Efaðist einhver um að landið væri girnilegt!
14.6.2009 | 15:56
Þetta verður stutt. A.m.k. styttra en ég vildi... Mig langaði bara til að vekja athygli á því sem mér finnst vanta í þessa frétt. Þar er haft eftir Andrési Arnalds, fagmálsstjóra Landgræðslu ríkisins:
Eftir því sem stórþjóðir taka meira akuryrkjuland á leigu þrengir meir að Evrópumörkuðum. Samkeppni um nothæft land og vatn mun fara vaxandi. Það þýðir að staða Íslands á alþjóðlegum mörkuðum, sérstaklega á nærmörkuðum, er líkleg til að batna. Vatnið og landrýmið vinnur með okkur,
Andrés Arnalds er hér að tala um þá möguleika sem felast í þróuninni fyrir íslenskan landbúnað. Þ.e.a.s. ef landið verður ekki selt inn í ESB í formi óviðráðanlegrar Icesave-skuldar. Skuldar sem ég velti fyrir mér hvort að liggi ekki í augum uppi allra landsmanna að Íslendingar geta aldrei borgað? Verður e.t.v. gert ókleift að borga! Skuldin er því sett þarna sem varnagli svo þjóðinni detti ekki í hug að kjósa á móti ESB-aðild því þegar þar að kemur á hún ekki annarra úrkosti en kjósa með henni. Agnið verður niðurfelling skuldarinnar!
En hvað vantar í fréttina? Það vantar að benda á það að ríkisstjórnin er alls ekki að vinna eftir því að það felist einhverjir möguleikar og atvinnutækifæri í landbúnaðinum! Þvert á móti. Möguleikarnir sem ríkisstjórnin sér og vinnur að ná ekki út fyrir stóru verktakafyrirtækin. Sbr. tillögurnar um það hvernig megi endurreisa atvinnuvegina. E.t.v. er einhver tilbúinn til að telja umræðu um erfðabreytt bygg til þess að nýta þessa möguleika sem Andrés talar um í tengdri frétt.
Það hljóta allir framsýnir og umhverfismeðvitaðir einstaklingar að sjá að slíkar hugmyndir munu reita þessa möguleika út úr höndunum á okkur. En þar er ég líka komin að því sem vantar í þessa frétt. Stórþjóðir eru nú þegar farnar að ásælast ræktarland hér á landi! Ef við föllum fyrir ginnungartilboðum þeirra getum við gleymt tækifærunum sem við eigum í landrýminu og vatninu okkar!
Hvernig væri að hugsa út fyrir álvæðingar-, virkjunar- og stórframkvæmdarammann þar sem stórvirkar og háværar vinnuvélar ryðja björgum og mola berg fram að verklokum? Hvernig væri að við virkjuðum og reistum gróðurhús, elfdum ylrækt og einbeittum okkur að grundvallarþáttum eins og matvælaframleiðslu!? Hana má stunda um allt land. Jafnt fyrir austan, vestan, norðan og sunnan.
Þeir sem geta sagt já eða nei um það hvort lífeyrissjóðirnir okkar verða nýttir til innspýtingar fyrir atvinnulífið verða að hugsa málið út frá því hvort hugmyndirnar um stöðugleika birtist bara í sýndarveruleika talna á blöðum eða hvort hann muni vara í reynd. Ég sé engan stöðugleika í því þó Hvalfjarðargöngin verði breikkuð eða nýr Landsspítali byggður.
Í slíkri verkáætlun sé ég verkefni sem stendur stutt yfir, þarf mikinn mannafla í skamman tíma, eðli verksins samkvæmt verður langmestur meiri hluti þeirra sem fá vinnu karlmenn, senilega aðeins þeir sem eru líkamlega sterkir og fullkomlega heilsuhraustir eða á aldursbilinu 17 upp í 45 ára, meiri hluti þeirra sem þarf að ráða eru ófaglærðir verkamenn, ... kannski erlendir auk þess sem þessi verkefni eru bundin við suðvesturhornið. Hér er líka bara verið að bjarga stórum verktakafyrirtækjum tímabundið því hvað svo???
Í landbúnaðinum er framtíð því við munum alltaf þurfa að borða eins og allt annað mannkyn á jörðunni. Lanbúnaðurinn fer auk þess miklu betur með alla þætti jafnréttisins að ég tali ekki um mannskapinn sem ljáir honum krafta sína.
Styrkir innlenda matvælaframleiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Landið og konur landsins...
Auðun Gíslason, 14.6.2009 kl. 16:14
Afar athyglisvert og við þurfum að halda vel á spöðunum.
Arinbjörn Kúld, 14.6.2009 kl. 18:26
Ég var að lesa hugleiðingu einhvers annars, í augnablikinu man ég ekki hver það var. Hugleiðingin var á þá leið, hvers vegna ætlar ríkisstjórnin að innkalla veiðiheimildir? Vegna þess að þau ætla að nota þær sem skiptimynt inni í ESB!! Ég er fylgjandi sjálfbærni í landbúnaði, að við ræktum allt sem við borðum hérna á Íslandi. Ég held að það verði grundvallaratriði í framtíðinni. Ég vil sjá sama raforkuverð til grænmetisbænda, venjulegra bænda og álvera.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.6.2009 kl. 23:57
Góð Jóna Kolbrún! en guð hvað það er sorglegt ef það er virkilega samhengi á milli innköllunar á veiðiheimildum og inngöngunnar inn í ESB! En miðað við allt og allt er ég hrædd um að það sé alls ekki svo útilokað
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.6.2009 kl. 02:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.