Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Meinandi misskilningur

Það hefur vart farið fram hjá neinum sem fylgjast með þessu bloggi að sú sem heldur því úti er formaður SAMSTÖÐU-Reykjavík og hefur sem slíkur tekið þátt í að byggja upp nýtt stjórnmálaafl og utanumhald viðburða á vegum þess. Það eru eflaust engar fréttir að þessu fylgja miklar annir og ófyrirséðar uppákomur. Eitthvað sem kannski lá í loftinu en kemur engu að síður á óvart.

Sérkennilegt fréttamat

SAMSTÖÐUgrillMig langar til að segja frá slíku tilviki sem ég get ekki horft á öðru vísi en „meinandi misskilning“. Hér er vísað til fréttaflutnings Smugunnar og DV af samstöðugrilli, sem fram fór þ. 19. júní sl., þar sem pennar beggja virðast vinna í því að véfengja eða grafa undan SAMSTÖÐU flokki lýðræðis og velferðar. Í hvaða tilgangi verður engum getum leitt að hér. Þeir sem skrifuðu og/eða ritstýrðu skrifunum verður eftirlátið að svara fyrir tilganginn sjálfum.

Hins vegar vekur það óneitanlega athygli að þegar stjórnmálaflokkur eins og SAMSTAÐA kynnir sig til leiks þá forðast þessir og fleiri fjölmiðlar það eins og heitan eldinn að fjalla um stefnumál hans eða hugmyndafræði. Enginn þeirra sem sitja í stjórnum flokksins eða aðildarfélaga hans hafa verið boðaðir í viðtöl undir því yfirskini að fjalla um hlutverk viðkomandi eða aðkomu að uppbyggingu nýs stjórnmálaafls.

Stjórn flokksins svo og stjórnir aðildarfélaganna hafa líka sent frá sér ályktanir og yfirlýsingar vegna nokkurra þeirra hitamála sem voru til umfjöllunar á Alþingi nú á vordögum (þessar má finna á yfirlitinu hér). Einhverjir fjölmiðlar birtu þær en enginn hafði áhuga á að vekja á þeim athygli með viðtali við stjórnarmeðlimi.

Stjórn SAMSTÖÐU-Reykjavík stóð auk þess fyrir fundum um fjármálastefnuna og framtíðina þar sem sérfræðingar á sviði peningamála kynntu stefnumótandi hugmyndir varðandi efnahagsstjórnun landsins sem gætu forðað samfélaginu frá öðru hruni. Lilja Mósesdóttir, sem var aðalframsögumaður síðasta fundarins, var reyndar boðið í Klinkið en þátturinn var ekki settur í loftið fyrr en sama dag og sá fundur fór fram.

Fjármálastefnan og framtíðin

Það er ekki gott að segja hvort það að Frosti Sigurjónsson var framsögumaður á fyrsta fundinum, sem haldinn var 30. apríl, hafi skipt einhverju varðandi það að hann var viðmælandi í Klinkinu 15. maí. Til að fyrirbyggja allan misskilning skal það tekið fram að Frosti er ekki félagsmaður í SAMSTÖÐU.

Samhengið rofið

Það sem stjórnarmenn í SAMSTÖÐU hafa álitið fréttnæmt og/eða hafa vakið athygli fjölmiðla á hefur litla eða enga fjölmiðlaumfjöllun fengið. Smugan og DV hafa almennt sniðgengið allar fréttatilkynningar sem þeim hafa borist frá SAMSTÖÐU en gera sér fréttamat úr því að Kór Heimavarnarliðsins og Tunnanna kom fram á grillviðburði sem aðildarfélög SAMSTÖÐU stóðu fyrir í Hljómskálagarðinum upp úr miðjum júní.

Það er erfitt að sjá hvaða erindi slíkt á við samfélagið en hitt er verra að það er ekki annað að sjá en pennar beggja miðla fari vísvitandi með rangt mál í skrifum sínum. Eins og áður sagði stóðu aðildarfélög SAMSTÖÐU ásamt ungliðahreyfingunni fyrir grillviðburði í Hljómskálagarðinum þann 19. júní. Sex dögum síðar eða 25. júní birtir Smugan eftirfarandi:

Smugan

Þessu fylgdi myndband sem var tekið upp af flutningi kórsins á laginu sem vísað er til en miðað við það sem hér kemur fram er svo að skilja að þetta sé texti SAMSTÖÐU sem er alrangt. Miðað við myndina sem er látin fylgja fréttinni mætti jafnvel ætla að  penninn sem setti þetta saman vilji kveikja þá hugmynd að Lilja Mósesdóttir eigi textann sem er víðs fjarri. Það er líka ýjað að því að þetta hafi verið eina lagið á efnisskrá kórsinns en þau voru alls sjö og voru sex þeirra sett inn á You Tube.

Eins og kemur fram í skrifum Smugunnar var það Kór Heimavarnarliðsins og Tunnanna sem flutti umrætt lag en sú sem þetta skrifar hafði sóst eftir því að fá tónlistaratriði til skemmtunar af því tilefni sem um ræðir. Sá sem á flesta textana að lögunum sem kórinn syngur, hljómborðsleikarinn og sú sem leiðir söng kórsins brugðust vel við en aðrir sem sungu með kórnum þennan dag höfðu sumir aldrei sungið með honum áður en tilheyra honum þó miklu fremur en SAMSTÖÐU eða m.ö.o. þeirri grasrót sem hefur mannað kórinn hingað til.

Kór Heimavarnarliðsins og Tunnanna

Það sem vekur ekki síst athygli þeirra sem til þekkja er að strax að kvöldi 19. júní var fyrsta lagið af efnisskrá kórsins frá grillviðburði SAMSTÖÐU sett inn á You Tube. Næstu daga var tveimur bætt við en það var ekki fyrr en flutningurinn á laginu „Steinki er minn hirðir“ var settur í loftið, nokkrum dögum síðar, sem penni Smugunnar sá tilefni til að grípa til stílvopnsins.

Það þarf vart að taka það fram að árangurinn birtist á Smugunni án þess að haft væri samband við forsvarsmenn flokks eða kórs til að ganga úr skugga um tilefnið sjálft eða réttmætið í skrifunum.

Kór Heimavarnarliðsins og Tunnanna

Eins og kemur fram í skýringartexta við öll myndböndin og athugasemd sem ég gerði við skrifin á Smugunni varð kórinn upphaflega til sem einhvers konar upplyfting frá allt annars konar mótmælaaðgerðum en þeim sem Heimavarnarliðið annars vegar og Tunnurnar hins vegar hafa staðið fyrir með hléum á undangengnum árum. Þeir sem stóðu að stofnun hans langaði til að taka þátt í alþjóðlegum bankamótmælum þ. 7. desember 2010 með einhverjum öðrum aðferðum en þeim sem má e.t.v. kalla hefðbundnar.
Jólakór Heimavarnarliðsins og Tunnanna fyrir framan Landsbankann 7. desember 2010
Jólakór Heimavarnarliðsins og Tunnanna varð niðurstaðan. Kórinn flutti svo revíukennda texta um efnahagsástandið, með fókusinn á því hvernig það snýr við heimilunum, við þekkt jólalög. Síðan þá hafa bæst við textar við þekkt dægurlög og sálminn „Drottinn er minn hirðir“. Auk þessa hefur kórinn flutt lög og viðspyrnutexta annarra höfunda sem hafa gefið honum leyfi til slíks.

Frá því í desember 2010 hefur kórinn komið fram af ýmsum tilefnum. Það sem ber e.t.v. hæst er það þegar kórinn söng til stuðnings undirskriftarsöfnuninni gegn sölu HS-Orku til skúffufyrirtækisins Magma Enegy Sweden í Norræna húsinu í upphafi síðasta árs og svo þegar hann söng til stuðnings undirstkriftarsöfnun Hagsmunasamtaka heimilanna um almenna leiðréttingu á lánum heimilanna á Menningarnótt sl. sumar.

 Á karókí í Norræna húsinu í janúar 2011 Til stuðnings undirskriftarsöfnun HH á Menningarnótt sumarið 2011
Til stuðnings Spánverjum 5. júní 2011
Á Ingólfstorgi 19. júní 2011

Í upphafi síðasta sumars kom hann líka saman og söng textann hans Hallgríms Helgason: „Ísland er stjórnlaust“ á samevrópskum mótmæladegi til stuðnings Spánverjum. Með tilliti til rangfærslnanna sem pennar Smugunnar og DV hafa hrapað til er líka vert að geta þess að 19. júní í fyrra kom kórinn saman á Ingólfstorgi en þá var lagið, sem Smugan eignar SAMSTÖÐU ranglega, frumflutt

Samhengið og skáldskapurinn

Þrátt fyrir að eitthvað af því sem fram kemur hér að ofan sé tekið fram í skýringartexta við myndbandið með flutningi textans, sem fór svo fyrir brjóstið á pennum Smugunnar og DV, þá fannst þeim eðilegt að eigna SAMSTÖÐU „heiðurinn“ að bæði textanum sjálfum svo og flutningi hans. Penni DV gekk þó öllu lengra og vart annað hægt en kalla útkomuna öðru nafni en skáldskap. 

DV

Tilefni skrifanna hér að ofan er greinilega frétt sem birtist sama dag, þ.e. 14. júlí, inni á heimasíðu SAMSTÖÐU en hún snerist aðallega um það að vekja athygli á því að stjórnir flokksins og aðildarfélagsins í Reykjavík hefðu látið prenta merki flokksins á penna og boli. Hvoru tveggja er til fjáröflunar þar sem framboðið nýtur einskis stuðnings úr ríkissjóði eins og þau sem eiga menn inni á núverandi þingi.

Skáldskapurinn kemur fram strax í fyrirsögn þessara skrifa DV-pennans þar sem því er haldið fram að SAMSTAÐA hafi stofnað kór. Hann nær svo yfirhöndinni um miðju textans en það er ekki laust við að meinlegur hæðnistónn einkenni skrifin frá upphafi til enda. Það er a.m.k. sérkennilegt að tala um að það að selja boli og penna sé „frumlegt“ og tengja það og upploginni stofnun kórs við „ímyndarherferð“.

Kór sem kemur fram í haus myndbandsins, sem fylgir fréttinni, að heitir Kór Heimavarnarliðsins og Tunnanna er sagður heita „Samstöðukórinn“. Því er svo haldið fram að viðburðurinn hafi verið „í lok júní“, að kórinn hafi „vakið mikla lukku“ og að hann syngi „af mikilli list“ í myndbandinu sem fylgir skrifunum. Engin þessara atriða stenst nánari skoðun og vekur væntnalega furðu gagnrýninna lesenda hve mörgum rangfærslum er hægt að koma fyrir í slíkum örskrifum sem ofangreindum.

Það þarf sennilega ekki að taka það fram að sá sem fann sér tilefni til að fjalla um þetta söngatriði kórsins mánuði eftir að það átti sér stað sá enga ástæðu til að hafa samband við forsvarsmenn flokks eða kórs til að ganga úr skugga um tilefnið sjálft eða réttmætið í skrifum sínum. Hvernig penna DV tókst að réttlæta það fyrir sjálfum sér og ritstjórn blaðsins að flutningur lagsins „Steinki er minn hriðir“ komi SAMSTÖÐU við á þann hátt sem hann reynir að halda fram er þeirri sem þetta skrifar hulin ráðgáta.

Í athugasemd sem ég gerði við skrifin bendi ég líka á að það sé greinilegt að hún er ekki vönduð vinnan sem liggur þeim að baki. Það er hins vegar greinilegt í athugasemdum við skrifunum, bæði á Smugunni og inni á DV, að það eru einhverjir sem eru enn þá á því að það sem kemur fram í fjölmiðlum sé allaf samkvæmt sannleikanum.

Vönduð blaðamennska og fagvitund blaðamannsins

Það er auðvitað ekkert eðlilegra en gera þá kröfu til þeirra sem starfa á fjölmiðlum að þeir viðhafi vönduð vinnubrögð. Í samfélagi þar sem eignarhald á fjölmiðlum ræðst af sérhagsmunum sem er í stríði við heildarhagsmuni fjöldans ætti það hins vegar að vera ljóst að slíkum vinnubrögðum er iðulega fórnað ef umfjöllunarefnið ógnar sérhagsmunum þeirra sem eiga og reka viðkomandi fjölmiðil.

Það þarf tæpast neina fagvitund heiðarlegs blaðamanns til að setja spurningarmerki við fréttamat þeirra sem sniðganga fréttatilkynningar sem viðkoma pólitískri stefnu og skoðunum stjórnmálaflokks en gera sér mat af flutningi kórs á einu lagi, af þeim sex sem voru birt á You Tube, frá grillviðburði sem haldinn var í Hljómskálagarðinum til að gera félagsmönnum og velunnurum flokksins glaðan dag áður en stjórnarmenn tóku sér sumarfrí. Vinnubrögðin hljóta að vekja fleirum spurningar en þeim sem styðja stjórnmálaflokkinn sem um ræðir.

Þeir sem hafa reynslu af og þekkingu á blaðamennsku vita það líka að blaðamenn setja trúverðugleika sinn svo og fjölmiðilsins sem þeir starfa fyrir í stórkostlega hættu í hvert skipti sem þeir fara með rangt mál eða setja fram vafasamar fullyrðingar. Það er því grundvallarregla sérhvers blaðamanns sem vill ástunda vandaða blaðmennsku að lyfta upp símtólinu og tala við hlutaðeigendur áður en þeir setja það í loftið sem þeir setja niður til opinberrar birtingar.

Í því tilviki sem hefur verið fjallað um hér hefði hver sem er getað komist að því með lítilli fyrirhöfn að Kór Heimavarnarliðsins og Tunnanna var stofnaður þ. 7. desember 2010. Fjölmiðill sem hefur fagmennsku og virðingu fyrir lesendum sínum að leiðarljósi þekkir þessar meginreglur og á ekki að þurfa að taka við áminningum um þær úr neinni átt.

Ekki treysta einkareknum fjölmiðlumÞað er í öllum tilvikum afar sorglegt að horfa upp á það þegar það sem á að heita „blaðamennska“ hverfist í það sem minnir á útúrsnúninga, vafasamar tengingar og aðra eineltislega tilburði. Þó finnst mér sínu verst að þeir sem verða uppvísir af slíku skuli komast upp með það átölulaust og nýta því skjólið af aðhaldsleysinu, til að gera vettvang sem er ætlaður til upplýsingar, til þess að miðla einhvers konar eineltislegri hentistefnu.

Í þessu samhengi má ég til að taka það fram hér að mér finnst varla einleikið hvað skrif Smugunnar og DV  um það tilvik, sem hér hefur verið í forgrunni, eru keimlík. Af einhverjum ástæðum eru bæði lituð sömu eineltislegu tilburðunum og metnaðarleysinu. Þ.e. að tala SAMSTÖÐU niður með rökleysum sem stafa af því m.a. að pennarnir sem skrifa hafa ekki fyrir því að kynna sér það sem þeir vilja halda fram.

Við þetta er svo því að bæta að mér finnst það að sjálfsögðu leitt að horfa upp á að skemmtiatriði sem ég ber ábyrgð á að var fengið til upplyftingar á viðburði sem haldinn var á vegum SAMSTÖÐU hafi skapað neikvæða umræðu um flokkinn og formann hans þar sem hvorugt tengist kórnum neitt. Hins vegar fagna ég  því að þeir eru þó nokkrir sem sjá í gegnum „fréttaflutning“ af þessu tagi og átta sig fullkomlega á að getur vart verið annað en „meinandi misskilningur“.


Stöndum saman um grundvöllinn

Það er svolítið skrýtið að horfa og hlusta á sjálfan sig og venst sennilega seint það vel að maður verði tilbúinn til að taka almennilega undir hrós þeirra sem vilja uppörva mann. Mér líður þess vegna svolítið sérkennilega þegar ég læt loksins verða af því að vekja athygli á viðtali sem Egill Helgason tók við mig í Silfrinu sunnudaginn 29. maí sl.

Tilefni viðtalsins hefur að öllum líkindum verið það að á þessum tíma hafði ég nýlega verið kjörin formaður SAMSTÖÐU-Reykjavík en áherslan í viðtalinu var þó á þeim viðspyrnuaðgerðum sem ég hef tekið þátt í frá haustinu 2008.  Í þessu tæplega korterslanga viðtali kem ég að þátttöku minni í laugardagsmótmælum á Akureyri, borgarafundunum þar, aðkomu að Tunnumótmælunum haustið 2010 og Samstöðu þjóðar gegn Icesave vorið 2011.

Í því sambandi bendi ég á að þar hafi einstaklingar með ákaflega ólíkar stjórnmálaskoðanir sameinast um NEI-ið við þriðja þætti Icesave og því ættu allir að geta staðið saman, óháð flokkslínum, í því að vinna að því sem allir hljóti að vera sammála um. Þ.e. að allir hafi efni á að borða og hafi öruggt þak yfir höfuðið.



Amminn í SilfrinuMig langar til að enda þetta á ögn persónulegum nótum og segja frá því hvaða skilboð mér þótti vænst um af þeim sem ég fékk í tilefni þessa viðtals. Bæði komu frá dætrum mínum. Sú yngri sendi mér SMS þar sem sagði: „Rosa flott bæði það sem þú sagðir og líka „lúkkið“Smile“ Sú eldri sendi myndina sem er hér til hliðar.

Það er líka við hæfi að nota tækifærið til að senda öllum þeim sem sendu mér uppörvandi orðsendingar í gegnum SMS og Facebook í kjölfar þessa viðtals kærar þakklætiskveðjurHeart Svo þakka ég Láru Hönnu Einarsdóttur fyrir að klippa viðtalið og gera aðgengilegt inni á You Tube.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband