Þjóðaratkvæðagreiðsla af hinu góða en...
14.12.2008 | 08:13
Auðvitað ætti maður að fagna því að Björn Bjarnason aðhyllist þjóðaratkvæða- greiðslu um ESB-aðild en ég treysti bara ekki blessuðum manninum. Mér finnst líka eitthvað afar meinlegt og mótsagnakennt felast í þessum orðum hans:
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segist hallast að því, að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu snerti svo víðtæka þjóðarhagsmuni, að leita eigi umboðs hjá þjóðinni í atkvæðagreiðslu, áður en aðildarumsókn sé lögð fram.
Það er ljóst að sú stefna sem hann hefur stutt og þeir málaflokkar sem hann hefur unnið beint og óbeint að undanfarnin 17 ár hafa ekki síður snert víðtæka þjóðarhagsmuni. Af hverjum fékk þjóðin ekki að kjósa um þessa málaflokka. Hér má t.d. nefna: kvótakerfið, einkavæðingu bankanna, einkavinavæðinguna í atvinnulífinu, virkjunarframkvæmdirnar, álversvæðinguna o.s.frv. o.s.frv?
Og síðast en ekki síst af hverju er það ekki lagt undir þjóðaratkvæðagreiðslu hvernig er tekið á núverandi efnahagsástandi? Hefur hann verið tilbúinn til að hlusta á vilja þjóðarinnar í því sambandi? Mitt svar er nei. En af hverju vill hann þá leggja það undir þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við viljum ganga inn í ESB eða ekki? Ég hreinlega átta mig ekki á því og þess vegna tortryggi ég hann nú sem endranær. Og ekki bætir það sem haft er eftir honum í lok fréttarinnar úr:
Hann segir, að innan Sjálfstæðisflokksins sé djúp sannfæring manna fyrir því, að ekki eigi að skerða fullveldið meira en orðið er. Auk þess sé ótti við, að áhugi ESB á, að Ísland gerist aðili, byggist á ásælni í auðlindir og áhrif á Norður-Atlantshafi. Hinn almenni félagi í Sjálfstæðisflokknum bregst illa við telji hann, að vegið sé að þessari sannfæringu," segir Björn.
Ég tel nokkuð ljóst að skilningur minn og Björns á orðinu fullveldi fari illa saman. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur vissulega fullveldis í landinu og e.t.v. óttast hann að það skerðist við inngöngu landsins í ESB. Miðað við framhaldið í orðum Bjarnar, hér að ofan, er a.m.k. ekki erfitt að álykta sem svo að hann sé fyrst og fremst að tala um fullveldi síns flokks. Á eftir fullveldinu víkur hann orðum sínum að auðlindum landsins og mér sýnist að skilningur okkar á ásælni og ráðstöfun þeirra fari heldur engan veginn saman
Mér virðist nefnilega á öllu, sem Björn og hans flokkur hafa unnið að hingað til, að hann meini að Sjálfstæðisflokkurinn vilji alls ekki missa umboð sitt yfir því hverjir eignist þessar auðlindir. Ég tel að hann vilji umfram allt tryggja það að hann og flokksfélagar hans haldi umboði sínu til að stunda eiginhagsmunaviðskipti með öll verðmæti landsins áfram. Það sem þjóðin veit nú þegar um það hvernig auðlindum landsins hefur verið ráðstafað ætti að vera besti rökstuðningur þess að það er í raun þetta sem Björn á við.
Kannski vill Björn Bjarnason þjóðaratkvæðagreiðslu því hann heldur að tillagan um aðildina verði felld. Ég er ein þeirra sem myndi segja nei því ég get ekki fengið mig til að styðja ESB-aðild. A.m.k. ekki miðað við núverandi aðstæður. Ástæðan er fyrst og fremst sú að efnahagsstefna ESB byggist á þeirri nýfrjálshyggju sem hefur nýlagt efnahagslíf þjóðarinnar í rúst. Ég treysti ekki heldur Evrópusamband- inu fyrir mér og mínum eða öðru sem mér finnst skipta mestu máli.
Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér en ég bið þá um ýtarlega og vandaða kynningu á kostum og göllum þess að landið sæki um og gangi inn í ESB áður en að þjóðaratkvæðagreiðslu kemur. Ætli það sé hægt að fara fram á ópólitíska kynningu
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er nú ekki rétt að efnahagsstefna ESB byggist á nýfrjálshyggju þó eitthvað af henni hafi slæðst þar inn. ESB er mikið Framsóknarapparat þar sem fólk stundar hreppapólitík af miklum krafti. Aðaltilgangur ESB er mjög einfaldur, hann er einfaldlega sá að koma í veg fyrir að Frakkland og Þýskaland fari í stríð einn ganginn enn. En varðandi Ísland og ESB þá má segja að öll umræðan hafi snúist um einhverja hugsanlega eða óhugsanlega skilmála sem við gætum fengið. Það hefur ekki verið nein umræða um sambandið sjálft eða aðildarlönd þess. Þarna hafa fjölmiðlar alveg brugðist. Engin fræðsla. Við sendum her manns á Júróvísíón eða á Ólympíuleika og sýnum endalausar fræðslumyndir um eðlur og pöddur í Kongó eða ég veit ekki hvar, en hvað vitum við td. um Belgíu eða Ungverjaland ? Í Evrópu teljast vera um 50 lönd og íbúarnir eru um 731 milljón, þar af eru 27 ríki í ESB með 499 milljónir íbúa. Af hverju fáum við ekki meiri fræðslu um Evrópu og íbúa hennar og sögu ? Á Íslandi búa mörg þúsund Pólverjar, af hverju er ekki búið að gera og sýna heimildarmyndir um Pólland ? Eða Eystrasaltsríkin eða Portúgal eða lönd sem bíða eftir því að komast inn í sambandið eins og Króatíu og Serbíu. Svo er enginn skortur á Evrópuumræðu í Evrópu sjálfri, við viljum vita eitthvað um það líka, hvað almenningur er að hugsa þar. Það er í raun fráleitt að fólk eigi að mynda sér skoðun um þessa hluti byggða á jafn lélegum upplýsingum og raun ber vitni.
Þórður Grétarsson (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 17:19
Mér sýnist við vera sammála um það að ef ESB-aðild á að vera sú töfralausn, sem eigi að bjarga þjóðinni upp úr því skuldafeni sem er búið að aka henni út í núna, þá þurfi að fara fram ítarleg kynning á hvað slík aðild muni þýða. Það er að sjálfsögðu hægt að gera með ýmsum hætti. Nú þegar er ýmislegt lesefni til hér á Netinu. Ég tel þó að sjónvarp og málþing muni ná til fleiri og skila meiri árangri.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.12.2008 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.