Tvíbendni stjórnvalda gagnvart menntun

Menntun er svo skemmtilegt hugtak enda ljóst að mörgum, þó einkum stjórnmálamönnum, þykir sérstaklega gaman að leika sér með það. Á tyllidögum er gildi menntunar lofað með stórum orðum og upphrópunarmerkjum en í reynd er fátt sem bendir til að þeir sem tala hæst um gildi hennar skilji yfir höfuð inntak orðsins. Ég gæti skrifað langt mál og ítarlegt um mótsagnirnar sem hafa komið fram á undanförnum misserum frá menntamálaráðuneytinu í þessu sambandi en læt kyrrt liggja í bili.

Hins vegar langar mig til að vekja athygli á því að um leið og ríkisstjórnin boðar niðurskurð í fjárframlögum til menntamála þá hafa framhaldsskólarnir a.m.k. fegnið formleg tilmæli frá menntamálaráðherra um að taka við öllum umsækjendum. Það er auðvitað ljóst að framhaldsskólarnir geta ekki tekið við fleirum en húsrúm þeirra leyfir. Einhverjir skólameistarar hafa líka ákveðið að halda sínu striki þar sem það er sýnt að það er fleira en húsrýmið sem mun skilyrða nemendafjöldann á næstu önn.

VerkefnafjallÉg veit ekki hvort háskólarnir hafi fengið slík tilmæli frá menntamálaráðherra en það er a.m.k. ljóst að ráðherrann hefur látið það berast út að nú sé mikilvægt að hlúð verði að menntun og að skólarnir skili sínu svo að af því megi verða. Þetta er það sem við sem störfum við skólana höfum fengið að kynnast í æ ríkari mæli í stjórnartíð Sjálfstæðis- flokksins. Það er stöðugt alið á ábyrgðarkennd kennara. Við megum ekki bregðast þó það sé ljóst að valdhafinn ætli ekki að styðja við bakið á skólastarfinu með fjárframlögum til reksturs skólanna eða til að bæta kjör kennara.

Í mínum augum heitir þetta að ala á meðvirkni kennara. Til að tryggja það að skólarnir hlýði yfirboðurum sínum hefur Sjálfstæðisflokkurinn skipað flokksbundna félaga í stöður skólastjórnenda og eru framhaldsskólarnir sem hafa annan en yfirlýstan stuðningsmann Sjálfstæðisflokksins í skólameistarastólnum orðnir teljandi á fingrum annarrar handar.

Þetta hefur þýtt það í sumum skólum að skólastjórnendur sem áður spyrntu við fótum gagnvart Mennta- og Fjármálaráðuneytinu eru nú orðnir fjarskalega gæflyndir og þægilegri í taumi. Þessir skólastjórnendur standa þess vegna ekki með starfsfólki sínu á móti því þegar einhverjar fjarstæður koma að ofan heldur standa þeir í versta falli á móti starfsfólki sínu og styðja flokkssystkini sín sem stýra þessum ráðuneytum. 

Ég ætla að vera svo leiðinleg að fullyrða það að tilmæli menntamálaráðherra um að skólarnir taki við öllum umsækjendum sé að hluta til aðgerð til að fela atvinnuleysið. Það verður falið þannig að skólarnir verða yfirfylltir. Það stendur þó alls ekki til að fjölga kennurum enda myndi það leiða til aukins launakostnaðar. Maður þarf ekki að vera neittt sérstaklega mikið inni í skólastarfi til að átta sig á því að með þessu lagi minnka gæði námsins og ég tala ekki um þegar það á að skera niður fjárframlög til skólanna á sama tíma líka.

Þarf að segja meira til að benda á tvíbendina sem ríkir í hugum stjórnvalda til menntunar?


mbl.is Óafturkræf spjöll?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband