Hvernig stendur nú á þessu?
23.5.2009 | 16:19
Það er auðvitað vonum seinna að við fáum fréttir af því tagi að húsleit sé hafinn hjá þeim sem þjóðina grunar að hafi sett hana á hausinn. Það er auðvitað líka vonum seinna að þeir sem stýrðu fjármálaumsvifum landsins lóðbeint ofan í botnlaust gynnungagap sæti rannsókn. Mennirnir sem nutu aðdáunar og margs konar verðlauna fyrir einstakt viðskiptavit.
Hér er t.d. brot úr þekktri ræðu sem flutt var í tilefni af því að Sigurður Einarsson og Heiðar Már Sigurðsson tóku við verðlaunum Frjálsrar verslunar sem útnefndi þá menn ársins í íslensku atvinnulífi árið 2005: ÞEIR HLJÓTA ÞENNAN heiður fyrir framúrskarandi hæfni við rekstur bankans, stækkun hans, farsælan feril, athafnasemi og frumkvöðlastarf í útrás íslenskrar bankaþjónustu og þróun íslensks fjármagnsmarkaðar. (Sjá hér).
Þetta sama ár tóku þessir sömu höfðingjar við Útflutningsverðlaunum forseta Íslands. Af því tilefni sagði einn þeirra sem eiga sæti í nefndinni sem velur hver skal hljóta verðlaunin m.a. þetta:
Kaupþing banki fær verðlaunin fyrir þann árangur sem fyrirtækið hefur á skömmum tíma náð á þróuðum mörkuðum erlendis. Fyrirtækið fer fremst í öflugri útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og hefur vakið athygli fyrir framsækinn og arðbæran rekstur. Djörfung og dugur einkenna fyrirtækið, starfsmenn þess og stjórnendur. [...]
Í dag er Kaupþing banki hf. stærsti banki landsins og í hópi 10 stærstu banka á Norðurlöndum með starfsemi í tíu löndum og stefnir að því að vera í hópi leiðandi fjárfestingabanka á Norðurlöndum. Í árslok 2004 voru 1606 stöðugildi hjá Kaupþing banka og dótturfélögum, heildareignir fyrirtækisins námu 1534 milljörðum króna og hagnaður bankans eftir skatta nam rúmum 15,7 milljörðum kr. Rúmlega helmingur hagnaðarins á rætur að rekja til starfsemi utan Íslands. (Sjá nánar hér)
Þar sem Sigurður Einarsson og Heiðar Már Sigurðsson hafa verið nefndir hér og ekki síður vegna þess að báðir stýrðu Kaupþingi á þessum uppgangstímum er ekki úr vegi að vekja athygli á þessari frétt hér og líka þessari hér.
En þá að því sem átti að verða meginmál þessarar bloggfærslu en það er að þrátt fyrir þrálátan orðróm um glæpsamlega viðskiptahætti æðstu stjórenda Kaupþings og óbein tengsl ráðamanna í Katar inn í þá samninga er það fyrst nú sem þetta mál er rannsakað. Samkvæmt fréttinni þá má rekja:
Upphaf málsins [...] til bréfs sem Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, sendi til lögreglu en líkt og Davíð upplýsti í Kastljósþætti þann 24. febrúar sl. að fréttir hefðu borist af því að lögreglu hefði borist nafnlaust bréf sem varð til þess að sjeik í Katar og hundruð milljarða tilfærslur á peningum komu upp á yfirborðið. Davíð sagði, að upplýsingarnar hefðu að vísu borist sér nafnlausar en bréfið hefði hann skrifað lögreglunni 2. desember. Þetta hefði valdið breytingum í skilanefndum Kaupþings og víðar.
Ef við miðum við að þetta sé tímasetning þessara upplýsinga þá er liðið hálft ár frá því að vísbendingar sem benda til saknæms athæfis lágu fyrir! Hins vegar er ljóst að allmörgum fannst það liggja beint við að stjórnendur Kaupþings og viðskiptin við háttsetta einstaklinga í Katar sættu rannsókn.
Ég var að spjalla við Svía, ágætan vin minn í Stokkhólmi og fyrrverandi starfsmann Kaupþings þar í borg. Hann sagði mér að hrikalegar sögusagnir væru í gangi um meint "Criminal act" æðstu stjórnenda Kaupþings. Hann sagði að ef sögusagnirnar reyndust réttar, þá væri ekki langt í að Hreiðar Már og félagar hyrfu af yfirborði jarðar með fúlgur fjár. M.a. sagði hann sögusagnirnar segja að fjárfesting arabíska olíufurstans fyrir stuttu síðan í Kaupþingi, væri blekkingarleikur sem stjórnendurnir hefðu sett á svið í samvinnu við Arabann. Svo margir ættu um sárt að binda nú, í viðskiptum sínum við bankann, að æðstu stjórnendur hans gætu sig hvergi hreyft nema í fylgd lífvarða. (Af bloggi Gunnars Th. Gunnarssonar frá 10. október 2008)
M.a. orða getur einhver upplýst okkur hin um það hvar Heiðar Már Sigurðsson er niðurkominn núna? Eða látið Ólafi Þór Haukssyni upplýsingarnar um dvalarstað hans í té.
Unnið úr leitinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Rakel og takk fyrir pistilinn. Þetta mál er algjört öngþveiti og verst að bæði Össur og forsetinn voru að þvælast með þessum gæjum. Stjórnmál á Íslandi hafa alltaf verið svikamilla en þeir virðast hafa gengið of langt í þetta skiptið.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.5.2009 kl. 17:58
Ég var einmitt að hugsa um að vekja vel og rækilega athygli á því líka í þessum pistli en þar sem ég hef gert slíkt áður ákvað ég að láta kyrrt liggja í bili. Eftir því sem ég best veit var síðasta ferð af þessu tagi farin í janúar á síðasta ári en það má lesa um hana hér.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2009 kl. 18:12
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.5.2009 kl. 02:06
Þessir leppalúðar eru allir flúnir. Mínar heimildir segja að þeir séu flestir í London, sumir þeirra hafa keypt sér lúxuxíbúðir eða leigja. Er Ísland ekki með framsalssamninga við UK?
Arinbjörn Kúld, 27.5.2009 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.