Já, auðvitað stend ég með hetjunum á Austurvelli!
21.1.2009 | 05:50
Klukkan korter í níu fékk ég svohljóðandi SMS: Mæta á Torgið NÚNA! og auðvitað mætti ég! Í kuldagallanum með gamla pönnu og lítinn hamar til að slá taktinn fyrir nýju lýðræði. Ég var mætt rétt rúmu korteri eftir að kallið kom.
Tildrög þess að við söfnuðumst saman voru þau að einni blöskraði svo það sem hún sá og heyrði af hundsuninni og ofbeldinu sem mótmælur á Austurvelli þurftu að þola að hún ákvað að gera eitthvað í málunum. Hún ákvað að leggjast í símann og kalla fólk saman til að sýna þeim þar samstöðu. Auðvitað voru einhverjir tilbúnir til þess! Þar á meðal ég.
Það voru um tíu manns þegar mættir þegar mig bar að. Margir höfðu tekið með sér ílát eða pottlok og eitthvað ásláttaráhald. Ég eftirlét Þórarni Hjartarsyni hljómgjafana mína og mundaði símann og ljósmyndavélina á meðan hann fann hljómkviðu nýrra tíma.
Við vorum fá í byrjun en það skipti okkur ekki máli. Við vorum saman komin til að sinna brýnu erindi. Erindi þjóðarinnar sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar beita þvílíkum rangindum að það er farið að vekja athygli í nágrannalöndum okkar. (Sjá t.d. hér)
Ég ætti kannski frekar að segja ekki þjóðarinnar því enn eru það einhverjir sem halda því fram að við sem mótmælum göngum ekki erinda þjóðarheildarinnar. Þrátt fyrir sístækkandi hóp afvinnulausra, niðurskurð í heilbrigðisþjónustu, niðurskurð í menntakerfinu og 15 vikna aðgerðaleysi stjórnvalda gagnvart þeim sem settu landið á hausinn þá eru það enn einhverjir sem reyna að telja sjálfum sér trú um að það séu mótmælendur sem fari fram af ósanngirni.
Þeir hinir sömu eru enn að verja afstöðu sína með árórðrinum sem fulltrúar stjórnvalda hafa miðlað í gegnum fjölmiðlanna um þennan stórhættulega þjóðflokk. Ekki þjóðina sem hefur djörfung og dug til að krefja lýðræðiskjörna fulltrúa landsins um að axla þá ábyrgð sem þeim var fólgin. Fulltrúa sem hafa sýnt það og sannað að þeir eru gjörsamlega vanhæfir til að verja hag þjóðarheildarinnar á ögurstundu. Þess vegna ber þeim að víkja!
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar fegnu tækifæri til að hreinsa til í stjórn Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og stóru bankanna þriggja. Þeir gripu það ekki og þess vegna verða þeir allir að fara! Það eru engin skrílslæti í slíkri kröfu. Það er lýðræðisleg krafa! Það er réttlætiskrafa! Það er krafa hugsandi einstaklinga sem eru orðnir úrkula vonar um að þingið ætli að taka á efnahagsvandanum með velferð heimilanna í landinu að leiðarljósi.
Hver var líka dagskrá þingsins í dag? Hver voru viðbrögð forsætisráðherra við gagnrýni stjórnarandstöðuþingmannanna sem nenntu að hafa fyrir því að setja út á framkomu hans gagnvart lýðræðinu? Það eru tveir þingmenn sem mér finnst að eigi skilið virðingu þjóðarinnar eftir daginn í dag. Það eru þær Katrín Jakobsdóttir og Álfheiður Ingadóttir. Það voru einu þingmennirnir sem sýndu hug sinn í verki og komu fram sem gegnheilar manneskjur þegar þær gegnu út úr þinghúsinu og sameinuðust mótmælendunum sem söfnuðust saman á Austurvelli í dag.
Mótmælendurnir sem söfnuðust saman á Ráðhústorginu á Akureyri í kvöld sýndu ekki aðeins samstöðu sína með því að safnast saman og berja hljómbær búsáhöld. Þeir kveiktu líka varðeld.
Við sungum líka saman undir stjórn Þórarins. Við sungum Fram, fram fylking og Maístjörnuna. Einhverjir hringdu suður og náðu sambandi við mótmælendur þar. Við vildum láta þá vita að við stæðum með þeim. Einn sem ég hringdi í hélt að ég væri mætt á Austurvöll.
Það sem hann heyrði í gegnum símtólið bar honum sömu stemmingu og var þar. Það gladdi mig. Það gladdi mig að ein okkar hafði af eigin frumkvæði kallað okkur saman. Að við höfðum hlýtt kalli hennar. Að við vorum samtaka. Það gefur mér vissulega von hvað við sem mótmælum stóðum þétt saman í kvöld.
Þegar leið á kvöldið fréttum við að fólk var farið að safnast saman á Ísafirði og á Egilsstöðum. Það hlýtur að segja sig sjálft að það þarf eitthvað mikið til, til að fólk stökkvi upp úr sófunum sínum á þriðjudagskvöldi til að safnast saman með litlum sem engum fyrirvara. Það þarf líka eitthvað mikið til, til að fólk standi í kringum 14 tíma mótmælavakt eins raunin varð á í Reykjavík. Einhverjir töluðu m.a.s. um að standa vaktina þar í nótt. Það ætti að blasa við að ekki þjóðin hefur verulegar áhyggjur enda fullt tilefni til!
Upp úr klukkan tíu fjölgaði verulega í hópi mótmælenda sem stóðu vaktina á Ráðhústorginu hér á Akureyri. Einhver sagði að mannfjöldinn væri kominn yfir hundrað. Hópurinn stóð hringinn í kringum eldinn sló taktinn, söng og hrópaði á víxl. Við hrópuðum eftir lýðræði. Þegar leið á kvöldið komu líka þessir tveir og bættu taktinn sem var sleginn nær sleitulaust þá tæpu þrjá klukkutíma sem við vorum á Torginu. Búsáhaldahljómsveitin hljómaði vissulega betur með þeirra viðbót.Svo hélt Sigurbjörg Árnadóttir, eða Sibba eins og við köllum hana hér fyrir norðan hélt ræðu. Og þvílík ræða! Hún fékk líka frábærar undirtektir. Hún sagði svo margt af því sem okkur liggur á hjarta þessa daganna. Krafturinn í flutningi hennar og undirtektir hópsins leystu ábyggilega einhverja krafta úr læðingi.
Rúmlega hálftólf þakkaði Valgerður Bjarnadóttir öllum viðstöddum fyrir skjót viðbrögð við þessu brýna erindi. Hún kvaddi alla með því að segja að ef ríkisstjórnin verði ekki búin að segja af sér fyrir klukkan 17:00 á morgun þá verður mótmælunum framhaldið á þeim tíma á morgun. Auðvitað mætum við.
Á rúmum tveimur og hálfum tíma höfðu rúmlega hundrað manns safnast saman á Torginu því er viðbúið að við verðum fleiri á morgun þar sem fyrirvarinn er lengri. Það eru auðvitað allir velkomnir að leggja okkur lið við að ná athygli ríkisstjórnarinnar og fá fulltrúa hennar til að hlusta.
Samstöðumótmæli á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er hjartanlega sammála þér, þið eruð hetjur, og ég er mjög svo hrærður yfir baráttugleði míns fólks hér fyrir sunnan, og auðvitað þið, mitt fólk fyrir norðan. Haldið þessu áfram til að knésetja ríkisstjórnina, áfram mitt fólk ! Minnni alla á bloggsíðuna mína www.joiik.blog.is. Endilega kíkið þangað inn.
Jóhann Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 07:52
Mér finnst þetta svo sem alveg ágætt framtak, þessi mótmæli alltsvo, en þegar fólk kemur saman og mótmælir verður það að átta sig á einu mikilvægu sem kemur allt of sjaldan fram, það er að mótmælendur eru að mótmæla fyrir sig, en ekki mig t.d
þannig að niðurstaðan er augljós.
Þetta er ekki þjóðin sem talar.
Arnar Hólm Ármannsson, 21.1.2009 kl. 09:50
Takk fyrir innlit og athugasemdir strákar; Jóhanni stuðninginn og Arnari ábendinguna.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2009 kl. 00:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.