Þeir sem vaka...
28.2.2009 | 21:55
Ég er búin að vera í Reykjavík síðan á miðvikudagskvöldið. Ég ætla ekki að gera grein fyrir tilefni ferðarinnar suður hér eða ferðalaginu í smáatriðum. Mig langar þó til að víkja nokkrum orðum að borgarafundi sem ég fór á í Iðnó á fimmtudags- kvöldið, lýðveldisgöngunni sem ég tók þátt í, í dag og mótmælafundinum á Austurvelli.
Það er ljóst að einhver værð hefur lagst yfir suma þeirra sem mættu galvaskir á hvern borgara- og mótmælafund hér fyrir nokkrum vikum en það vantar ekki kraftinn í þá sem vaka enn! Það er greinilegt að samstaðan er sterk meðal þess hóps sem lætur sig aldrei vanta þar sem tilefni gefast til að leggja orð í belg og leggjast á árarnar við að hafa jákvæð áhrif á framtíð og mótun samfélagsins.
Þetta fólk eru mótmælendurnir sem hafa staðið vörð um lýðræðið í landinum og ef það væri ekki fyrir allt þetta dugmikla fólk þá værum við sennilega stödd í sama pólitíska landslaginu og ríkti hér um og eftir bankahrunið síðastliðið haust. Með öðrum orðum við værum enn föst við sófana okkar og sennilega með höfuðið kyrfilega keyrt niður á milli hnjánna...
Þeir sem vaka enn stóðu fyrir borgarafundi í Iðnó nýliðið fimmtudagskvöld en meginefni hans var persónukjör og kosningalög. Ræðumenn kvöldsins voru tveir. Þorkell Helgason og Ómar Ragnarsson. Þorkell gerði grein fyrir sex leiðum í sambandi við kosningar þar sem kjósandinn getur haft mismunandi mikil eða lítil áhrif á röðun manna á listum. Það sem hann sagði á fundinum byggði hann á þessum skrifum sínum frá 9. febrúar sl.
Ómar Ragnarsson flutti kraftmikla og snjalla ræðu sem ég var að vona að hann hefði birt á blogginu sínu. Það hefur hann ekki gert. A.m.k. ekki enn þá en hann hefur hins vegar gert skýra grein fyrir meginefni umrædds fundar. Ég ætla því að leyfa mér að vísa á samantektina hans. Ég get þó ekki látið hjá líða að vekja sérstaka athygli á afstöðu Birgis Ármannssonar sem sat í pallborði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Mér þykja nefnilega merkileg rök hans fyrir því hvers vegna hann er á móti stjórnlagaþingi og breytingum á kosningalögunum. Þau eru í reynd mjög afturhalds- og íhaldssöm. Aðspurður hafnaði hann þeirri hugmynd að hann væri afturhaldssamur en viðurkenndi þó íhaldssemi sína. Í stuttu máli sneru rök hans einkum að því að honum þótti fáránlegt að breyta kosningalögunum með svo stuttum fyrirvara þar sem hann óttaðist að kjósendur gætu ekki tileinkað sér nýjar reglur svo stuttu fyrir kosningar.
Það kom mér á óvart að þessi borgarafundur skyldi ekki vera fjölsóttari miðað við það hvert umræðuefnið var. Þeir sem stóðu að fundinum undruðust það ekki síður. Fundurinn var hins vegar mjög góður. Ekki síst fyrir það hvað hann var upplýsandi. Tvö ný framboð voru kynnt á fundinum en það var annars vegar Borgarahreyfingin og hins vegar L-listinn.
Herbert Sveinbjörnsson sat í pallborði fyrir hönd Borgarahreyfingarinnar en Bjarni Harðarson fyrir hönd L-listans. Þeir sem voru viðstaddir borgarafundinn í Háskólabíói 12. janúar sl. eða fylgdust með honum í Sjónvarpinu muna eflaust eftir Herberti og kraftmikilli ræðu hans. Hann er formaður Borgarahreyfingarinnar, sem er nýtt stjónmálafl, sem verður kynnt á blaðamannafundi n.k. mánudag. Ef ég á að segja eins og er þá kom framboð Bjarna Harðarsonar mér svo í opna skjöldu að ég treysti mér ekki að segja neitt um það hér...
Ég má hins vegar til með að birta ræðuna sem Herbert flutti í Háskólabíói fyrr á árinu hér. Ekki síst vegna þess hve efni ræðu hans þá er nátengd því sem við eigum í höggi við enn í dag. Ræða hans minnir vonandi alla, sem telja það óhætt að leggjast fyrir og sofna, á að enn er langt í land með það!
Þeir sem mættu á borgarafundinn í Iðnó síðastliðið fimmtudagskvöld eru greinilega glaðvakandi. Það eru þeir líka sem mættu í lýðveldisgönguna sem var gengin niður Laugaveginn í dag og svo þeir sem voru mættir á útifundinn á Austurvelli. Ekki síst ræðumenn dagsins!
Heiða B. Heiðarsdóttir og Valgeir Skagfjörð fluttu bæði frábærar ræður enda fengu þau bæði kröftugar undirtektir og lófaklapp á meðan þau fluttu. Þau hafa bæði birt ræður sínar á bloggunum sínum. Ræðan hennar Heiðu er hér og hér er ræða Valgeirs. Ræður þeirra ættu ekki síður að virka sem vakning en ræða Herberts hér á undan. Ég skora á alla sem voru ekki viðstödd flutning þeirra í dag eða hafa ekki lesið ræðurnar þeirra enn að gera það núna!
Við sem vökum vantar ekki eldmóðinn. Meðal okkar eru eldhugar sem viðhalda svo sannarlega vöku okkar. Það veitir ekki af því þó áfangasigrarnir séu vissulega nokkrir þá eru mörg verkin óunnin enn. Ég treysti mér ekki til að raða þeim í forgangsröð en hér að neðan eru þau atriði sem Raddir fólksins settu efst á kröfulista dagsins í dag:
1. Frystum eignir útrásarvíkinganna
2. Afnemum verðtrygginguna
3. Færum kvótann aftur til þjóðarinnar
Að lokum þakka ég mótmælendunum í Reykjavík fyrir samveru og samstöðu! Þið eruð frábær!
Hér á Akureyri var gengin fámenn ganga frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg. Á morgun er hér borgarafundur um það hverjum fjölmiðlar eiga að þjóna. Ég vona svo sannarlega að ég sjái marga glaðvakandi Akureyringa og nærsveitarmenn á þeim fundi!
Fáir þátttakendur í mótmælum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:08 | Facebook
Athugasemdir
Eftir þriggja daga fjarveru missti ég af fundinum í fyrsta sinn - og var ekki kát með það. Þetta hefur verið fastur liður á laugardögum svo lengi. Missti líka af fundinum í Iðnó af því ég var ekki í bænum.
Gat verið að ég færi úr bænum þegar þú komst í bæinn. En ég á eftir að heyra betur af heimsókninni þinni, trúi ég.
Takk fyrir að segja svona vel frá því sem gerðist.
Lára Hanna Einarsdóttir, 28.2.2009 kl. 22:14
Já, ég viðurkenni það að ég saknaði þín Viðurkenni líka að mig langaði til að segja frá svo miklu fleiru frá fundinum og deginum í dag. Mig langaði sérstaklega að segja frá gömlu konunni sem gekk með okkur niður allan Laugaveginn við tvo skíðastafi niður á Austurvöll.
Þetta var harðfullorðin, hávaxinn og hvíthærð kona með sterka andlitsdrætti. Heiða gaf sig að henni áður en gangan hófst frá Hlemmi. Ég fylgdi á eftir. Konan sagði Heiðu að hún ætti ekkert til að leggja á vogarskálarnar annað en stuðning sinn. Þess vegna mætir hún og það þrátt fyrir að hún þurfi að hlusta á háðsglósur um þetta mótmælabrölt hennar á dvalarheimilinu þar sem hún er búsett.
Niður á Austurvelli kom hún kom til Heiðu og þakkaði henni kærlega fyrir ræðuna hennar sem henni fannst ómetanleg og skörungslega flutt! Heiða er skörungur! En mér finnst gamla konan sem ég sá og heyrði örlítið af í dag vera það líka! Mig langar að líkjast henni þegar ég verð gömul sjálf
Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.2.2009 kl. 22:44
Rakel, mér finnst verst að hafa ekki náð að heilsa upp á þig. Sjálfur var ég bæði á fundinum í dag og á fimmtudaginn. Ég vona að hægt sé að kalla saman harðan kjarna á Akureyri til að berjast með okkur í þessum mikilvægu lýðræðisumbótum sem kallað hefur verið eftir.
Sigurður Hrellir, 28.2.2009 kl. 22:51
Ég tók eftir þér í dag Vissi bara ekki að þú vissir hver ég er. Skal heilsa upp á þig næst þegar ég verð viðstödd mótmæli í Reykjavík. Reikna með að verða það næst 14. mars n.k. þannig að það er ekki langt í það.
Hér er nokkuð góður kjarni sem ég vona að muni styðja þær lýðræðisumbætur sem hefur verið talað um.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.2.2009 kl. 23:00
Þakka líka fyrir mig, þú og margir fleiri hafið lagt á ykkur mikið til að halda fólki eins og mér hinum megin á hnettinum upplýstri.
Eina ljósið í myrkrinu varðandi Birgi Ármanns, afturhaldsíhaldskapítalastapyttinn, á meðan hann fær að vera sérlegur ofurleiðinlegur málsvari þeirra, munu ekki margir laðast óvart eða viljandi að þessum "Sjálfstæðisflokk".
Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.3.2009 kl. 02:47
Vona að þú hafir rétt fyrir þér! Kenning þín er mjög rétt í mínum augum og svo rökrétt að mér er a.m.k. skemmt
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.3.2009 kl. 07:12
Vil helst ekki afsaka fjarveru mína, en geri það samt, því þótt mínar afsakanir fyrir fjarveru séu góðar og gildar, þá er ég alltaf leið þegar ég kemst ekki.
Ég fékk nefnilega sonarsoninn í heimsókn og bíllinn minn var óvænt tekin í gíslingu til Grindavíkur, þar sem honum verða vonandi gefnar auknar "lífslíkur" í einhvern tíma.
Takk fyrir að vera þarna Rakel. Fer núna á síðuna hennar Heiðu, því af ræðunni hennar vil ég ekki missa.
Sigrún Jónsdóttir, 1.3.2009 kl. 08:52
Leitt ef orð mín skiljast sem skammir. Áttu kannski að vera áminning en ekki til þeirra sem hafa staðið sig í stykkinu eins og þú. Þú þarft ekki að afsaka neitt Sigrún mín
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.3.2009 kl. 11:41
Ég komst ekki á borgarafundinn á fimmtudaginn og sé hér og nú fyrst eitthvað um hann. Ég gáði í fréttaveiturnar á föstudag og sá ekki neitt. Og ég sem hélt að breyting á kosningalögum höfðaði til margra, líka fjölmiðla og þeirra sem fara þar höndum um lyklaborð.
Berglind Steinsdóttir, 1.3.2009 kl. 11:44
Já, Berglind! Þetta er stórfurðulegt hvað fjölmiðlar láta allt það sem lýtur að vaxandi lýðræðiskennd og -þátttöku almennings sig litlu varða. Því miður dettur manni stundum í hug að þeir sem starfa inn á fjölmiðlunum telji að fréttir eigi eingöngu að snúast um þekkta og opinbera einstaklinga, störf þeirra, athafnir, skkoðanir og ályktanir...
Í dag verður borgarafundur hér fyrir norðan um það hverjum fjölmiðlar eiga að þjóna. Ég hlakka mikið til og vona að það verði góð mæting. Spurning hvort á hann verður minnst í fréttum en ég mun gera honum skil síðar í vikunni.
Es: Ég skimaði aðeins eftir þér á fimmtudagskvöldið. Það hefði verið gaman að sjá þig
Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.3.2009 kl. 12:04
Þið eruð hetjur.
Arinbjörn Kúld, 2.3.2009 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.