Þetta var það sem mig grunaði!

... þegar ég skrifaði þessa færslu hér. Við stóra samningaborðið á að heita að það sé verið að ræða þróun launa í landinu. Fyrirfram þóttust þó flestir vita að það eina sem yrði rætt þar um laun yrði það að engir peningar væru til. Þar yrði í mesta lagi boðið yrði upp á frestun allra launasamninga. Það er kannski bara mildara heiti yfir frystingu launa?

Grun minn um það hvað átti og hefur verið rætt um við þetta borð byggi ég á því hvernig mál hafa þróast frá síðastliðnu hausti fram til dagsins í dag. Stjórnvöld hafa unnið ötullega að verkefninu sem þeir settu allra efst á aðgerðarlistanum sínum en það var að bjarga bönkunum:
Forgangsverkefnið! Það var gert með því að setja tap íslensks almennings af ýmsum sparnaðarleiðum sem bankarnir buðu upp á, svo sem viðbótarlífeyrissparnaði, á eigendur viðkomandi reikninga. Björgun fjármálastofnananna og stjórnenda þeirra var svo endanlega tryggð með því að gefa stjórnendum bankanna tíma til að flytja óáreitta úr landi á meðan gengið var frá öruggum leiðum til vaxtahækkanna. En þær tryggja það að sjóðirnir, sem þessir fyrrum styrkveitendur stjórnmálamannanna, verði fylltir með margfaldri endurgreiðslu allra lána. Þ.m.t. húsnæðislána.

Þá er komið að stóru atvinnufyrirtækjunum. Það er búið að finna leið til að bjarga þeim en það á að gera með stórum virkjunar- og samgönguverkefnum sem tengjast álvæðingu landsins. Aftur er það almenningur sem á að blæða en mér skilst að hann eigi ekkert að finna fyrir því þar sem ríkissjóður ætlar að gefa út skuldabréf á skyldulífeyrissparnað launþega í landinu.

Það á að keyra samfélagið áfram eftir úrsérgenginni hugmyndafræði eins og ekkert hafi í skorist! Það á að halda við fjármálastofnunum sem í glórulausri bíræfni frelsins, sem þær nutu, keyrðu landið og þjóðina niður í þann dýpsta kreppupytt sem um getur á Vesturlöndum. Í stað þess að setja vinnu í að semja nýja og skynsamlega áætlun, sem skapaði hér raunverulegan stöðugleika, á að keyra hér eftir sömu glópagullsaðferðinni og leiddi hrunið yfir okkur.

Það má vera að það sé kominn nýr bílstjóri undir efnahagsstýri þjóðarinnar en þó hann þykist keyra eftir nýjum umferðarmerkjum sem heita „aðgerðaráætlun“ og „stöðugleikasáttmáli“ þá er aðferðin sú sama og fórnarlömb keyrslunnar eru enn og aftur íslenskur almenningur!
Óhæfur ökumaðurVið vitum hvar og hvernig þessi ökuferð endar! Við ættum því að grípa til okkar ráða áður en verra hlýst af og svipta hann ökuréttindunum! Það er svo óskandi að það verði hægt að senda alla þessa fantabílstjóra í meðferð og helst svipta þá ökuréttindum til æviloka! 

Eins og staðan er í dag sé ég ekki marga möguleika í stöðunni. Ég er orðin harla vonlítil um að stjórnvöld frekar en þeir þingmenn sem hafa nýverið gengt embættum í fyrrum ríkisstjórnum sjái að sér. Þess vegna sé ég reyndar ekkert annað framundan en borgarstyrjöld, því miður. Ég treysti mér ekki til að spá fyrir um það hvort hún verður friðsamleg eða ekki.

Ég vona það en ég vona þó frekar að það fari að kvikna einhver skynsemistíra í höfði þeirra sem eru í þeirri aðstöðu að afstýra því að til borgarastyrjaldar komi. Ég vona þess vegna að allir stjórnmálmenn, yfirmenn fjármálastofnanna og forystumenn atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna láti heilbrigða skynsemi stýra gjörðum sínum en ekki útdauða hugmyndafræði sem keyrir þá sem þeir eiga að þjóna í botnlaust tjón; þ.e.a.s. þjóðinni sem grundvallar tilveru þeirra.


mbl.is Stór verk í einkaframkvæmd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel skrifað og ég get ekki verið meira sammála þér.

Og verkalýðsforkólfarnir virðast svo sannarlega ekki vera að ræða um betri kjör eða einhverjar úrlausnir fyrir sína umbjóðendur. Ó nei! Þeir eru að ræða um það að taka lífeyrinn okkar og henda honum í sukkið. Sukkfíklarnir héldu að partíið væri búið en þá fundu þeir eina flösku enn sem hægt er að komast í; lífeyrissjóðina.

Jón Bragi (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 07:06

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Og ég sem hélt að Gylfi og Villi hefðu ætlað heim á fimmtudaginn og halda upp á 17. júní færu vextir ekki niður fyrir 10%.  Ef þeir hefðu staðið við það væri vaxtaokur í boði IMF réttlætanlegt.

Magnús Sigurðsson, 7.6.2009 kl. 08:58

3 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Við skulum endilega vera á móti mögulegri uppbyggingu atvinnulífsins...það er svo þroskað

Jón Ingi Cæsarsson, 7.6.2009 kl. 09:05

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Jæja Jón minn, finnst þér þeim félögum í verkalýðsamtryggingunni hafa tekist svo vel upp með uppbyggingu atvinnulífsins að mark sé á þeim takandi?

Magnús Sigurðsson, 7.6.2009 kl. 09:59

5 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Við skulum endilega hafa enga trú á að neitt gangi og treysta engu.. það skilar okkur svo frábærlega fram veginn

Jón Ingi Cæsarsson, 7.6.2009 kl. 10:05

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Við skulum líka endkilega treysta því að gamla leiðin virki best til uppbyggingar hún virkaði svo vel síðast!

Jón Ingi, ekki sé ég að neinn sé að mæla á móti uppbyggingu atvinnulífsins, eins og þú orðar það, heldur aðferðinni. Það má vel vera að þú hafir lært það af liðnum mánuðum og árum að það sé best að treysta og þegja. Ég geri það alls ekki!!

Skammastu þín svo fyrir að hæðast að meðvituðu fólki fyrir heilbrigðar vangaveltur hér á minni síðu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.6.2009 kl. 12:14

7 identicon

Það kemur mér ekki á óvart að sjá að Jón Ingi er stjórnmálamaður og það fyrrir Samtryggingarfylkinguna.

Nú eiga menn bara að vera hressir og jákvæðir og ekki gagnrýna neitt. Hafa bara gaman af hlutunum og halda áfram þar sem frá var horfið a.m.k.þangað til búið er að elda upp lífeyrissjóðinn endanlega.

Á ekki amma þín einhvern sparibauk Jón Ingi minn, með peningum sem hún hefur nurlað saman til ellinnar, sem hægt er að brjóta upp?

Svo leyfa menn og Mogginn sér að tala um "einkaframkvæmdir" þegar hugmyndin er að þessi atvinnubótavinna verði fjármögnuð með lífeyrissjóðunum okkar.

Og Jón Ingi; er það einhver uppbygging atvinnulífsins að bora í holt og hóla?

Jón Bragi (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 15:47

8 Smámynd: Jón Rúnar Ipsen

Jón Bragi 

já það er uppbygging atvinnulífs að framkvæma en ekki sitja og biða eftir að keppa sé búinn . hef þurft að ganga um atvinnulaus sökum þess að atvinnulífið er botnfrosið það að geri lítið úr skoðun annar gerið málin betri

Rakel 

hvað annað en að gera lítið úr skoðum annar þú hyllir þá sem eru þér sammála en setur niðir fyrir þeim sem ekki deila þínum skoðum . og Já ég vil fá vinnu og það strax 

Jón Rúnar Ipsen, 8.6.2009 kl. 01:19

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jón Rúnar: Hvar hylli ég þá sem deila með mér skoðunum? Ég viðurkenni aftur á móti alveg að ég hafi sett ofan í við Jón Inga fyrir að hæðast að þeim sem voru búnir að setja athugasemdir við þessa færslu. Ég geri alls ekki kröfu til þess að allir séu sammála mínum vangaveltum en ég ætlast til að fólk sýni lágmarkskurteisi og sé málefnanlegt í sínum málflutningi.

Ég er ekki að setja mig upp á móti því að nýstárlegar leiðir verði fundnar til að koma atvinnulífinu í gang heldur hvaða framkvæmdir það eru sem er verið að horfa til. Taktu líka eftir því hvað framkvæmdirnar sem um ræðir eru staðbundnar. Taktu líka eftir því að langflestar framkvæmdirnar eru líka tímabundnar.

Ég vil að þú fáir vinnu en ef ég má, þá óska ég þér heiðarlegrar framtíðarvinnu sem þú getur verið stoltur af! Mig langar hvorki til að vita af þér né öðrum í vinnu við framkvæmdir sem þeir eru í sjálfu sér á móti, er a.m.k. umdeild, en þeir tóku hana vegna þess að ekkert heillavænlegra var í boði. 

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.6.2009 kl. 03:11

10 identicon

Þú átt alla samúð mína fyrir að vera atvinnulaus Jón Rúnar. En það er eingin uppbygging atvinnulífsins að gera göng og vegi fyrir lánsfé. Þegar það er búið þá er það búið og skilar eingum peningum inn í hagkerfið. Alla vega ekki neinum gjaldeyri.

Og það er vegna þess sem að eingir með viti vilja lána út peninga í þetta og þess vegna á að taka í þetta lífeyrissjóðina því það þarf ekki að spyrja eigendur þeirra um leyfi.

Jón Bragi (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 06:17

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Burt séð frá öllu háði þá er það sérstakt að búast við miklum afrekum í atvinnuuppbyggingu frá samtökum þar sem sama fólk situr við borðið og gerði fyrir ári síðan og sá þá enga váboða á lofti.  Það að kalla eftir samstöðu þjóðar við að fá að ráðstafa lífeyrissjóðum í þá atvinnuuppbyggingu er sérkennilegt. 

Jón Ingi titlar sig á heimasíðu sinni sem "varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, formaður skipulagsnefndar, varaformaður umhverfisnefndar, formaður Samfylkingarinnar á Akureyri".  Einhvernvegin er það svo að þeir sem standa fast á fokkslínum eru síst marktækir frá degi til dags, þar virðist það ráða meiru hvernig vindurinn blæs og hver segir hvað.

Jón Rúnar, þó að það sé harkalegt að rifja það upp, þá hjálpar Guð þeim sem hjálpa sér sjálfir.  Það mun vera fyrr von á raunhæfri atvinnuuppbyggingu frá íslenskum almenningi heldur en frá, ASÍ, SA með þessa leiðtoga við stýrið og jafnvel þó að varabæjarfulltrúinn telji þá til góðra verka líklega.  

Margir hafa verið uppteknir af því að halda stöðu sinni og lifibrauði upp á síðkastið, þó svo að þeim hæfði að stíga til hliðar.

Magnús Sigurðsson, 8.6.2009 kl. 08:03

12 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Þetta með Jón Inga og sparibaukinn geta menn skilið sem háð eða grín en þetta átti að vera samlíking til þess að einhverjir kannske skilji hvað hér er á ferðinni.

Það er búið að koma öllu til andsk.. og það eina sem eftir er að gera útaf við hvað varðar gjaldþrot Íslands eru lífeyrissjóðirnir.

Lesið endilega þetta hér:

http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/892299/

Jón Bragi Sigurðsson, 8.6.2009 kl. 10:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband