Bænarskjal mitt til allra þingmanna!

En eitt áfallið dundi yfir íslenskan almenning í gærkvöldi. Eva Joly, sem er okkar helsta vonarstjarna um að okkar bíði eitthvert réttlæti, varaði okkur við því að kannski neyddist hún til að draga sig í hlé frá rannsókninni á íslensku fjármálspillingunni. Ástæðan, sem Eva Joly nefndi ekki beinum orðum, en ég reikna með að blasi við öllum er spillingin í stjórnsýslunni.

Kannski hafa verið haldnar veislur hjá u.þ.b. 50 íslenskum fjölskyldum í tilefni af orðum Evu Joly. Ég tekst á við angitst og örvílnan vegna þess að það eru virkilega einhverjir eiginhagsmunaskúrkar sem komast upp með að slökkva von mína um réttlæti með því að gera einum færasta rannsóknardómara í heiminum ókleift að komast upp um glæpagengin sem hafa mergsogið samborgara sína!  Ég ætla ekki að segja meira um þetta mál en skora þig að lesa frábæra samantekt Láru Hönnu Einarsdóttur ef þú hefur ekki gert það nú þegar.

Ég ætla hins vegar að birta bréf sem ég sendi til allra sem sitja nú á þingi okkar Íslendinga:

Góðan daginn!

Með þessu bréfi opinbera ég þá bæn að allt verði gert til að gera Evu Joly kleift að leggja nafn sitt við rannsókn á hruni íslensku bankanna, sem leiddi þjóðina í þann stórkostlega vanda sem hún stendur frammi fyrir í dag. Ég bið ykkur að hlusta á ráð hennar um framkvæmd rannsóknarinnar og óskir hennar um vinnuaðstöðu. Ég geri það að tillögu minni að ef ríkisstjóður hyggst gefa út skuldabréf á lífeyrissparnað landsmanna að hluti þess fjármangs sem þannig fæst að láni verði lagður í þessa mikilvægu rannsókn!

Rannsóknin er mikilvæg fyrir margra hluta sakir. Sú stærsta og mikilvægasta er að þeir seku verði fundnir svo ríkissjóður geti leyst til sín eignir þeirra sem eru grundvallaðar á þjóðartekjum og sparifé sem landsmenn treystu bönkunum fyrir. Þar með lækkar sú skuldabyrði sem stendur til að velta á almenning sem ber enga ábyrgð á hruni bankanna og þeirri alvarlegu efnahagsstöðu sem landið stendur frammi fyrir nú. Önnur stór ástæða snýst um sáttina og traustið. Hér næst aldrei sátt nema þeir sem bera sökina verði fundnir og leiddir til saka. Íslensk stjórnvöld munu vera rúin öllu trausti á meðan þau stuðla að því með aðgerðaleysi sínu og/eða hálfkáki  að skúrkarnir sleppi en þjóðin sitji uppi í fátækt vegna glæpa sem liggur í augum uppi að hún hefur ekki framið.

Eva Joly er von okkar almennings og megi þeir sem stóðu að ráðningu hafa þakkir mínar og heiður fyrir það en hugur verður að fylgja máli! Kröfur Evu eru mjög vel rökstuddar og eru mjög í takt við réttlætiskennd allra hugsandi manna. Ég fer fram á það að henni verði sýnd sú virðing sem hún á skilið og hún fái að ráða með sér bæði innlenda og erlenda sérfræðinga sem ráða við það sem mjög margt bendir til að sé stærsta svikamylla í Evrópu eftir seinna stríð! Ef það verður ekki blasa við okkur öllum þvílíkar ógnir að m.a.s. ég forðast að koma þeim í orð.

Að lokum vil ég minna á að mótmæli hafa staðið yfir á Austurvelli síðan á mánudag. Þeim verður framhaldið á morgun. Á morgun verður ávænt uppákoma á Austurvelli kl. 13:00. Kl. 15:00 brestur svo hefðbundin mótmælin undir kröftugum byltingartakti. Kl. 16:00 mæta svo háskólastúdentar til mótmæla vegna þeirri aðför sem er verið að gera að kjörum þeirra og um leið framtíð háskólamenntunar í landinu.          

Láttu sjá þig og stattu með sjálfum þér og okkur hinum í leiðinni!                                  


mbl.is Skoða þörf á auknum útgjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég ætla að mæta á morgun, ég komst ekki í gær.  Ég hef ekki séð eina frétt af mótmælum gærdagsins.  VArst þú þar?  Hvað komu margir?   Voru einhver mótmæli í gær?   Ég ætla að hafa með mér eldhúsáhöld á morgun... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.6.2009 kl. 02:53

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Við vorum ekki mörg. Ég komst reyndar ekki fyrr en upp úr hálf fjögur en hávaðinn var töluvert meiri en hann var í gær (eða á þriðjudaginn). Vonandi sjáumst við á morgun (fimmtudag).

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.6.2009 kl. 03:25

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæl ágæta Rakel, þó fyrr hefði verið.

Erfiður dagur í rússíbana tilfinninga og örvæntingar er nú að baki.  Sýnist þó að tekist hafi um skamma stund að opna augu ráðamanna fyrir þeirri örþrifavon sem ærlegir Íslendingar binda við þessa merku konu Evu Joly, og alls ekki megi né skuli hrófla við henni, heldur setja allt á fullt stím fram á veginn.

Bestu kveðjur til Akureyrar eða Reykjavíkur hvor staðurinn sem þú dvelur á nú um stundir.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 11.6.2009 kl. 03:39

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir góðar kveðjur Jenný Stefanína! Ég er snortin af þinni djúpu samkennd með okkur, þjóð þinni. Tilfinningarússíbaninn er að verða að vana en stórhættulegur okkar andlegu velferð. Enn sér þó ekki fyrir endann á þessum ósköpum öllum sem hafa dunið á okkur linnulítið frá sl. hausti.

Es: Ég er í Reykjavík um þessar mundir þó ég sé enn búsett á Akureyri. Kær kveðja til þín og Kanada.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.6.2009 kl. 03:50

5 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Bréfið þitt er stórkostlegt. Ég get tekið undir hvert einasta orð. En ég hræðist þessa rótgrónu spillingu sem hér virðist vera allsráðandi. Þessir fjárglæframenn eru búnir að gera okkur að fíflum út um allan heim og því miður þá virðist mér að það séu til alþingismenn sem ekki hafa hreinan skjöld.

Bestu kveðjur.

Þráinn Jökull Elísson, 11.6.2009 kl. 05:11

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk. Ég er búin að senda nokkur fjöldabréf áður en að þessu sinni ákvað ég að semja bréf frá eigin hjarta. Það skilaði mér viðbrögðum frá þremur þingmönnum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.6.2009 kl. 12:06

7 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

..... já takk fyrir það Rakel, og vil bara undirstrika þá tilveru mína ef það er ekki alveg skýrt.

" ég er líka þjóðin" og deili áhyggjum,örvæntingu,sorgum, sigrum, gleði og hamingju þó ég búi ekki á eyjunni bláu.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 11.6.2009 kl. 16:06

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þú ert frábær Rakel. Ég er hins vegar svo ofsareiður þessa daganna út af þessu ölu að ég ætla að hafa hægt um mig á blogginu og fésbók.

Arinbjörn Kúld, 12.6.2009 kl. 10:53

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jenný Stefanía: Ég átta mig á því að þú ert svo sannarlega líka þjóðin og hefur alls ekki slitið tengsl þín við hana heldur deilir með okkur öllum þeim tilfinningum sem við göngum í gegnum núna. Það er einmitt það sem mér finnst svo dásamlegt við þig. Ég dáist af þinni skýru sýn og skörpu dómgreind þegar þú fjallar um það sem við göngum í gegnum á þessum tímum. Það er ekki síst aðdáunarvert í ljósi þess að þeir eru alltof margir sem eru í súpunni miðri sem kjósa að sjá ekki neitt og koma sér hjá því að taka afstöðu sem varða allt líf þeirra sjálfra.

Takk fyrir innlitið Ari og virkjaðu reiðina til framkvæmda!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.6.2009 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband