Óráðin framtíð...
26.7.2009 | 21:49
Það er undarleg tilvera að lifa í hruninni veröld. Það er enn undarlegri tilvera að vera þess fullviss að þeir sem maður treysti eru einmitt þeir sem er síst treystandi því þeir eru fullkomlega glórulausir. Glóruleysi þeirra kemur best fram í því hvernig þeir bregðast við kringumstæðunum sem blasa við hvarvetna.
Í stað þess að hlúa að þeim særðu og slösuðu fara þeir og gera sig til fyrir erlendu auðvaldi, og ekki nóg með það! þeir vinna baki brotnu að því að verja hagsmuni þeirra sem bera ábyrgðina! Framkoma þeirra, forgangsröðun, gjörðir og yfirlýsingar auka enn frekar á firringuna sem ég finn fyrir í sívaxandi mæli bæði hið innra og ytra. Ég spyr mig aftur og aftur hvað er það sem veldur þeirri kolröngu forgangsröðun sem ég horfi upp á hverjum degi?
Er það heimska, illska eða einfaldlega geðveiki? Ég veit það ekki! en eitt veit ég að ef þessir, sem eru svo gersneyddir mennskunni sem raun ber vitni, fá áfram ráðrúm til að vinna með málefni Íslands þá er landið, þjóðin og framtíð hvoru tveggja í stórkostlegri hættu! Rústirnar sem við stöndum á núna verða jafnaðar við jörðu og ummerkin fullkomlega afmáð.
Við sjáum þetta nú þegar í því að nú er allt kapp lagt á niðurskurð og niðurskurð í almannaþjónustu. Laun eru fryst, stóru verktakafyrirtækjunum er lofað verkefnum sem voru á áætlun 2007, fjármálafyrirtækjum er tryggð framtíð og veiðileyfi á skuldugan almenning, minni fyrirtæki og almenningur eru sett út á guð og gaddinn en krafturinn er settur í flokksbundið argaþras um Icesave og ESB. Sumir trúa því m.a.s. í alvöru að þetta sé einmitt það sem er mest aðkallandi að vinna að núna!
Það er sem sagt til peningur til að halda andlitinu fyrir nágrannaþjóðunum í fjar- og nærmynd en hann er líka tekinn frá brýnum verkefnum til raunverulegrar uppbyggingar mannúðlegra lífsskilyrða fámennrar þjóðar í stóru landi. Er von að maður velti því fyrir sér hversu heillegt toppstykkið er hjá stjórnmálamönnum sem eru tilbúnir til að svelta börnin sín en stríðala sýningarhestana sína á sama tíma. Er von að maður sveiflist á milli hugmynda um fullkomna heimsku og eiginhagsmunahyggju einstaklinga sem stökkva upp á nef sér og krefjast þolinmæði okkar á meðan þjóðinni blæðir út!
Ég horfi og hlusta með furðu manns sem kemst ekki út úr áfallalostinu sínu vegna allra þeirra óskapa sem við honum blasa á blóðvellinum. Þar liggja særðir, hrjáðir og þyrstir og hrópa á miskunn og hjálp en í stað þess að þeim sé hjálpað hefur björgunarliðið einangrað sig inni í sjúkratjöldunum og ræðir um hátæknisjúkrahús sem á að reisa á tunglinu eftir tíu ár!
Ég geri ráð fyrir að skrif mín hér á undan séu svolítið sundurlaus. Það gerir vonleysið sem hefur verið að hellast yfir mig síðastliðnar vikur og daga. Ég ætla að enda þetta á orðum Þorvaldar Gylfasonar en sem betur fer þá eru þeir einn og einn sem virðast enn búa við heilbrigða hugsun eins og hann. Þessir finnst mér átta sig á hver er eðlileg forgangsröðun miðað við núverandi aðstæður.
Það nær engri átt að ríkisstjórnin og Alþingi skuli ekki hafa markað sér stöðu við hlið almennings andspænis þeim sem stofnuðu til skuldbindinganna. Sá gjörningur Landsbankans að leggja þessar skuldbindingar á skattgreiðendur þeim að óvörum virðist brjóta gegn 249. grein almennra hegningarlaga um umboðssvik og geta varðað allt að sex ára fangelsi. Bankastjóra og bankaráðsmenn Landsbankans hlýtur að þurfa að draga til ábyrgðar að lögum, það hefði átt að gerast fyrir löngu en enginn talar um það á Alþingi nema Borgarahreyfingin og einn og einn þingmaður Vinstri grænna.
Viðbætur: Verð hreinlega að bæta við krækju í þessar spurningar á Kreppuvaktinni en þær eru eins og talaðar út úr mínu hjarta. Það er full ástæða fyrir okkur öll að spyrja þeirra! Þó það væri ekki til annars en halda fókus í þeirri vitfirringu sem okkur er boðið upp á!
Og enn verð ég að bæta við og núna er það krækja í stórkostlega ræðu Jakobínu Ingunnar Ólfsdóttur sem hún flutti á mótmælum á Austurvelli laugardaginn 25. júlí sl.
Vill að AGS leggi spilin á borðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:06 | Facebook
Athugasemdir
Heil og sæl; Rakel !
Þakka þér; hugrenningar þínar. Þær eru, því miður, ekki að ástæðulausu, eins og mál blasa nú við.
Þessi mannskapur; hver hefir svikið alla svardaga, í Íslands þágu og Íslendinga, skilur ekkert annað, en vopnavald, úr þessu - með harðneskju mikilli.
Það er; kjarni málsins.
Með beztu kveðjum; í Eyjafjörð norður - úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 22:29
Sæl Rakel,
mér er eins innanbrjóst og þér. Vonleysi er tilfinningin. Allar ákvarðanir teknar langt fyrir ofan okkur. Ég sé ekki að við getum breytt neinu, bara flutt í burtu.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.7.2009 kl. 22:30
Tek undir orð Skúla. Ég er að missa alla von og trú á að réttlæti sé eitthvað sem okkur mun hlotnast. Án þess verður engin uppbygging.
Kv, ari
Arinbjörn Kúld, 27.7.2009 kl. 10:07
Góður pistill Rakel, auðvelt að finna samhljóm.
Hvað getum við gert?
Enn er það svo að ríkisstjórnin styðst er við spillingaröflin. Gerður er "stöðuleikasáttmáli" þar sem sömu andlit eru í fókus og hafa verið á háum launum hjá almenningi við að þurrka upp lífeyrissjóði, sömu andlit og hafa verið að tæma bótasjóði.
Bönkunum er ríghaldið af sama liðinu og var á fínum launum við að setja Ísland á hausinn, skilanefndir þrotabúanna eru skipaðar sömu endurskoðendum og kvittuðu upp á heilbrygði bankanna fyrir aðeins einu ári síðan.
Ég ætla að sleppa því að hafa orð á icesave samninganefndinni og formanni hennar. En er hægt að halda því fram með góðri samvisku að "fjórflokkurinn" sé ekki orðin ein allsherjar "samspilling"?
Við er rugluð í ríminu með því að telja okkur trú um að það eigi að halda með fótboltaliðum í góðæri og stjórnmálaflokkum í kreppu. Maður á að standa með egin sannfæringu, aðeins þannig fær maður einhverju áorkað.
PS. Mig langar til að benda þér á þetta video http://www.youtube.com/watch?v=peiTfY7Bx4c þessi fyrirlesari hefur boðað komu sína til Íslands 21. nóvember. Hann hefur bent á margar áhugaverðar leiðir fyrir einstaklinga gagnvart spillingu kerfisins.
Magnús Sigurðsson, 27.7.2009 kl. 13:14
Ég birti ekki þessar hugrenningar mínar hér á blogginum mínu til að draga kjarkinn úr neinum en það er sannarlega satt sem þið segið að það er fátt til að vekja manni von á þessum tímum. Það er með ólíkindum að horfa upp á þá ríkistjórn, sem meiri hluti þjóðarinnar treysti til að reisa við efnahag þjóðarinnar, vinna að því hörðum höndum að sólunda öllum tækifærum til slíkrar viðreisnar! Það eru fáir möguleikar eftir en þó er einn sem við megum ekki gleyma en það er alvöru bylting! Spurning hvort það þurfi ekki hugarfarsbyltingu fyrst...
Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.7.2009 kl. 00:37
Bylting, umh.....ég ætla aðeins smjatta lengur á orðinu.
Gunnar Skúli Ármannsson, 28.7.2009 kl. 21:52
Þú lætur mig kannski vita þegar þú ert búinn og segir mér hvaða kom út úr smjattinu
Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.7.2009 kl. 00:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.