Færsluflokkur: Bloggar
Aðeins þakklæti
12.1.2009 | 16:48
Frá bankahruninu síðastliðið haust hef ég leitað athvarfs í blogginu. Ég hef fengið útrás hér í tvennum skilningi. Ég hef fengið útrás fyrir alls kyns neikvæðar tilfinningar sem hafa leitað á hugann vegna þess sem mig grunar að hafi leitt þjóð mína inn í þann kolsvarta veruleika sem við erum nú stödd í. Ég hef líka fengið útrás fyrir skoðanir mínar og vangaveltur um það sem er að gerast úti í samfélaginu og þannig hlíft þeim sem ég umgengst. Fæstir þeirra hafa nefnilega nokkurn áhuga á því að ræða um það sem heyrir undir pólitík.
Bloggið mitt hefur dugað mér vel til þessarar útrásar og verið ein af leiðum mínum til geðræktar líka. Það hefur reyndar virkað mun betur til þess en mig grunaði í upphafi. Þar skipta bloggararnir sem ég hef kynnst í gegnum þessi skrif mestu máli. Ég hef eignast ótrúlega marga góða vini hérna sem halda mér upplýstri, gefa mér hvatningu, ljós, kraft, kjark og síðast en ekki síst hugmyndir.
Kannski var það einhver þeirra sem benti Jóni Karli Stefánssyni á skrif mín. Ég veit það ekki. Hann hafði samband á dögunum og útkoman út úr því er að núna hefur hann birt eina af þeim greinum sem ég hef birt hérna á blogginu. Þá sem ég er stoltust af. Þessa um baráttu góðs og ills. Það voru skrif tveggja bloggvina minna sem áttu einkum þátt í að blása mér henni í brjóst. Þeirra er beggja getið í greininni.
Skrif mín eru að sjálfsögðu samspil margra þátta en þáttur bloggvina minna er stór. Þess vegna brýt ég oddinn af ótta mínum við að vera væmin og þakka ykkar þátt í að fylla mig þeim eldmóði og kjarki sem liggur að baki mörgum bloggpistla minna. Án ykkar hefði þessi vettvangur heldur aldrei orðið mér það sem hann hefur orðið í reynd.
Mig langar til að þakka öllum þeim, sem hafa hvatt mig áfram til að skrifa á þessum vettvangi, alveg sérstaklega fyrir þeirra þátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Jólakveðja
20.12.2008 | 21:36
Nú ætla ég að standa við það að taka jólafrí frá vangaveltum og tilfinningalegri útrás vegna efnahagsástandsins í þjóðfélaginu. Af því tilefni langar mig til að senda öllum bloggvinum og öðrum sem rekast hingað inn mínar ljúfustu óskir um friðsæl og gefandi jól.
Vegna ástandsins sem við stöndum öll frammi fyrir núna undir lok ársins má með sanni segja að framtíðin er í mikilli óvissu. Látum ekki ofbeldismennina sem kölluðu þessa óvissu yfir landið og þjóðina komast upp með að eyðileggja fyrir okkur jólastemminguna. Sýnum styrk okkar með því að gefa okkur og fjölskyldum okkar algjört frí frá áhyggjum og kvíða yfir því hvernig hún á eftir að ráðast.
Megir þú svo og allir aðrir landsmenn eiga gleðiríka og endurnærandi jólahátíð!
Bloggar | Breytt 26.12.2008 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég sakna sumarsins nú þegar
3.9.2008 | 01:53
Jæja, þá er haustið að skella á í allri sinni dýrð.
Þó haustið sé fallegur árstími fyllist ég alltaf trega yfir því að sumarið er liðið og við tekur langur vetur. Veturinn er alltof langur. Ég vildi snúa skiptingu íslensku árstíðanna þannig við að veturinn væri þrír mánuðir og sumarið níu!
Ég elska nefnilega sumarið, sólina, ylinn, gróðurinn og ilminn. Veturinn er hins vegar langur, dimmur og kaldur. Snjór og frost eru heldur engir vinir mínir.
Fyrir svona svefnpurkur eins og mig er ekkert ömurlegra en að rífa sig eldsnemma upp úr rúminu í kolsvörtu myrkri til að fara út í ískaldan vetrarmorguninn. Standa svo í tíu mínútur að meðaltali yfir bílnum við að sópa hann og skafa. Ég er ákaflega ánægð yfir því að á síðustu árum er veturinn á Íslandi orðinn mildari en hann var og þess vegna ekki eins algengt að maður þurfi að norpa yfir slíkum morgunverkum.
Ég skil dýrin sem leggjast í dvala yfir vetrartímann óskaplega vel. Sumarið er hins vegar árstíminn sem ég hvílist og endurnærist í. Veturinn er sá tími sem ég þarf að láta hendur standa vel fram úr ermunum. Þetta helgast einfaldlega af atvinnu minni.
Þetta hljómar kannski eins og ég sé að kvarta og kveina. Það er ekki ætlunin. Þetta er frekar eins og hugleiðsla sem ég set hér niður í þeim tilgangi að klappa mér á bakið og minna mig á að hver árstíð hefur sitt einkenni. Þær taka við hver af annarri og eftir langan vetur kemur fallegt vor og svo árstíðin sem ég elska mest
Þessi hugleiðsla er um leið ástaróður til sumarsins sem mér finnst alltaf líða svo alltof hratt. Að hausti læt ég huggast við það að á næsta ári kemur nýtt sumar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég myndi ekki treysta á það;-)
4.4.2008 | 02:36
Þar sem ég reikna með að það sé erfitt að vera hér í felum þá geri ég ráð fyrir að einhver muni rekast á mig hérna. Einhverjir munu líka fagna vegna þess að þeir draga þá ályktun að nú sé ég loksins búin að láta undan þrýstingnum og ætli að fara að blogga. Ég myndi ekki treysta á það
Ég setti mig hérna inn svo ég gæti kommentað á eina vinkonu mína sem er svona ofurbloggari. Ég get það ekki nema vera skráð... þannig að þetta er ástæðan og fullkomlega óvíst að ég reki upp tíst hérna meir
Bloggar | Breytt 29.6.2008 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)