Sérhæfð vanhæfing
4.4.2009 | 17:32
Yfirmenn þessarar stofnunar virðast ekkert hafa áttað sig á þessu hlutverki sínu. Þvert á móti virðast þeir enn vera á þeirri skoðun að það sé hlutverk þeirra að liggja á og hylma yfir upplýsingum sem varða fjármál þeirra stofnana sem þeir eiga að fylgjast með.
Mér þykir full ástæða til að ganga hart að því að fá þá, sem stjórnuðu Fjármálaeftirlit- inu frá 2004 til sl. hausts, til að svara því hvers vegna þeir gerðu það ekki. Þeir ættu líka að svara því fyrir hverja þeir töldu sig vera að vinna. Er þetta ekki opinber stofnun? Það ætti þess vegna að liggja í augum uppi fyrir hverja þeir áttu og eiga að vera að vinna!
Það er hins vegar eðlilegt að maður spyrji sig hvort þeir voru að gæta hagsmuna einhverra örfárra græðgisgæðinga eða hvort þeir kunni bara einfaldlega minna í hagfræði en allur almenningur? Í báðum tilvikum er ljóst að við erum að tala um sérfræðinga sem eru ekki hæfir til að vinna að hagsmunum þjóðarheildarinnar. Það er aftur á móti spurning hvort það var námið eða ráðningarsamningurinn sem grundvallaði þá sérhæfðu vanhæfingu sem þeir sem stýra Fjármálaeftirlitinu hafa og eru enn að gera sig seka um.
Mér finnst ástæða til að yfirmenn Fjármálaeftirlitsins taki sig saman í andlitinu og átti sig á því hvert raunverulegt hlutverk Fjármálaeftirlits ríkisins er. Ég vil líka hvetja starfsmenn Fjármálaeftirlitsins til að fara að vinna vinnuna sína af alúð og samviskusemi. Ég minni á að þessi stofnun þarf að vinna gríðarlega vinnu í að vekja upp traust og trúverðugleika ekki aðeins gagnvart vinnuveitendum sínum heldur alþjóðasamfélaginu líka.
Aðgerðir að því tagi sem sagt er frá í tengdri frétt eru síst til þess fallnar. Hún orkar þannig á mig a.m.k. að mér sýnist vera komið enn eitt tilefnið til að leggja þessa stofnun niður. Með þessu er ég alls ekki að halda því fram að við þurfum ekki fjármálaeftirlit.
Við þurfum hins vegar stofnun sem sinnir slíku eftirliti í alvöru með alla skjólstæðinga sína í huga. Stofnun sem vinnur að hagsmunum almennings. Stofnun sem nýtir upplýsingaveiturnar í samfélaginu til að koma nauðsynlegum skilaboðum áfram til allra vinnuveitenda sinna. Stofnun sem er skipuð hæfu starfsfólki sem hefur hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.
Við þurfum ekkert sýndareftirlit sem er svo blindað af sérhæfðri vanhæfingu að það ætlar sér að fara að kúga fjölmiðla til að birta ekki upplýsingar sem varða hagsmuni almennings.
Undrandi á forgangsröðun FME | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Flottur pistill Rakel.
Arinbjörn Kúld, 5.4.2009 kl. 09:09
Takk fyrir það
Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.4.2009 kl. 13:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.