Hver á að borga?
4.4.2009 | 21:36
Ég hef ekkert á móti því að Barack Obama heimsæki Ísland en hver á að borga kostnaðinn af slíkri heimsókn? Mig grunar að það sé m.a. ég og þess vegna verð ég að segja að ég hef ekki efni á því að fá Bandaríkjaforseta í heimsókn. Það verður að bíða betri tíma.
Obama segir að við munum verða fyrst til að vinna okkur upp úr efnahagslægð- inni. Ef orð hans geta híft okkur upp úr lægðinni þá verður kannski ekki langt í það að Íslendingar hafi efni á því að fá hann í heimsókn. Hins vegar held ég að það þurfi eitthvað miklu meira en orðin ein til að rétta af íslenskan efnahag.
Við þurfum sérfræðinga! Ég veit að það eru stór orð en ég verð að segja það að við höfum úrval af hálfvitum á efnahagssviðinu sem settu okkur á hausinn en þar fer minna fyrir sérfræðingunum, því miður. Starfsmenn eftirlitsstofnanna og þingheimur svaf á meðan hersveitir græðginnar, sem höfðu komið sér fyrir við háborð innlendra fjármálastofnanna, sópuðu peningunum út úr landinu.
Við höfum stjórnvöld sem setja þessar fjármálastofnanir í forgang á meðan fjöldi atvinnulausra vex dag frá degi. Þeir leggja blessun sína yfir það að ráðstöfunartekjur heimilanna fari í það að halda þessum stofnunum á floti og bæta þeim upp tapið sem eigendurnir ollu þeim sjálfir. Á meðan fara atvinnufyrirtæki á hausinn, heimili verða gjaldþrota, velferðarkerfið leggst á hliðina og almenningur þjáist vegna óréttlætisins sem hann þarf að þola.
Miðað við þessa forgangsröðun íslenskra stjórnvalda skil ég ekki á hvaða forsendum Ísland verði fyrst til að rétta sig af eftir hrunið. Því miður tel ég þessi orð Obama sýna það fyrst og fremst hve illa upplýstur hann er um ástandið hér á landi.
Obama vill til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ótrúleg svartsýni er þetta, við verðum að leita samstarfs við aðrar þjóðir til að ná okkur út úr þessu rugli sem við erum í! Núna er tími fyrir pólitískt hugrekki og nýta okkur þá sérstöðu að vera leiðandi í grænni orku og vera staðsett nákvæmlega mitt á milli Norður Ameríku og Evrópu :)
Skoðaðu þessa Facebook hópa:
Grænt Bandalag Við Bandaríkin
http://www.facebook.com/group.php?gid=42789560971
og
Iceland North America Alliance
http://www.facebook.com/group.php?gid=52098381302
Róbert Viðar Bjarnason, 4.4.2009 kl. 21:59
Ég er bæði sammála þér og ósammála, Rakel, en mér sýnist að hugsum þessa hugsanlegu heimsókn Bandaríkjaforseta á svipuðum nótum.
Alveg eins og þú þá hef ég ekkert á móti því að Obama heimsæki Ísland. Hann er velkominn strax á morgun ef bandarískir skattgreiðendur borga brúsann. Ef til eru peningar í ríkiskassanum hér á landi til að borga heimsóknina þá hefur mér og öðrum almenningi ekki verið sagður sannleikurinn, því að samkvæmt fréttum hér innanlands þá er ríkiskassinn tómur og meira en það.
Hins vegar þá hef ég mikla trú á Obama og trúi því að þjóðin okkar geti haft gott af því að setja hann inn í málin ef það mætti verða til þess að hann tali máli okkar og heimsókn er góð leið til þess.
Vissulega er það rétt hjá þér að hafi Obama sagt að hann tryði því að Íslendingar yrðu fyrstir til að rétta úr kútnum eftir kreppuna þá er ég hrædd um að hann hafi aðeins fengið að heyra lítinn hluta af sannleikanum um ástandið hér.
Ég vildi gjarnan heyra sjálf hvernig Obama hagaði orðum sínum við Össur því að túlkun Össurar á orðum Obama trúi ég ekki. Vil sjálf fá að heyra hvað Obama sagði og leggja mitt eigið mat á orð hans, laus við túlkun Össurar.
Helga (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 22:01
Róbert: Ég get ekki tekið undir það að ég sé svartsýn en ég viðurkenni það að ég er stundum leiðinlega raunsæ Ég kíkti á bloggið þitt og slóðina sem þú vísaðir á. Fannst hvoru tveggja mjög áhugavert en þarf að gefa mér betri tíma til að skoða hvoru tveggja.
Helga: Ég tek undir það með þér að það gæti verið töluverður ávinningur af því fyrir Ísland að fá Obama í heimsókn. Vegna stöðunnar tel ég okkur aftur ekki hafa efni á því, því miður.
Miðað við það hvað Michael Hudson er vel að sér um stöðu landsins finnst mér reyndar með ólíkindum að Barack Obama hafi sagt það sem Össur hefur eftir honum.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.4.2009 kl. 22:49
Ég hef það á tilfinningunni að heimsókn Obama myndi gera okkur gott og hjálpa okkur að fá almenningsálitið erlendis með okkur. Kannski kæmi hann færandi "gjafir" efnahagslega aðstoð af einhverju tagi eða aðstoð við að ná í rassgatið á glæpamönnunum sem rændu okkur. Hver veit og við ættum að bjóða alla þá sem vilja heimsækja okkur velkomna. Gleymum því ekki að erlendir fjölmiðlar myndu fylgja honum og með þeim umtalsverðar gjaldeyristekjur sem vega upp á móti kostnaði okkar. Ekki satt?
Arinbjörn Kúld, 5.4.2009 kl. 09:16
Vonandi enda kannski rétt að ég skrifaði þetta eingöngu til að vekja til umhugsunar um það hver ætti að borga. Ég vildi líka vekja til umhugsunar hvort það gæti verið að Obama væri jafnilla inn í stöðunni hér á landi eins og orð Össurar gefa ástæðu til að halda. Þá er ég að tala um stjórnsýsluna sem virðist vinna að því öllum árum að hlífa glæpamönnunum en níðast á almenningi og atvinnulífinu. Ef hann er sá sem af er látið þá dreg ég það stórlega í efa.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.4.2009 kl. 13:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.