sem Hreyfingin, líka framan af.
Breiðfylking andlita og nafna
Straumhvörf urðu síðan árið 2011 sem staðfestist enn frekar í þeim margklofningi sem kom fram í kjölfar stofnunar Dögunar. Í stuttu máli er Dögun byggð á grunni einhvers konar tilraunar, þeirra sem trúðu á að Borgarahreyfingin væri upphaf og endir alls sem kynni að leiða til framfara á stjórnmálasviðinu, til að sameina öll þekktustu andlitin og nöfnin úr viðspyrnunni frá haustinu 2008.
Væntanlega eru allir lesendur nokkuð vel upplýstir um það hverjir komu að þeirri breiðfylkingu sem síðar varð Dögun og hvar þessar umræður fóru fram. Hins vegar er ekki jafnauðvelt að gera sér grein fyrir því hvaða einstaklingar og sjónarmið vógu þyngst í þeirri atburðarrás sem leiddi þessa hópa saman til viðræðna, flokksstofnunarinnar í kjölfarið og sundrungarinnar í framhaldinu.
Í þessu samhengi er þó forvitnilegt að horfa til klofnings Hreyfingarinnar frá Borgarahreyfingunni haustið 2009, náins samgangs Hreyfingarþingmannanna við ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sem opinberaðist smátt og smátt árið 2011, áhersluatriði ýmissa fulltrúa stjórnlagaráðs varðandi nýja stjórnarskrá, áherslu einstakra fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna á að samtökin væru upphaf og endir væntinga skuldugra heimila um leiðréttingar á sínum kjörum og svo þess hvernig stefnumál Frjálslynda flokksins fóru saman með áherslum ofantalinna hópa.
Það er ljóst að sagan í kringum Borgarahreyfinguna, síðar Dögun, og flokksbrotin sem urðu til út úr breiðfylkingarhópnum sem stofnaði Dögun verður seint sögð að fullu og veldur e.t.v. mestu að það er útlit fyrir að þeir sem eru nátengdastir söguviðburðunum séu af einhverjum ástæðum ekki tilbúnir til að horfast afdráttarlaust í augu við það hvað liggur hinni eiginlegu atburðarrás til grundvallar ásamt því að fjölmiðlar láta sem allt sé þar með kyrrum kjörum.
Atvikastýring keyrð áfram af geðþótta
Hér í framhaldinu verða dregnir fram mjög afmarkaðir punktar sem lúta allir að óvönduðum staðhæfingum og skaðlegum áhrifum þeirra. Þeir sem verður vitnað til eru allt saman einstaklingar sem hafa viljað láta taka sig alvarlega í pólitískri umræðu.
Einn verður brátt fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, tveir eru fyrrverandi frambjóðendur Dögunar, einn er þáttastjórnandi Silfursins og einn er fyrrverandi ritstjóri fjölmiðils sem hefur lengst af verið hvað umdeildastur og þá einkum fyrir það sem hingað til hefur verið kennt við gula pressu. Tveir þeir síðarnefndu hafa verið í töluverðu uppáhaldi hjá mörgum þeirra sem hafa viljað láta kenna sig við byltingu og mótmælaframboð ef mið er tekið af því hvernig slíkir hafa látið með það sem frá þeim tveimur hefur komið á nýliðnu kjörtímabili.
Þetta sætir ekki síst furðu þar sem báðir virðast oft og tíðum helst vera háðir egómiðaðri geðþóttapólitík. Egill Helgason á þó sannarlega til vitsmunamiðari hliðar sem væri óskandi að hann legði meiri rækt við.
Þessir fjórir eiga það allir sameiginlegt að halda úti bloggsíðum þar sem þeir hafa gjarnan sett fram lítt rökstuddar fullyrðingar varðandi pólitískar hræringar. Áhrif þeirra varðandi túlkun og skoðanamyndun verður væntanlega seint fullmetin nema að undangenginni vandaðri rannsókn. Hér í framhaldinu verður þess freistað að vekja athygli á afmörkuðum þáttum sem hljóta að vekja upp spurningar varðandi áreiðanleika viðkomandi og þá um leið hvað þeim gengur til.
Í þessum tilgangi verða skoðaðar fullyrðingar beggja frambjóðenda Dögunar um að Lilja Mósesdóttir og/eða SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar beri ábyrgð á slöku brautargengi stjórnmálaflokksins sem þeir voru í forsvari fyrir. Þá verður fullyrðing Egils Helgasonar um að vísasta leiðin til áhrifaleysis í pólitík sé að vera ekki inni á þingi fyrir Vinstri græna skoðuð ásamt sérstæðum játningum hins fullyrðingaglaða Jónasar um það sem hafði farið framhjá honum varðandi offjölgun Dögunar. Af einhverjum ástæðum treysti hann sér samt til að mæla með Dögunarþrennunni í aðdraganda alþingiskosninga.
Þetta verður skoðað í tveimur framhaldsbloggum sem bera titlana: Þegar pólitískt innsæi þrýtur og Pólitískir verðurvitar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.5.2013 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrsti í samstöðu gegn ESB
30.4.2013 | 19:17
Í kjölfar alþingiskosninga ætti að vera komið rúm til að fara að einbeita sér að samstöðunni aftur. Eitt af því sem sameinar þvert á flokka er andstaðan við ESB aðlögunarferlið. Á nýliðnu kjörtímabili hefur áherslan á aðlögun verið slík að hún hefur nánast drekkt allri annarri umræðu og haldið mikilvægum innanlands- málum í heljargreipum.
Sama hvað um niðurstöðu nýliðinna alþingis-kosninganna má segja er ljóst að þessari áherslu var hafnað. Það hefur því myndast svigrúm til að halda andstöðu stórs hluta þjóðarinnar gegn bæði aðlögunarferlinu sjálfu svo og aðildinni að Evrópusambandinu á lofti.
Fyrsta tækifærið er morgundagurinn. Heimsýn hefur látið útbúa skilti og borða sem verður útbýtt fyrir 1. maí gönguna á morgun til þátttakanda sem vilja afþakka frekari óþægindi í boði Evrópusambandsins hér á landi. Á síðu Heimsýnar segir í tilkynningu þar sem vakin er athygli á þessum þætti göngunnar á morgun:
Á þessum hátíðisdegi er rétt að muna eftir því hversu miklu það skiptir fyrir launþega að atvinnuástand sé gott. Því miður hefur atvinnuleysi stóraukist í löndum ESB að undanförnu og er nú svo komið að það er að meðaltali um 12 prósent, en farið að nálgast 30% á Spáni og Grikklandi, en þar er um helmingur ungs fólks án atvinnu.
Höldum því á lofti að það er íslenskum verkalýð ekki til heilla að ganga í ESB. (sjá hér)
Gangan hefst kl. 13:30 en þeir sem vilja halda uppi andstöðunni gegn ESB eru hvattir til að mæta á bílaplanið við Arion-banka kl. 13:00 þar sem skilti og borðar verða afhent. Gengið verður niður Laugarveginn og niður á Ingólfstorg þar sem verkalýðsforystan er með útifund. Þátttakendur eru hvattir til að koma skilaboðunum rækilega á framværi þar með því að hafa skiltin og borðana áberandi.
Stofnaður hefur verið viðburður inni á Fésbókinni (sjá hér). Eftir útfundinn býður Heimsýn upp á kaffi á skrifstofu sinni að Hafnarstræti 18 (sjá hér). Hér má líka benda á að tvær undirskriftarsafnanir eru í gangi þar sem aðildarviðræðum er hafnað.
Önnur er á skynsemi.is þar sem einfaldlega er skorað á Alþingi að leggja til hliðar aðildarumsókn að Evrópusambandinu. (sjá hér). Nýlega hrinti svo Samstaða þjóðar annarri undirskrifasöfnun af stað með enn afdráttarlausara orðalagi þar sem segir: Við undirrituð skorum á Alþingi að stöðva strax viðræður Íslands við Evrópusambandið um aðild Íslands að ESB með formlegri ályktun (sjá hér).
Stöndum vörð um framtíðina og lífskjör almennings og fjölmennum á morgun í þeim tilgangi að gera ESB-andstöðuna áberandi í 1. maí göngunni og göngum saman með skynseminni og segjum: Nei, takk við ESB!
![]() |
Framsókn ekki með einkaleyfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.5.2013 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Í kjörklefanum
27.4.2013 | 21:51
Eins og lesendur eru eflaust meðvitaðir um standa kjósendur frammi fyrir óvenju miklu vali í alþingiskosningunum sem fram fara í dag. 11 stjórnmálaflokkar bjóða fram í öllum kjördæmum, 12 í Norðvestur, 13 í Reykjavík norður og 14 í Reykjavik suður. Þetta eru 15 stjórnmálaflokkar alls.
Mörgum þykir þetta offramboð vera skýrasti vitnisburðurinn um þá stjórnmálakreppu sem blasir við hér á landi sem bein afleiðing efnahagshrunsins og þess ráðaleysis sem pólitíkin hefur orðið ber af frammi fyrir því hvernig skuli tekið á fjármálaheiminum sem nærir rót vandans.
Viðbrögðin við offramboðinu hingað til minna helst á einhvers konar sjokkviðbrögð og má e.t.v. heita eðlilegt því það er væntanlega það síðasta sem nokkrum datt í hug að dáðleysi velferðarstjórnarinnar sem tók við í kjölfar bankahrunsins myndi leiða til þeirra algeru upplausnar á þeim væng stjórnmálanna, sem hingað til hefur verið kenndur við vinstri, að hvorki fleiri né færri en 11 ný framboð myndu bjóða fram nú.
Á meðan ríkisstjórnarflokkarnir tveir ásamt velflestum offramboðanna hafa komið fram eins og þeir séu að bjóða fram annaðhvort í einskismannslandi eða í litla, sæta menntaskólanum sínum þar sem atkvæði klíkusystkinanna mun tryggja þeim völd vaxa Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn sem meirihluti hópsins hefur tekið sig saman um að gera að sínum höfuðandstæðingum.
Það er auðvitað býsna þægilegt að stinga höfðinu bara ofan í sandinn og láta sem 13 framboð sé eðlilegri útkoma en einn til þrír félagshyggju- og umhverfisverndarflokkar sem teflt er gegn fjármagnssinnuðum stóriðju- og virkjanaflokkum. Meðal nýju framboðanna eru reyndar tveir flokkar sem skera sig úr hinum 11. Þetta eru Landsbyggðarflokkurinn og Regnboginn.
Landsbyggðarflokkurinn setur landsbyggðina á oddinn. Þeir sem þekkja til á landsbyggðinni eru væntanlega sammála því að það var kominn tími á að málefni hennar fengju sterka rödd. Því miður býður flokkurinn eingöngu fram í Norðvesturkjördæmi.
Regnboginn er álitlegur kostur fyrir þá sem vantar valkost sem setur umhverfis-, jafnréttis- og lífskjaramál þeirra verst settu í forgang. Hann er raunar líka eini valkostur þeirra sem vilja tryggja það að á næsta þingi verði einstaklingar sem láti ekki beygja sig í ESB-málinu.
Nóttin framundan mun leiða það í ljós hvort þessir flokkar muni koma mönnum inn á þing. Það má hins vegar draga það fram hér að ef þeir megindrættir sem skoðanakannanir undanfarandi daga hafa bent til að verði niðurstaða kosninganna að þá er tilefni til að benda formönnum bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á að færa foringjum og/eða talsmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna ásamt offramboðunum 11 sérstakar þakkir fyrir að hafa beint kjósendum til þeirra með eiginhagsmunamiðari stjórnmálablindu sinni. Sjálfsagt er að þakka öllum stærri fjölmiðlum á Íslandi líka fyrir þá niðurrifs- og sundrungarpólitík sem þeir hafa alið á með sínu framlagi.
Það er hins vegar óskandi að almenningur minnist þess hverju samstaða almennings skilaði á síðasta kjörtímabili. Það er ekki síður óskandi að allir hafi það í huga að ef niðurstaða kosninganna nú lítur út fyrir að vera svört að þá verðu pólitíkin varla mikið svartari en á síðasta kjörtímabili. Það eru þó væntanlega einhverjir sem hafa áttað sig að það verður verulegt skarð fyrir skildi þar sem Lilja Mósesdóttir verður ekki meðal þeirra sem verða á næsta þingi.
Kjósendur munu þar af leiðandi ekki eiga neinn sérfræðing í efnahagsáföllum á komandi þingi. Þess vegna er hæpið að þar verði nokkur sem upplýsi almenning um afleiðingar þeirra fjármálagjörninga sem komandi þingheimur hefur til umfjöllunar og/eða meðferðar. Af þessum ástæðum verður almenningur að standa sig miklu betur á verðinum gagnvart því sem fram fer inni á þingi.
Það er afar líklegt að ásókn erlendra kaupahéðna eins og Ross Beaty og Huang Nubo muni harðni til muna á næsta kjörtímabili og ekki ólíklegt að bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur verði veikir á svellinu gagnvart því að fá skjótfengna peninga í ríkiskassann til að keyra upp atvinnulífið. Það er líka afar líklegt að áróður Evrópusinnanna í Já-Ísland muni harðna verulega strax eftir kosningarnar auk þess sem það er líklegra en ekki að afstaða landsfunda Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks verði lítið heilagri en kosningaloforð Vinstri grænna gagnvart sínum kjósendum fyrir fjórum árum.
Það eina sem íslenskur almenningur hefur að treysta á við þær aðstæður, sem er hætt við að muni blasa við undir morgun, er hann sjálfur. Það ríður því á miklu að allur almenningur verði fljótur að ná sér af doðanum sem sá pólitíski ærslaleikur sem hér hefur viðgengist hefur valdið. Þetta er orðinn langur tími eða heilt ár og keyrði svo um þverbak síðustu þrjá til fjóra mánuðina.
Ég leyfi mér að vona að uppskeran af þessum öfgakennda og lamandi ærslaleik verði sá jákvæði lærdómur að horfast í augu við það að það var samstaða almennings sem dugði best á síðasta kjörtímabili. Það er mikilvægt að þetta komist til skila þar sem það er útlit fyrir að hún verði áfram eina trygga haldreipi almennings á því næsta líka.
Lífið hefur alltaf verið hópverkefni en það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að almenningur standi saman í að verja framgang þess eins og nú. Þeir sem eru sammála því að til að tryggja grunnforsendur lífsins þurfi að verja landið og menninguna sem umgjörð um lífið of framtíðina munu að öllum líkindum leiða saman hesta sína fyrr en varir.
Örvæntum því ekki heldur höldum haus og vonum að þessi sem héldu að pólitík væri X-faktor keppni til að komast að í beinni á alþingisrásinni læknist af þeirri glópsku í timburmönnunum sem hljóta að leggjast yfir marga þeirra sem hafa farið offari í sundrungarpólitíkinni á undanförnum vikum.
![]() |
Nokkuð minni kjörsókn í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lífið er ekki einstaklingsframtak
27.4.2013 | 11:41
Íslenskir kjósendur eru sannarlega ekki öfundsverðir af því vali sem þeir standa frammi fyrir í alþingiskosningunum í dag. Í flestum kjördæmum hafa þeir 11 möguleika, 12 í Norðvestur, 13 í Reykjavík norður en 14 í Reykjavík suður.
Auk fjórflokksins svokallaða, þ.e. Framsóknarflokks, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, sem bjóða fram í öllum kjördæmum, eru það eftirtalin framboð: Björt framtíð, Dögun, Flokkur heimilanna, Hægri grænir Lýðræðisvaktin, Píratar og Regnboginn. Alþýðufylkingin og Húmanistaflokkurinn bjóða auk þess fram í báðum Reykjavíkur-kjördæmunum, K-listi Sturlu Jónssonar í Reykjavík suður og Landsbyggðarflokkurinn í Norðvesturkjördæmi.
Framboðin sem eru umfram fjórflokkinn eru því alls 11 og má heita með ólíkindum að í samfélagi sem telur ekki nema 236.944 kosningabæra einstaklinga skuli vera 1.512 sem eru reiðubúnir að taka sæti á 72 framboðslistum 15 stjórnmálaflokka! Þetta vekur ekki síst undrun þeirra sem hafa meira og minna lifað og hrærst í grasrótinni sem flest þessara framboða eru grundvölluð á en enn frekar þeirra sem unnu að því í heilt ár að koma fótunum undir framboð eins og SAMSTÖÐU.
Sundur og saman
Af einhverjum ástæðum fer lítið fyrir þeim spurningum sem mætti ætla að vakni frammi fyrir því að 11 ný framboð hafa komið fram fyrir þessar alþingiskosningar. Húmanista-flokkurinn er elstur, Hægri grænir halda upp á þriggja afmælið sitt í byrjun sumars en hinir níu eru allir í kringum eins árs gamlir eða yngri.
Björt framtíð er elst, stofnuð 5. febrúar. Þá er Dögun, stofnuð 18, mars. Önnur eru yngri og ótrúlega mörg aeins örfárra mánaða. Frá stofnfundi Dögunar hefur sá stjórnmálaflokkur klofnað í þrennt. Klofningarnir eru Píratar stofnaðir 24. nóvember og Lýðræðisvaktin 17. febrúar.
Það hlýtur að vekja sérstaka athygli að á þeim tveimur mánuðum sem eru liðnir frá stofnun Lýðræðisvaktarinnar hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til samstarfs sem er útlit fyrir að snúist um það að atkvæði greidd klofningum Dögunar eða flokkunum sem mætti kalla þríburaframboðið (þ.e. Dögun, Píratar og Lýðræðisvakt) verði talin sameiginlega.
Myndin hér að ofan er tekin af frétt sem birtist á dv.is í gærmorgun en hún var síðan tekin út af einhverjum ástæðum. Áður hafði athugasemdakerfið þó leitt ýmislegt athyglisvert í ljós.
Þegar það er haft í huga að þetta er langt frá því fyrsta fréttin sem birtist um sambands-togstreitu þeirra einstaklinga sem koma við sögu framboðs Dögunar, Pírata og Lýðræðisflokks getur ekki hjá því farið að maður velti fyrir sér uppruna þeirra og tengslum sem að þessum framboðum koma.
Þegar að er gáð
Dögun varð til í framhaldi þess að þrír stjórnmálaflokkar tóku sig saman við leigu húsnæðis sem stendur við Brautarholti 4. Húsnæðinu var gefið heitið Grasrótarmiðstöðin enda var yfirlýstur tilgangur þessa framtaks sá að skjóta skjólshúsi yfir þá grasrót sem hafði staðið að ýmis konar viðspyrnuverkefnum eins og tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave og Tunnumótmælum sem knúði ríkisstjórnina m.a. til að setja saman samráðsnefnd um skuldaúrræði húsnæðislánagreiðenda.
Hér eru ótalin grasrótarsamtök eins og Heimavarnarliðið og Hagsmunasamtök heimilanna sem hvort með sínum hætti hafði sýnt skuldugum heimilum ómetanlegan stuðning. Hagsmunasamtök heimilanna komu aldrei að Grasrótarmiðstöðinni en Heimavarnarliðið hélt reglulega fundi þar. Þeir sem tóku húsið á leigu höfðu þó afar takmarkaðan áhuga á grasrótinni sem slíkri heldur heltu sér í það að stofna stjórnmálaflokk.
Eftir á að hyggja er útlit fyrir að megintilgangurinn hafi verið sá að tryggja ákveðnum einstaklingum innan Hreyfingar, Frjálslyndra, Hagsmunasamtaka heimilanna og fyrr- verandi stjórnlagaráðs þingsæti. Einhvers staðar á leiðinni komu svo hagsmunaöfl frá Útvarpi Sögu og Fjölskylduhjálpinni inn í þetta og gerðu kröfu um það að oddvitar þeirra fengju örugg sæti. Niðurstaðan varð fjórir flokkar; þ.e: Dögun, Píratar, Lýðræðisvaktin og Flokkur heimilanna.
Þegar horft er til þess hverjir skipa fyrstu sæti þessara framboða er ljóst að Frjálslyndi flokkurinn hefur hvergi fengið athvarf. Hins vegar er einn Hreyfingarþingmaður í oddvitasæti á lista Dögunar og annar á lista Pírata. Tveir fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna eru í oddvitasæti á lista Dögunar og einn á lista Flokks heimilanna.
Fulltrúar stjórnlagaráðs eiga oddvitasæti á öllum listunum fjórum ef undan er skilinn listi Pírata en Smári McCarthy bauð sig þó fram til stjórnlagaráðs. Jón Þór Ólafsson hefur verið mikill ákafamaður um framgang stjórnarskrárfrumvarpsins. Hann hefur líka verið mikilvirkur stuðningsmaður Hreyfingarþingmannanna. Aðalheiður Ámundadóttir var starfsmaður stjórnlaganefndar (sjá hér).
Útvarp Saga og Fjölskylduhjálpin hafa hvergi fengið athvarf nema á lista Flokks heimilanna. Rétt er að taka það fram að fulltrúi Fjölskylduhjálparinnar er í öðru sæti en ekki oddvitasæti þess lista þar sem hann á sæti eins og aðrir sem hér hafa verið taldir. Það er líka rétt að það komi fram að þeir fulltrúar Útvarps Sögu sem eiga oddvitasæti á lista Flokks heimilanna sátu stofnfund Lýðræðisvaktarinnar 15. febrúar. Formlegur stofnfundur Flokks heimilanna var haldinn 1. apríl.
Fylgistregðan kann að byggja á vantrausti
Í draumi þessara nýju framboða er falið fall Borgarahreyfingarþingmannanna sem mun að öllum líkindum gera það að verkum að þeir verða tiltölulega fáir meðal kjósenda sem treysta sér til að kjósa nokkurt nýju framboðanna. Væntanlega eru þó þau framboð sem rekja uppruna sinn til sömu róta og Borgarahreyfingin útilokuðust frá því að njóta trausts meðal kjósenda.
Það er reyndar nánast útilokað að þeir sem hafa fylgst grannt með því hvernig þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa farið með traust 7,2% kjósenda geti hugsað sér að kjósa Dögun eða Pírata. Reyndar ekki ólíklegt að einhverjir þeirra sem kusu Borgarahreyfinguna fyrir fjórum árum veðji frekar á fjórflokkinn í þessum alþingiskosningum.
Kjósendur létu sig dreyma um breytingar í málefnaáherslum og nýjungar varðandi sambandið á milli þings og þjóðar. Draumarnir voru grundvallaðir á þeirri réttlætisást sem virtist búa undir amatörslegum málflutningi og framkomu þeirra hversdagslegu einstaklinga sem skipuðu sér í efstu sæti Borgarahreyfingarinnar. Kjósendur leyfðu sér að treysta því að þessi væru blásin sama eldmóði og þær þúsundir sem höfðu mótmælt víða um land og krafist réttlátra leiðréttinga á lífskjörum sínum ásamt uppgjöri við hrunið.
Þó vonbrigði kjósenda í síðustu kosningum hafi tæplega verið skoðuð af yfirvegun eða alvöru þá er greinilegt að það gera sér flestir grein fyrir því að fylgishrun Samfylkingar og Vinstri grænna í skoðanakönnunum að undanförnu stendur í beinum tengslum við framgöngu þessara flokka á kjörtímabilinu. Hins vegar virðast þeir vera fáir sem tengja lélegt fylgi offramboðsins við vonbrigðin sem Borgarahreyfingin olli sínum kjósendum á kjörtímabilinu.
Ein líklegasta skýringin á afar lélegu fylgi langflestra meðal offramboðsins er að vonirnar sem voru bundnar við nýtt framboð í síðustu alþingiskosningum brugðust. Framganga Borgarahreyfingarþingmannanna hefur ekki aðeins grafið undan þeim sjálfum og framboðum þeirra heldur þora kjósendur ekki að treysta nýjum framboðum þar sem síðasta kjörtímabil sýndi það svart á hvítu að það eru ekki aðeins meðlimir eldri flokkanna sem bregðast.
Fulltrúar mótmælaframboðsins, sem 7,2% kjósenda treystu fyrir atkvæði sínu, stukku yfir í annan flokk, sneru baki við stuðningsmönnum sínum, grasrót og tóku eitthvert svig á stefnumálin. Þau hafa m.a.s. orðið ber að því að ljúga blákalt um staðreyndir.
Því miður virðist ekkert lát ætla að verða á óheiðarleikanum þó þingmennirnir hafi stofnað nýja flokka í kringum framboð sín. Þannig reynir Þór Saari, sem skipar 5. sæti á lista Dögunar í Suðurkjördæmi, að halda því fram að: Því miður náðu egóin tökum á sumum upprunalegu félögum okkar og til urðu Lýðræðisvaktin, Píratar, Samstaða (sem svo hvarf), Hægri grænir og fleiri. (sjá hér)
Ég veit ekki hvort Guðmundur Franklín geti tekið undir það að hann hafi einhvern tímann verið félagi þingflokks Hreyfingarinnar. Það er hins vegar ljóst að eftir að Hreyfingar-þingmennirnir sviku bæði Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslason haustið 2011 hafði þingflokkur Hreyfingarinnar opinberað svo þjónkun sína við ríkisstjórnina, sem Atli og Lilja höfðu sagt skilið við vorinu áður, að það var útilokað að þessi ættu frekari samleið (sjá hér).
Fráhrindandi óheilindi
Það að að kenna SAMSTÖÐU um lélegt gengi Dögunar ber ekki aðeins vitni um verulegan skort á pólitísku innsæi heldur er framsetningin bæði óheiðarleg og óforskömmuð afbökun á sannleikanum. En Þór virðist ekki vera einn um það meðal Dögunarfélaga að kunna ekki að fara rétt með staðreyndir heldur búa veruleikann til eftir aðstæðum. Gunnar Skúli Ármannsson, sem skipar heiðursætið á lista Dögunar í kjördæmi Margrétar Tryggvadóttur, heldur viðlíka fram um ástæður lélegs fylgis Dögunar:
Dögun var stofnuð til að sameina alla þá sem vildu gefa fjórflokknum frí. Meginástæðan er að fjórflokkurinn er verkfæri séhagsmunaaðila eða auðvalds eins og það hefur lengstum verið kallað. Tilraunin mistókst. Lilja Mósesdóttir vildi stofna sinn flokk, Birgitta vildi stofna sinn flokk og Lýður vildi stofna sinn flokk. Sturla vildi stofna sinn flokk, Halldór í Holti vildi stofna sinn flokk og svo framveigis. (sjá hér)
Hér er ástæða til að minna á að haustið 2011 tók Þór Saari nefndarsæti af Atla Gíslasyni í Íslandsdeild vestnorræna ráðsins (sjá hér og hér) meðvitaður um það hversu mikils virði sætið var Atla. Enginn Hreyfingarþingmannanna hafði heldur neitt við það að athuga að á sama tíma var Þuríður Bachman sett í sæti Lilju Mósesdóttur í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins (sjá hér og hér). Þetta var gert þremur dögum áður en Lilja átti að fara til Strassborgar og flytja ræðu sem fulltrúi flokkahópsins hennar um skýrslu OECD um efnahagsmál (sjá hér).
Það er svo rétt að taka það fram að SAMSTAÐA flokkur lýðræðis og velferðar var stofnaður 15. janúar 2012, tæpum fjórum mánuðum eftir að Hreyfingarþingmennirnir höfðu opinberað þjónkun sína við ríkisstjórnina. Dögun var ekki stofnuð fyrr en tveimur mánuðum eftir að SAMSTAÐA var stofnuð eða 18. mars það sama ár.
Engin formleg beiðni um málefnasamstarf barst nokkurn tímann frá Dögun til stjórnar SAMSTÖÐU. Hins vegar er ljóst að einhverjir fulltrúar Dögunar lágu mjög í einstökum stjórnarfulltrúum SAMSTÖÐU. Flest bendir til að það hafi haft þann tilgang að freista þess að það næðist meirihlutafylgi innan stjórnar SAMSTÖÐU fyrir þeirri hugmynd að flokkarnir sameinuðust.
Hér verða þessi samskipti ekki rakin frekar í bili en það má þó minna á það að í alþingiskosningunum 2009 fór Borgarahreyfingin fram með efnahagsstefnu sem var að langmestu leyti byggð upp á hugmyndum sem Lilja Mósesdóttir hafði lagt fram á Opnum borgarafundum haustið 2008 og á Austurvelli í upphafi árs 2009.
Nú eru það fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna sem sjá um að útskýra efnahagsstefnu Dögunar en hún er að langmestu leyti kóperuð upp úr stefnuskrá SAMSTÖÐU þó þessir fyrrum formenn Hagsmunasamtaka heimilanna falli gjarnan í þá freistni að tala um hana eins og sitt eigið sköpunarverk. (sjá t.d. hér)
Stolið og stælt eða sérstaða
Það er líklegra að allir þeir sem hafa tekið þátt í því að sópa upp flokkum og fólki á nýliðnu ári hafi verið meira haldnir af kappi en forsjá. Það vekur t.d. athygli að stefnumál langflestra er eins og sniðin að þeirri málefnadagskrá sem haldið hefur verið á lofti af eigendastýrðum fjölmiðlum. Viðhorf þessara skyndiflokka til mikilvægra mála eins og ESB-aðlögunarinnar er því í aðalatriðum eins og úrklippubók þeirra frasa sem hafa komið fram á RUV og 365-miðlum um þetta efni.
Meðal nýju flokkanna er þó að finna tvær gleðilegar undantekningar. Annars vegar er það. Landsbyggðarflokkurinn sem er með algerlega sjálfstæða stefnu í málefnum landsbyggðarinnar. Viðhorf oddvita listans hafa líka komið spyrlum konsingastjónvarpsins á RUV oftar en einu sinni algerlega í opna skjöldu. Miðað við það litla vægi sem málefni landsbyggðarinnar hafa fengið að undaförnu, bæði í stjórnmálaumræðunni og í störfum þingsins, er það fagnaðarefni að hér sé kominn fram flokkur sem vill verja hagsmuni landsbyggðarinnar sérstaklega.
Annar flokkur sem nýtur töluverðar sérstöðu er Regnboginn sem varð ekki síst að veruleika fyrir þá staðreynd að enginn hina flokkanna var reiðubúinn til að leggja upp í kosningabaráttuna með aðildarviðræðurnar við ESB að aðalmáli. Regnboginn er eini flokkurinn sem er afdráttarlaust á móti því að aðildarviðræðunum verði framhaldið án þess að þjóðin fái tækifæri til að segja sitt álit áður en aðlögunarferlinu lýkur.
Ef litið er til fjölda flokka eingöngu, fyrir þessar alþingiskosningar, er ljóst að kjósendur eru ekki öfundsverðir. Það er nefnilega ekkert áhlaupaverk að kynna sér öll þessi framboð og reyna að gera upp hug sinn. Væntanlega fallast mörgum hendur þegar þeir horfa framan í það að margir flokkanna bjóða líka upp á stefnuskrár sem eru eins og afrit hver af annarri eða klippimyndir héðan og þaðan.
Einhverjir bjóða upp á stefnur í málaflokkum sem enginn í oddvitasætunum hefur menntun eða beina reynslu af. Sumir bjóða m.a.s. fram með efnahagsstefnu SAMSTÖÐU án þess að nokkur innan flokksins sé með þá sérfræðimenntun sem til þarf til að hrinda í framkvæmd efnahagsáætlun til að byggja upp efnahagsstöðugleika í kjölfar þess sem hefur átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði eftir bankahrunið 2008.
Þegar 15 flokkar bjóða fram til þings með 1.512 frambjóðendum alls er ljóst að einhverjir verða fyrir vonbrigðum. Það er hætt við að kjósendur verði líka fyrir vonbrigðum... Ég hef satt að segja mestar áhyggjur af þeim. Ég vona samt að þeir séu fáir sem eru í sömu standandi vandræðum og ég með að kjósa!
Kannski að ég rölti bara þarna austur eftir og skili auðu...
![]() |
Rólegt í Laugardalshöllinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vakkað yfir lýðræðinu
25.4.2013 | 22:25
Meginskilningur þeirra hópa sem hafa mótmælt á undanförnum misserum í ríkjum Evrópu og víðar er að vandinn sem við er að glíma sé sá að no true democracy is attainable when the process is determined by economic power (sjá t.d. hér).
Það verður heldur ekki betur séð en þetta sé sameiginlegur skilningur mótmælenda hvort sem þeir hafa risið upp á meginlandi Evrópu, vestur í Ameríku eða austur í Japan. Hvarvetna mótmæla bæði ungir og aldnir óréttlætinu sem kemur fram í því að stöðugt er gengið lengra í niðurskurði almannahagsmuna til bjargar bönkum og öðrum fjármálastofnunum (sjá t.d. hér).
Af þessu verður ekki betur séð en skilningur fjöldans úti í hinum stóra heimi sé sá að skýringin á versnandi lífskjörum almennings sé fremur efnahagslegur en stjórnmálalegur. Hér á landi ætti þetta að liggja enn betur fyrir þegar litið er til þess litla árangurs sem hefur náðst með því að uppfylla kröfur Búsáhaldabyltingarinnar um að skipta út andlitum í yfirstjórnum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitins ásamt því að kjósa upp á nýtt.
Það sem ætti að standa upp úr eftir þetta kjörtímabil er sá lærdómur að efnahagsvandinn verður ekki leystur með því að skipta út fólki og kjósa nýja flokka.
Lausnin liggur í samstöðunni
Þegar mið er tekið af efnahagsatburðum kjörtímabilsins ætti það hins vegar að blasa við að samstaða almennings er miklu líklegri til að ná árangri gagnvart fjármálaöflunum en það að skipta út fólki hvort sem er inni á þingi eða í eftirlitsstofnunum fjármálageirans. Hér er að sjálfsögðu verið að vísa til Tunnumótmælanna og þeirrar öflugu samstöðu sem náðist í tvígang gegn Icesave.
- Það er nánast útilokað að Icesave-samningarnir væru úr sögunni ef ekki hefði komið til gallhörð sjálfboðavinna þeirra einstaklinga sem skipuðu grasrótarhópana sem vöktu athygli almennings á innihaldi samninganna, afleiðingunum yrðu þeir samþykktir og svo lögfræðilegum möguleikum Íslendinga í málinu.
- Sértækar vaxtabætur hefðu heldur aldrei orðið að veruleika nema fyrir hinn stórkostlega samtakamátt sem opinberaðist fyrir framan alþingishúsið í Tunnumótmælunum 4. október 2010. Væntanlega hafa framhaldsmótmælin dagana á eftir sannfært samráðsnefndina sem var kölluð saman í kjölfarið enn frekar um að hún varð að gera eitthvað til að draga úr mótmælunum.
Við þetta má líka bæta að það hefði væntanlega lítill sem enginn árangur náðst í baráttunni við miskunnarleysi gengistryggðu lánanna ef ekki hefði verið fyrir þrautseigju hjónanna sem kærðu þau og höfðu sigur í málinu. Það má auðvitað ekki gleymast að það voru sem betur fer einstaka þingmaður sem reyndi að sporna gegn þjónkun Alþingis við peningavaldið og skjóta a.m.k. inn þingsályktunartillögum til að koma hagmunamálum fjölskyldna og fyrirtækja í landinu að í umræðum kjörtímabilsins á þinginu ásamt breytingum á efnahagsumhverfinu.
Í ljósi þess hvaða viðtökur lausnarmiðaðar hugmyndir Lilju Mósesdóttur hafa fengið á kjörtímabilinu bæði inni á Alþingi og meðal fjölmiðlamanna, sem ítrekað annaðhvort hundsuðu þær eða réðust gegn persónu hennar, er ekki annað hægt en taka undir þessi orð hins 79 ára aktívista Ralph Nader:
Our democracy is in decay, with no end in sight unless there is a sustained response from an aroused citizenry to stop the corporatists from blocking so many proven solutions for our countrys promblems. (sjá hér)
Í lok þessa kjörtímabils blasir nefnilega við sú sorglega staðreynd að: Í stað þess að almenningur brýni samstöðu sína lætur hann framagjörnum frambjóðendum það eftir að sundra samstöðu sinni og koma þannig í veg fyrir að kraftinum sem í samstöðu hans liggur verði beitt.
Það verður heldur ekki betur séð en þeim sem stafar ógn af sérfræðikunnáttu Lilju Mósesdóttur í efnahagsáföllum séu í aðstöðu til að nota bæði Alþingi og fjölmiðla til að útiloka hana.
Traust afturhald
Þorvaldur Gylfason er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Af einhverjum ástæðum hefur ekki farið mikið fyrir honum hér heima í allri þeirri efnahagsumræðu sem fram hefur farið á yfirstandandi kjörtímabili. Honum hefur þó brugðið fyrir þar sem hann hefur mært efnahagsráðgjöf Alþjóðagjaldeyris-sjóðsins og undirstrikað nauðsyn hennar (sjá t.d. hér). Afstaða hans í Icesave er líka löngu orðin fræg af endemum þar sem hann sagði:
[...] ítrekaðar yfirlýsingar íslenzkra stjórnvalda um, að staðið yrði við skuldbindingar íslenzku bankanna samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins um tryggingasjóði, bindi hendur stjórnvalda og samningar séu því nauðsynlegir og dómstólaleiðin komi af þeim sökum ekki til álita. Þetta sjónarmið verður ekki heldur vefengt. Hver vill vitandi vits eiga viðskipti við mann, sem er þekktur að því að víkja sér undan að efna gefin loforð með þeim rökum, að honum beri ekki lagaskylda til þess?(sjá hér)
Sú hollusta sem kemur fram í málflutningi Þorvaldar, þar sem hann tjáir sig um málstað Íslendinga gagnvar erlendum fjármálastofnunum, ætti ekki að koma á óvart þegar það er haft í huga hversu nátengdur hann er bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Undanfarin ár hefur hann nefnilega ferðast um heiminn, einkum Afríku, Asíu og Mið-Austurlönd, sem ráðgjafi þessara stofnana.
In recent years, he has been a frequent consultant to the International Monetary Fund and also the World Bank, the European Commission, and the European Free Trade Association (EFTA). This work has included extensive lecturing at the Joint Vienna Institute in Vienna, in all parts of Africa, as well as in Asia and the Middle East. (sjá hér)
Þrátt fyrir þann tilfinnanlega skort sem er á stuðningi við hagsmuni almennings í málflutningi Þorvaldar hefur hann alla tíð verið hátt skrifaður af þeim hópi sem stóð á bak við Búsáhaldabyltinguna. Það liggur hins vegar ekki fyrir hvers vegna eða hver þáttur Þorvaldar var í hinni eiginlegu Búsáhaldabyltingu.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur Þorvaldur Gylfason verið eins og einhvers konar mentor Hreyfingarþingmannanna og margra þeirra sem tilheyrðu Borgarahreyfing- unni sálugu. Það var kannski þess vegna sem hann þótti ómissandi þegar fulltrúar þessara tveggja komu saman ásamt Frjálslynda flokknum í Grasrótarmiðstöðinni haustið 2011 í þeim tilgangi að blása til breiðfylkingar sem byði fram við alþingiskosningarnar sem nú eru framundan.
Strax í upphafi þessara viðræðna var ljóst að í augum Þorvaldar Gylfasonar þá skiptir ný stjórnarskrá meginmáli. Þegar það er haft í huga að samkvæmt 111. gr. stjórnarskrár-frumvarpsins, sem hann tók þátt í að setja saman ásamt öðrum stjórnlagaráðsfulltrúum, er heimilt að framselja valdi íslenska ríkisins til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að (sjá hér) ætti það að vera ljóst að Þorvaldi eru hagsmunir vinnuveitenda sinna á erlendri grundu enn og aftur ofarlegar í huga en hagsmunir íslensku þjóðarinnar.
Í stuttu máli þá var Þorvaldur Gylfason ekki fyrirferðarmikill á því meginsviði sem breiðfylkingarmyndunin, sem síðar varð Dögun, fór fram. Aftur á móti tók hann sviðið yfir þegar kom að því að Rokkrúta Dögunar fór um landið til að halda úti boðskap þeirra sem komu fram í því að hafa gert stjórnarskrána að sínu meginmáli haustið 2012. Þorvaldur hafði undirbúið sig vel fyrir þessa ferð því hann var tilbúinn með kennslugöng um það hvernig ætti að kjósa strax um miðjan mars eða sjö mánuðum áður en það kom að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána þ. 20. október (sjá hér.
Lýðræðisvakk
Það er ljóst að nokkuð var lagt í ferðalagið en litlum sögum hefur farið af viðtökum eða árangri en ferðalagið var tekið upp, klippt í áhorfendavæna tímalengd og sett inn á You Tube í níu hlutum. Er svo tíðindalaust af þætti Þorvaldar innan Dögunar um hríð. Þegar sex frambjóðendur voru búnir að gera uppskátt um framboð fyrir hönd Dögunar fóru að renna tvær grímur á ýmsa sem höfðu gert ráð fyrir því að Þorvaldur ætlaði sér tæplega að sitja hjá á næst komandi alþingiskosningavertíð enda birtust reglulega sögusagnir um það að í þetta skiptið ætlaði hann sér fram (sjá t.d. hér).
Af fundargerðum Dögunar, sem voru aðgengilegar á heimasíðu Dögunar á þessum tíma, varð heldur ekkert vart við Þorvald en á milli lína var þó tekið að hylla undir þær ryskingar sem leiddu til skálmaldarinnar sem varð opinber upp úr áramótunum. Upp úr sauð á framkvæmdaráðsfundi sem haldinn var skömmu upp úr áramótunum þegar varamaður þess vildi leggja fram vantrauststillögu á dýrasta frambjóðanda Dögunar sem hafði opinberað framboð sitt um miðjan desember en vildi samt fá ráðningarsamning sinn sem kosningastjóra framlengdan (sjá hér).
Þó Finnbogi væri fyrstur til að yfirgefa Dögun opinberlega þá var flóttinn úr Dögun hafinn litlu fyrr og fleiri áttu eftir að fara í kjölfarið. Ýmislegt bendir til að ein af meginástæðum þess að þessir heltust úr lestinni hafi verið ofuráhersla Andreu J. Ólafsdóttur, sem kosningastjóra, á sitt eigið framboð. Hér er yfirlit yfir þá sem yfirgáfu Dögun opinberlega fram að formlegri stofnun Lýðræðisvaktarinnar:
| Úrsögn úr Dögun | Hlutverk hjá Lýðræðisvaktinni |
Finnbogi Vikar | 1. sæti á lista XL í Suðurlandskjördæmi | |
Lýður Árnason | 1. sæti á lista XL í Suðvesturkjördæmi | |
Grétar Mar Jónsson | var á stofnfundi Lýðræðisvaktarinnar | |
Daði Ingólfsson | var á stofnfundi Lýðræðisvaktarinnar |
Rúmum mánuði eftir að frambjóðendaflóttinn hófst hjá Dögun var tilkynnt um stofnun Lýðræðisvaktarinnar.
Stofnendurnir áttu það allir sameiginlegt að hafa verið í stjórnlagaráði sem skilaði af sér drögum að nýrri stjórnarskrá sem gera ráð fyrir því að almenningur geti ekki farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um: fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt en ríkið getur framselt valdi sínu til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að (sjá hér).
Lýðræðinu sett vakt
Á formlegum stofnfundi flokksins sem haldinn var 17. febrúar voru allir helstu flóttamennirnir úr Dögun og vakti þar eflaust mesta athygli Gunnar Tómasson sem hefur farið mikinn undanfarna fjóra mánuði í gangrýni sinni á lausnarmiðaðar hugmyndir Lilju Mósesdóttur, Frosta Sigurjónssonar og Positive Money varðandi aðskilnað peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins. Þetta má t.d. sjá í umsögn hans frá 1. desember 2012 um þingsályktunartillögu Lilju Mósesdóttur (sjá frétt á xc.is) um þessa aðgerð en þar segir m.a:
Mistök við stjórn peningamála á liðinni tíð eru ekki rök fyrir kerfisbreytingu á útlánastarfsemi bankanna heldur þarf að draga nauðsynlegan lærdóm af þeim svo betur takist til í framtíðinni. Til dæmis er einfalt mál að takmarka umsvif bankakerfisins með svokölluðu útlánaþaki sem hefur verið þáttur í efnahagsáætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir mörg aðildarríki um langt árabil. (sjá hér)
Gunnar Tómasson skrifað líka grein nýlega til að vefengja bæði Frosta Sigurjónsson og fulltrúa Positive Money, sem kom hingað til lands og hélt fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands (sjá frétt um fundinn hér). Þar undirstrikar Gunnar Tómasson ágæti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins enn og aftur:
Í flestum hagkerfum heims er það hlutverk seðlabanka og fjármálaeftirlits að setja nýsköpun peninga af hálfu banka (útlánaþenslu) tilhlýðileg takmörk. Í starfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um langt árabil tók ég þátt í ákvörðun slíkra takmarka, en þau eru einatt lykilatriði í efnahagsáætlunum AGS og aðildarríkja sem glíma við óstöðugleika á fjármálamarkaði og halla á greiðslujöfnuði.
Ef það væri ríkjandi skoðun að ástæða slíkra erfiðleika væri að bönkum hefði verið leyft að búa til peninga, þá myndi þess gæta í ráðleggingum AGS til viðkomandi aðildarríkja, en þess sjást engin merki. (sjá hér)
Sú aðdáun og traust sem fyrrum starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Gunnar Tómasson, ber til sjóðsins virðist reyndar vera nokkuð almenn meðal oddvita Lýðræðisvaktarinnar eins og kom fram hjá Erni Bárði Jónssyni þegar hann sagði aðkomu sjóðsins hafa verið nauðsynlega til að koma hér á aga og festu í efnahagsmálum (sjá hér á mínútu 87). Þessi ummæli lét Örn Bárður falla í kosningasjónvarpi Sjónvarpsins, 9. apríl sl., þar sem efnahagsmálin voru til umræðu.
Á stofnfundi Lýðræðisvaktarinnar sem var haldinn hinn 17. febrúar sl. vakti það og athygli að af þeim sjö sem voru kjörnir/skipaðir í stjórn Lýðræðisvaktarinnar voru fjórir sem komu að stofnun Dögunar og/eða störfuðu með þeim flokki að framboðsmálum.
Það er reyndar ekki síður athyglisvert þegar litið er til þess að fimm af þeim tíu sem voru kjörnir í framkvæmdaráð á stofnfundi Dögunar, sem haldinn var tæpu ári fyrr, starfa nú með Lýðræðisvaktinni. Helmingur oddvita á framboðslistum Lýðræðisvaktarinnar voru áður í Dögun og mætti því með réttu kalla Lýðræðisvaktina annað af tveimur klofningsframboðum Dögunar ásamt Pírötum.
Séð og heyrt
Það er margt sem vekur furðu varðandi flokksstofnun Þorvaldar Gylfasonar rétt rúmum tveimur mánuðum fyrir alþingiskosningar. Maður skyldi t.d. ætla að háskólaprófessor gerði meiri kröfur til faglegra vinnubragða en svo að hann ryki út í það að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn rétt fyrir kosningar og það í því offramboði sem blasti við þegar stofnun Lýðræðisvaktarinnar var opinberuð.
Annað sem vekur furðu eru áherslurnar í stefnuskrá Lýðræðisvaktarinnar, skorturinn á kynningu hennar og svo það sem í versta falli myndi teljast óheiðarleiki. Takið t.d. eftir þessu myndbandi og því að Þorvaldur nefnir hvergi að hann hefur verði ráðgjafi þeirra tveggja erlendu fjármálastofnana sem hafa sett efnahagslegri framtíð þeirra Evrópuríkja sem hafa átt hvað erfiðast uppdráttar að undanförnu slík skilyrði að þau eru að kikna undan þeim.
Það hljóta margir að velta því fyrir sér hvaðan Lýðræðisvaktinni og fleiri nýjum framboðum kemur peningurinn til að halda málstað sínum á lofti með auglýsingum á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum og með uppákomum. Það gefur væntanlega auga leið að þegar tveir mánuðir eru í kosningar gefst ekki mikill tími til fjáröflunar fyrir nýtt framboð. Hins vegar kostar myndband eins og þetta.
Í þessu sambandi má líka benda á að þetta er langt frá því að vera eina myndbandið sem hefur verið gert um frambjóðendur Lýðræðisvaktarinnar. Þau eru nokkur (sjá hér) Þau eru líka fleiri dæmin sem benda til þess að Lýðræðisvaktin sé langt frá því að vera á flæðiskeri stödd peningalega. Það kostar nefnilega að birta auglýsingar í blöðum, ljósvaka- og netmiðlum. Hönnun fjölmiðlaauglýsinga og barmmerkja kostar. Hönnun vefsíðna og plakata kosta líka.
Þegar litið er yfir frambjóðendur á lista Lýðræðisvaktarinnar vakna líka margar stórar spurningar. Margir meðal þeirra 114 sem eiga sæti á lista Lýðræðisvaktarinnar eru þjóðþekktir einstaklingar sem hafa lítt eða ekkert komið nálægt pólitík áður og fæstir haft nokkur afskipti af því sem fram hefur farið hér á fjórum síðastliðnum árum. Það er því eðlilegt að maður spyrji sig: Hvað veldur þeim brennandi áhuga þeirra nú svona rétt fyrir kosningar að þau taka sæti á framboðslista algjörlega óþekkts framboðs?
Það er líka undrunarefni að allt þetta vel menntaða og þokkalega vel samfélagssetta fólk skuli hafa gengist inn á þá hugmynd að leggja enn einum nýja flokknum lið sem í grundvallaratriðum á flest allt sameiginlegt með öðrum flokkum sem voru til fyrir. Þegar litið er til stefnumála þá er nefnilega ekki að sjá að Lýðræðisvaktin skeri sig svo mjög úr stefnu fjórflokksins og þá einkum Samfylkingar.
Af nýju flokkunum er Björt framtíð, Dögun og Píratar líka í meginatriðum með sömu áherslur og Lýðræðisvaktin. Í þessu sambandi mál líka benda á að útlit er fyrir að Píratar og Lýðræðisvaktin hafi gert með sér einhvers konar samkomulag um einhvers konar samstarf (sjá hér).
Þegar litið er til málflutnings Þorvaldar Gylfasonar í því meginmáli sem hann heldur fram að hafi hrint honum til stjórnmálaþátttökunnar er full ástæða til að horfa til þess hvernig hann heldur málum á lofti. Hér verður aðeins tiltekið eitt dæmi sem snýr að þeirri fullyrðingu að það sé þjóðarvilji að hér verði tekið upp það stjórnarskrárfrumvarp sem inniheldur takmarkaðan rétt til þjóðaratkvæðagreiðslna og heimildina til fullveldisafsals til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að.
Það liggur nefnilega fyrir að innan við helmingur kjósenda sýndi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið áhuga þ. 20. október sl. Tveir þriðju þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við fyrstu spurningunni sem hljóðaði svo: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? (sjá hér).
Vaktstjóri lýðræðisins
Í aðdraganda þess að núverandi þing lyki störfum opinberaði hagfræðiprófessorinn og vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar, Þorvaldar Gylfasonar, þessa túlkun sína á ofangreindum niðurstöðum:
Alþingi svívirðir lýðræðið á þessum dögum með því að daðra við þá hugmynd frammi fyrir opnum tjöldum að drepa nýja stjórnarskrá sem tveir þriðju hlutar kjósenda hafa lýst með skýrum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu að þeir vilji sem grundvöll nýrrar stjórnskipunar Íslands, (sjá hér)
Það liggur fyrir að vaktstjóri Lýðræðisvaktarinnar telur það brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar að stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs verði samþykkt sem ný stjórnarskrá þjóðarinnar. Þessari skoðun deilir hann ekki aðeins með þingmönnum Hreyfingarinnar heldur líka nokkrum stjórnarskrárfélögum eins og Illuga Jökulssyni sem nýverið setti á stað undirskriftarlista sem snýst um það að þrýsta á það að aðlögunarferli Íslands að ESB verði klárað án þess að vilji þjóðarinnar til aðlögunarinnar verði kannaður áður (sjá hér).
Í söluherferð Lýðræðisvaktarinnar svo og annarra stjórnarskrárliða hefur sá málflutningur verið mjög áberandi að eingöngu með nýrri stjórnarskrá verði þjóðareignin yfir náttúruauðlindunum tryggð. Í þessu samhengi er athyglisvert að 34. grein stjórnarskrárfrumvarpsins segir: Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar (sjá hér (feitletrun er blogghöfundar)).
Það er líka vert að taka eftir því að spurningin varðandi þetta efni í ráðgefandi þjóðaratkvæða-greiðslu hljóðaði þannig: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? (sjá hér (feitletrun er blogghöfundar)).
Í þessu sambandi er rétt að minna á að vatnalögin sem urðu til í ráðuneyti Katrínar Júlíusdóttur og voru samþykkt á Alþingi í september 2011 gera skýran greinarmun á yfirborðsvatni og grunn-vatni. Samkvæmt lögunum er grunnvatn enn í einkaeigu og getur hver ráðstafað af vild (sjá hér). Hér er líka ástæða til að minna á ásókn erlendra aðila í að kaupa hér lönd og vaxandi vatnsskort í heiminum.
Núna á laugardaginn verður kosið til næsta Alþingis. Laugardagurinn er því síðasti dagurinn sem kjósendur hafa til að gera upp hug sinn um það hvort þeir ætli að kjósa og hvaða flokkur af þeim 11 til 14 sem bjóða fram fá þeirra atkvæði. Þeir sem falla fyrir framboðslista sem lítur að nokkru leyti út eins og forsíða á Séð og heyrt munu eflaust vera svolítið veikir fyrir Lýðræðisvaktinni.
Valkostur kjósenda
Þeir sem aðhyllast hugmyndina um foringja eða mentor eiga væntanlega ekki í miklum vandræðum með að sjá Þorvald fyrir sér í því hlutverki. Það hvort að tengsl hans við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópu-sambandið setur strik í reikninginn kemur væntanlega í ljós þegar talið verður upp úr kjörkössunum.
Það er nefnilega óvíst að kjósendur kunni að meta hollustu Þorvaldar við þessa vinnu-veitendur sína. Það er heldur ekki víst að þeir kunni honum miklar þakkir fyrir hvorki þá útkomu sem vinna hans í stjórnlagaráði skilaði né þá áherslu sem hann hefur lagt á afraksturinn.
Það er líka alveg möguleiki að kjósendum sé bæði rétturinn til þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál svo og sjálfstæði þjóðarinnar kærari en Þorvaldi. Það má líka vera að kjósendur sjái í gegnum áherslu Þorvaldar á stjórnarskrárbundna þjóðareign náttúruauðlinda þar sem þeir eru meðvitaðir um að það var tryggt að grunnvatnið væri undanskilið haustið 2011 án þess að Þorvaldur og aðrir stjórnarskrárliðar séu að taka það fram.
Það má vera að einhverjir kjósendur séu á því að Þorvaldur Gylfason sé rétta andlitið til að draga úr valdi núverandi peningakerfis þrátt fyri afstöðu hans í Icesave og þrátt fyrir þögn hans og/eða loðinn málflutning hans um efnahagsmál á kjörtímabilinu. Það má vera að þeir telji tengsl hans og aðdáun á þeim alþjóðlegu peningastofnunum sem eru að leggja efnahag Grikklands, Spánar, Kýpur og fleiri ríkja Evrópu í rúst honum til tekna.
Afstaða kjósenda til stefnumála og verka Þorvaldar Gylfasonar og Lýðræðisvaktarinnar mun aðfararnótt n.k. sunnudags leiða í ljós. Það er m.a.s. möguleiki á því að af niðurstöðum kosninganna megi draga einhverjar ályktanir um það hvort íslenskur almenningur sé enn á því að skýring efnahagshrunsins sé stjórnmálaleg eða hafi hallast að skýringum annarra, sem standa í svipuðum sporum, um að hún sé fremur efnahagsleg.
![]() |
Reynt að bjarga í horn á síðustu stundu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.4.2013 kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dögunarþrenna
20.4.2013 | 15:08
Dögun, Píratar og Lýðræðisvaktin rekja öll rætur sínar til þeirrar Breiðfylkingar sem stofnað var til í Grasrótarmiðstöðinni veturinn 2011-2012. Formlegar þreifingar milli málsaðila hófust einhvern tímann í nóvember árið 2011 en það voru fulltrúar Borgarahreyfingar, Hreyfingar, Frjálslyndra og einstaka stjórnlagaráðsfulltrúa sem að umræðunum komu.
Óformlegar viðræður höfðu þó hafist miklu fyrr um einhvers konar samstarf og jafnvel kosningabandalag í komandi alþingiskosningum á milli Borgarahreyfingarinnar og þingflokks Hreyfingar annars vegar og fulltrúa Hreyfingarinnar og Frjálslynda flokksins hins vegar. Sennilega fóru slíkar þreifingar fyrst af stað sumarið 2010. Fljótlega eftir að umræddir stjórnmálaflokkar gengu til samstarfs um leigu og rekstur Grasrótarmiðstöðvarinnar haustið 2011 fóru viðræður á milli þeirra af stað ásamt Gísla Tryggvasyni og Þorvaldi Gylfasyni sem komu báðir úr stjórnlagaráðshópnum.
Fréttir af samstarfsfálmi Hreyfingarþingmannanna við ríkisstjórnina undir lok desember 2011 virtust ekkert strik setja í samrunaviðræður fyrrnefndra flokka og einstaklinga. Aftur á móti urðu ábendingar um það að vinnuheiti hópsins væri sótt aftur til þýsks nasisma til þess að þegar stofnfundur samrunans var haldinn, þ. 18. mars 2012, var nafninu breytt í Dögun - samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.
Þrátt fyrir síendurteknar staðhæfingar Dögunarfélaga um vilja til samstarfs við SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar, sem var stofnuð tveimur mánuðum fyrr, varð þess vilja lítt vart í hópi þingmannanna þriggja enda ljóst að eftir leynifundi þeirra með ríkisstjórninni undir áramót ársins á undan áttu áherslur Dögunar og SAMSTÖÐU litla samleið.
Vatnaskil við síðustu forsetakosningar
Brestir voru teknir að myndast og verða meira áberandi meðal þess hóps, sem hefð hafði skapast um að kalla einu nafni grasrót, fyrir stofnun Grasrótarmiðstöðina. Með stofnun hennar tókst að draga það eitthvað að leiðir skildu en það er rétt að taka það fram að stofnunin skilaði aldrei þeim tilætlaða árangri að kalla hana saman aftur eins og vonir stóðu til með stofnuninni. Í aðdraganda forsetakosninganna vorið 2012 tóku þessir brestir að koma enn skýrar í ljós.
Þar kom t.d. greinlega fram að þeir sem höfðu tekið skýra afstöðu gegn Icesave-samningunum og tekið þátt í að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um samningana voru líklegri til að styðja framboð Ólafs Ragnars Grímssonar sem ákvað að gefa kost á sér til endurkjörs eftir að hafa tekið við áskorun 31.000 kjósenda þar um. Má vera að þau vatnaskil sem tóku að skýrast megi rekja til mismunandi afstöðu til þess hvort skýringar á ástæðum og afleiðingum efnahagshrunsins eru efnahagslegar eða stjórnmálalegar.
Þeir sem eru á því að skýringarnar séu fyrst og fremst efnahagslegar hafa þá væntanlega frekar stutt Ólaf Ragnar Grímsson en þeir sem studdu aðra frambjóðendur eru þá að öllum líkindum líklegri til að telja skýringar þess vera stjórnmálalegar. Sú er væntanlega líka skýringin á því offramboði sem var á mótframboðum gegn sitjandi forseta. Meðal þeirra sem komu fram í þessum kosningum var Andrea J. Ólafsdóttir núverandi oddviti framboðslista Dögunar í Suðurlandskjördæmi.
Hún hafði gert sig gildandi bæði í fjölmiðlum og víðar sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Í krafti þess hefur hún eflaust talið líklegt að hún fengi stuðning sem myndi duga henni til árangurs. Af þessu tilefni virkjaði hún þá grasrót sem hafði haldið sig við Grasrótarmiðstöðina til að safna meðmælum fyrir forsetaframboð sitt og gerði framboð sitt um leið að álitlegum valkosti þessa hverfandi hóps.
Framboð Andreu vakti vissulega og mörgum fannst hún standa sig vel (sjá hér) en sumir veittu því athygli strax þá að í tilefni framboðsins hafði þessi oft og tíðum frjálslega en þó skelegga kona tamið sér töluvert meiri mýkt bæði í útliti og framkomu auk þess að skipta alveg um fatastíl. Þessi þróun hefur haldið áfram eftir að hún varð fyrst kosningastjóri Dögunar og svo oddviti flokksins í Suðurlandskjördæmi.
Af þeirri áberandi breytingu sem hefur orðið frá því að hún kom fram fyrst í fjölmiðlum sem málsvari Hagsmunasamtaka heimilanna og síðan sem frambjóðandi, fyrst til forsetaembættisins og síðar til alþingiskosninga, hafa einhverjir velt því fyrir sér hver sé leiðbeinandi hennar? Þeir hinir sömu hafa bent á að það sé líklegra að það sé einhver sem kann til vel verka og viti nákvæmlega hvað hann er að gera.
Með þessari uppstillingu er ekki ætlunin að bera Andreu J. Ólafsdóttur saman við Margaret Thatcher að öðru leyti en því að benda á að ýmislegt varðandi þann fatastíl sem Andrea hefur tileinkað sér eftir að hún kom fyrst fram sem frambjóðandi er ekki ósvipaður þeim sem stílisti Margaret Thatcher hefur valið henni. Þar ber mikið á kóngabláum og öðrum bláum tónum, dragtarjökkum og efripörtum með kringdu hálsmáli. Það er af þessum ástæðum ekki fráleitt að láta sér detta það í hug að á bak við framboð Andreu standi fagaðili sem sér í henni þann efnivið sem hann telur að eigi erindi í pólitík.
Þverbrestir
Eftir forsetakosningarnar var kyrrt um hríð en þó bárust þær fréttir um miðjan júlí að Birgitta Jónsdóttir hefði yfirgefið hina tæplega fjögurra mánaða Dögun og hygðist stofna sérstakan flokk í anda Pírata. 24. nóvember var Píratapartýið stofnað (sjá hér). Birgitta Jónsdóttir og Jón Þór Ólafsson hafa verið tveir af helstu málsvörum flokksins.
Jón Þór var m.a. framkvæmdastjóri Borgarahreyfingarinnar í aðdraganda alþingiskosninganna 2009, dyggur stuðningsmaður Hreyfingarinnar allt kjörtímabilið og kom að rekstrarstjórn Grasrótarmiðstöðvarinnar fyrir hönd þingflokksins. Hann reyndist og Dögun haukur í horni við lagabreytingartillögur Borgarahreyfingarinnar og Dögunar til að gera það mögulegt að Dögun gæti tekið upp kennitölu Borgarahreyfingarinnar og þannig gengið að ríkisframlagi hennar sem sínu og ráðstafað að vild (sjá hér).
Í framhaldi þess að fjármagn hafði verið tryggt lögðust Dögunarfélagar í ferðalag um landið haustið 2012 ásamt þremur væntanlegum frambjóðendum sem allir höfðu verið fulltrúar í stjórnlagaráði. Þremenningarnir sem um ræðir eru þeir: Lýður Árnason, Þorvaldur Gylfason og Gísli Tryggvason. (myndin er tekin að láni frá Önnu Karitas Stefánsdóttur og klippt til)
Tilefni ferðarinnar var ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðs og tilgangurinn m.a. að segja landanum til um það hvernig hann skyldi svara þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Kostnaður af uppátækinu var greiddur af hinu nýfengna fé sem náðist til með framangreindu kennitölufifferíi.
Fjármagnið sem um ræðir er sá ríkisstyrkur sem skv. fjárlögum heftur verið tekinn af skattfé almennings til að standa straum af rekstri Borgarahreyfingarinnar sem kom fjórum þingmönnum inn á þing við síðustu alþingiskosningar. Tveir þeirra voru í Dögun á þessum tíma. Það má geta þess að ferðalag stjórnarskráragentanna var tekið upp á myndband og sett í níu þriggja - til fimm mínútna bútum inn á You Tube (sjá hér).
Þegar heim var komið var ráðist í mannaráðningar og brugðið til þeirrar nýlundu að ráða tvo kosningarstjóra og ritstjóra. Þau sem voru ráðin eru: Friðrik Þór Guðmundsson, ritstjóri, og Daði Ingólfsson og Andrea J. Ólafsdóttir, kosningastjórar.
Ráðning Andreu og Friðriks var opinberuð 18. október 2012 (sjá hér) en hálfum mánuði síðar var ráðinn annar kosningastjóri til Dögunar. Sá var Daði Ingólfsson, framkvæmdastjóri SaNS (Samtök um baráttu fyrir nýrri stjórnarskrá (sjá hér)). Það var einkum tvenn sem vakti athygli í sambandi við þessar mannaráðningar Dögunar.
Athyglisverðar mannaráðningar
Í fyrsta lagi er það fáheyrt að tveir kosningastjórar séu ráðnir til stjórnmálaflokks. Hvað þá þegar enn er hálft ár í hina eiginlegu kosningabaráttu. Í öðru lagi var það mannavalið. Ráðning Daða Ingólfssonar vakti ekki aðeins athygli fyrir það að hann var framkvæmdastjóri baráttusamtaka um nýja stjórnarskrá sem þingflokksmenn Hreyfingarinnar höfðu þá haft að meginbaráttumáli í yfir eitt ár heldur hafði Borgarahreyfingin styrkt samtökin sem hann stýrði umtalsvert (sjá hér).
Ráðning Andreu J. Ólafsdóttur vakti ekki minni athygli og þá ekki síst fyrir það að rétt rúmri viku áður en ráðning hennar var opinberuð hafði hún skráð sig í SAMSTÖÐU flokk lýðræðis og velferðar og setið landsfund flokksins þar sem hún tók virkan þátt í kosningum til stjórnar flokksins og lagði sig fram um að hafa áhrif á ályktanir og breytingar á stefnuskrá SAMSTÖÐU sem lagðar voru fyrir fundinn.
Þegar launakjör starfsmanna voru opinberuð í fundargerð Dögunar, sem þá voru aðgengilegar á heimasíðu Dögunar, rifjuðu margir upp það sem Andrea lét hafa eftir sér í fjölmiðlum um markmið sitt varðandi launakröfur næði hún kjöri sem forseti. Einhverjir hafa bent á að mismunurinn hefði verið hóflegri í báðum tilvikum.
Tæpum tveimur mánuðum eftir að ráðning Andreu var gerð opinber var framboð hennar fyrir hönd Dögunar opinberað án þess að það væri tekið fram að samhliða þeirri ákvörðun myndi hún láta af störfum sem kosningastjóri flokksins (sjá hér) Með formlegri yfirlýsingu Andreu um framboð voru þau alls orðin sex sem höfðu gefið út slíka yfirlýsingu um framboð á lista Dögunar fyrir komandi alþingiskosningar.
Tveir drógu fyrirætlanir sínar um framboð á lista Dögunar til baka. Annar án þess að nokkuð kæmi um þá ákvörðun væntanlegs frambjóðanda en hinn, Lýður Árnason, gekk úr Dögun undir lok janúar (sjá hér). Rétt rúmum hálfum mánuði síðar hafði hann stofnað nýtt framboð með félaga sínum úr stjórnlagaráði, Þorvaldi Gylfasyni, sem lengi hafði verið orðaður við framboð á lista Dögunar enda gengið nokkuð fram í því að telja fólk á að bjóða fram fyrir Dögun.
Rétt rúmum þremur mánuðum eftir að Daði Ingólfsson var ráðinn sem kosningastjóri Dögunar hætti hann sem framkvæmdastjóri Dögunar. Í viðtali við DV sem er tekið þ. 16. febrúar svarar hann spurningu um það hvort hann hyggi á að ganga til liðs við Lýðræðisvaktina [...] Ég veit það ekki enn. En það eru margir góðir vinir mínir þarna inni. Ég verð örugglega eitthvað að þvælast. (sjá hér). Lýðræðisvaktin hafði verið stofnuð deginum áður (sjá hér) en daginn eftir að viðtalið er tekið er Daði á formlegum stofnfundi Lýðræðisvaktarinnar (sjá hér). Stofnendurnir voru fjórir karlar sem allir eru komnir yfir miðjan aldur. Einn stofnendanna er nú genginn til liðs við Flokk heimilanna.
Með stofnun Lýðræðisvaktarinnar um miðjan febrúar var komið fram það sem mætti kalla þríburaframboð: Dögunar, Pírata og Lýðræðisvaktarinnar enda ljóst að tengslin þar á milli hafa og eru náin. Þeir sem komu upphaflega að Borgarahreyfingunni hafa dreifst á milli þessara þriggja auk þess sem helstu talsmenn flokkanna þriggja lögðu saman að grundvelli Breiðfylkingarinnar sem varð að Dögun við formlega stofnun.
Andlitslyftingar og stolnar fjaðrir
Þegar litið er yfir sérkennilega þroskasögu Dögunar- samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði er býsna margt sem vekur spurningar og í reynd er það svo margt að ekki er unnt að gera því öllu skil í einni bloggfærslu enda tæplega allt sem skiptir máli. Þó er freistandi að nefna einhver dæmi. Það vekur t.d. athygli að frá því að Dögun var formlega stofnuð þ. 18. mars í fyrra þá hefur stjórnmálaflokkurinn þrisvar sinnum skipt um merki:
Upphafleg heimasíða Dögunar hefur gengið í gegnum umtalsverða andlitslyftingu auk þess sem Svipan, sem upphaflega var stofnuð sem vettvangur grasrótarinnar, er orðin að málgagni Dögunar. Það má taka það fram hér að Svipan hefur líka fengið andlitsupplyftingu en með henni hvarf allt það efni sem þar var varðveitt af fréttum, greinarskrifum og myndefni tengdu grasrótarstarfi undanfarin ár.
Þetta ásamt öllum þeim fjölda myndbanda sem hafa verið sett inn á You Tube af frambjóðendum Dögunar vísa til þess að það eru ekki lengur einhverjir grasrótaramatörar sem sjá um ásýnd og markaðssetningu flokksins heldur nýtur hann þjónustu markaðsskrifstofu sem hefur á að skipa bæði reyndum og vel þjálfuðum mannskap með yfirgripsmikla færni og þekkingu í því hvað virkar. Þetta sama handbragð má líka sjá á flettispjaldaauglýsingum t.d. inni á Svipunni og myndum af frambjóðendum inni á heimasíðunni og fésbókarsíðu flokksins.
Það sem vekur mesta athygli er að umtalsverður fjöldi þeirra sem komu að stofnun Dögunar og viðhaldi flokksins síðastliðið ár hafa yfirgefið hann og stofnað klofningsframboð eða gengið til liðs við annaðhvort þeirra. Tveir af þeim sex oddvitum sem gáfu út formlegar yfirlýsingar fyrir jól um framboð á lista Dögunar hafa horfið annað en eins og hendi væri veifað tókst öllum framboðunum þremur að manna lista.
Það er einkum þeim fjórum, sem gáfu það út fyrir jól að þau gæfu kost á sér til forystu á lista Dögunar, sem er teflt fram sem trompum Dögunar. Þetta eru þau Margrét Tryggvadóttir, Þórður Björn Sigurðsson, Gísli Tryggvason og Andrea J. Ólafsdóttir. Þrátt fyrir að ekkert þeirra hafi nýtt stöðu sínar síðastliðin ár til þess styðja eða vekja athygli á lausnarmiðuðum hugmyndum Lilju Mósesdóttur til lífskjaraumbóta almennings og efnahagsaðgerða þá kynna þau sig sem mikilvægt baráttufólk sem barist hefur fyrir réttlæti fyrir heimilin árum saman. (sjá hér) en tefla engu fram því til áréttingar nema stöðum sínum og niðursoðinni útgáfu af þeirri heildarlausn sem Lilja Mósesdóttir lagði fram í ýtarlegri þingsályktunartillögu á Alþingi þ. 11. febrúar sl. (sjá hér)
Andrea J. Ólafsdóttir, skrifaði grein ásamt Þorvaldi Geirssyni, sem birtist á hinum nýstofnaða netmiðli, Suðurfréttir, þ. 12. apríl sl. Þar er þetta dregið fram sem efnahagsstefna Dögunar:
Dögun vill tryggja farveg fyrir vilja þjóðarinnar. Leiðrétta lánin t.d. með 99% skatti af hagnaði bankanna og endurheimta ríkisaðstoðina sem þeim var veitt. Við erum líka skotin í skiptigengisleiðinni þar sem tekin yrði upp ný króna og gerð allsherjartiltekt í hagkerfinu með losun snjóhengjunnar og niðurfærslu bæði skulda og eigna líkt og Þjóðverjar gerðu í þýska efnahagsundrinu. Við viljum tryggja afnám verðtryggingar og nýtt lánakerfi með vaxtaþaki. Auðlindir í þjóðareigu og arð af þeim í ríkiskassann svo hægt sé að hækka persónuafslátt og lækka skatta. Nýja stjórnarskrá fólksins með beinu lýðræði sem veitir Alþingi nauðsynlegt aðhald. (sjá hér)
Hvort kjósendum finnist það álitlegur kostur að velja Dögun í alþingiskosningunum sem fara fram núna eftir viku verður aðfararnótt næsta sunnudags að leiða í ljós. Því er þó við þetta að bæta að rótleysið sem Dögun byggir á; þ.e. grunni þeirrar Borgarahreyfingar sem klofnaði yfir í Vinstri græna og þingflokk Hreyfingarinnar á innan við hálfu ári eftir síðustu kosningar og er nú komið í þrennt eftir að það sem var eftir af bæði Borgarahreyfingu og Hreyfingu gengu saman aftur ári fyrir kosningar ásamt þriðja stjórnmálaaflinu og nokkrum félögum úr stjórnmálaaflinu.
Þverbrestir valda slæmum sprungum
Þeir sem tefla fram efnahagsstefnu sem er tekin annars staðar frá en láta eins og þeir hafi fundið hana upp sjálfir eru tæplega traustvekjandi kostur heldur og breytir engu þó meðal oddavita flokksins sé að finna tvo fyrrverandi formenn Hagsmunasamtaka heimilanna, þingmann og talsmann neytenda.
Það er ekki til að bæta við trúverðugleikann þegar það er haft í huga að þingmaðurinn í þessum hópi var svo upptekinn af því að knýja stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs í gegnum þingið að hann fórnaði hagsmunum sem byggja á efnahagslegum forsenum fyrir von um upphefð af stjórnarskrárfrumvarpi sem inniheldur bæði takmarkandi möguleika til þjóðaratkvæðagreiðslu fullveldisafsal til afþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að.
Á lokadögum þingsins lofaði hann líka kjósendum sínum að næði hann kjöri yrði það hans fyrsta verk að leggja fram þetta sama stjórnarskrárfrumvarp (sjá hér). Því má svo við þetta bæta að verði Margrét Tryggvadóttir endurkjörin inn á þing fyrir efnahagsstefnu Dögunar væri það í annað skiptið sem hún settist inn á þing fyrir stefnu í efnahagsumbótum sem byggir á hugmyndum og þekkingu Lilju Mósesdóttur. Lilja hafði nefnilega unnið efnahagsstefnu Borgarahreyfingarinnar með Þór Saari áður en hún ákvað að ganga til liðs við Vinstri græna.
Dögun hefur líka hrósað sér að því að einn oddviti þeirra sé talsmaður neytenda. Þegar betur er að gáð þá hefur hann unnið það sér helst til frægðar að hafa litlu sem engu áorkað fyrir skjólstæðinga sína (sjá hér) en aftur á móti brennur hann af af ástríðu fyrir sama stjórnarskrárfrumvarpi og Margrét Tryggvadóttir enda á hann drjúgan þátt í því sjálfur að það varð að veruleika.
Það verður fjallað nánar um annan af tveimur formönnum Hagsmunasamtaka heimilanna sem er í þeim í þeim hópi sem stjórnmálaflokkurinn Dögun hefur teflt fram sem sínum helstu trompum. Hinn hefur verið starfsmaður Hreyfingarinnar frá haustinu 2009. Trúlega hefur hann reynst þingflokknum bæði traustur og gagnlegur starfskraftur. Það fer þó varla fram hjá neinum sem kynnir sér blogg viðkomandi að hann hefur líka lagt mikla rækt við það að koma sjálfum sér á framfæri (sjá hér). Að öllum öðrum ólöstuðum hafa þó sennilega fáir ef nokkur lagt jafnhart að sér við að gera Dögun að veruleika og halda stjórnmálaflokknum á lífi eins og hann.
Það dylst heldur engum sem horfði á þátt Sjónvarpsins, Alþingiskosningar 2013, um Efnahagsmál að Þórður Björn Sigurðsson hefur stúderað skiptigengisleið Lilju Mósesdóttur, sem er kölluð þýska leiðin hjá Dögun, afar gaumgæfilega og getur farið með allt það sem þar kemur fram utanbókar. Í ljósi menntunar hans og reynslu er þó útilokað að hann geti hrint hugmynd sérfræðings í efnahagsáföllum í framkvæmd þannig að vel fari frekar en hin þrjú.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þegar ásýndin verður aðalatriðið
19.4.2013 | 07:34
Sá sem hefur meira og minna lifað og hrærst í kringum þann grasrótarvettvang sem varð til hér í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 getur ekki komist hjá því að taka eftir þeim straumhvörfum sem hafa orðið á þeim vettvangi á þeim tæplegu fimm árum sem hafa liðið síðan. Til að forðast allan misskilning er e.t.v. rétt að ég taki það fram að í upphafi þessa tímabils þá var ég á Akureyri og eins og ég hef tekið fram áður þá virðist mér viðspyrnan þar hafa verið knúin áfram af öðrum forsendum en hér á höfuðborgarsvæðinu.
Ásýndin eða innviðirnir
Í þessu sambandi má e.t.v. rifja það upp að hópurinn sem stóð að viðspyrnunni á Akureyri stóð að óformlegri stofnun grasrótarafls í október 2008. Hópurinn hlaut heitið: Bylting fíflanna og kynnti sig sem grasrótarafl sem leitar skapandi og framsýnna hugmynda og lausna um nýjan veruleika og betri framtíð. (sjá t.d. hér) Heitið á hópnum var fengið að láni frá sviðslistamanninum Kristjáni Ingimarssyni sem hafði sett upp samnefnda götuleiksýningu á Akureyrarvöku sumrinu áður.
Einkennismerki hópsins var túnfífillinn þannig að heiti hópsins vísaði ekki aðeins í fíflið sem lætur blekkjast eða hirðfíflið sem var gjarnan í hlutverki þess sem upplýsti konunginn um vilja og/eða skoðanir almennings heldur líka í lífskraft túnfífilsins. Það má fræðast frekar um söguna á bak við táknmynd hópsins og hugsjónirnar sem mynd fíflanna stendur fyrir hér.
Til að kynnast frekar hugmyndafræðinni sem grund-vallaði akureysku viðspyrnuna á árunum 2008 til 2010 er vert að lesa þetta viðtal við George Hollanders frá því í janúar 2009. Sigurbjörg Árnadóttir var líka mjög virk í þessum hópi en margir muna eftir henni fyrir það að hún varaði sérstaklega við þeirri leið sem hefur verið farin hér á landi og er kennd við finnsku leiðina. Hér er viðtal við hana frá því í nóvember 2008 þar sem hún lýsir afleiðingum kreppunnar í Finnlandi.
Þá afstöðu að hrunið ætti sér fremur efnahagslegar skýringar en stjórnmálalegar má e.t.v. rekja til þess að rætur mínar liggja til akureysku viðspyrnunnar. Í Búsáhaldabyltingunni var hins vegar lögð áhersla á að lausn þess samfélagsvanda, sem bankahrunið leiddi í ljós, lægi í því að skipta um mannskap í yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitinu og skipti á þeim sem áttu sæti á Alþingi.
Ný andlit vorsins 2009
Sú hugmyndafræði að skýringar efnahagshrunsins séu stjórnmálalegar leiða eðlilega til þeirrar niðurstöðu að leiðin til betra samfélags felist í því að skipta um andlit í helstu valdastöðum. Eins og allir vita þá sagði ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks af sér undir lok janúar 2009 (sjá hér) en það er árangur sem þeir sem tóku þátt í Búsábyltingunni hefur verið þakkaður/kenndur. Í kjölfarið tók Samfylkingin upp bráðabrigðasamstarf við Vinstri græna. Í alþingiskosningunum um vorið fengu þessir svo umboð kjósenda til að halda því samstarfi áfram.
Í aðdraganda kosninganna kom ekki aðeins fram nýtt framboð, sem var alfarið skipað nýjum andlitum, heldur varð líka nokkur endurnýjun á framboðslistum þáverandi þingflokka einkum þó hjá Framsóknarflokki og Samfylkingu. Af þeim 63 sem komust inn á þing voru 27 nýir þingmenn. Auk þeirrar endurnýjunar sem átti sér stað á Alþingi vorið 2009 var skipt um forystu bæði Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Miðað við það sem blasir við nú fjórum árum síðar er ekkert sem bendir til þess að öll þessi endurnýjun hafi haft þau áhrif að stuðla að breytingum til batnaðar hvorki á þeim aðstæðum sem ullu hruninu né aðstæðunum sem það skapaði. Þrátt fyrir þetta virðist sá skilningur vera ofan á að enn frekari endurnýjun á þingi sé helsta vonarmeðalið til að ráða bót á því sem miður hefur farið í samfélaginu á undanförnum misserum.
Annað verður a.m.k. ekki ráðið af öllum þeim nýju framboðum sem bjóða fram til Alþingis nú og því að þeir eru fáir sem virðast setja spurningarmerki við þetta offramboð sem blasir við í undanfara þeirra alþingiskosninga sem munu fara fram eftir rétt rúma viku. Svokallaðir stjórnmálaskýrendur virðast líka flestir láta sem ekkert sé eðlilegra en í samfélagi þar sem 236.944 eru á kjörskrá skuli þeir vera 1.512 sem hafa tekið sæti á 72 framboðslistum 15 stjórnmálaflokka fyrir komandi alþingiskosningar.
Offramboð vorsins 2013 á nýjum andlitum
Eftir að landsfundur SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar, sem var haldinn þ. 9. febrúar sl., dró fyrirhugað framboð sitt til baka þá hafa fjögur framboð staðfest þátttöku sína í framboði til Alþingis. Frá því að SAMSTAÐA var stofnuð þ. 15. janúar 2012 hafa komið fram alls ellefu stjórnmálaflokkar. Sjö þeirra hafa skilað inn nauðsynlegum gögnum til að bjóða fram á landsvísu. Stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram í öllum sex kjördæmum landsins eru því ellefu samtals.
Þetta eru talið í stafrófsröð: Björt framtíð, Dögun, Framsóknarflokkurinn, Flokkur heimilanna, Hægri grænir, Lýðræðisflokkurinn, Píratapartýið, Regnboginn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri Grænir. Auk þessara býður Landsbyggðarflokkurinn fram í Norðvesturkjördæmi, Alþýðufylkingin og Húmanistaflokkurinn býður fram í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og Sturla Jónsson; K-lista í Reykjavík suður.
Það eru því alls hvorki meira né minna en fimmtán flokkar sem bjóða fram lista í komandi alþingiskosningum; ellefu flokkar í öllum kjördæmum landsins, tveir í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og tveir aðeins í einu kjördæmi. Eins og áður sagði þá þýðir þetta að það eru alls 1.512 einstaklingar sem eiga sæti á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í komandi alþingiskosningum.
Umhugsunarpunktar
Það er margt athyglisvert og þess vert að skoða varðandi uppruna, framgöngu og málflutning allra þessara framboða. Það er ekki síður markvert að skoða það hverjir standa á bak við þessi framboð, hvernig þeim var komið á fót og hverjir fjármagna þau. Þar sem það verður yfirgripsmikil vinna að skoða þetta allt saman er líkleg að margt af því sem vert er að skoða í þessu sambandi, nú fyrir 27. apríl n.k., verði að bíða seinni tíma.
Hér verður til að byrja með drepið á þremur atriðum sem eru þess verð að velta rækilega fyrir sér. Í fyrsta lagi þá blasir það við þeim sem hafa lifað og hrærst í kringum grasrótarvettvang höfuðborgarsvæðisins síðastliðinn tvö ár að langstærstur hluti þeirra einstaklinga, sem nú hafa tekið sæti á listum nýrra framboða, hafa verið ósýnilegir allt kjörtímabilið og hvorki gefið sig fram til einstakra viðspyrnuverkefna né þess að leggja fram lausnarmiðaðar hugmyndir um það hvaða leið skuli farin að því að byggja upp betra samfélag.
Í öðru lagi hljóta allir sem settu sig inn í málefni SAMSTÖÐU flokks lýðræðis og velferðar að velta því fyrir sér hvar allur sá fjöldi, sem nú er tilbúinn til að stökkva til og hella sér í vinnu fyrir nýstofnaða örflokka, hélt sig rækilega til hlés á meðan stjórnarmeðlimir og virkir félagsmenn SAMSTÖÐU kölluðu til samstöðunnar til stuðnings þeim lífskjaraumbótum og efnahagsaðgerðum sem Lilja Mósesdóttir lagði til á kjörtímabilinu sem nú er að líða undir lok.
Í þriðja lagi hljóta allir sem hafa staðið í hvers konar félagsstarfsemi að velta fyrir sér hvaðan öllum þessum nýju framboðum kemur fjármagnið til að halda úti mönnuðum kosningaskrifstofum, setja upp ásjálegar og notendavænar vefsíður, halda fundi og aðrar uppákomur vítt og breitt um landið ásamt því að auglýsa sig með vönduðum ljósmyndum af frambjóðendum og öðru kynningarefni sem er ekki heldur ókeypis.
Umbúðir í stað innihalds
Í framhaldinu verður einkum fjallað um fjögur framboð en það eru framboð: Dögunar, Píratapartýisins, Lýðræðisvaktarinnar og Flokks heimilanna. Reyndar verður eitthvað vikið að framboðum: Bjartar framtíðar, Hægri grænna, Húmanistaflokksins, Alþýðufylkingarinnar og Sturlu Jónssonar K-lista og þá aðallega þess fyrst nefnda.
Fram að kosningum má því búast við vangaveltum á þessu bloggi sem byggjast á einhverri þekkingu á uppruna, framgöngu og málflutningi fyrsttöldu flokkanna fjögurra. Við heimildaöflun hefur aðallega verið stuðst við heimasíður þessara flokka svo og fésbókarsíður:
Flokksmerki | Stofndagur | Vefsíður |
17. júní 2010 | Fésbókarsíða (auk þess 4 hópar) | |
5. febrúar 2012 | ||
18. mars 2012 | ||
24. nóvember 2012 | ||
17. febrúar 2013 | ||
19. mars 2013 | Fésbókarsíða (sem einstaklingur) Engar myndir af frambjóðendum |
Það skal tekið fram að bæði hjá Hægri grænum og Píratapartýinu leiða krækjurnar undir myndum af frambjóðendum inn á síður með kjördæmaskiptum listum yfir frambjóðendur. Annaðhvort eru myndir af fimm efstu frambjóðendnunum þar eða það þarf að fylgja krækjum með nafni hvers frambjóðanda til að finna myndir af þeim.
![]() |
Sjálfstæðisflokkur sækir á |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skiptum bara um andlit
14.4.2013 | 07:09
Þetta eru átta þingmenn Samfylkingarinnar, fjórir þingmenn VG, einn þingmaður Sjálfstæðisflokks og einn þingmaður Borgarahreyfingar/Hreyfingar. Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin 20 þingmenn kjörna, Vinstri grænir 14, Sjálfstæðisflokkur 16 og Borgarahreyfing 4.
Gangi Gallup-könnunin eftir mun Samfylkingin tapa 11 þingsætum en Vinstri grænir 9. Samkvæmt þessu myndu ríkisstjórnarflokkarnir því tapa 20 þingsætum samtals. Sjálfstæðisflokkur héldi hins vegar sínum en Borgarahreyfingin býður ekki fram í þessum kosningum.
Dögun hefur reyndar tekið upp kennitölu Borgarahreyfingarinnar og nýtir því fjármagnið sem Borgarahreyfingin hefur fengið úthlutað undanfarin fjögur ár til að kosta sína kosningabaráttu. Það má því segja að Borgarahreyfingin hafi fengið einhvers konar framhaldslíf í Dögun og ef til vill tveimur klofningsframboðum hennar.
Ef marka má síðustu Gallup-könnun kemur Dögun engum manni að í þessum alþingiskosningum. Annað klofningsframboðanna út úr Dögun kæmi hins vegar sama þingmannafjölda inn á komandi þing samkvæmt Gallup-könnuninni sem er sami fjöldi og Borgarahreyfingin kom að vorið 2009. Hér er um að ræða Píratapartýið sem er sérframboð Birgittu Jónsdóttur sem er ein þeirra fjögurra sem settust inn á þing fyrir Borgarahreyfinguna fyrir fjórum árum.
Þau fjögur sem kæmust inn á þing fyrir Píratapartýið, samkvæmt síðustu Gallup-könnun, eru: Jón Þór Ólafsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir og Aðalheiður Ámundadóttir.
Birgitta Jónsdóttir yrði þannig eini þingmaður Borgarahreyfingar/Hreyfingar sem héldi sæti inni á komandi þingi en myndi auk þess taka þrjá nýja með sér. Miðað við síðustu Gallup-könnun verða alls 30 nýir þingmenn sem taka sæti á Alþingi í kjölfar næstu alþingiskosninga. Það er hátt í helmingur þingmanna.
| RS | RN | SV | NV | NA | S | Samtals |
Björt framtíð | 2 | 2 | 2 | 1 |
|
| 7 |
Framsóknarflokkur | 2 | 2 | 4 | 4 | 5 | 5 | 22 |
Píratapartýið | 1 | 1 | 1 |
| 1 |
| 4 |
Samfylkingin | 2 | 3 | 1 | 1 | 1 | 1 | 9 |
Sjálfstæðisflokkur | 3 | 2 | 4 | 2 | 2 | 3 | 16 |
Vinstri grænir | 1 | 1 | 1 |
| 1 | 1 | 5 |
Samtals | 11 | 11 | 13 | 8 | 10 | 10 | 63 |
Detta út af þingi | 2 | 3 | 4 | 2 | 2 | 1 | 14 |
Koma nýir inn | 4 | 6 | 5 | 4 | 5 | 6 | 30 |
Taflan hér að ofan er byggð á því sem kemur fram í frétt á ruv.is og tekur mið af síðustu Gallup-könnun. Ef þingmanafjöldi núverandi ríkisstjórnarflokka er tekinn saman er ljóst að þeir tapa alls 20 þingsætum á milli kosninga; fengu alls 34 þingsæti út úr kosningunum 2009 en fengju 14 nú ef niðurstöður þessarar könnunar ganga eftir. Ef þingsætafjölda Bjartrar framtíðar er bætt við verða þau 21.
Þeir sem eiga tryggt þingsæti fyrir Bjarta framtíð, miðað við síðustu Gallup-könnun, eru: Róbert Marshall, Óttarr Proppé, Björt Ólafsdóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Freyja Haraldsdóttir og Árni Múli Jónasson. Af þessum eru tveir sem voru á þingi á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Það eru þeir Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson.
Miðað við taugastríðið í Sjálfstæðisflokkum að undanförnu vekur athygli að flest bendir til þess að flokkurinn muni halda sama þingsætafjölda og við síðustu kosningar. Framsóknarflokkurinn myndi hins vegar bæta við sig 13 þingsætum. Það sem vekur þó mestu athyglina hér er hin mikla endurnýjun sem að öllum líkindum mun eiga sér stað á þingmönnum.
Miðað við niðurstöður síðustu Gallup-könnunar detta alls 14 núverandi þingmenn út af þingi en þá eru auðvitað ótaldir 16 þingmenn sem verða heldur ekki á meðal þeirra sem eru líklegir til að taka sæti á næsta þingi. Skýringarnar eru nokkrar. Einhverjir gefa ekki kost á sér aftur af ýmsum ástæðum en aðrir hafa annaðhvort skipast þannig í sæti að litlar líkur eru á að þeir nái endurkjöri. Nokkrir hafa svo gengið til liðs við ný framboð sem koma engum manni inn á þing miðað við niðurstöðu síðustu Gallup-könnunar.
Á meðal kjósenda eru þó nokkrir á því að Alþingi hafi verið óvenju illa skipað á kjörtímabilinu sem nú er að líða undir lok. Sú endurnýjun sem er líkleg að eigi sér stað í næstum alþingiskosningum ætti því að vera fagnaðarefni. Einhverjir hafa reyndar bent á að alltof marga þingmenn skorti bæði þekkingu og faglegan metnað til að valda því ábyrgðarhlutverki sem þingmennska er og hafa áhyggjur af því að þetta muni síst fara batnandi í kjölfar næstu alþingiskosninga.
Af nafnalistanum sem er birtur yfir þá sem eru líklegir til að detta út af þingi má draga þá ályktun að það verði ágæt hreinsun en það skiptir auðvitað máli hverjir koma inn í staðinn. Þeir sem horfa í þetta atriði hljóta að spyrja sig hvort það verði hæfari einstaklingar?
Það má nefnilega benda á það að þó ýmislegt bendi til þess að margir óhæfir þingmenn detti út af þingi þá er ekkert sem tryggir það að þeir sem koma nýir inn verði hæfari.
Í þessu sambandi má rifja það upp að í kjölfar alþingiskosninganna vorið 2009 var líka þó nokkur endurnýjun á Alþingi. Miðað við stöðu þeirra atriða sem helst var kallað eftir að áhersla yrði lögð á á þessu þingi þá hafði sú endurnýjun ekki þær breytingar í för með sér sem væntingar stóðu til.
Það má því velta því upp hvort lærdómur þessa kjörtímabils sé ekki sá að skýringar þess vanda sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir séu ekki frekar efnahagslegar en stjórnmálalegar? Miðað við það offramboð af nýjum andlitum sem telja sig hæfari til að taka við er reyndar útlit fyrir það að áhugasamir nýliðar sem bjóða sig fram til þings hafi lítið sem ekkert velt spurningunni fyrir sér eða komist að þeirri niðurstöðu að vandamálið sé það að endurnýjunin við síðustu alþingiskosningar hafi ekki verið nógu mikil.
*************************************************************************
Heimildir:
ruv.is. 2013 Katrín kann að missa þingsæti sitt, 12. apríl
Fréttablaðið. 2007. Stjórnarflokkarnir fengu skýrt umboð, 27. apríl
![]() |
ÖBÍ bauð upp á ör-pylsu og kók-lögg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |