Takið sérstaklega eftir rósamáli utanríkisráðherrans!

Það var í júní sem þeirri voveiflegu hugmynd skaut upp í kollinum á mér að það hlyti að vera eitthvað hættulegt samband á milli einstefnumiðaðrar áætlunar Samfylkingarinnar inn í ESB og einstrengsins varðandi Icesave-samningsins. Ég viðraði þessa hugmynd við fáa því þeir sem ég talaði við tóku henni sem hverri annarri bábilju en nú get ég ekki annað en opinberað hana hér.

Ástæðan er það sem Össur Skarphéðinsson segir í lok þessarar fréttar og það að ég rakst á það hér á blogginu að þeir eru fleiri sem hafa greinilega komist að sömu niðurstöðu. Axel Jóhann Axelsson er einn þeirra en hann segir 18. júlí síðastliðinn:

[...] Líklega er búið að fá vilyrði frá ESB um að sambandið kaupi Ísland inn í ESB með loforði um að yfirtaka Icesave skuldirnar gegn aðgangi að auðlindum Íslands.

Þegar aðildarsamningur Íslands að ESB mun liggja fyrir verður hann kynntur þannig að íslenska þjóðin geti ekki hafnað honum því með honum munum við losna undan Icesave, og eins og allir muni þá eiga að vita þá geti Íslendingar alls ekki borgað, enda hafi verð gerð mistök við útreikningana.

Þetta er í aðalatriðum það samhengi sem mér flaug í hug fyrr í sumar um það hvaða samband væri á milli ESB-aðildareinstefnunnar sem og Icesave-einstrengsins. En hvað rökstyður þetta í tengdri frétt? Það eru eftirfarandi orð Össurar Skarphéðinssonar í tengdri frétt:

Össur sagði að það hefði alvarleg áhrif fyrir landið að fella samninginn. Fórnarkostnaðurinn yrði talsvert meiri þegar upp væri staðið heldur [en] kostnaður vegna samningsins. Þá sé samningur við Evrópusambandið sem felist í svokölluðum Brussel - viðmiðum um að aðstoða Íslendinga síðar í þessu ferli. Hann segist þegar hafa rætt þennan samning við ESB og það séu engin vanbrögð á því að sambandið beiti sér eins og þar hafi verið lagt upp með. (leturbreytingar eru mínar)

Því miður er útlit fyrir að fréttamanninum, sem tók þetta viðtal við Össur, hafi ekki hugkvæmst að spyrja utanríkisráðherrann út í það hvaða samning hann væri að vísa í og hverjir hefðu staðið að þessum samningi við Evrópusambandið eða hvenær þessi samningagerð hefði farið fram. Hins vegar er ljóst af þessu sama viðtali að Össur er ákaflega upptekinn af því að upplýsa utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna um það hverju fram vindur í umræðunum um Icesave. Orðrétt segir í féttinni:

Hann segist vera í stöðugum samskiptum við Breta og Hollendinga um óánægju íslenskra þingmanna með samninginn. Þeir séu algerlega upplýstir og hann hafi ekkert undan dregið. Hann hafi rætt við allt að 25 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna á undanförnum vikum.

Í þeirra samtölum hafi þetta mál komið upp og hann hafi gert þeim grein fyrir óánægjunni og því að staða málsins hafi þyngst. Íslendingar telji að þetta séu þröngir, erfiðir og ranglátir samningar. Það sé stemmningin á Alþingi Íslendinga þar sem málið sé til meðferðar. Þá hafi komið fram að ekkert hafi skort á að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi gert það sem þeir geta til að koma samningnum í gegn vegna þess að þeir trúi því að það sé það rétta þegar horft sé til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar. (leturbreytingar eru mínar)

Aftur láist fréttamanninum að spyrja hvernig utanríkisráðherra geti talið það þjóna framtíðarhagsmunum þjóðarinnar að sliga hana af slíkum okurvaxtasamningi eins og Icesave-samkomulagið er. Axel Jóhann Axelsson vekur athygli á hvaða ályktun má draga af ofangreindum orðum ráðherrans:

Össur var sem sagt alls ekki að tala máli þjóðarinnar fyrir þessum kollegum sínum í ESB, þvert á móti var hann að sannfæra þá um að ríkisstjórnin væri undirlægja ESB og berðist fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga og reyndi allt sem hún gæti til að fá þessa ríkisábyrgð samþykkta, þrátt fyrir andstöðu þings og þjóðar.

En það er ekki bara Axel sem hefur áhyggjur af því að það samband sem vakin er athygli á hér kunni að vera á milli Icesave og ESB. Egill Jóhannson komst að þessari niðurstöðu á bloggi sínu þegar 25. júní sl. en þar segir hann:

Ég lofa ykkur, lesendur góðir, einu. Þegar búið verður að skrifa undir ICESAVE og ríkistryggja ruglið þá verður ICESAVE-samningurinn notaður sem eitt af sölutrikkunum til að selja okkur hugmyndina um ESB.

Þá verður sagt að eina leiðin til að losna við ICESAVE-samninginn eða milda hann þannig að hann hafi lítil sem engin áhrif sé að ganga í ESB. Ég yrði ekki hissa þó nú þegar væri búið, með baktjaldamakki, að leggja línurnar í þessa átt.

Í staðinn yrðum við að gefa eftir í öllum öðrum stórum auðlindamálum þ.e. sjávar-, orku-, náttúru- og vatnsauðlindum. (Sjá alla færslu Egils hér)

Egill bloggaði líka við fréttina, sem ég tengi þessari færslu minni, og vekur athygli á samningnum sem Össur vísar í en þarf ekki að standa nein skil á hvað inniheldur. Sjá hér. Í athugasemd við færsluna vekur Gunnar Skúli Ármannson athygli á því sem lífið hefur kennt mér en það er það að EKKERT FÆST FYRIR EKKI NEITT! enda bætir Gunnar Skúli við að: „Auðlindir okkar eru greinilega hálfseldar ESB nú þegar.

Eitthvað fleira sem rökstyður það að eitthvað sé til í því sem vakin er athygli á hér? Já, reyndar! Það er dagsetningin sem Páll Hreinsson, formaður Rannsóknarnefndar Alþingis, hefur gefið upp að þjóðinni verði birtar niðurstöður nefndarinnar. 1. nóvember. Af hverju sú dagsetning? Það skyldi ekki vera að það hangi eitthvað saman við það að þá verði Icesave örugglega í höfn og þá um leið ESB-aðildin. - Almenningur má tryllast en plásturinn verður tilbúinn...

Ég veit ekki, kannski er þetta of langt gengið í samsæriskenningunum? Ég vona það! en því miður hefur alltof margt að því sem maður vonaði að væri ekki rétt í sambandi við spillinguna sem hefur viðgengist í íslenskum fjármálaheimi og opinberu stjórnsýslunni komið á daginn að var síst ofsögum sagt! Þess vegna finnst mér a.m.k. full ástæða til að vekja athygli á þessum hugmyndum um voveiflegt samband á mill Icesave-samningsins og ESB-aðildar.


mbl.is Ríkisstjórn á suðupunkti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Össur hefur ábyggilega selt sjálfann sig, fyrir einhverja ESB bitlinga.  Ég er löngu hætt að skilja málflutning hans.  Hann og Jóhanna virðast hafa einhverja rörsýn á ESB þau sjá ekkert annað.  Burt með ESB burt með AGS!!!

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.8.2009 kl. 02:21

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Kannski er þetta plottið. Það sem ég skil ekki er hvernig ESB nýtist orkan okkar, (ekki verður hún flutt héðan) og er það meiningin að ESB tappi á flöskur öllu okkar neysluvatni og flytji út endurgjaldslaust? Ekki er hægt að tappa heita vatninu á flöskur og flytja út. Ég veit hvernig ESB gæti nýtt fiskimiðin en hef þó takmarkaða trú á að ESB vaði hér inn í okkar landhelgi. Ég trúi ekki öðru en ESB viti að við munum ekki gefa frá okkur fiskimiðin. Þetta eru nú bara vangaveltur einfalds og saklauss manns en gott væri að fá pælingar um hvernig ESB getur nýtt þessar auðlindir okkar.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 12.8.2009 kl. 03:24

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Hvernig hafa álrisarnir komið því við að nýta orkuauðlindir okkar? Hefur þú ekki tekið eftir fréttum um skort á landsvæðum til ræktunar og skorti á hreinu vatni í heiminum? Manstu eftir myndinni The Big Sellout? Hún fjallaði reyndar um AGS en hún sýndi okkur það svart á hvítu að það er enginn skortur á hugmyndum um það hvernig megi hagnast á sölu vatns og rafmagns.

Finnst þér það ekkert dularfullt hvað aðild Ísland virðist eftirsóknarverð í augum Evrópusambandsins? Það er á hreinu að það er ekki vegna þess að fjárhagsleg staða okkar er svo sterk en við eigum margt sem Evrópu skortir tilfinnanlega eins og fallorku, jarðvarmaorku, landsvæði, auðug fiskimið og hreint vatn.

Eins og ég sagði í færslunni hér að ofan þá er ég handviss um það að við fáum ekki aðild að Evrópusambandinu fyrir ekki neitt. Hvað höfum við að bjóða? Jú, það sem þú telur t.d.upp sjálfur í athugasemd þinni og ég er sannfærð um það að það að snillingunum í Brussel finna einhver ráð til að koma því í verð þannig að innganga okkar í sambandið borgi sig fyrir það!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.8.2009 kl. 03:49

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Getur íslenska þjóðin ekki tekið sér löggjafarvald í sjálfsvörn og sett neyðarlög? Það er alveg full ástæða til að setja hryðjuverkalög á Samfylkinguna og koma henni burt af stjórnarheimilinu áður en hún vinnur þjóðinni óbætanlegt tjón.

Haraldur Hansson, 12.8.2009 kl. 10:00

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Góður pistill, Rakel. 

Það er með ólíkindum, að enginn fjölmiðill skuli taka þetta mál upp.  Ekki var það gert heldur, þega Ingibjörg Sólrún sagði að hún hefði verið búin að semja við ESB um beina aðkomu sambandsins að samningagerðinni um Icesave.

Í þessu bloggi var ég að velta því fyrir mér, hvort sá leynisamningur hafi verið ástæðan fyrir skyndilegri kröfu Samfylkingarinnar um að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti tafarlausa umsókn að ESB, annars yrði ríkisstjórninni slitið.  Í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar var þó gert ráð fyrir því að ekki yrði sótt um aðild að ESB á því kjörtímabili.

Af einhverjum ástæðum fór Samfylkingunni skyndilega að liggja mikið á.

Hefur einhver skýringu á þessu?

Axel Jóhann Axelsson, 12.8.2009 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband