Borgarafundur á Akureyri: Landráð af gáleysi

Það er að verða vika síðan borgarfundurinn undir yfirskriftinni: Landráð af „gáleysi“ var haldinn í Ketilhúsinu hér á Akureyri. Fundurinn hafði svolítið óvenjulegan aðdraganda þar sem hann var haldinn í samstarfi borgarafundar- nefndanna hér og í Reykjavík. Það var í reynd bæði lærdómsríkt og ánægjulegt samstarf. Ánægjulegasti þátturinn í því samstarfi var þó sá að nokkur sem standa að fundunum fyrir sunnan komu keyrandi að sunnan til að vera viðstödd Edward H. Huijbensþennan fund.

Þegar upp var staðið held ég að við sem stóðum að undirbúningi hans og allir hinir séu sammála um að þetta var mjög góður fundur. Mætingin hefur sennilega heldur aldrei verið betri. Frummælend- urnir góðir og margar fyrirspurnirnar utan úr sal alveg magnaðar.

Fundarstjóri á þessum fundi var Edward H. Huijbens en frummælendurnir voru fjórir. Auk þeirra voru fjórir til viðbótar sem sátu í pallborði. Það voru tveir frá nýstofnuðum landráðahópi og einn frá Hagsmunasamtökum heimilanna auk Atla Gíslasonar, lögfræðings. Landráðahópurinn og Hagsmunasamtök heimilanna eru að vinna stórgott starf sem ég hef fylgst nokkuð með. Miðað við það sem ég hef heyrt eftir þennan fund verð ég því miður að taka það fram að fulltrúum þessara samtaka tóks ekki að kynna það nógu vel hver þeirra þáttur í samhengi við málefni fundarins er. 

Ég setti krækju inn á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna en auk þess bendi ég á bloggið hans Marinós G. Njálssonar sem er einn varamanna í stjórn þeirra samtaka og hefur bloggað mikið um þá ógn sem heimilunum stafar af skuldunum sem „landráðamennirnir“ komu þjóðinni í. Arninbjörn Kúld, sem var annar fulltrúa Landráðahópsins á fundinum, hefur líka bloggað nokkuð um það sem hópurinn hans hefur verið að skoða að undanförnu.

Frummælendurnir á þessum borgarafundi voru flestir stórkostlegir. Sigurjón Þórðarson, líffræðingur, reið á vaðið en hann fjallaði um upphaf landráðanna. Hann hóf ræðu sína á eftirfarandi orðum: „Íslenskir stjórnmálamenn hafa á liðnum árum ekki gætt hagsmuna almennings heldur hafa gert regluverk þannig úr garði að það hefur skaðað framtíðar- og fjárhagslega hagsmuni íslensku þjóðarinnar.“ 

Ræða Sigurjóns fylgir þessari færslu en auk þess bendi ég á að hann hefur birt hana á blogginu sínu. Sigurjón rakti sögu kvótakerfisins í stuttu og skýru máli þar sem hann gagnrýndi fiskifræðina m.a. harðlega. Í því sambandi tók hann eftirminnilegt dæmi af kartöflubóndanum sem ég held að allir hafi tekið undir með honum að gegni ekki upp. Dæmið gengur út á það að bóndinn geti selt kartöfluuppskeruna þegar að vori og sá sem kaupir geti fengið veð í hugsanlegri uppskeru sem hann hefur keypt en ekki fengið afhenta. Slíkt tíðkast þó í sjávarútveginum með tilstuðlan fiskifræðinnar sem Sigurjón kallaði gervivísindi.

Það sem mér þykir einkennilegast og í raun uggvænlegt við ástand mála nú í febrúar 2009 í aðdraganda kosninga er að ekki skuli vera dýpri og gagnrýnni umræða um það kerfi sem markaði upphafið að hruninu, þ.e. kerfi sem bjó til innihaldslaus veð sem voru lagalega í eigu þjóðarinnar en fénýtt af þeim sem fengu þau afhent án endurgjalds - tímabundið fyrst um sinn.

Sigurjón minnti á að sá sem hefði sennilega grætt mest á kvótakerfinu væri Bjórgólfur Guðmundsson sem keypti Brim en með því fylgdi mikill hluti kvótans sem hann seldi síðan í litlum skömmtum og hagnaðist sjálfur um marga milljarða á viðskiptunum. Í lok ræðu sinnar sagði Sigurjón:

Nú þegar eignarhaldið á skuldasúpunni er komið inn í ríkisbankana þá er það lágmarkskrafa almennings að það verði tryggt að fiskveiðiauðlindin verði um ókomna tíð í eign þeirra sem byggja þetta land.  Ég vil vara við þeim stjórnmálaflokkum sem ætla að setja eitthvert gúmíákvæði í stjórnarskrána og ætla síðan að halda áfram með óbreytt kerfi þar sem eigur almennings eru leigðar og seldar og veðsettar upp á nýtt.

Það yrði þá ekki landráð af gáleysi heldur landráð af ásetningi.

Margrét Heinreksdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi lektor við Háskólann hér á Akureyri, tók næst til máls. Hún fór yfir landráðakafla íslensku laganna. (Sjá 10 kaflann í Almennu hegningarlögunum) Innihald þeirra olli greinilega mörgum vonbrigðum en þó ekki síður vissri furðu. Þegar upp er staðið þá er nefnilega greinilegt að þeir sem settu þennan kafla saman hefur hreinlega brostið hugmyndaflug til að detta það í hug að einhver væri svo bíræfinn og ósvífinn að misnota eignarhald sitt á bönkunum til að ræna land sitt og þjóð. Þar virðist fyrst og fremst gert ráð fyrir að landráð séu framinn í stríði milli þjóða.

Vilhjálmur Bjarnason, einn frummælendanna gerði athyglisverða athugasemd varðandi það að svo er ekki að sjá að neinn þeirra sem með athöfnum sínum eða athafnaleysi keyrði þjóðina út í það skuldafen sem hún er stödd í núna hafi gerst sekur um landráð. Í þessu samhengi benti hann á að útrýmingarherferð nasista gegn gyðingum hefði ekki brotið í bága við þýsk lög! Það blandast varla nokkrum hugur um það í dag að þar var framinn stórkostlegur glæpur eða þjóðarmorð!

þetta vekur upp þá spurningu hvort aðgerðirnar og aðgerðarleysið sem kom íslensku þjóðinni í þá stöðu sem hún er í dag falli ekki undir landráð þrátt fyrir að íslensk lög geri ekki ráð fyrir að þau séu framin með viðlíka hætti og raun ber vitni.

Margrét Heinreksdóttir gerði reyndar ráð fyrir því að rannsókn á aðdraganda og afleiðingum bankahrunsins myndu leiða í ljós að einhver íslensk lög hefðu verið brotin þó það væri hæpið að fella lögbrotin undir landráðakafla þeirra. Í því sambandi benti hún sérstklega á lögin sem lúta að Andrés Magnússonábyrgð ráðherra.

Andrés Magnússon, geðlæknir, tók næstur til máls. Hann átti marga stórkostlega punkta. Hann sagði t.d. að þegar ríkinu væri stefnt í gjaldþrot eins og það sem við stöndum nú frammi fyrir þá yki það íhlutun erlendra ríkja. Það væru vissulega landráð. 

Hann líkti íslenskri stjórnsýslu og fjármála- eftirliti síðastliðinna ára við atferli sértrúar- safnaða þar sem allt hefði miðað við að því að einangra og stjórna upplýsingunum eins og væri viðtekið í slíkum söfnuðum. Orðum sínum til staðfestingar fór hann inn á heimasíðu Seðlabankans og kynnti fyrir fundargestum skýrslu og myndir sem þar er að finna en enginn kannaðist við að hafa séð fyrr en þarna.

Hann notaði m.a. myndina hér að neðan til að sýna fram á þróunina sem hefur orðið í íslensku efnahagslífi frá einkavæðingu bankanna.
Hagtölur þjóðarbúsins Hér sést greinilega að það er eitthvað sem á sér stað árið 2003 og síðan þá vaxa erlendar skuldir þjóðarbúsins umtalsvert. Það er líka athyglisvert að skoða mismuninn á skölunum sem mæla eignir og skuldir. Mismunurinn virðist vera til þess hugsaður að draga úr þeim geigvænlega mun sem er á milli erlendra eigna og - skulda þjóðarbúsins.

Auk myndarinnar hér að ofan studdist Andrés Magnússon við myndir sem er að finna í skýrslu Daníels Svavarssonar og Péturs Arnar Sigurðssonar: „Erlend staða þjóðarbúsins og þáttatekjur“. Þessi skýrsla birtist í 2. hefti Peningamála árið 2007. Myndirnar og skýrslan sjálf sýnir svo ekki verður um villst að stefna stjórnvalda í peningamálum var stórkostleg ógn við hag þjóðarinnar. Hrunið síðastliðið haust var fyrir löngu fyrirsjáanlegt eins og kemur svo skýrt og greinilega fram á myndinni hér að ofan og mynd 1 í fyrrgeindri skýrslu.

Annað sem Andrés vakti sérstaka athygli á er hvar Ísland stendur hvað erlenda skuldstöðu varðar í samanburði við önnur lönd. Af þeim 139 löndum sem Ísland er borið saman við í ofangreindri skýrslu er ljóst að Ísland er búið að vera langskuldugasta Vilhjálmur Bjarnasonríkið frá árinu 2004!

Vilhjálmur Barnason, viðskiptafræðingur, var síðasti frummælandinn. Hann hóf ræðu sína á að benda á að það væri tímanna tákn að besti hagfræðingur okkar í dag er geðlæknir! Hann lýsti undrun sinni á því að lærðir hagfræðingar- og viðskiptafræðingar hefðu ekki sett spurningarmerki við það sem hefði verið að eiga sér stað í íslensku viðskipta- og efnahagslífi á undanförnum árum.

Hann minnti líka á sorgar- ferlið sem er óhjákvæmilegt að fólk gangi í gegnum við áföll. Hann sagði að þjóðin væri lömuð af sorg vegna þess hvernig nú væri komið. Í því sambandi undirstrikaði hann nauðsyn þess að þeir sem fóru þannig með þjóðina, að nú situr hún eftir í sárum, yrðu að svara til saka!

Að mati Atla Gíslasonar, sem var einn þeirra sem sat í pallborði, ættu landráðalögin að ná yfir Icesave-málið og hryðjuverkalögin sem voru sett á þjóðina. Hans lögfræðilega mat var að það væri ýmislegt í lögunum sem nær yfir þau brot sem íslenska þjóðin líður nú fyrir.

Lilja Skaftadóttir, sem var annar fulltrúi landráðahópsins, benti á að grunur ætti að nægja til að kæra menn fyrir efnahagsbrotin sem hafa leitt þá stöðu yfir þjóðina sem raun ber vitni. Þegar þau í pallborðinu höfðu lokið máli sínu þá var opnað fyrir spurningar úr sal. Það féll í minn hlut að ganga með hljóðnemann á milli fyrirspyrjenda og svarenda.
Borgarafundur á Akureyri 8.02.09Það voru margir sem vildu spyrja en þó aðallega lögfræðingana, Atla Gíslason og Margréti Heinreksdóttur og svo Andrés Magnússon. Við buðum öllum fulltrúum bæjarstjórnarinnar á Akureyri og þingmönnum kjördæmisins að sitja þennan fund. Buðum reyndar nýskipuðum dómsmálaráðherra að sitja í pallborði en fyrrvari hennar var svo stuttur að hún hafði ekki tök á að verða við boðinu. Ég held ég megi fullyrða að enginn á vegum bæjarins sat þennan fund en hins vegar mætti Valgerður Sverrissdóttir ein þingmannanna.

Það komu margar mjög góðar fyrirspurnir ekki síður en athugasemdir utan úr sal en þar sem ég var með hljóðnemann og svo langt er liðið frá fundinum eru þær flestar gleymdar. Þó er ein þeirra sem gleymist sennilega aldrei! Andrés Magnússon bað um leyfi til að varpa fram spurningu til Valgerðar Sverrisdóttur og varð hún við því. Andrés spurði hana hvort hún kannaðist ekki við tölur um skuldastöðu Íslands frá 2004 sem kæmu m.a. fram í skýrslunni sem hann sýndi á fundinum.

Það verður að segjast eins og er að Valgerði tókst mjög illa til í svari sínu og sagði í rauninni að hún gæti ekki svarað fyrir það vegna þess að hún myndi það ekki. Svo er engu líkara en hún og aðrir fyrrverandi stjórnarliðar í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki hafi farið í gegnum eins konar heilaþvottaferli sem miðar að því að firra þá sök. Það er eins og þeir hafi verið keyrðir í gegnum eitthvert vitsuguferli í leiðinni þar sem þeir vísa allir til alheimskreppu og einhvers sem heitir sennilega stjórnmálamenn bera enga ábyrgð því þeir stjórna ekki neinu...

Þetta er kannski óþarfa innskot. Andstyggilegt og grimmt en ég má til vegna þess að það sem þeir segja í þessu samhengi er eitthvað svo absúrd miðað við raunveruleikann og miðað við það sem ég hafði bara haldið að lægi í augum uppi að heyrði undir stjórnmálamenn. Þ.e.a.s. að vinna vinnuna sína, afla upplýsinga, fylgjast með, stýra og taka ábyrgð.

Svar Valgerðar Sverrisdóttur féll alls ekki í góðan jarðveg og reyndar varð ég mjög hissa á að hún hefði samþykkt að svara spurningunni þegar það var mjög líklegt að hún snerist um hennar ábyrgð í því hvernig er komið fyrir þjóðinni í dag þar sem hún hafði ekkert annað fram að færa en raun bar vitni. Í raun stóð ég mig að því að finna svolítið til með henni. Um stund a.m.k.
Gunnlaugur Garðarsson
Síðasta fyrirspurnin eða réttara sagt athugsemdin framan úr sal kom frá manni sem er prestur hér á Akureyri. Ég gat ekki heyrt betur en honum hefði misboðið svar Valgerðar Sverrisdóttur við fyrirpsurn Andrésar Magnúsar svo mjög að hann hefði ekki getað á sér setið. Hann kallaði svar hennar handarþvott en ég reikna með að allir kristnir menn átti sig á vísuninni í þeirri líkingu. 

Hann benti á að þó athafnir og/eða athafnaleysi stjórnvalda undanfarin ár sem hefðu leitt þjóðina út í viðlíka hörmungar og hún sæti undir núna heyrði ekki undir lög um landráð þá væri það ljóst að hér hefðu átt sér stað drottinssvik!

Ég kannast við séra Gunnlaug og veit að þetta er mikill rólyndismaður. Hann getur þó einstaka sinnum kveðið fast að orðum ef honum er mjög misboðið eins og honum var greinilega þarna. Ég þori líka að fullyrða að hann hefði aldrei sagt þessi þungu orð nema hann meinti þau. Ég verð að segja það fyrir mig að ég gladdist yfir því að presturinn í minni sókn stæði með mér og sóknarbörnum sínum á þann hátt sem hann gerði. Mér létti líka einhvern veginn við að heyra að hann er tilbúinn að leggja slíkan þunga í stuðning sinn eins og hann gerði á þessum fundi.

Ég hef hitt nokkra eftir þennan fund og allir sem sátu hann eru sammála um það að séra Gunnlaugur Garðarsson kom þeim yndislega á óvart með sínu skörungslega innleggi. Ég held að ég megi þess vegna fullyrða að það eru fleiri sem finna huggun í því að eiga svo sterkan stuðningsmann!

Eins og áður segir var þetta virkilega vel heppnaður fundur. Hann var líka tekinn upp bæði af kvikmyndatökumanni á vegum borgarafundarnefndarinnar frá Reykjavík og RÚV. Við sem stóðum að fundunum fannst mat fréttadeildarinnar hjá RÚV mjög sérkennilegt þar sem mest var gert úr því að í landráðakafla íslensku laganna væri hæpið að finna neitt sem næði yfir glæpinn sem þjóðinni er ætlað að líða fyrir en þær sláandi staðreyndir sem Andrés benti á látnar liggja á milli hluta.

Ég reikna með að myndbandið sem var tekið upp fyrir borgarafundarnefndina verði sett inn á Netið en hef ekki frétt að af því hafi orðið enn. Í lok fundar drifu flestir nefndarmenn sig heim á leið enda áttu sumir um langan veg að sækja þangað. Við vorum samt nokkur sem tókum okkur saman og fögnuðu þessum merka áfanga í sögu borgarafundanna með því að fara út að borða á Greifanum sem er eitt vinsælasta veitingahúsið hér. Þar bar auðvitað ýmislegt á góma sem varðar ástandið í samfélaginu.
Borðað saman á Greifanum Á myndinni eru Helga, Gunnar Skúli, Björg, Berglind, Sigurjón og Edward. Mig langar til að nota tækifærið og þakka þeim sem komu alla leið að sunnan til að vera viðstödd fundinn fyrir að heiðra okkur með áhuganum sem kemur ekki síst fram í því að þau lögðu á sig allt þetta ferðalag.

Es: Myndina af heimasíðu Seðalbankans er að finna hér og skýrslan er ekki bara í vihengi heldur líka hérna.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þakka þér kærlega fyrir þessa greinargóðu fundargerð Rakel.  Þetta var flott úttekt hjá þér.  Fréttamat RÚV er á stundum alveg stórfurðulegt.

Sigrún Jónsdóttir, 14.2.2009 kl. 09:59

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

"vitsuguferli" flott orð, Harry Potter tilvísun. Annars tek ég undir það hjá þér að okkur í landráðahópnum tókst ekki að koma pælingum okkar nógu vel til skila. Stafar líklega af því að frummælendur vöktu meiri athygli en það sem við höfðum að segja. Kom mér á óvart tregða lögfræðingana til að fara djúpt í ákvæði laganna um landráð því þau eru afdráttarlaus. Annars flottur pistill hjá þér.

Ein spurning: Af hverju bauðstu mér ekki á Greifann?

Arinbjörn Kúld, 14.2.2009 kl. 11:16

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það var engum boðið Arinbjörn minn! Ég var búin að stinga upp á þessu í bréfi sem ég sendi á alla í undirbúningsnefndunum. Gunnar Skúli stakk svo upp á að við létum verða af þessu þegar allir voru staðnir upp og margir farnir. Ég vona að þú sést ekki sár

Miðað við hvernig lögin hljóða þá sýnist mér það vera rétt hjá Margréti og Atla að þau duga ekki til að ná utan um glæpinn. A.m.k. ekki ein og sér. Annars er ég ekki með lögfræðimenntun eins og þau þannig að ég treysti mér ekki að segja af eða á um það. 

Ég fann ekki þessi lög í lagasafninu. Langaði til að hafa krækju í þau í færslunni eins og þau um ráðherraábyrgðina. Þú getur kannski bætt úr því eða bent mér á hvað þau heita í lagasafninu svo ég geti bætt krækjunni við.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.2.2009 kl. 11:30

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég er pínu sár  Ég vissi ekki af þessari hugmynd  Annars er ég furðufljótur að jafna mig   

Lögin sem um ræðir eru almenn hegningarlög nr. 19 frá 1940, nánar tiltekið kafli X og kafli XI.

Lögin eru svo hér: http://www.althingi.is/lagas/136a/1940019.html

Ef þú lest greinina mína á smugunni þá eru þau atriði í lögunum sem skipta máli feitletruð og fjallað um það í greininni og fært rök fyrir því. Sjá hér: http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/500 

Erum við svo bara ekki kúl?

Arinbjörn Kúld, 14.2.2009 kl. 13:07

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir fundargerðina. Ég fylgdist með aðdraganda fundarins hér í Reykjavík og sat fund með Lilju Skaftadóttur og fl. Lögfræðingar virðast æði tregir til þess að túlka atferli inn í lög sem hafa legið ónotuð. Kannski finnst þeim það of róttækt en það þykir ekki fínt í lögfræðinni að vera róttækur.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.2.2009 kl. 14:15

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Arinbjörn: Þú mátt ekki stríða mér með því að þú sést sár því ég tek það nærri mér Þetta var reyndar mín hugmynd upphaflega og snerist um það að þeir sem komu að sunnan færu út og borðuðu með nefndinni hér á Akureyri.

Þegar hugmyndin kom svo fram í lok fundarins hugsaði ég ekkert út í það að tala við þig eða Margréti Heinreksdóttur sem voru þau einu héðan og höfðuð þess vegna aldrei heyrt af hugmyndinni. Ég efast reyndar um að það hafi nokkur þar heyrt af henni nema Sigurjón sem er bróðir Helgu sem er í undirbúningsnefnd borgarafundanna í Reykjavík.

Ég var búin að lesa greinina þína en leit á hana aftur og sé að þú nefnir eina grein sem Margrét nefndi ekki en það er 100. greinin. Margrét nefndi líka grein 92 2. mgr. í sambandi við Íraksstríðið.

Jakobína: Mér skilst að laganámið hér á Íslandi snúist að mestu um það að kenna lögin eins og kennistetningar eða m.ö.o. þau eru eins og kennisetningar trúarbragðanna og þess vegna hafin yfir alla gagnrýni og vafa. Það virðist viðtekinn hugmynd að ef einhver lögfræðingur gagnrýnir eða efast um lögin þá hafi sá hinn sami afneitað lögunum og gert sig tortryggilegan um leið.

Þetta á örugglega líka við um það ef einhver les eitthvað annað út úr lögunum en það sem er samkvæmt viðtekinni venju. Ég er voðalega hrædd um það að við náum ekki rétti okkar gagnvart þessum mönnum með því að sækja málið frammi fyrir íslenskum dómstólum eingöngu. Við verðum að fá aðstoð erlendra lögspekinga og sennilega að skipa erlenda dómara líka til að eiga von um að allrar sanngirni verði gætt þegar til kemur að því að þessir „landráðamenn“ verða sóttir til saka.

Ég frétti af því að þú værir að vinna með nefndinni að undirbúningi þessa fundar og bað fyrir kveðju til þín þar sem ég hvatti þig til að koma Veit ekki hvort hún skilaði sér en henni er a.m.k. komið á framfæri núna. Vil líka þakka þér fyrir þína hlutdeild í því að gera þennan fund að veruleika!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.2.2009 kl. 14:41

7 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Æi Rakel, það var ekki ætlun mín að særa einn né neinn. Ég biðst forláts hafi ég komið inn sektarkend.  Ég var bara að reyna vera pínustríðin - ég á það til.

Arinbjörn Kúld, 14.2.2009 kl. 16:24

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gott að fá það staðfest

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.2.2009 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband