Undir lok ársins

Þessu merkilega ári er senn að ljúka. Árinu með ártalinu sem er hægt að leggja saman og fá út töluna einn. Árið sem ég heyrði svo oft, svo víða og frá svo mörgum að myndi boða eitthvað sérstakt... man það ekki allt í smáatriðum enda bar ekki öllum saman... 

 

Sumir sögðu að þetta yrði ár uppgjörs og breytinga. Aðrir að þetta yrði uppskeruár þeirra sem höfðu lengi unnið hörðum höndum að því að ljúka stórum verkefnum. Einhverjir sögðu að þetta væri árið sem markaði upphafið á einhverju mikilvægu og nýju. Völva Vikunnar spáði umbrotaári á sviði efnahags- og stjórnmála:

"Það kæmi mér alls ekki á óvart þótt allt springi í loft upp hjá ríkisstjórninni á árinu og boðað verði til nýrra kosninga. Mér sýnis sambræðingur vinstri aflanna verði fyrir valinu„ [...]

Völvan er ekki bjartsýn þegar kemur að efnahagsmálum. Hún segir fjármálakreppu framundan og spáir miklum sveiflum á gengi krónunnar. Völvan segir að óráðlegt sé að taka upp evru en leggur frekar til að á Íslandi verði tekin upp sænsk króna eða kanadískur dollar.

Þá spáir Völvan því að eitt stórt svikamál í fjármálaheiminum komi upp á yfirborðið á árinu [...].

Að lokum má nefna að Völvan spáir því að Ólafur Ragnar muni hætta sem forseti á næsta ári [...] (sjá nánar hér)

 

16. október sl. var þessi spá rifjuð upp í DV og áhersla lögð á að Völvan hafði líka sagt að: „Það mun næða um Seðlabankann. Ég sé stríð milli Davíðs og fjármálamanna. Mér finnst líka hluti ríkisstjórnar blandast í það.“ Sama hverju maður trúir í sambandi við spádóma og annað þvíumlíkt er ljóst að margt af því sem völva Vikunnar sagði fyrir um þetta ár hefur komið fram.

 

VölvaÉg veit að ég á eftir að muna eftir þessu ári. Ég man eftir mánudeginum 29. september þegar matartíminn í vinnunni logaði í umræðunum um hrun Glitnis. Í kjölfarið gerðist eitthvað hjá sjálfri mér sem sér ekki fyrir endann á.

 

Ég hafði sem sagt lengi alið innra með mér sjálfri vonlausa óánægju yfir þeirri stefnu sem hefur verið ofan á í íslensku samfélagi undangengna áratugi. Ég hafði byrgt þessa óánægjurödd inni í búri minnar eigin þagnar því ég fann henni ekki nægilega sterkan samhljóm.

 

Fréttir mánudagsins 29. september kveiktu með mér margar blendnar tilfinningar. Það var þó engin þeirra góð. Raunveruleiki þessara frétta og fréttanna í kjölfarið voru líka verri en það sem ég hafði óttast.

 

Ég hafði óttast að vegurinn sem efnahags- og samfélagsmálin höfðu troðið yrði engum til góðs en ég þorði aldrei að leiða hugann að því að hann myndi beinlínis svipta hóp fólks grundvellinum að mannsæmandi lífi og þjóðina ærunni.

 

Árið varð vissulega viðburðarríkt í heimi íslenskra fjár- og stjórnmála en það sem gerir þetta ár eftirminnilegast í mínum huga er sú samstaða sem atburðir seinni hluta ársins hratt af stað. Það er þess vegna ekki efnahagshrunið í sjálfu sér sem situr efst í huga mínum þegar ég lít yfir árið sem er nú senn á enda heldur þeir kraftar sem það leysti úr læðingi.

 

Það er ljóst að þeir eru miklu fleiri en ég sem hafa byrgt inni óánægju sína yfir því hvert við stefnum. Sumir höfðu vissulega látið í sér heyra. Voru m.a.s. iðnir við að vara við stefnu stjórnvalda á ýmsum sviðum bæði í ræðu og riti og hafa jafnvel mótmælt og þá helst stefnunni í stóriðjumálum þjóðarinnar. Því miður voru þeir fáir sem veittu þessum röddum nokkra athygli en atburðir haustsins hafa leitt stóran hluta þessa hóps til virkrar samstöðu.

 

Sumir hafa lyft grettistaki og leitt borgara- og mótmælafundi viku eftir viku frá miðjum október. Ótrúlega margir hafa birt hug sinn og afstöðu í ræðu á þessum fundum. Þó nokkrir hafa komið fram í fjölmiðlum og sagt hug sinn þar. Það sem vekur auðvitað furðu í þessu sambandi er að flest stendur þetta fólk fyrir utan beina þáttöku í efnahags- og stjórnmálum þjóðarinnar. Þeir sem gegna forystu á þessu sviði þegja hins vegar þunnu hljóði og í versta falli taka þeir þátt í að hylma yfir þá spillingu sem hefur leitt þjóðina út í núverandi þrotabússtöðu.

 

Það má ekki gleyma þeim sem hafa mætt á mótmælenda- og borgarafundi ársins sem er að líða því þessir fundir hefðu aldrei orðið það sem þeir hafa orðið í reynd án þátttökunnar. Við höfum staðið vaktina á ýmsum vígstöðvum en vaka alls þessa hóps leyfir mér að vera bjartsýnni þrátt fyrir allt. Ástæðan er ekki síst sú að ég veit núna að það eru svo miklu fleiri en ég sem láta sér ekki standa á sama.

 

Ég hef heyrt og lesið bergmál minna eigin hugsanna hjá svo mörgum og þess vegna veit ég að ég hef aldrei, er ekki og mun aldrei vera ein um skoðanir mínar um aukin jöfnuð og réttlæti. Í raun erum við svo mörg að ég skil tæpast í því að við skulum búa í samfélagi sem er eins og það sem við lifum í, í dag. En það er önnur saga...

 

Þegar ég horfi yfir atburði ársins 2008 þá er svo margt sem kemur upp í hugann. Það sem stendur þó upp úr er allt það stórkostlega fólk sem ég hef hlustað á og kynnst í gegnum mótmæla- og borgarafundina. Þess vegna kveð ég þetta ár með þakklæti og bjartsýni í huga. Það er enginn tregi þó vissulega sæki að mér nokkur sorg.

 

Tár af himnumSorgin stafar þó ekki af því að þetta ár sé senn á enda heldur því sem það leiddi í ljós. Það eru þó fyrst og fremst aðgerðir og aðgerðarleysi stjórnvalda og forystumanna í þjóðfélaginu sem valda mér hryggð. Ég ætla hins vegar að trúa því að samtakamáttur þjóðarinnar uppfylli spádóm völvu Vikunnar um að ríkisstjórnin fari von bráðar frá. Það gerist tæplega á þessu ári en það gerist vonandi fyrir næsta vor. Sennilega taka þau fleiri spillingarefi með sér í fallinu.

 

Ég ætla ekki að draga úr því að blikurnar sem liggja í loftinu við lok þessa árs eru ákaflega svartar og drungalegar en ég vil ekki leyfa mér að láta þær draga úr mér kjarkinn. Sannleikurinn er nefnilega sá að ég hef fundið til endurnýjaðs kjarks í gegnum þá mótmælendur sem ég hef kynnst bæði á fundum ársins og hér á blogginu. Allar þær mótmælahetjur sem ég hef borið gæfu til að kynnast á síðustu mánuðum þessa árs fylla mig hetjulund og endurnýjaðri von.

 

Þess vegna ætla ég að vera bjartsýn fyrir næsta ár. Þó ég treysti mér ekki til að spá fyrir um atburði þess þá tel ég að við munum halda áfram að mótmæla. Við megum ekki gefast upp. Við verðum að halda áfram ef við ætlum að eiga einhverja von um sanngirni og breytingar. Ég hef kynnst þolgóðum mótmælendum sem ég treysti til að halda baráttunni um þetta á lífi.

 

Ég vil trúa því að við höfum markað mikilvæg spor á árinu 2008. Mörg okkar hafa staðið frammi fyrir ákveðnu uppgjöri í kjölfar bankahrunsins. Ég fann samhljóm skoðanna minna og ákvað að taka þátt í aðgerðum sem miða að því að krefjast ábyrgðar, sanngirni og breytinga. Sumir stóðu frammi fyrir því að neyðast til að taka afstöðu og tóku þeirri áskorun. Einhverjir endurskoðuðu stefnuna sem þeir höfðu fylgt hingað til, kvöddu hana og tóku upp algjörlega nýja.

 

Það sem er þó mikilvægast í þessu öllu saman er það að stór hópur fólks tók ákvörðun um að krefjast þess að forystumenn þjóðarinnar taki ábyrgð. Þessi hópur hefur mótmælt ósanngirninni og siðleysinu sem þjóðinni hefur verið boðið upp á. Í sem stystu máli þá viljum við henda út því gamla sem virkar ekki lengur og taka upp nýtt kerfi til að byggja upp réttlátara samfélag.

 

Næsta ár höldum við áfram á þessari leið. Það mun reyna á þol okkar eins og hingað til. Ég treysti mér ekki til að segja hversu lengi við þurfum að mótmæla en það er útlit fyrir að okkur muni fjölga. Fjöldinn hlýtur að auka vægi krafna okkar og leiða okkur til sigurs. Ég trúi því þess vegna að sporin sem við mörkuðum á þessu ári muni leiða okkur að betri tímum.

 

Árið 2008 leiddi það svo sannarlega í ljós að við getum ekki treyst núverandi stjórnvöldum fyrir hagsmunum allrar íslensku þjóðarinnar. Þetta er vissulega afar sorgleg staðreynd en hún varð að koma upp á yfirborðið og þess vegna ber að fagna því að af því hafi nú orðið. Ég fagna þó einkum viðbrögðunum sem þessar staðreyndir kölluðu fram hjá stórum hluta þjóðarinnar.

 

Það er vegna þessa hóps sem ég er þakklát fyrir þetta ár og það er þess vegna sem mig langar til að nota þennan vettvang hér til að þakka fyrir árið sem er að líða. Ég er þeim sérstaklega þakklát sem hafa sýnt óbilandi dug og óeigingirni við að undirbúa og halda utan um borgara- og mótmælendafundi liðins ár og ég vona að þeir haldi starfi sínu eins lengi áfram og þörf krefur.

 

Ég er líka þakklát þeim sem hafa stutt hag þjóðarinnar í ræðu og riti bæði þar og á öðrum opinberum vettvangi. Ég er ekki síður þakklát þeim staðföstu og þolgóðu mótmælendum sem hafa staðið vörð um þjóðarhaginn með nærveru sinni á liðnum fundum. Ég vona að þessir haldi allir áfram að sýna málstaðnum stuðning sinn og að fleiri bætist við.

 

Að lokum langar mig til að nota þennan vettvang til að senda bloggvinum mínum sérstaklega hlýjar áramótakveðjur og þakkir fyrir einstaka viðkynningu á árinu sem er að líða. Það hefur verið ómetanlegt að kynnast þessum vettvangi á þessum tímum. Ég þakka ykkur fyrir skrifin ykkar, athugasemdir og hlýjar kveðjur og hvatningu sem ég hef fengið frá ykkur og öðrum sem hafa rekist inn á bloggið mitt.

 

Á nýju ári óska ég ykkur dugs, þors, styrks og kjarks! Ég óska okkur öllum gæfu og gengis í þeirri sanngirnis- og réttlætisbaráttu sem við eigum fyrir höndum. Baráttan er bara rétt hafin. Það sem af er höfum við sýnt að við getum staðið saman. Við höfum sýnt að við við sættum okkur ekki við hvað sem er. Við höfum sýnt að við höfum viljann og staðfestuna til að mótmæla og fylgja kröfum okkar eftir. 

 

Við vitum að íslenskur almenningur á það sameiginlegt að hann á að borga falsgóðæri fámennrar auðmannastéttar sem ríkisstjórnin hefur slegið skjaldborg sinni utan um. Þó okkur kunni að greina á um einstök atriði hvað varðar aðgerðir og leiðir ætti öll íslenska þjóðin að sameinast um að mótmæla slíku óréttlæti! Næsta ár verður baráttuár þannig að okkur veitir ekki af liðstyrknum og öllum góðum óskum til gæfu og gengis!

Áramótaflugeldar

Megi árið 2009 verða árið þar sem skilningurinn á lýðræðinu verður reistur úr öskustónni. Þar sem kröfur um ábyrgð og siðferði embættismanna þjóðarinnar verða festar í lög. Þar sem íslensk lög verða notuð til að verja réttlætið en ekki ranglætið. Þar sem sanngirnin og réttlætið verður endurvakið. Þar sem mannauðurinn verðu settur ofar auðmagninu.

 

Megi þetta verða svo íslenska þjóðin eigi framundan mörg gæfurík og gleðileg ár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er frábær grein hjá þér Rakel, sú besta sem þú hefur skrifað hingað til. Ég mæli með því að þú leyfir fleirum að sjá hana, þú getur td. sett hana "inn um lúguna" hjá eyjan.is

Þórður Grétarsson (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 20:16

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tja, nú er ég hissa en mér finnst samt vænt um að þér skuli finnast það Ég þakka þér líka fyrir ábendinguna. Þarf að velta þessu fyrir mér... ekki það að auðvitað birti ég ekkert hér nema það sem allir mega lesa.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.12.2008 kl. 21:04

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þakka þér fyrir Rakel góðar hugleiðingar og fallegar myndir. Ég spái því fyrir árið 2009 að valdið muni verða samt við sig og reyna að afvegaleiða almenning. Æ fleiri munu þó fylla hóp hinna vantrúuðu og fara að draga boðskap valdsins í efa. Þakka þér einlægni og vínáttu á árinu.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.12.2008 kl. 23:18

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér sömuleiðis Jakobína! Þú ert einn af þeim dýrmætu bloggvinum sem ég hef eignast á árinu sem er að líða. Pistlarnir þínir eru svo skarpir og beinskeyttir. Þeir virka ávallt á mig eins meðbyr í seglin því þeir minna mig á að ég má ekki leggja árar í bát og hvetja mig þannig áfram!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.12.2008 kl. 23:59

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Rakel,

þessi færsla þín ER FRÁBÆR. En gvöð hvað þú ert kvenleg. Þegar Þórður hvetur þig til að skella þessu inn um lúguna þá verður þú hvumsa og þarft að velta málinu fyrir þér. Þegar kona sýnir vinkonu sinni nýja skó þá þarf hún að heyra vinkonu sína lýsa því í 20 mismunandi útfærslum að skórnir séu flottir, fara þér vel, liturinn passar.....o.sv.fr. Sko ég segi það bara einu sinni því ég er karl, greinin er frábær og á heima í lúgunni.

Kona eins og þú þurfa testosterone sprautur til að fyllast nægjanlegu sjálfsöryggi. Spurningin er hvar Ingibjörg Sólrún fékk sitt.

Meðan góðærið var hélt maður að kreppan yrði mjúk og hægt væri að sinna pólitík í rólegheitum. Eftir að kreppan hófst hélt maður að Ingibjörg myndi kryfja spillinguna. Þegar ekkert gerðist var manni nóg boðið. Ástandið í dag er absúrd. Maður hélt að stjórnvöld myndu hreinsa til, uppræta spillingu og endurheimta glatað fé. Ekkert slíkt er á sjóndeildarhringnum. Í staðinn eru auðmönnum gefnar upp skuldir sem geta numið heilum nýjum Landspítala. Ofan á alla vitleysuna eru boðaðir sjúklingagjöld. Ef fólki er ekki nóg boðið hlýt ég að vera vangefinn.

Gunnar Skúli Ármannsson, 27.12.2008 kl. 00:40

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir vinalegan kinnhest Gunnar Þórður er frændi minn þannig að ég hef verið eitthvað treg að teysta hans mati. Hef m.a.s. vænt hann um genatíska hlutdrægni í þeim efnum. Hann kann ábyggilega að meta stuðning þinn en til upplýsingar fyrir ykkur báða þá er ég búin að senda greinina inn um lúguna þó ég sé ekki fullkomlega ánægð með hana. Finnst hún vera of löng

Mér finnst það bera vott um ákveðna fullkomnunaráráttu en ef það er vísbending um það kvenlega í mér þá fagna ég því bara þar sem ég hef alltaf talið mér trú um að það skorti töluvert á sjálfa mig í þeim efnum en jamm, ég mætti sjálfsagt við einhverju sjálfsöryggissparki en ef það þarf endilega að vera í sprautuformi þá nei takk

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.12.2008 kl. 00:54

7 identicon

Ég hef nú verið að hvetja þig til að birta skrif þín á víðlesnari miðlum vegna þess að þau eru mjög góð og það  þrátt fyrir að þú sért frænka mín. Ég tel að það sé alveg bráðnauðsynlegt að góðir pennar eins og þú sjáist og séu lesnir á þessum tímum. Það er svo okkar Gunnars að hvetja þig. 

Þórður Grétarsson (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 01:46

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Eins gott að við erum ekkert skildar nema kannski andlega en það munu ekki teljast spillingartengd krossbönd svo mér leyfist að taka undir hrósið hér sem þú færð frá bloggvinum þínum. Skrifin þín eiga einfaldlega erindi til allrar þjóðarinnar og ætti að lesa pistla þína með veðurfregnum á útvarpi eitt dag hvern Batteríin mín eru að verða fullhlaðin og stefnan er tekin á gamlársdag fyrir næstu atrennu.

Takk fyrir frábæra og endurvakta vináttu á árinu Rakel mín..takk fyrir frábærar færslur og megir þú bara eflast og "dreyfast" á nýju ári  Smjúts!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 28.12.2008 kl. 22:43

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú ert yndisleg Katrín mín og þið öll!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.12.2008 kl. 22:13

10 identicon

Rakel, þú ert mögnuð. Einlægnin, heiðarleikinn og kærleikurinn er sem rauður þráður í pistli þinum.Bara frábær og hlý grein.

Mér leið nákvæmlega eins árin fyrir hrunið og ástæða þess að ég fór að blogga og tjá mig í ágúst 2008 var einmitt sú að mér leist engan vegin á þróunina og vonaðist til að geta haft einhver áhrif í gegnum bloggið, nokkuð sem ég sá að var að virka. En ég er kannski á röngum miðli eða hvað? Jakobína vinkona okkar, enn ein magnaða kvenveran hefur hvatt mig til að skipta um bloggvettvang eða vera á báðum. Ég er nú ekki vanur að óhlýðnast Jakobínu en hvað finnst þér?

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 18:16

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sammála Arinbjörn Ég vildi mjög gjarnan hafa þína rödd hérna á moggablogginu en þar sem ég er voðalega lítið fyrir að segja öðrum fyrir verkum þá bið ég þig að taka þetta bara sem mitt álit

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.12.2008 kl. 00:26

12 identicon

Takk fyrir það Rakel, ætli ég búi þá ekki til bloggsíðu á mbl í dag

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 31.12.2008 kl. 13:20

13 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Gott hjá Ara að hlýða mér Megi rödd hans heyrast sem víðast. Ég bíð Ara velkomin á Moggabloggið og ég þakka þér Rakel fyrir frábært blogg 2008 og vonast eftir góðu árið 2009. Ég tek undir með Ara þú beinir athygli okkar að hreinni hugsun og einlægni sem ég held að geti reynst okkur dýrmæt á þeim tíma sem eru í vændum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 1.1.2009 kl. 18:13

14 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur báðum fyrir einstaklega falleg orð Ég er í borginni núna og þess vegna hefur ekkert verið bloggað en það stendur til bóta von bráðar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.1.2009 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband