Stöndum vörð um lýðræðið
14.2.2009 | 14:19
Þyrnirós svaf í 100 ár. Íslenska þjóðin í tæp 20 en nú er hún byrjuð að vakna. Það var þó enginn prins sem vakti hana heldur napur sannleikur um siðspillingu, græðgi og svik sem opinberaðist í bankahruninu síðastliðið haust. Samt voru einstaka prinsar og prinsessur sem héldu vöku sinni þennan tíma og voru óþreytandi við það að reyna að vekja þjóð sína upp af meðvitundarleysinu og hvetja hana til að verja réttborin lýðræðisréttindi sín.
Það voru sterk, jötunvaxinn öfl sem gættu þess að halda þeim í öruggri fjarlægt svo þau trufluðu ekki værukært meðvitundarleysi almennings sem er svo meðfærilegt og þægilegt að eiga við. Þau vildu segja okkur sögur sem í raun hljómuðu svo ótrúlega að við hefðum kannski ekki einu sinni trúað þeim hefði boðskapur riddarasveitar hins nöturlega sannleika náð eyrum okkar. Þeim er enn þá haldið úti en raddir þeirra hafa samt náð til okkar margra og við hlustum því við trúum því sem þau segja vegna þess að við sáum það sem opinberaðist svo vel í bankahruninu og staðfesti það sem þessi hugprúða riddarasveit hafði svo lengi varað við
Það sáu það hins vegar ekki allir vegna þess að því brá aðeins fyrir um stund. Hulan sviptist aðeins frá en það nægði mörgum. Þeir hinir sömu risu upp og fylgdu þeim sem höfðu vakað í öll þessi ár. Við fylgdum þeim út á götur og mótmæltum. Við fylgdum þeim inn í sali á borgarafundi og við settumst niður og stofnuðum samtök til að endurlífga réttlætið sem hefur verið fótumtroðið á undanförnum árum. Við höfum mætt ótrúlegri mótstöðu. Mótsataðan hefur birst okkur í ýmsum búningi. Öllum er þó ætlað að þagga niður í okkur svo við förum nú að sinna einhverju öðru en verja lýðræðið í landinu.
Það eru sem betur fer ekki allir móttækilegir fyrir slíku eins og kemur fram í því að í dag eru 19. mótmæla- fundurinn haldinn í Reykjavík. Hinir hugprúðu riddarar, sem leiða mótmælafundina, með Hörð Torfason í fararbroddi, eru óþrjótandi í því að halda vöku fólksins. Vonandi láta þeir ekkert draga úr sér kjarkinn og kraftinn heldur halda fundi og mæta áfram þar til blikur breytinganna hafa lýst upp himininn og varpað geislum sínum yfir land okkar og skuldumvafða þjóð.
Einurð og þolgæði þeirra sem mótmæla laugardag eftir laugardag á Austurvelli eru mér ótrúlega mikils virði. Þau eiga nefnilega stærstan þátt í því að viðhalda von minni um breytta tíma þessa daganna. Þess vegna er hjarta mitt barmafullt af kærleika þeim til handa. Ég neita að vera útlagi í mínu eigin landi lengur! Ég vil að rödd mín og skoðana- systkinna minna fái að heyrast. Við erum alveg nógu mörg til að á okkur sé hlustað enda er krafa okkar byggð á þeirri grundvallarsanngirniskröfu að hér ríki alvöru lýðræði og lýðveldið Ísland fái að lifa!
Við viljum ekkert sýndarlýðræði þar sem auðug valdamannaklíka stýrir öllu okkar lífi á bak við tjöldin. Við sjáum ekkert lýðræði í því að fámenn valda- og auðmannaklíka komist upp með það að ræna þjóðina ævisparnaðinum og stefna landinu þannig út í sögulegt þjóðargjaldþrot! Við sjáum ekkert lýðræði í því að það skuli koma þannig niður að þjóðin er sett í skuldafangelsi til að borga niður þær svimandi upphæðir sem þetta græðgisbræðralag komst upp með að hafa úr landi í gegnum gervifyrirtæki og -samninga!
Við sættum okkur ekki við að auður og völd hefji þessa einstaklinga yfir þau lög sem við hin þurfum að lúta. Við neitum því að það eigi að heita löglegt að þeir rændu þjóðina afkomu sinni og skildu hana eftir í botnlausu skuldafeni. Við krefjumst þess að jafnræði ríki og þessir menn verði sóttir til saka! Við krefjumst þess að lýðræðið sé virt en ekki misnotað í þágu fárra útvaldra!
Þess vegna verðum við að viðhalda vöku okkar, standa vaktina og krefjast réttar okkur til handa. Látum engan þagga niður í okkur! Hundsum þögnina. Látum ofbeldið ekki buga okkur. Brjótum múranna og höldum ótrauð áfram. Viðhöldum trú okkar. Stöppum í hvert annað stálinu og stöndum saman! Minnum okkur á það að sigurinn verður okkar því að lokum mun réttlætið ná fram að ganga. Landið okkar og við sjálf eigum það skilið að lýðræðið verði virkjað! Til þess að það megi verða þurfum við að standa saman og berjast áfram.
Við þurfum að brjótast gegnum þöggunarmúrana. Við þurfum að berjast við þá sem eru enn fastir í hlekkjum úreltra hugmynda. Berjast gegn þeim hugmyndum að almenningur sé annars flokks þegnar sem eigi að halda kjafti og lúta í lægra haldi fyrir auði og valdi á öllum sviðum. Við verðum að vera sterk og þolgóð en umfram allt verðum við að viðhalda vöku okkar! Vera sterk og standa saman!
Við megum ekki sofna á verðinum sem við höfum verið vakin til. Núna vitum við að meðvitundarleysinu var handstýrt. Embættisveitingar undanfarandi ára lutu að því að tryggja að rétta fólkið sæti við stjórnvölinn í öllum helstu stofnunum og fyrirtækjum landsins. Rétt þenkjandi einstklingumvar raðan inn í mikilvægustu embættin til að hefta tjáningarfrelsið og lama skoðanamyndunina í samfélaginu.
Við vorum fangar án þess að vita það því múrarnir mættu aðeins þeim sem andæfðu. Núna ætti hins vegar öllum að vera þetta ljóst því nú heyrum við sögur af einstaklingum sem knúðu dyra á fjölmiðlum, til að vekja athygli á þeim röngu upplýsingum sem var haldið að okkur um efnahagsstöðu þjóðarinnar og svo miklu fleiru, en án árangurs. Núna heyrum við sögur um einstaklinga sem var hótað að halda kjafti með hótunum um missi af alls kyns tagi. Núna heyrum við sögur af þeim sem andæfðu og lentu í einelti og öðrum athöfnum sem drógu úr þeim kjarkinn.
Skoðanafangelsið stendur enn og miðað við þöggunina sem er enn í gangi þá á það að standa áfram en nú er líka annað enn stærra risið við hlið þess. Það er skuldafangelsið sem öll þjóðin hefur verið hneppt í. Það er enginn undanskildinn nema örfáir valda- og auðmenn sem ullu því hvernig komið er. Það er líka þeirra hagur að við sitjum þar og höldum kjafti.
Er einhver tilbúin til að láta þá komast upp með þetta? Finnst einhvejum það í lagi að hann og afkomendur hans næstu kynslóðirnar búi í fátækt vegna þess að allar tekjurnar fara í að borga græðgisóhóf siðlausra græðgisfanta? Getur það verið að einhver haldi því fram að það sem að ofan er talið megi viðgangast í lýðræðissamfélagi? Ég segi NEI og aftur NEI! Við höfum látið óréttlætið vaða uppi alltof, alltof lengi en nú er tími til að snúa blaðinu við! Þess vegna segi ég áfram mótmæl- endur! Þið eruð hetjurnar mínar sem ég set traust mitt á. Ég óska þess að ykkur sé styrkur í því.
Langar að lokum til að benda á viðtal sem ég las nýlega við Steingrím J. Sigfússon á netmiðlinum Nei. Spurningin hér að neðan vakti sérstaka athygli mína:
Persónunjósnir í réttarríki
Ég veit um fjölda mörg dæmi þess að ríkisvaldið hefur haft afskipti af rétti fólks til lýðræðislegrar þátttöku. Ég nefni sem dæmi að símar mótmælenda hafa verið hleraðir, upptökur eru til af ómerktum lögreglubílum sem elta mótmælendur og einstaklingar hafa verið handteknir án lagalegra heimilda. Lögreglan hefur stundað persónunjósnir og safnað upplýsingum um almenna borgara og væntanlega hefur Dómsmálaráðuneytið staðið fyrir þessu í samvinnu við embætti Ríkislögreglustjóra. Mun verða gerð rannsókn á því með hverjum hefur verið fylgst á Íslandi á undanförnum árum og hvers vegna?
Svar Steingríms J. Sigfússonar, svo og greinina í heild, er að finna hér.
19. mótmælafundurinn á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.2.2009 kl. 05:39 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert æði. Frábær grein. Ég get ekki bætt neinu við.
Arinbjörn Kúld, 14.2.2009 kl. 16:41
Þakka þér fyrir Rakel, góðann og uppörvandi pistil. Það veitir ekki af að stappa í okkur stálinu því það er við ramman reip að draga.
Annað slagið sækja að mér vonleysishugsanir. Í dag les ég á mbl.is að skoðanakönnun gefur í skin, að sjálfstæðisflokkurinn sé að auka fylgi sitt og sé enn stærsti flokkurinn. Fyrir nokkru var önnur slík og fylgdi henni sú staðhæfing, að næsta stjórn sem tekur við eftir alþingiskosningarnar í vor verði mynduð af sjálfstæðisflokknum og einum hinna flokkanna. Guð hjálpi okkur!!! Höfum við ekkert lært, eða eru þessar skoðanakannanir falsaðar til þess að slá ryki í augu okkar?
Svo fékk ég martröð þegar ég mynntist þess, að Davíð hótaði því að koma til baka í stjórnmálin ef honum yrði bolað út úr Seðlabankanum!! Ha, ha, hver verður næsti forsætisráðherrann??? Þvílik martröð!
Það er ógeðfellt að hlusta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki verið að endurskoða gjaldþrota stefnu þeirra. Ég vona að umrædd skoðanakönnun sé fölsuð og að fólk eins og þú, Rakel, nái að blása lífi í nýjan meirihluta.
Takk fyrir
Páll
Páll Gröndal, 14.2.2009 kl. 16:57
Takk fyrir þetta innlegg Páll! Mér þykir virkilega vænt um að heyra það að skrif mín hér orki sem uppörvun fyrir einhvern. Sumir vilja halda því fram að bloggið hafi áhrif og ef það sem ég skrifa orkar uppörvandi og til að stappa stáli í einhverja sem lesa þau þá er ég mjög sátt!
Ég segi eins og þú að stundum hvarflar að mér að skoðanakannanir séu hreinlega falsaðar. Úrslit tveggja til þriggja síðustu kosninga hafa m.a.s. kveikt hjá mér þá óþægilegu hugmynd að eitthvað sé eitthvað mikið öðru vísi en það á að vera. En ég hef ekki leyft slíkum hugsunum að ná tökum á mér.
Það væri hins vegar alveg yfirgengilega súrrealískt ef úrslit næstu kosningabaráttu yrðu þau að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist aftur til valda! Það yrði svo yfirgegnilegur og kolbikasvartur fáránleiki að ég reyni að hugsa ekki um það. Þó hef ég hlustað á einstaklinga á vinnustaðnum mínum sem tala um að eini raunhæfi kosturinn í núverandi stöðu sé sá að exa við déið
Rökin eru jú þau að þeir eru á móti ESB og þeir beri ekkert meiri ábyrgð á stöðu mála í dag en Framsókn og Samfylkingin! Ég segi nú bara að það hefur eitthvað mikið farið fram hjá mér ef ESB-aðild er það sem Íslendingar ættu að kjósa um í næstu alþingiskosningum
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.2.2009 kl. 17:20
Ég tek undir grunsemdir ykkar varðandi skoðanakannanir. Niðurstöður þeirra eru í engu samræmi við það sem ég heyri úr samfélaginu. Fyrirtæki í viðskiptalífinu gera þessar skoðanakannanir og það væri áhugavert að skoða eingatengs á milli þessara fyrirtækja og valdamanna í samfélaginu.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.2.2009 kl. 23:41
Takk fyrir sterkann pistil Rakel. Takk fyrir hugrekkið. Takk fyrir skýra hugsun.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.2.2009 kl. 23:42
Takk fyrir fallega kveðju Jakobína
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.2.2009 kl. 00:15
Það er svo gott að lesa pistlana þína Rakel. Takk fyrir mig
Sigrún Jónsdóttir, 15.2.2009 kl. 00:24
....Vandaðir og yfirgripsmiklir....gleymdi þessu áðan
Sigrún Jónsdóttir, 15.2.2009 kl. 00:25
Takk fyrir það Sigrún mín Ég mætti sjálfsagt læra það af þér að stytta mál mitt. Kemst alltaf á svo mikið flug þegar ég byrja á annað borð. Það er minn löstur
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.2.2009 kl. 00:32
takk
Hólmdís Hjartardóttir, 15.2.2009 kl. 01:52
Sæl, Rakel. Snarpur pistill. Hef eins og greinilega fleiri nokkrar áhyggjur af framgangi nýrra framboða, tími til kosninga skammur og það ekki ástæðulaust. Virkjun lýðræðis er lykilmál en grunur minn sá að margur ráðamaðurinn og konan segi já en geri nei. Og hvað skal þá kjósa?
Kveðja,
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 15.2.2009 kl. 03:07
Á mótmælunum í dag tók ég eftri manni sem var að taka myndir af fólki með aðdráttarlinsu. Þetta er órtrúlegur fáránleiki. Ég stóð þarna. Heidi líka og Lára Hanna skammt frá. Vinkona mín sem er að verða sextug stóð þarna líka. Hvað á að gera við myndir af okkur.
Hafa þessir $#%# ekkert betra við tímann að gera en að skoða myndir af eldri konum á mótmælum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.2.2009 kl. 03:32
Takk fyrir það Lýður Ég reikna ekki með að þú ætlist til að ég svari því hvað á að kjósa. En ef ég svara fyrir sjálfa mig þá hef ég aldrei verið flokksbundin en ég hef alltaf kosið. Það er þó langt frá því að ég hafi alltaf kosið það sama. Ég læt það ráðast af því hvað mér finnst skipta mestu máli og hvernig kosningarloforð flokkanna stemma við það sem mér finnst brýnast að taka á hverju sinni.
Við síðustu alþingiskosningar átti ég í töluverðum erfiðleikum því þá fannst mér bera mjög á milli. Þ.e.a.s. það sem mér fannst skipta mestu máli var bara ekki meðal þess sem hægt var að kjósa um. Það vantaði bara hreinlega. Mér tókst þó að gera upp hug minn með útilokunaraðferðinni. Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýn með næstu kosningar miðað við það sem á undan er gengið og hvernig á því er tekið.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.2.2009 kl. 03:48
Jakobína, það eina sem ég get sagt er að þessar myndir eru til.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.2.2009 kl. 03:50
Ó já þær eru til
Takk fyrir pistilinn Rakel. Vona að ég fái að hitta þig næst þegar þú ert í bænum. Langar alveg hrikalega til að knúsa þig í klessu!!
Heiða B. Heiðars, 15.2.2009 kl. 17:47
Takk Heiða mín Við eigum örugglega eftir að sjást aftur og kannski margsinnis og knúsa hvor aðra í klessu þá Hentar mér sennilega betur að það verði þó eitthvað liðið fram á vorið þegar af slíku verður.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.2.2009 kl. 18:22
Rakel, þú ert nauðsynleg!
Hallmundur Kristinsson, 15.2.2009 kl. 22:38
Æi, hvað það er fallega sagt
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.2.2009 kl. 23:19
Við mótmælendur erum á myndum sem hafa verið sýndar út um allan heim. Ég sá frétt um mótmælin á Reuters og þar var ég og frumburðurinn minn í fremstu víglínu. Svo höfum við lent í viðtölum við erlenda fréttamenn, báðar tvær. Takk fyrir frábært blogg..
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.2.2009 kl. 02:24
Takk fyrir góðar kveðjur
Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.2.2009 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.