Stefnan er í samræmi við stöðuna!

 Nú stendur þannig á fyrir mér að ég hef svo mikið að segja að ég þori ekki að byrja. Mig langar til að vekja athygli á svo ótal mörgu og hefja máls á hafsjó af furðum. Umfang þess sem vekur mér undrun og furðu þessa daganna er svo víðáttumikið að mig setur einfaldlega líka hljóða...
 
Eitt af því eru allir dálksentimetrarnir, tíminn og orkan sem fer í að kynna hver sækjist eftir hvaða sæti, hvaða flokks í hvaða kjördæmi! Ég veit að ég er næstum því dónalega þegar ég segi að mér gæti ekki verið meira sama um hver ætlar að bjóða sig fram hvar, á hvaða lista og í hvaða kjördæmi!! Þessar fréttir orka á mig sem flugnasveimur sem ég verð að berjast við að halda frá mér til að halda einbeitingu minn gagnvart málefnum sem skipta máli!
 
Ég geri mér auðvitað fulla grein fyrir því að það eru kosningar fram undan en mér finnst miklu meira áríðandi að fá upplýsingar um það hvað eigi að gera til að koma í veg fyrir að það sem gerðist gerist aftur en hver ætli að sitja í hvaða sæti! Auðvitað vildi ég þó fyrst og fremst sjá að þeir sem bera ábyrgð verði sóttir til saka! Þeir seku gerðu það sem þeir gerðu og þeir sem sitja aðgerðar- lausir hjá eru samsekir! Stólafimleikar slá engu ryki í augun á mér hvað það varðar!
 
Ef einhver af gömlu eða nýju frambjóðendunum vilja höfða til mín verða þeir að átta sig á að afstaðan til þess sem gerðist, hvers vegna það gerðist, hverjir gerðu það mögulegt og hverjir framkvæmdu er það sem skiptir máli hér og nú. Hvernig á að bregðast við?!? Mas, fjas og blaður um stólaröð er í þvílíkri sólkerfafjarlægð frá mínum forgangi að þetta sætaskipunarblaður fyllir mig einfaldlega andúð og engu öðru. Er hægt að stinga höfðinu kyrfilegar ofan í sandinn á flótta undan því sem umræðan um pólitíkina ætti að snúast um í þessum aðdraganda kosninganna?
 
Eiga frambjóðendur að fá að stýra umræðunni með því að fjasa um stólaröð í stað þess að tala um hvaða skoðun þeir hafa? Hvaða aðgerðaráætlun? Hvaða hæfileika? Hvaða fortíð? Hvaða framtíðarsýn? Áður en ég missi mig alveg langar mig til að vekja athygli á framboði sem mér finnst a.m.k. hafa áttað sig á því hvað skiptir máli í dag og nánustu framtíð.
 
Ég hef sjálf ekki gert upp hug minn hvað ég ætla að kjósa en það er ljóst að ég kýs ekki einhvern flokk sem hefur eytt upp orkunni í stólablaður og gleymt því sem allir með sæmilega samfélagslegsmeðvitund vita að skiptir mestu nú. Borgarahreyfingin hefur það greinilega á hreinu. Í meginatriðum get ég tekið undir allt það sem hann setur fram sem sín stefnumál. Hér er talið upp flest það sem mér finnst brýnast að breyta til að byggja upp betra samfélag sem byggir á lýðræðislegu réttlæti.

Borgarahreyfingin er hópur fólks úr öllum kimum samfélagsins sem vöknuðu upp við að misvitrir auð- og stjórnmálamenn höfðu kippt undan því fótunum með glæpsamlegri hegðun og eiginhagsmunagæslu. Krafan um réttlæti, jafnrétti og lýðræði sameinar okkur.

STEFNUMÁL:

1. Gripið verði til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja.

1.1. Alvarleg staða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar handvirkt fram fyrir hrun hagkerfisins (jan. 2008) og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 2% og afborgunum af húsnæðislánum verði almennt hægt að fresta um tvö ár með lengingu lánsins um þann tíma. Náð verði samkomulagi við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að þeim verði breytt í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði bönnuð.

1.2. Leitað verði leiða til að leysa myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða ef með þarf með einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

1.3. Atvinnulaust fólk verði hvatt með aukagreiðslum til að stunda nám og/eða vinnu með samfélagslegu markmiði til að koma í veg fyrir að tengsl þess við vinnumarkaðinn rofni. Sett verði á stofn víðtæk aðstoð við atvinnulausa um allt land með það að markmiði að kenna þeim að nota atvinnuleysið sem tækifæri til hina betra.

1.4. Skuldsett fyrirtæki verða boðin út og aðeins tekið tilboðum ef ásættanlegt verð fæst. Annars verði starfsfólkinu leyft að taka yfir lífvænleg fyrirtæki sem ekki fæst ásættanlegt verð fyrir. Skuldir eigenda verði ekki felldar niður sjálkrafa en nota á endurreisnarsjóð atvinnulífsins til að veita hagstæð lán og breyta skuldum lífvænlegra fyrirtækja í hlutafé í eigu ríkisins frekar en að afskrifa skuldir.

1.5. Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. AGS fái ekki að ráða ferðinni með stöðu ríkissjóðs.

1.6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu og skynsemi. ICESAVE reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands og m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar innlagnir á reikningana, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir persónulega ábyrgir fyrir því sem vantar upp á. Samið verður um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. Samhliða því verði gefið loforð um framlag af hálfu Íslands sem nemi 2% af VLF renni til þróunaraðstoðar á ári næstu tíu ár til að sýna góðan vilja íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.

2. Landsmenn semji sína eigin stjórnarskrá.

2.1. Þjóðaratkvæðagreiðsla skal fara fram um tiltekið mál óski tiltekinn minnihluti þjóðarinnar þess. Sama gildir um að rjúfa þing.

2.2. Bera skal alla samninga undir þjóðaratkvæðagreiðslu sem mögulega framselja vald, m.a. þar sem krafist er að lög og reglugerðir séu innleidd án atbeina Alþingis.

2.3. Að viðurkenna þau sjálfsögðu mannréttindi sbr. 1. gr. Mannréttingayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna að vægi atkvæða í alþingiskosningum verði jafnt enda væri það í samræmi við hugmyndir um að auka vægi þjóðaratkvæðis um einstök mál enda augljóst að ekki væri hægt að láta suma landsmenn hafa meira vægi en aðra við þjóðaratkvæðagreiðslu.

2.4. Að fjöldi þingmanna miðist við fjölda á kjörskrá í hlutfallinu 1/4000 sem væri í samræmi við algengt hlutfall í öðrum löndum. Þetta myndi þýða nokkra fækkun þingmanna í dag en hægfara fjölgun þeirra í framtíðinni með vaxandi fólksfjölda sem væri rökrétt.

2.5. Að kjördæmaskipan verði endurskoðuð og kjördæmum fækkað á suðvesturhorninu.

2.6. Að tryggð sé skipting valdsins milli löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds, m.a. þannig að ráðherrar sitji ekki á þingi

2.7. Að ráðherrar og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins, nema dómarar, gegni embætti í mesta lagi í átta ár eða tvö kjörtímabil samfellt.

2.8. Að fyrsta málsgrein 76. greinar stjórnarskrárinnar verði breytt til samræmis við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttinn til lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og velliðan allra. Grein 76 muni þá hljóða svona eftir breytingu. “Öllum skal tryggður rétttur til grunn lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra, sé þess nokkur kostur. Grunn lífskjör teljast vera nauðsynlegt fæði, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.” Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

2.9. Aðrar breytingar á stjórnarskrá verði gerðar þannig að hún samræmist Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

2.10. Allar náttúruauðlindir verða í þjóðareigu og óheimilt að framleigja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt.

3. Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur.

3.1. Tafarlaust verði sett í gang opinber rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga á hruni íslenska efnahagskerfisins. Samhliða því verða sett verði afturvirk lög sem leyfa ógildingu allra fjármálagerninga undanfarinna tveggja ára þ.m.t. gerninga skilanefnda bankanna, og í undantekningartilfellum lengra aftur í tíma ef sýnt er að um óeðlilega gjörninga hafi verið að ræða sem leitt hafi af sér skaða fyrir íslenskt efnahagslíf. Ef sýnt er að gjörningar félags og/eða eiganda þess hafi verið með þeim hætti að leitt hafi af sér skaða fyrir íslenskt efnahagslíf verður í þeim tilfellum ákvæði hlutafélagalaga um takmarkaða ábyrgð eigenda verði fellt niður.

4. Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.

4.1. Að ráðningatími (skipunartími) og þ.a.l. uppsagnarfrestur allra embættismanna sé í samræmi við það sem almennt gerist hjá stjórnendum á vinnumarkaði skv. nánari útfærslu sem verði í höndum Kjararáðs.

4.2. Að tiltekinn minnihluti þingmanna geti boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.

4.3. Að hæfi umsækjenda um störf hæstaréttar- og héraðsdómara sé metið af hlutlausri fagnefnd skipaðri af Alþingi eftir tilnefningu hæstaréttar. Fagnefndin geti lagt fyrir umsækjendur próf til að skera úr um þá hæfustu og að ráðherra beri að velja dómara úr hópi þeirra sem fagnefndin telur hæfasta.

4.4. Að æðstu embættismenn séu valdir á faglegum forsendum.

4.5. Að fastanefndir þingsins verði efldar. Að nefndarfundir verð almennt haldnir í heyranda hljóði. Gerð verði krafa um að fastanefndir afgreiði öll mál og skili niðurstöðu innan ákveðins tíma.

5. Lýðræðisumbætur STRAX.

5.1. Stjórnlagaþing í haust

5.2. Persónukjör

5.3. Afnema 5% þröskuldinn

5.4. Þjóðaratkvæðagreiðsur

5.5. Ný framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og sama stuðning og aðrir stjórnmálaflokkar

6. Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.
 
Ég ætla að biðja þessari hreyfingu farsældar! Það er greinilegt að þeir sem settu þessa stefnuskrá saman eru einstaklingar sem stjórnast af mannúð, sanngrini og réttlæti. Ég vil fá slíkt fólk inn á þing til frambúðar!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér líst vel á stefnuskrána, ef borgaraflokkurinn býður sig fram gæti ég vel hugsað mér að kjósa hann.  Ég hef verið haldin mótmæladeyfð, ég hef mætt á alla mótmælafundina nema þann fyrsta og þrjá síðustu.  Ég hef ekki haft geð í mér að mæta undanfarnar vikur. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.3.2009 kl. 02:06

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Vona að þú losnir undan deyfðinni og mætir næst Ég held að það sé mikilvægt að við stöndum saman áfram og styðjum við kröfuna um það að gerendurnir í hruninu verði sóttir til saka.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.3.2009 kl. 02:12

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Takk fyrir þetta Rakel,  þegar mikið liggur við er skiljanlegt að fólki sé mikið niðri fyrir.  Tek undir með ykkur stöllum Jónu og þér að stefnuskrá þessa flokks hljómar vel.  Er samt því miður komin upp í háls af allri þessari pólitík og tilgangslausu fjasi um stóla og stefnur og að manni sækir nú léttur hrollur við að sjá ' faceliftið' sem stjórnmálamenn eru að fara í þessa dagana.

Þessi stefnumál öll sýnist mér hljóma vel og í fullu samræmi við 'umræðuna'

Set spurningarmerki við fjölda þingmanna 1/4000  hér í Canada er þetta hlutfall ca 1/104.000 (miðað við heildarmannfjölda ekki kjörskrá) en á Íslandi nú er þetta hlutfall ca 1/5000  Þurfum að fara einhvern milliveg, mér lýst ágætlega á töluna 33 þingmenn.  Ef að 33 einstaklingar geta sokkið heilu landi, þá geri ég kröfu um að 33 einstaklingar geti stýrt sama landi.

Svo lýst mér rosalega vel á 8 ára hámarkstíma kröfuna.  Þannig verður reynt að koma í veg fyrir spillingu og heilbrigð endurnýjun hugmynda og fólks á sér stað.

Fyrirgefðu málæðið í mér,  mikið niðri fyrir.

Kær kveðja til Akureyrar

Jenný Stefanía Jensdóttir, 3.3.2009 kl. 03:52

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Naut þess að lesa hvert orð! þannig að það er ekkert að fyrirgefa Þakka bara gott innlegg. Sérstaklega með heildarfjölda þingmanna sem ég get tekið alveg tekið undir með þér.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.3.2009 kl. 04:23

5 identicon

Heilar og sælar; ágætu stöllur !

Þakka þér; vel saman setta grein, Rakel.

Mig óar þó við; hneigð sumra talsmanna Borgarahreyfingarinnar, við þeirri villu, að hefja aðildarviðræður, við gamla nýlenduveldabandalagið (ESB), suður á Brussel völlum.

Ekki þénugt það; í farteski, að undanfara kosningabaráttu.

Með beztu kveðjum /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 23:10

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég tek undir það með þér þar sem mér hugnast ekki ESB-aðild heldur.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.3.2009 kl. 20:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband