Mótmælafundurinn á Akureyri
17.1.2009 | 22:02
Það hefur skapast hefð fyrir því að mótmælendur hér á Akureyri safnast saman fyrir framan Samkomuhúsið þar sem Leikfélag Akureyrar er til húsa. Miðað við þann fjölda sem var mættur þar þegar mig bar að þá varð ég bjartsýn á að við yrðum óvenjumörg sem myndum sameinast um að mótmæla í dag. Vonir mínar í því efni brugðust en fjöldinn varð svipaður og sl. laugardag.Frá Samkomuhúsinu ganga mótmælendur flykktu liði inn á Ráðhústorg. Fáni Byltingar fíflanna hefur yfirleitt alltaf verið með. Auk hans var Þráinn Karlsson með fána Tryggva Emilssonar úr Fátæku fólki og einhver gekk með fána íslenska lýðveldisins. Mótmælendaspjöldunum er líka alltaf að fjölga. Í dag hafði nokkrum spjöldum með slagorðum gegn niðurskurði í menntakerfinu verið bætt við. Fókusinn í mótmælunum í dag var nefnilega settur á hann.
Það eru ekki allir jafnstundvísir þannig að gjarnan bætist í hóp þeirra sem taka þátt í mótmælunum á leiðinni niður á Torg. Í dag tók ég sértstaklega eftir hópi karlmanna sem helltu sér inn í hópinn en þeir töluðu saman á ensku. Þeir nýkomnu spurðu félaga sína hverju væri verið að mótmæla og hvað stæði á spjöldunum? Í framhaldi af svörunum sem þeir fengu spurðu þeir af hverju mótmælin væru svona þögul?
Það er sennilega ofur eðlileg spurning? Af hverju erum við svona þögul? Af hverju göngum við saman í þessari þögn? Við höfum ærna ástæðu til að hafa hátt og hrópa eftir réttlætinu þar sem við erum réttlætissinnar í baráttu gegn ranglátri siðspillingu. Okkur er ætlað að bera fórnarkostnaðinn af útrásargóðærinu í fomi margháttaðrar kjaraskerðingar. Við þurfum ekki aðeins að sporna gegn þessu ósvífna ranglæti. Við þurfum líka að varpa af okkur því andlega oki sem þessi dólgslega framkoma hefur lagt á okkur.
Í þögninni liggur okið á herðum okkar þar sem við göngum saman. Við gætum kannski varpað því af okkur með því að kyrja saman kyngimagnaða texta þessa leið frá Samkomuhúsinu inn á Ráðhústorg? Sá einn ágætan hér á blogginu um daginn sem ætti e.t.v. vel við ef einhver treystir sér til að semja við hann lag. Hérna er textinn:
Var það þess virði
þú víkingur útrásarinnar
að láta land þitt að veði
svo legið þú gætir á allsnægtabeði
og kjamsað á ávöxtum ágirndar þinnar?
Var það þess virði
að veðsetja allt sem er dýrast
hneppa þjóð þína í helsi
hrifsa burt stolt hennar, manndóm og frelsi
svo aleinn þú fengir í höllum að hírast?
Var það þess virði
að veita þér allt sem þú þráðir
ánetjast gleði og glaumi
gjálífið þreyja í óminnisdraumi
uppskeru njóta, þó engu þú sáðir?
Var það þess virði
að verða svo sjúklega ríkur
að eignast allt þetta glingur?
Er ekk'í hjarta þér dulítill stingur?
Því sá á jú ekkert sem yndið sitt svíkur.
Á Torginu flutti Þráinn Karlsson, leikari, stutt hvatningarávarp og Ragnar Sigurðsson, formaður Félags stútdenta við Háskólann á Akureyri, flutti ræðu þar sem hann vakti athygli á framkomu menntamálayfirvalda og fulltrúa Lánasjóðsins við íslenska háskólastúdenta.
Vissuð þið t.d. að neyðarlánin, sem námsmönnum var lofað í kjölfar bankahrunsins sl. haust, komu fram í því að aðeins sjö af 140 umsækjendum fengu úthlutað slíkum lánum!?! Hvernig ætli þessir sjö hafi verið valdir úr? Ætli valið hafi farið eftir því hvaða sjö voru verst staddir? Eða ætli þessir sjö, sem fengu úthlutun, hafi verið valdir eftir flokks- og ættartengslum?
Það væri a.m.k. forvitnilegt að vita hverjir þessir sjö eru til að ganga úr skugga um það hvort slíkir hagsmunir skipta líka máli þegar kemur að möguleikum til náms...
Víða mótmælt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.1.2009 kl. 00:20 | Facebook
Athugasemdir
Tryggva Emilssonar, vildirðu sagt hafa.
Hallmundur Kristinsson, 17.1.2009 kl. 23:42
Þessir gaurar voru franskir og þ.a.l. hálfgerðir atvinnumótmælendur ;) Og kannski ekki skrýtið að þeir undruðust þögnina :D
Sóley Björk Stefánsdóttir, 17.1.2009 kl. 23:43
Spilling, yfirgangur og óskammfeilni yfir valda er slík að það er ekki til nógu ljótt orð til þess að lýsa þessu
Takk fyrir pistilinn Rakel
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 17.1.2009 kl. 23:53
Takk fyrir innlit og innlegg og Hallmundur þakka þér kærlega fyrir ábendinguna. Nú brýt ég ákaft heilann um það hver þessi Friðrik Emilsson er? Rekur ekki minni til að ég þekki neinn
Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.1.2009 kl. 00:24
Gamall kærasti (sem þú ert búin að gleyma),manneskja, hvað annað?
Hallmundur Kristinsson, 18.1.2009 kl. 00:41
Hallmundur þó! Þó ég eigi einhverja slíka, og ábyggilega búin að gleyma einhverjum líka, þá get ég lofað þér að enginn þeirra hét þessu nafni. En fyndin athugasemd samt sem þú hefur greinilega ekki getað setið á þér með að lauma hérna inn
Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.1.2009 kl. 00:45
Það hlýtur að vera bróðir Tryggva.
Það er nú óþarfi að skamma þá sem mæta, þó að þeir gali ekki úr sér lungun. Þökkum þeim frekar og mótmælaspjöldin eru mörg kröftug. Meira um vert er að fá fleiri til að mæta.
Þökkum fyrir það að nú þessi hefð loksins að myndast og mótast hér á Íslandi og er það vel fyrir lýðræðið.
Auðvitað er það gott að fólk sé líflegt og láti vel í sér heyra og það mun koma. Ég mæti galvaskur nk. laugardag.
Jóhann G. Frímann, 18.1.2009 kl. 01:00
Var ekki að skamma neinn Jóhann. Fannst þetta bara skemmtilegar vangaveltur hjá þeim sem Sóley benti á að væru Frakkar Ákvað svo svona í framhaldinu að vekja athygli á þessum texta af því mér finnst hann góður. Verst að ég veit ekki eftir hvern hann er...
Vertu svo velkominn í mótmælin
Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.1.2009 kl. 01:22
Við erum svona þögul vegna þess að við erum ennþá tamin af valdhöfum. Við erum feimin við að gera okkur að fífli með því að æpa á götum úti. Að fólk mundu hlæja að okkur fyrir að hrópa sannleikann. Bilað.
Vésteinn Valgarðsson, 18.1.2009 kl. 22:49
Góður punktur Vésteinn og réttmætur. Það reynist mörgum erfitt að sigrast á spéhræðslunni en við sem mótmælum erum vonandi að ryðja brautina fyrir þeirri hefð að komandi kynslóðir muni aldrei láta spéhræðsluna halda aftur af sér þegar á þeim er brotið heldur mótmæla hiklaust og óttalaust!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.1.2009 kl. 00:02
Þessi þögn á eftir að breytast í öskur ef ekkert lætur undan hjá stjórnvöldum. Legg til að við mótmælum fyrir utan Landsfundinn hjá Sjálfstæðismönnum. Kannski fer Geir þá að skilja að hann kemst ekki upp með þetta.
Ævar Rafn Kjartansson, 19.1.2009 kl. 12:15
Það er frábær hugmynd Ævar! Er engin slík í undirbúningi?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.1.2009 kl. 15:14
Engin sem ég veit um.
Ævar Rafn Kjartansson, 19.1.2009 kl. 17:00
Ég myndi bjóðast til að undirbúa slíka uppákomu með þér ef ég væri ekki á Akureyri. Hér er ég líka allt í einu komin út í að standa í miklu meiru en ég ætlaði mér. Þ.e.a.s. ég er komin í einhver afskipti og skipulag sem ég var eiginlega búin að lofa sjálfri mér að koma ekki nálægt Sumir eru bara þannig að þeir geta aldrei hamið sig þegar þeir fá tækifæri til að ráðskast svona nánast upp í hendurnar
Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.1.2009 kl. 19:32
He he, ég held að vísu að það þurfi meiri bóg en mig í þá skipulagningu enda er ég komið að þeim punkti að þurfa að takast á við atvinnumissi og fjárhagserfiðleika fram yfir það að hella mér meira út í mótmælin. En hugmyndin er góð engu að síður. Ég ætla meira að segja að setja bloggbann á mig og mína reiði næstu vikuna allavega.
Ævar Rafn Kjartansson, 19.1.2009 kl. 20:29
Miðað við skrifin þín þá er hugurinn skarpur, hugmyndafræðin skýr og sýn þín á tilveruna í björtum og fallegum litatónum réttsýni og sanngirni. Þú þarft ekki meira til fá einhverja til að skipuleggja mótmæli með þér. Sjálf er ég hvorki þung né hávaxin og ekki einu sinni neitt sérstaklega hávær Samt lendi ég alltof oft í því að vera farin að bera ábyrgð á einhverju sem ég ætlaði bara að fá að fljóta með í.
Ef þú kannast ekki við Sigurlaugu Ragnarsdóttur þá bendi ég þér á að hafa samband við hana í gegnum Raddir fólksins. Hún er dugleg við að koma fólki saman sem deila hugmyndum og þannig hefur ýmislegt orðið að veruleika sem fyrst fæddist bara sem hugmynd. Ég er viss um að hún myndi fagna þessari hugmynd þinni um mótmæli í kringum landsfund hugmyndafræðinganna sem komu okkur út í þetta fen! Ég er líka viss um að það er fullt af fólki sem vildi standa að mótmælum af þessu tilefni.
Ég hlýt að hafa lesið um atvinnuleysi þitt á blogginu þínu því ég vissi af því. Það og æðrulaus skynsemin í skrifum þínum gefur mér þá útkomu að þú sést miklu meiri bógur en þú viðurkennir sjálfur. Sendi þér stuðnings- og baráttukveðjur!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.1.2009 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.