Nauðsynlegt að setja sig inn í ESB-umræðuna

Mig langar til að vekja athygli á umræðufundi sem haldinn verður á svokölluðu Háskólatorgi (sal HT 101) þriðjudaginn 19. maí kl 12:00-13:15.

Framsögu hefur norski sérfræðingurinn Dag Seierstad. Jostein Lindland, framkvæmdastjóri, svarar síðan fyrirspurnum ásamt Seierstad. Frjálsar umræður eftir því sem tíminn leyfir.

- Af hverju höfnuðu Norðmenn ESB-aðild tvívegis?
- Hvað geta Íslendingar lært af reynslu Norðmanna?
- Hvaða undanþágur fengu Norðmenn frá meginreglum ESB?
- Hver voru samningsmarkmið Norðmanna?
- Fer fylgi í Noregi við ESB-aðild vaxandi eða minnkandi?


Þeir sem standa að fundinum er Heimssýn, sem er hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, en þeir eru með heimasíðu sem er að finna hér. Ég fékk þessa tilkynningu af því ég er félagi í hópi inni á Facebook.com sem heitir Ísland ekki í ESB! Þeir sem eru á móti aðild að ESB vita væntanlega líka allir af síðunni ósammála.is, ekki satt? Þegar þetta er skrifað hafa 4999 einstaklingar skrifað undir yfirlýsinguna sem þar er að finna:

Við undirrituð erum ósammála þeim málflutningi að innganga í Evrópusambandið sé leiðin til þess að koma efnahagsmálum Íslands aftur í réttan farveg. Við teljum að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið sem sjálfstæðri þjóð utan sambandsins.

Við viljum að umræðan um Evrópumál fari fram á upplýstan og málefnalegan hátt en ekki með upphrópunum og hræðsluáróðri. Okkur þætti ákjósanlegast að sátt næðist meðal þjóðarinnar áður en farið væri í aðildarviðræður en ef tekin yrði ákvörðun um að sækja um inngöngu í Evrópusambandið er lágmarkskrafa að það gerðist með yfirveguðum hætti en ekki í flýti.

Það er ennfremur skoðun okkar að ef til þess kæmi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið sé það eðlileg krafa að aukinn meirihluta kjósenda þurfi til þess að hún nái fram að ganga. Ekki sé ásættanlegt að slíkt hitamál yrði samþykkt einungis með naumum meirihluta.

Hins vegar eru 14932 skráðir á vefinn sammala.is en þar segir:

Við erum sammála um að hagsmunum íslensku þjóðarinnar verði best borgið innan ESB og með upptöku evru. Þess vegna viljum við að þegar verði sótt um aðild að ESB og gengið frá aðildarsamningi þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.

Um þetta erum við sammála þrátt fyrir að vera hópur fólks með margar og ólíkar skoðanir um flest annað. Við erum sammála hvert á eigin forsendum og höfum fyrir því okkar eigin ástæður og rök.

Við erum sammála um að aðildarsamning á að bera undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá munum við, eins og aðrir Íslendingar, gera endanlega upp hug okkar um hvort við erum enn sömu skoðunar og fyrr og greiða atkvæði í samræmi við það.

Við erum sammála um að ríkisstjórnin sem tekur við völdum að loknum kosningum 25. apríl eigi að hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum að skilgreina samningsmarkmið og sækja um aðild að ESB.

Þó ég sé sjálf ósammála þeirri stefnu sem íslensk stjórnmál hafa tekið í dag þá er ljóst að það verður ekki hjá því komist að setja sig vel og vandlega inn í  ESB-umræðuna. Ég er búin að finna bloggara sem ég fylgist reglulega með í þeim tilgangi að halda mér upplýstri.  Það er Frosti Sigurjónsson og mæli ég hiklaust með hans vandaða bloggi í þessum tilgangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Nei, sérfræðingar geta víst bara verið hlynntir Evrópusambandinu :D

Hjörtur J. Guðmundsson, 18.5.2009 kl. 08:44

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég reiknaði sannast sagna með því að það þekktu orðið svo margir nafn Dags Seierstads að það væri óþarft að taka það sérstaklega fram hvar hann stæði í ESB-málinu. Þetta er nefnilega langt frá því að vera hans fyrsta ferð hingað til lands. Sjá t.d. hér.

Hvað ábendingu Jóns Frímanns varðar um að Heimsýn taki það ekki fram hvar Dag stendur þá reikna ég með því að þeir sem sendu út bréfið á meðlimi, sem eru í hópi ESB-andstæðinga, hafi gert ráð fyrir því að þeir vissu hver maðurinn er.

En af hverju Jón setur sig á svo háan hest að efast um það að Dag sé sérfræðing að ræða leyfi ég honum að eiga við sjálfan sig finnst þó ábending Hjartar í því sambandi góð

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.5.2009 kl. 12:14

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Gefum þessu séns og sjáum hvað gerist úr því sem komið er. Hins vegar er það dáldið ótímabært að fara í viðræður núna þegar staða okkar er þetta slæm en......

Arinbjörn Kúld, 21.5.2009 kl. 02:54

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ertu svolítið opinn í báða enda um þessar mundir

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.5.2009 kl. 03:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband