Skyldi ég vera komin í útrýmingarhættu eins og þeir?

Þegar ég var barn og unglingur hélt ég alltaf með indíánunum í hinum svokölluðu „vestrum“. Það fór reyndar lítið fyrir þeim í þessum myndum því sjónarhornið var alltaf hjá „hetjunum“ sem voru að útrýma þeim í þeim tilgangi að komast yfir auðlindir þeirra.

Í sátt og samlyndiAuðlindirnar sem indíáninn sat á var ræktarland, veiðidýr, vatn og skógar. M.ö.o. náttúra sem þeir höfðu búið í sátt og samlyndi við öldum saman og grundvölluðu lífsafkomu og menningu sína á.

Af því hvernig morðóðir kúrekarnir voru alltaf málaðir upp sem sannar hetjur en indíánarnir sem fyrirstöðum sem þurfti að ryðja í burtu, hafði ég lítið gaman af þessum myndum og gafst að lokum upp á því að reyna að horfa á þær.

Ástæðan var ekki síður sú að ég fann svo óbærilega til með indíán- unum. Svo óbærilega að mig verkjaði stundum í hjartað af samkennd með þeim fyrir óréttlætið sem þeir máttu þola.

Þrátt fyrir þá skökku mynd sem þessar kvikmyndir gáfu af indíánunum fylltist ég aðdáun á þeim. Einkum held ég að það hafi verið af þeirri menningu sem höfundarnir neyddust til að miðla þrátt fyrir allt. Ég dáðist að því hvað þeir voru flottir, hvað þeir kunnu vel á náttúruna, voru snjallir á hestbaki og færar bogaskyttur. Rósemd þeirra og sá innri styrkur sem hún lýsti gerði það að verkum að ég leit enn frekar upp til þeirra. Mér fannst þeir líka alltaf tignarlegir gagnvart því niðurlægandi óréttlæti sem hvíti maðurinn lagði á þá.

Síðast en ekki síst kenndi ég hreinlega til undan þeim óútskýranlegu tengslum sem ég fann til með indíánunum. Kannski er það þess vegna sem mér hefur verið hugsað til þeirra núna. Í dag hef ég nefnilega verið að reyna að komast yfir þá yfirþyrmandi staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa grundvallað það að Ísland verði nýlenda Breta og um leið stofnað þjóðerni mínu í útrýmingarhættu. Þeim sem finnst ég gera of mikið úr hlutunum bendi ég á aldalangan yfirgang Breta gagnvart Írum.
TáraslóðÉg ætla að enda þessa færslu með myndbandi sem segir frá aðgerðaráætlun bandarískra stjórnvalda sem byggðu á lagasetningu bandaríska þingsins frá árinu 1830 og varðaði indíánanna. Aðgerðin var kölluð „The Indian Removal Act“ en með henni var indíánum gert að flytja frá heimkynnum sínum til annarra sem voru síður byggileg.

Hér segir frá því þegar Cherokee-indíáarnir ásamt fjórum öðrum kynþáttum voru hraktir yfir þver Bandaríkin um miðjan vetur til nýju heimkynnanna í vestri. Þessi tiltekni atburður hefur löngum gengið undir heitinu „Trail of Tears“. Samnefnt lag hljómar undir sögunni sem er rakin í myndbandinu með kyrralífsmyndum og stuttum textabrotum.

Ég ræð ekki við að koma orðum yfir þá tilfinningaþvottavél sem sálarlíf mitt hefur hringsnúist inni í, í dag né að koma öllum hugsunum sem gengu í gegnum heilatromluna í orð. Ekki frekar en ég réði við að horfa á vestranna í gamla daga sem dásömuðu útrýmingu indíáanna. Ég læt heldur myndbandið miðla þeirri sorg og niðurlægingu sem ég finn til vegna þeirra atburða sem íslenska þjóðin gegnur í gegnum á okkar tímum með ófyrirséðum afleiðingum.


mbl.is Erfitt að skrifa undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Ef þú hefur áhuga að vita meira um indíána þá er bókin Heygðu mitt hjarta við Undað Kné góð lýsing þó dapurleg sé.

Hörður Valdimarsson, 7.6.2009 kl. 07:58

2 identicon

Ákaflega ógeðfellt hvernig hvíti maðurinn "útrýmdi" rauðskinnum.  Þarna voru hálfgerðir "útrásarvíkingar" á ferð, með það eina markmið að komast yfir lönd þeirra og þær auðlindir sem þar voru.  Þarna var "græðgi þess hvíta" komin á fljúgandi siglingu.  Þarna glataði mannkynið, ekki einungis "jarðbundinni" þekkingu indíána, heldur "andlegum" þroska sem hvíti maðurinn hafði ákaflega takmarkaðan skilning á og hefur sennilega lítið aukið þann skilning sinn.  "Jarðneski" auðurinn, sem hvíti maðurinn þráir mest eru "peningar og völd" og það hefur lítið breyst.  Að færa sem mest á fáar hendur er takmark þeirra gráðugu    og þá er auðveldasta leiðin sú að svíkja, stela og "jafnvel drepa".  Fjöldi landnema átti þó góð samskipti við indíána og þar á meðal voru margir íslenskir vesturfarar.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 11:03

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

takk

Hólmdís Hjartardóttir, 7.6.2009 kl. 11:33

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir enn eina frábæru færsluna.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.6.2009 kl. 11:49

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir indlitið öll. Hörður ég hef lesið bókina sem þú bendir mér á en takk fyrir ábendinguna samt. Páll takk fyrir frábæra viðbót við færsluna mína

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.6.2009 kl. 12:18

6 identicon

Þú orðar tilfinningar mínar... þetta er nákvæmlega það sem ég hef verið að upplifa líka...

Takk fyrir frábæran pistil.

Við skulum vera sterk. Við ætlum ekki að gangast undir Bretana á þennan hátt. Það er kominn tími til að Íslendingar sýni hvað í brjóstum þeirra býr.

Björg F (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 13:49

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlitið og kveðjurnar Björg! Ég var einmitt að lesa fyrri athugasemdirnar þínar við síðustu færsluna hennar Láru Hönnu. Sú fyrri hafði svipuð áhrif á mig og færslan mín hefur fyllt þig.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.6.2009 kl. 14:19

8 identicon

frábær pistill og þörf áminning um hvað við stefnum í,það er eins og hér eigi að halda sama ruginu áfram,sömu aðilar arðræni þjóðina,nú bara í boði annara flokka.sérðu einhverjar breitingar á kvótakerfinu?VG ætla að svíkja það með því að "setja í nefnd"

og raforkan hækkar á almenning en ekki til erlendra eigendur stóriðjufyrirtækja!og hverjir ætli fái svo fyrirhugaðan hagnað af oliu?ábyggilega ekki þjóðin.svo stærir ríkisstjórnin sig af "góðum"samningum,eftir að hafa slegið skjaldborg um breta!!!næst á svo að reyna að skuldsetja okkur rússum...hvað er að þessu liði?er þetta fólk bara að vernda glæpamennina sem komu þjóðinni á rassgatið....kveðja

p.s Roy Rogers var nú reyndar alltaf minn maður.

zappa (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 15:35

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það hvort ég eigi að fyrirgefa þér að hafa haldið upp á Roy Rogers í fortíðinni er komið í nefnd. Niðurstaðan gæti orðið þér í hag vegna þess að það sem þú setur á blað á undan þeirri syndajátningu bendir til að þú hafir tekið stórstígum framförum síðan þá

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.6.2009 kl. 15:46

10 identicon

Sæl, Rakel, síðustu færslur þínar eru hver annarri áhugaverðari.

Það er ekki of djúpt í árina tekið að segja að þjóðernið okkar er í húfi. Því miður. Íslensk þjóð og íslensk menning gætu heyrt sögunni til innan fárra ára.

Verði nauðungasamningarnir samþykktir og öll hin lánin tekin þá finnst mér blasa við að það stór hluti af þjóðinni flyti til annars lands að þau sem eftir verða geti ekki rétt úr kútnum og haldið lífi í þjóðerninu og menningunni sem við kennum við landið okkar.

Því segi ég þetta að ólíkt stöðunni þegar örfáir tugir þúsunda voru eftir í landinu á fyrsta áratug síðustu aldar þegar ferðirnar til Kanada voru að langmestu leyti gengnar yfir þá gat fólkið sem eftir var byggt upp þjóðina á ný og menninguna vegna þess að þjóðinni, menningunni og ekki síst landinu stafaði ekki hætta að utan. Hér réðust Bretar og Spánverjar um fiskimiðin en þær óleyfilegu veiðar eru ekkert í líkingu við þá hættu sem landinu og þjóðerni okkar sjálfra stafar núna að utan. Ég er að tala um bein og óbein veð sem erlend ríki hafa í auðlindum landsins. Þetta er stærri og skelfilegri ógn en við verður ráðið verði nauðungasamningarnir samþykktir og bætt við enn fleiri lánum. Það kann því að blasa við þjóðinni okkar að verða þjóðarbrot í hinum og þessum löndum: þjóðargreyi sem telur 300.000 sálir.

Saga indíána var glæsileg en með tilkomu gráðugra hvíta verslunarmanna er saga þeirra ein allsherjar sorgarsaga. Með útrýmingu þeirra tapaði mannkynið heilmikilli þekkingu. En við þurfum ekki að fara alla leið til BNA til að finna þjóð sem einu sinni átti land sem hún stjórnaði sjálf. Fyrir beiðni bandaríska hersins skipuðu dönsk stjórnvöld Grænlendingum að rýma svæði sem bandaríski herinn vildi fá undir hernaðarleiki sína. Það er innan við 50 ár síðan þetta gerðist. Sá sterki vílar ekki fyrir sér að reka fólk að heiman ef hann vill fá landið þeirra.

Helga (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 17:24

11 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Takk, góð hugleiðing,

nú er bara spurningin hvernig minnisvarðinn á að líta út sem reistur verður í minningu okkar. Þeirra sem leiddir voru án mótstöðu eða börðust til síðasta manns.

Gunnar Skúli Ármannsson, 7.6.2009 kl. 21:47

12 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Takk fyrir að deila þessum hugrenningum þínum með okku.rÞað hljómar kannski asnalega en mér finnst næstum gott að finna að það eru fleiri en ég með áhyggjur af ástandinu. Ég hitti svo ótrúlega marga sem finnst þetta ekkert tiltökumál þó við tökum allar þessar skuldir á okkur. Hvað er eiginlega í gangi er fólk dofið eða vill það ekki hugsa?

Helga Þórðardóttir, 7.6.2009 kl. 21:48

13 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Á þessari stundu er verið að myrða og hrekja indíana á Amazonsvæðunum í Perú frá heimkynnum sínum svo erlend stórfyrirtæki geti haldið áfram að rústa umhverfi okkar. Ég veit hins vegar ekki hvort þau eru bresk.

María Kristjánsdóttir, 8.6.2009 kl. 00:19

14 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur öllum fyrir innlit og viðbætur

Helga og María: Ég var að hugsa um að vísa a.m.k. til þeirrar meðferðar sem Írar hafa þurft að þola af hálfu Breta í margar aldir en ákvað svo að halda mig bara við indíánana í Norður-Ameríku. Það mætti svo líka minna á meðferð Spánverja á Inkunum meðal annarra íbúa Suður-Ameríku sem þeir stráfelldu og rændu auðæfum sínum.

Ég veit ekki hvort þjóðin er í útrýmingarhættu en ég tel fulla ástæðu til að velta því fyrir sér í ljósi allra þessara sagna. Þakka ykkur fyrir ykkar mikilvægu viðbætur. Vægi þeirra liggur í því að þær eru úr samtíma okkar!

Gunnar: Ég held að svarið við spurningu þinni liggi í því hver kostar minnisvarðann

Helga Þ: Ég skil þig svo fullkomlega! Þó það hljómi einhvern veginn eins og öfugmæli að finnast það gott að fleiri hafi áhyggjur þá gefur það von um að sameiginlegar áhyggjur þjappi okkur saman í hóp. Hópurinn gefur áhyggjum okkar farveg og rödd sem krefst mannúðlegri lausna fyrir okkur öll og framtíðina líka.

Vona að ég sjái ykkur sem flest á Austurvelli á morgun (mánudag) kl. 15:00 (Sjá auglýsingu á Fésinu hér og umfjöllun hjá Baldvini Jónssyni um mótmælin)

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.6.2009 kl. 03:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband