Borgarafundur: Við viljum breytingar!

Það var upplifun að vera viðstaddur síðasta borgarafund hér á Akureyri. Ástæðan er einfaldlega sú að í pallborði voru efstu menn á þeim listum sem munu bjóða fram til næstu alþingiskosninga hér í kjördæminu. Umræddur fundur var haldinn í Deiglunni síðastliðið laugardagskvöld og má með sanni segja að það var afar athyglisvert að fylgjast með pallborðinu en ræðumenn kvöldsins voru líka eftirtektarverðir.

Fundurinn var þannig skipulagður að fyrst tóku til máls tveir framsögumenn. Þeir voru: Margrét Ingibjörg Ríkharðsdóttir og Jón Þorvaldur Heiðarsson. Fundarstjóri var Edward H. Huijbens. Framsögumennirnir voru báðir alveg frábærir og í rauninni synd að hvorugur þeirra skuli ekki vera á leiðinni inn á þing.

Margrét Ingibjörg RíkharðsdóttirMargrét eða Magga Rikka, sem er þroskaþjálfi og forstöðumaður Hæfingarstöðvarinnar, tók fyrst til máls. Ræða hennar fylgir sem viðhengi neðst með þessari færslu. 

Magga Rikka byrjaði ræðu sína með örstuttri kynningu á sjálfri sér. Þar sagði hún m.a: Ég lifi sennilega nokkuð hefðbundnu lífi. Bý í sjáfstæðri búsetu, þ.e. ég bý með manni sem ég hef sjálf kosið að búa með.

Síðan fór hún yfir stöðuna í samfélaginu eins og hún horfir við henni og setti fram kröfu sem eflaust margir geta tekið undir með henni þar sem hún sagði: Ég vil að svokallaðar eignir svokallaðra auðmanna verði sóttar. Ég vil að svokallaðar eigur þeirra verði notaðar til að rétta hallann.“

Í framhaldinu kom hún víða við og ræddi meðal annars um umbætur hvað varðar menntunar-, heilbrigðis- og atvinnumál. Hún vék líka að því sem er hvað háværast í umræðum almennings í dag eða vanda heimilanna með eftirfarandi orðum:

Það er ljóst að það fólk sem átti peninga í svokölluðum sjóðum bankanna  og kaus að fjárfesta í þeim hefur verið að fá sitt bætt. Finnst þeim sem valdið hafa fengið frá okkur ekki ástæða til, að þeir sem ákváðu að festa fé sitt í þaki yfir höfuðið, sé bætt það tap sem þeir hafa orðið fyrir, og á ég þá við með raunverulegum hætti? Ekki með því að lengja í hengingaról fólks.

Á dögunum fengu tveir bankar verðtryggð lán með 2ja% vöxtum. Ég væri alveg til í að fá slíka fyrirgreiðslu. Þá gæti ég borgað upp höfuðstól t.d. húsnæðislánsins míns og verðið með lán á hagstæðari vöxtum en ég er með í dag.

En það sem ég vil er að höfuðstóll verðtryggðra lána verði færður niður. Fyrst í stað verði verðtrygging leiðrétt til samræmis við það sem hún var áður en bankarnir fóru að fella gengið ársfjórðungslega sér í hag. Sem síðan jók á verðbólguna sem við almennir félagar í samfélaginu höfum sjálfsagt fundið hvað mest fyrir. Síðan vil ég svo sjá verðtygginuna afnumda með öllu. Það ætti nú ekki að vera vandamál, því það virðist vera áhugamál allra stjórnmálalokka.

Undir lok ræðu sinnar vék Magga Rikka að því þegar hérlend stjórnvöld lögðu blessun sína yfir innrássina í Írak í nafni þjóðarinnar án þess að spyrja hana álits. Í því sambandi sagði hún að hún vildi „að íslenska þjóðin lýsi sig algjörlega hlutlausa í öllum stríðsrekstri. Við sem friðelskandi þjóð getum ekki lagt blessun okkar yfir fjöldamorð á saklausum borgurum, jafnvel ekki á snargölnum stjórnvöldum.“

Í lok ræðunnar sagði Magga það sína skoðun að hér ætti að stofna til Stjórnlagaþings sem væri valið til með slembiúrtaki.

Jón Þorvaldur HeiðarssonJón Þorvaldur, sem er lektor og sérfræðingur við Ransóknarstofnun Háskólans á Akureyri, flutti líka afar athyglisverða framsögu. Hann byrjaði á því að velta því upp hvernig hið nýja Ísland ætti að líta út.

Hann benti á að í dag væri framkvæmdavaldið of sterkt. Það réði í reynd þinginu sem kemur m.a. fram í því að oft eru aðeins tveir ráðherrar sem hafa komið að hverju frumvarpi sem lagt er fyrir þingið. 

Framkoma framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu hefur gegnsýrt samfélagði að mati Jóns Þorvaldar. Framkvæmdarvaldið hér á landi hefur jafnvel tekið að sér hlutverk dómsvaldsins. 

 Jón Þorvaldur lagði hins vegar áherslu á þrískiptingu valdsins og kom með tillögur í því efni. Það eru þingmenn sem eiga að setja lög en framkvæmdarvaldið á að framfylgja þeim. Hann benti á að það væri miklu eðlilegra að fosetinn skipaði dómara í embætti en þeir væru ráðherraskipaðir.

Með því fyrirkomulagi myndu forsetakosningar líka fara að skipta einhverju máli. Forsetinn þyrfti að setja sér skýra stefnu í sambandi við það hvernig hann skipaði í starf dómara. Ef þjóðinni líkaði ekki stefna hans eða framkvæmd í þeim efnum þá greiddu kjósendur honum ekki atkvæði.

Jón Þorvaldur benti á að hér hefðu verið gerð afglöp í efnahagsmálum af hálfu ríkisvaldsins sem sýndu sig í því að þeir hefðu ýtt undir þennsluna í samfélaginu í stað þess að hvetja til aðhalds. Þess vegna hefði farið eins og fór og þess vegna væri af engu að taka núna.

Í lok ræðu sinnar vék Jón Þorvaldur líka að hugmyndinni um stjórnlagaþing. Hann benti á að núna væri besti tíminn til að vinna að breytingum á stjórnarskránni. Núna væru líka margir sem hefðu góðan tíma til að vinna að henni. Hann sagði að hann treysti ekki fjórflokknum eða flokksræðinu fyrir stjórnarskránni.
Borgarafundur á Akureyri 2.04.09Í pallborði voru eftirtaldir: Hjálmar Hjálmarsson fyrir Borgarahreyfinguna, Kristján Þór Júlíusson fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Ásta Hafberg Sigmundsdóttir fyrir Frjálslynda flokkinn, Höskuldur Þórhallsson fyrir Framsóknarflokkinn, Kristján Möller fyrir Samfylkinguna og Steingrímur J. Sigfússon fyrir Vinstri græna.

Það var greinilegt að ræður framsögumannanna vakti athygli þessara forystumanna flokkanna enda kepptust þeir við að punkta hjá sér margt að því sem kom fram í máli framsögumannanna. Vonandi halda þeir þessum punktum til haga og taka tillit til þeirra. Ég vona líka að þeir hafi tekið sérstaklega eftir því sem kom fram í máli þeirra beggja í sambandi við stjórnlagaþingið.Borgarafundur á Akureyri 2.04.09Framantaldir fengu tækifæri til að bregðast við því sem kom fram í máli framsögumannanna. Steingrímur byrjaði. Hann fagnaði sérstaklega því sem kom fram í máli Jóns Þorvaldar um skattahækkanir í þennslu. Að hans mati munu kosningarnar framundan snúast um uppgjör við hrunið ekki síður en framtíðina.

Kristján Möller lagði áherslu á að við hefðum fengið fortíðina í hausinn á okkur. Höskuldur vék sérstaklega að umræðunni um stjórnlagaþingið sem hann vildi meina að yrði að berjast fyrir. Hann taldi að það tækist ekki að fá því framgengt nema með byltingu. 

Ásta Hafberg benti á að það hefði skort að gera langtímaáætlun fyrir þjóðina. Hún undirstrikaði að nú þyrftu kjósendur að velja eitthvað nýtt í stað þess gamla sem hefði brugðist henni. Hún undirstrikaði að vandi heimilanna væri brýnasta málefnið í hennar augum og lagði áherslu á að það yrði m.a. að afnema verðtrygginguna í þeim tilgangi að koma til móts við heimilin í landinu.

Kristján Þór sló á létta strengi þó honum væri greinilega fúlasta alvara þegar hann benti á að framsóknar- og samfylkingarmenn hefður ekki efni á að skammast út í Sjálfstæðisflokkinn og kenna honum um allt sem aflaga fór. Þeir yrðu líka að horfast í augu við það að þeir hefðu báðir verið samstarfsaðilar Sjálfstæðisflokksins á liðnum árum. Hann tók svo undir orð Steingríms að í raun hefðu Vinstri grænir einir efni á að skamma Sjálfstæðisflokkinn.

Að hans mati er það náttúrulögmál efnahagsmálanna að ganga í hæðum og lægðum. Efnahagslífið hefði náð óvenju mikilli hæð á liðnum árum og henni fylgir þessir erfiðu tímar sem við erum að ganga í gegnum núna.

Hjálmar ákvað að fá svolítið persónulegt svigrúm, eins og hann orðaði það, og kom upp í pontu til að bregðast við framsögunum og því sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna höfðu lagt til málanna fram að þessu. Hann benti á að fjórflokkarnir séu eiginhagsmunasamtök sem vinna aðeins fyrir flokkinn og eigendur þeirra. Hann ítrekaði að hér þyrfti að tryggja nýtt lýðræði sem gætti hagsmuna þjóðarinnar. Til þess að það mætti takast þyrfti að koma á virku lýðræði þar sem þrískipting valds væri tryggt.

Hann benti á spillingu síðastliðinna ára í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins þar sem hann hefði nýtt sér aðstöðuna og lagt undir sig löggjafarvaldið, framkvæmarvaldið og dómsvaldið auk fjórða valdsins sem eru fjölmiðlar. Þessa spillingu þyrfti að uppræta til að bjarga íslensku samfélagi. Það þyrfti að bjarga heimilunum, atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunum, lífeyrissjóðunum, bönkunum og stjórnmálaflokkunum og það þurfi að gerast núna.
Borgarafundur á Akureyri 2.04.09Að þessu loknu var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal. Þar bar margt á góma. Þar var spurt um hryðjuvekalögin, endurskilgreiningu á eignahugtakinu, viðbrögð við vanda heimilanna, afstöðuna til ESB og ýmislegt sem varðar kosningalöggjöfina svo eitthvað sé talið.

Þeir sem sátu í pallborði virtust allir vera sammála um að 5% reglan væri afar ósanngjörn en enginn þeirra, sem voru í pallborðinu og sitja nú inni á þingi, ræddi þó um að afnema hana. Höskuldur virtist vera sá eini sem mundi hvernig hún er tilkominn en hann sagði að hún hefði verið til að auka á réttlæti en kom illa niður á öðru þegar til kom. Ég er ekki viss um að hann hafi tekið það fram hvaða réttlæti 5% reglan átti að auka þegar hún var sett. 

Hugmyndin um breytingu á kjördæmaskipaninni fékk misjafnari viðtökur. Kristján Þór og Ásta Hafberg voru þó sammála um það að þetta kjördæmi, Norðausturkjördæmið væri alltof stórt til að fulltrúar þeirra gætu sinnt því almennilega. Þess má geta að þetta kjördæmi nær austan frá Djúpavogi norður til Siglufjarðar. Kristján Þór talaði um að það væri miklu nær að skipta kjördæmunum hérna megin á landinu niður í Norðurlands- og Austurlandskjördæmi.

Hvað persónukjörið varðaði þá lýsti Kristján Möller yfir sérstökum áhyggjum af því hvernig slíkt færi með kynja- og byggðakvótann. Steingrímur benti hins vegar á að persónukjör væri til í mörgum myndum. Hjálmar benti á að það væri í stefna Borgarahreyfingarinnar að taka upp persónukjör og endurskoða á kjördæmaskipunina.

Það var reyndar áberandi á þessum fundi hvernig fulltrúar núverandi þingflokka viku sér einhvern veginn undan því að svara mörgum þeirra spurninga sem varpað var fram eða fundu allt annan flöt á málefninu en spurningin snerist um. Fulltrúar Frjálslynda flokksins og Borgarahreyfingarinnar stóðu sig mun betur í því að svara spurningum beint án undanbragða eða málþófs.
Herbert Sveinbjörnsson
Ásta Hafberg er í efsta sæti fyrir Frjálslynda flokkinn hér í Norðausturkjördæmi og Hjálmar Hjálmarsson mun taka sæti á lista Borgarahreyfingarinnar ef af stofnun hans verður. Það er verið að vinna að því hörðum höndum þessa daganna að bjóða kjósendum kjördæmisins upp á þennan valkost en enn þá vantar bæði meðmælendur og frambjóðendur á listann til að af því geti orðið. Það hefur ekki verið ákveðið hvaða sæti Hjálmar mun taka á listanum en Herbert Sveinbjörnsson mun leiða listann í kjördæminum ef nógu margir í Norðausturkjördæmi eru tilbúnir til að mæla með framboði hans og ef nógu margir fást til að taka sæti á listanum.

Það var nokkuð áberandi að það komu fáar spurningar utan úr sal sem snertu þetta kjördæmi sérstaklega. Fulltrúar núverandi þingflokka vöktu athygli á því af fyrra bragði að flutningsgjöldin væru að drepa niður fyrirtækin á landsbyggðinni. Kristján Möller sagðist vera búinn að margræða þetta efni í mörg ár en það hefði ekkert verið tekið á þessu. Kristján Þór benti á að fyrirtækin í Reykjavík þyrftu ekki að greiða neitt gjald fyrir að flytja vörur frá Reykjavík út á landsbyggðina en fyrirtækin á landsbyggðinni þyrftu að greiða sérstakt flutningsgjald til að flytja vörur sínar til höfuðborgarsvæðisins. 

Hjálmar benti á að fundir eins og þessi borgarafundur væri mjög góð leið til virkjun lýðræðisins. Að hans mati ætti það að vera skylda þingmanna að efna til slíkra funda í byggðarlögum landsins til að gefa íbúum þeirra tækifæri til að fylgjast með en ekki síður til að hafa áhrif.

Mig langar líka til að skjóta því hérna inn að dreifingaraðilar ýmissa afurða er líka í Reykjavík þannig að grænmetisbóndinn í Eyjafirði hann þarf t.d. fyrst að senda alla sína uppskeru til Reykjavíkur áður en hægt er að selja hana i matvörubúðum hér á Akureyri og annars staðar á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er í raun furðulegt að landsbyggðarþingmennirnir séu ekki fyrir löngu búnir að taka sig saman og vinda ofan af þessari fáránlegu vitleysu. Það er þess vegna fjarskalega eðlilegt að spyrja: Hvers vegna er þetta svona? Hverra hagur er það að viðhalda núverandi aðferðum í þessu sambandi? og af hverju er þessu ekki breytt í hvelli núna til að koma á móts við fyrirtækin á landsbyggðinni sem enn halda velli?
Borgarafundur á Akureyri 2.04.09 Það kemur sennilega engum á óvart að algengasta efni spurninganna sem voru bornar upp á fundinum sneri að vanda heimilanna. Einhverjir höfðu áhyggjur af því hvernig afskriftir og niðurfærslur á skuldum þeirra kæmu niður á þeim sem hefðu ekki tekið þátt í neyslufylleríi undangenginna ára en flestir höfðu áhyggjur af því að fylgjast með því hvernig lánin þeirra hafa margfaldast á liðnu ári án þess að neitt væri að gert til að koma heimilunum til bjargar en hins vegar væri verið að afskrifa skuldir ýmissa annarra sérvalinna einstaklinga og stofnanna á sama tíma.

Ég gat alls ekki heyrt að Kristján Möller eða Kristján Þór kæmu með neinar hugmyndir um það hvernig ætti að leysa vanda heimilanna. Ég treysti því reyndar að kjósendur séu vel heima í hugmyndum þingflokkanna í þessum efnum sem að mínu mati er eitt helsta kosningamálið. Ég ætla þess vegna að enda þetta á því að draga það saman sem fram kom á fundinum um þetta efni og bæta við krækjum inn á stefnuskrá allra sem bjóða fram í kjördæminu.

Tryggvi Þór HerbertssonTryggvi Þór Herbertsson, sem er annar á lista Sjálfstæðisflokksins, er einn af upphafsmönnum hugmyndarinnar um að fella niður 20% af öllum skuldum. Ef ég skildi Höskuld rétt er Framsóknarflokkurinn fylgjandi ekki ósvipaðri aðferð sem gengur út á 20% niðurfellingu á húsnæðislánum. Steingrímur telur allt slíkt tal óráðstal þar sem Íbúðalánasjóður yrði gjaldþrota með þessari leið og lífeyrissjóðirnir líka. Hann viðurkenndi það þó að hann væri töluvert veikur fyrir hugmynd Frjálslynda flokksins sem Ásta Hafberg kynnti á fundinum. Þar sem ég treysti mér ekki til að fara rétt með hugmynd þeirra leyfi ég mér að vísa í blogg Helgu Þórðardóttur þar sem hún kynnir hana.

Hugmynd Borgarahreyfingarinnar er að því leyti skyld hugmynd Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að þegar upp er staðið þá er það u.þ.b. 20% sem munar þegar skuldastaða heimilanna verður lagfærð með tilliti til stöðunnar eins og hún var í janúar á síðasta ári. Hjálmar sagði að ástæðan fyrir því að miða skyldi við þennan máðuð væri sú að þá hefði stjórnvöldum verið ljóst í hvað stefndi en kosið að þegja. Þau bæru því ábyrgð á þeirri stöðu sem heimilin væru í, í dag og bæri þess vegna að axla hana með viðeigandi aðgerðum þeim til bjargar. 

Krækjur inn á stefnuskrá hvers flokks þar sem hún er fyrir hendi á Netinu annars inn á forsíðu:
Borgarahreyfingin xO
Framsóknarflokkur xB

Frjálslyndi flokkurinn xF
Samfylkingin xS
Sjáfstæðisflokkurinn xD
Vinstri grænir xV


mbl.is Vaxtalækkun og niðurfærsla skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Jónsson

Hæ Rakel og takk fyrir góða samantekt.

Finn mig knúinn til þess að leggja hér á það áherslu að Borgarahreyfingin er á lokasnúningnum með að loka listanum í NA og vantar aðeins orðið lítið af undirskriftum, en það þarf þó að taka skurk í að klára þær. Er eitthvað um 100 undirskriftir held ég sem vantar í viðbót. Við munum því bjóða fram í NA.

Hefur verið talað við þessa Möggu Rikka? Hugmyndir hennar eru eins og lesnar beint úr stefnu okkar, er ekki ráð að "Sjanghæja" hana til að gefa kost á sér ofarlega á lista?

Að lokum er megin munur á lausn okkar á móti lausninni sem Framsókn kom fram með fyrst og Herbert Þór síðar. Okkar lausn tekur á vanda heimilanna og þeirra skuldsettu og leiðréttir á sama tíma þær gríðarlegu eignatilfærslur sem óðaverðbólga hefur skapað frá byrjun árs 2008.

Íbúðalánasjóður og aðrir fjármagnseigendur munu hreint alls ekki fara á hausinn við þær aðgerðir. Staðreyndin er að það er gríðarlega ósanngjarnt að slíkar stofnanir eigi að græða á því gríðarlegar fjárhæðir að vísitalan sé að sliga hérna heimilin og græða á endanum í raun ekkert á því þar sem að við gjaldþrot skuldunautanna hætta eigendur skuldanna að fá greitt af þeim.

Endilega skoðaðu líka stefnuskránna okkar - krækjan á okkar hlekk vísar á Framsóknarflokkinn

Baldvin Jónsson, 5.4.2009 kl. 11:51

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir þína góðu viðbót Baldvin. Þú mátt bæta eins miklu við og þú finnur þig knúinn til Ég þakka þér sérstaklega fyrir að benda á þau leiðu mistök sem mér hafa orðið á með krækjuna á stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar!

Mér finnst ánægjulegt að heyra að það séuð komin með nógu marga á listann til að bjóða fram hér í NA-kjördæmi og trúi ekki öðru en þið náið 100 undirskriftum til viðbótar svo að af framboði verði. Þú getur treyst því að Hjálmar talaði við Möggu Rikka en það útiloka ekki það að fleiri reyni að fá hana til liðs við hreyfinguna

Það er mjög dapurlegt að sumir vilji setja hagsmuni Íbúðalánasjóðs ofar hagsmunum skuldaranna. Það er furðuleg stefna að setja fjármálastofnanir og lánsfjáreigendur ofar en almenning í landinu ekki síst í ljósi þess að með því er lögð blessun yfir það að skuldareigandinn stórgræði á ástandinu á meðan skuldarinn er hnepptur í skuldafangelsi vegna aðstæðna sem hann ber enga ábyrgð á.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.4.2009 kl. 14:16

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

„Hann benti á að fjórflokkarnir séu eiginhagsmunasamtök sem vinna aðeins fyrir flokkinn og eigendur þeirra.“ Þarna erum við að tala um frambjóðanda flokks sem talar eins og það sé liðin tíð. Flokks sem með andlitslyftingu í formi sonar flokkseiganda ætlar fólki að kjósa sig. Við skulum vona að það takist ekki.

Stjórnlagaþing og aðstoð við heimilin og fyrirtæki eru mikilvægustu málefni dagsins. Þar inni er ma. afnám verðtryggingar sem setur annan aðilan í öryggi en hinn í óvissu. Þessi 20% niðurfelling er engin niðurfelling. Hún er í raun leiðrétting á ranglæti verðtryggingar, verðbólgu sem er vitlaust útreiknuð og okurvaxtastefnu sem hefur engu skilað öðru en aukinni vesæld. Hins vegar veit ég ekki hvort að það sé rétta leiðin yfir línuna.

Það hefði verið gaman að vera þarna en kannski gefst mér tækifæri næst.

Ævar Rafn Kjartansson, 5.4.2009 kl. 16:37

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Við erum með það í skoðun að halda annan svona fund fyrir kosningar. Hvort af slíku verður kemur í ljós á morgun.

Við höfum líka talað um að halda áfram með borgarafundina eftir kosningar. Við sjáum nefnilega ekkert annað fyrir okkur en það veiti ekkert af ströngu aðhaldi áfram. Við viljum líka vinna að því að reyna að vekja fólk til umhugsunar um málefni sem varða okkur öll.

Við vitum auðvitað ekki hvort við höfum einhver stórkostleg áhrif enda sættum við okkur alveg við að vera dropar sem hola steininn. Að lokum fer nefnilega alltaf svo að holan verður að skurði sem klífur hann!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.4.2009 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband