Það fer að styttast í stóru orðin!
14.6.2009 | 14:49
... enda fullt tilefni til! Ég er svo gáttuð á þessum fréttum öllum um bæjarstjórabolann í Kópavogi að ég á enn fullt í fangi með að halda neðri kjálkanum í þeirri stellingu að ég líti ekki út eins og gapálfur. Tilefnið til að undrast er ærið þó það væri ekki annað en framkoma bæjarstjórans í Kópavogi!!
Það líður vart sá dagur að íslenskum almenningi opinberist ekki græðgin, spillingin og vanhæfnin meðal opinberra starfsmanna hvarvetna í stjórnsýslunni og fjármálastofnunum landsins. Það er rétt eins og þessir menn lifi og hrærist í þeirri trú sem var almenn á miðöldum varðandi konungsvaldið. Þá innprentuðu valdhafarnir með dyggri aðstoð kirkjunnar að menn væru réttbornir til valda. Almenningur var kúgaður undir þessari hugmyndafræði en í þessum jarðvegi voru hugmyndirnar um þrískiptingu valdsins og lýðræðið fundnar upp.
Hér á Íslandi er greinilegt að hugmyndir valdastéttarinnar um það á hverju lýðræðið grundvallast eru orðnar afar útvatnaðar ef ekki háðar þröngum skilningi þess einstaklings sem lýðræðið steitir á hverju sinni. Gunnar I. Birgisson er svo sannarlega ekki sá eini sem er sannfærður um forréttindi sjálfs sín. Honum dettur ekki í hug að hann þurfi að lúta neinum reglum nema þeim sem hann setur sjálfur. Hann finnur því upp einhverja málamiðlunarleið og telur sér trú um að þannig hafi hann lægt öldurnar nóg til þess að hann geti setið áfram við stjórn í Kópavogi.
Þetta er ótrúlegt siðleysi sem viðgengist hvergi á hinum almenna vinnumarkaði! Engum undirmanna hans myndi heldur líðast að koma þannig fram. Það er augljóst að Gunnar misnotaði almannafé til að byggja undir dóttur sína. Sjálfsagt taldi hann sig með þessu ekki gerast sekur um neitt alvarlega en það að vera hinn fullkomni og umhyggjusami faðir sem gerði vel við dóttur sína. Honum hefur kannski bara fundist eðlilegt að fölskylda hans nyti góðs af því hvað hann hafði komið sér fyrir. Honum yfirsást þó það grundvallaratriði að sjóðurinn sem hann mokaði úr var bæjarins og fólksins í Kópavogi en ekki hans og fjölskyldu hans!
Þessi siðferðis- eða greindarbrestur, að geta litið á bæjarsjóð sem sitt eigið fé, er svo augljós embættisglöp að það er á engan hátt ásættanlegt að Gunnar færi sig aðeins til innan bæjarstjórnarinnar. Hann á að sjálfsögðu að afsala sér öllum afskiptum af bæjarmálum í Kópavogi! Það er fullkomlega óásættanlegt að maður sem hefur orðið uppvís af jafn alvarlegum afbrotum í starfi og Gunnar I. Birgisson sitji áfram í bæjarstjórn Kópavogs. Hans embættisferli í stjórnsýslunni ætti með réttu að ljúka núna! Hann hefur dæmt sig til þess sjálfur með verkum sínum!!
Þetta dæmi, dæmið um Davíð, Valtý, og svo mætti áfram telja út í hið óendanlega, eru hrópandi dæmi um það að hér verður að koma upp einhvers konar hæfnis- og siðanefnd sem hreinlega metur hæfi þeirra sem sækjast eftir því að komast áfram í embætti hjá hinu opinbera. Það verður að vera til einhver nefnd sem grípur inn í og víkur embættismönnum frá sem gera sig bera af misbeitingu eða afglöpum í starfi. Við sjáum hvað við sitjum uppi með! og það sem verra er, er að þessi drullupyttur virðist endalaust!
Hvað nefndina varðar er stór spurning hvort ekki væri rétt að í henni sætu alltaf tveir erlendir sérfræðingar sem færu yfir hæfi umsækjenda. Það væri líka mikilvægt að hafa óháða aðila í þessari nefnd þegar kemur að því að fjalla um afglöp og misbeitingu í starfi. Það er ljóst að þeir sem neita að víkja gera það ekki síst í trausti vináttu- og bræðraklíkusamtakanna sem þeir hafa stofnað til.
Það er fullt tilefni til að grípa til stórra orða í ljósi þess sem hefur átt sér stað undanfarna daga og vikur. Slík orð hafa aldrei verið mér töm á tungu en óneitanlega skjóta mörg slík upp kollinum í dag þó þau rati ekki í þessa færslu. Ástæðan kann líka að vera sú að ég er nýkomin frá Reykjavík þar sem ég mætti nær daglega niður á Austurvöll og sló taktinn: NEI, NEI, NEI, NEI... við öllu kjaftæðinu sem viðgengst þessa daga. Hér er sýnishorn úr myndasafni Ástríðar Gylfadóttur:
Fundað um eftirmann Gunnars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Langflottust Rakel. Frábær pistill. Hverju orði sannara. Vildi óska að ég gæti orðað og sagt hlutina eins og þú.
Arinbjörn Kúld, 14.6.2009 kl. 17:29
Við höfum hvert okkar aðferð Ari minn Þú ekki síður en ég og við hin!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.6.2009 kl. 18:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.