Ég hef líka áhyggjur!

Ég hef vissulega áhyggjur af mörgu því sem hefur verið dregið fram á miðstjórnarfundi ASÍ (sjá fréttina sem þessi færsla er hengd á) og fagna því að verkalýðsforystan gagnrýni það hvernig stendur til að vega að kjörum almennings í landinu. En gagnrýnin dugar ekki ein og sér...

Verkalýðsforystan hafði tækifæri til að bæta stöðu almennings fyrr á þessu ári. Hún sameinaðist m.a.s. við það sem í tali þeirra gekk undir heitinu: „stóra samingaborðið“ undir því yfirskini að vinna saman að því að verja kjör launafólks við þær erfiðu aðstæður sem við blasti. Útkomuna ættu allir að þekkja og býst ég við að þeir séu margir sem hafa furðað sig á plagginu sem hlaut heitið „stöðugleikasáttmáli“.

Það þarf ekki glöggskyggnan einstakling til að lesa úr þessu plaggi að þar viku hagsmunir launafólks í landinu fyrir því sjónarmiði að bjarga stóru verktakafyrirtækjunum í landinu og gera e.t.v. slíkum fyrirtækjum á evrópska efnahagssvæðinu kleift að koma að þeim stórframkvæmdum sem aðgerðaráætlun stöðugleikasáttmálans gerir ráð fyrir. Þar sem það var þegar orðið ljóst á samningstímabilinu að lánshæfnismat landsins var komið í ruslflokk var í þessum sama samningi sett fram áætlun um það hvernig þessar framkvæmdir skyldu fjármagnaðar.

Því er nefnilega haldið fram að bankarnir séu í stórkostlegum vandræðum vegna þess að lífeyrissjóðirnir blása út án þess að peningarnir sem þar safnast hafi möguleika á að ávaxtast í formi útlána. Hugmyndin um að lífeyrissjóðirnir fjármagni fyrirhugaðar stórframkvæmdir er m.a. sett fram sem lausn á þessum vanda. Hún er þó fyrst og fremst lausn á því vandamáli að það vantar fjármagn til að ráðast í framkvæmdir eins og:

byggingu hátæknisjúkrahúss, samgöngumiðstöðvar í Reykjavík, Búðarhálsvirkjunar og álversins í Helguvík, stækkun álversins í Straumsvík, framkvæmdir við Suðurlandsveg, Vesturlandsveg um Kollafjörð, lagning Sundabrautar og bygging Vaðlaheiðarganga.

Ég reikna með að ég sé alls ekkert ein um það að fyllast óhug við lestur þessa lista yfir fyrirhugaðar framkvæmdir sem aðgerðaráætlun stöðugleikasáttmálans gerir ráð fyrir að hrinda í framkvæmd í krafti þess fjármagns sem nú liggur í lífeyrissjóðunum. Af honum er nefnilega ljóst að lífeyrissjóðunum er ætlað að keyra aftur upp þá stóriðjustefnu sem var hér við lýði fyrir hrun. Það er e.t.v. erfitt að sporna við fótum en við erum nokkur sem höfum ákveðið að freista þess með undirskriftarsöfnun sem nú er farin af stað inni á kjosa.is

Þessi undirskriftarsöfnun gengur undir yfirskriftinni: Lífeyrissparnaður okkar má ekki fara í áhættufjárfestingar! Í yfirlýsingu hennar segir m.a:

Við undirritaðir sjóðsfélagar í lífeyrissjóðunum skorum á ríkisstjórn Íslands að hverfa þegar frá þeirri hugmynd stöðugleikasáttmálans að nota skylduframlag okkar til fjármögnunar fyrirhugaðar uppbyggingar vegum og stóriðju. Slíkar framkvæmdir hafa ekki sýnt sig í að skila miklum raunverulegum verðmætum til þjóðarbúsins. Þess vegna er umtalsverð hætta á því að lífeyrissjóðeign okkar skerðist enn frekar en orðið er.

[...]

Auk þessa drögum við undirrituð það mjög í efa að sama hugsun og kom efnahag landsins í þann vanda sem hann er í núna dugi honum til uppbyggingar. Við viljum því mótmæla því að sparnaðurinn sem við höfum lagt frá til eftirlaunaáranna verði lánaður til svo vafasamrar atvinnuuppbyggingar eins og verkefnalisti aðgerðaráætlunar stöðugleikasáttmálans gerir ráð fyrir.

Ég hef ekki aðeins áhyggjur af því hvernig verkalýðsforystan hefur brugðist launafólki heldur því líka hvernig hún í krafti aðstöðu sinnar ætlar að misnota lífeyrissparnað okkar til nýrrar innspýtingar í gjaldþrota stóriðjustefnu „góðærisins“ svokallaða! Ég reikna ekki með að útkoman verði neitt öðru vísi nú en þá.
Hagsveiflur

mbl.is ASÍ lýsir áhyggjum af sköttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl Rakel; æfinlega !

Gleymum svo ekki; að aðal starfi Gylfa ASÍ eiganda er, Lífeyrissjóða garfið - og utanumhald þeirra skrifstofubákna.

Svonefndri; verkalýðsbaráttu hans, sinnir hann, af sínu alkunna sleifarlagi - í pásum eða þá, kaffitímum, frá sjóða sukkinu, eins og kunnugt er.

Með beztu kveðjum; norður yfir heiðar /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 01:00

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er sammála honum Óskari Helga!!  Ég held að hann Gylfi sé ekki að gæta hagsmuna félagsmanna ASÍ sem borga launin hans, hann er leppur fyrir einhver önnur öfl.  Hann tekur þátt í því að halda fólki á mottunni!!!

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.12.2009 kl. 01:24

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þó ég segi þetta ekki beint í færslunni hér að ofan þá átti þetta sem þið leggið til málanna að liggja á milli línanna. Ekki aðeins hvað G.A. varðar heldur verkalýðsforystuna alla eða a.m.k. þá sem halda um stjórnartaumana þar. Stöðugleikasáttmálinn er góður vitnisburður um það hvaða hagsmuni þeir þar á bæ setja í forgang.

Í stað þess að nýta sér vopnið sem þeir höfðu í höndunum, þ.e. lífeyrissjóðina, og setja fram einhverjar kröfur fyrir skjólstæðinga sína eða koma með hugmyndir um arðvænlegri fjárfestingarmöguleika hvað fjármagn lífeyrissjóðina varðar þá kvittuðu þeir bara undir það að laun yrðu fryst og stóru verktakafyrirtækjunum yrði tryggð afkoma með áframhaldandi stóriðjustefnu fjármagnaðri af peningunum sem skjólstæðingar þeirra eru skikkaðir til að leggja fyrir til elliáranna. Ekki hósti eða stuna um verðtryggingu húsnæðislána, forsendubrest gengistryggðra lána, skuldbindingar þjóðarinnar vegna Icesave eða neitt sem ógnar raunverulegri afkomu launafólks!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.12.2009 kl. 01:44

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það fer að verða spurning hvort verkföll séu ekki málið, við eigum ennþá verkfallsréttinn við fólkið.  Þótt verkalýðsforystan sé á mála hjá stjórnvöldum, erum við það ekki!!!!   Það er spurning hvort fólk sé tilbúið í skæruverkföll???  Ég er tilbúin!!!!

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.12.2009 kl. 01:51

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er tilbúin til að gera allt annað en ekki neitt! Þetta ástand er löngu búið að misbjóða þolinmæði minni!

Sá reyndar hugmynd um garðáhaldabyltingu inni á Fésinu í kvöld. Mér líst líka mjög vel á þá hana. Spurning hvort hugmyndin þín um skæruverkföll rými ekki bara býsna vel við hana

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.12.2009 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband