Við sem mótmælum, okkur miðar áfram!
13.12.2008 | 17:52
Ég hlakka til að lesa meira um mótmælin á Austurvelli. Ég held að þetta hljóti að hafa verið mögnuð upplifun fyrir þá sem voru þarna viðstaddir. Flott hugmynd og táknræn. Eins og hinsta kveðja... með viðeigandi niðurtalingu og þögn á milli.
Hér á Akureyri var safnast saman við Samkomuhúsið að venju og gengið þaðan inn á Ráðhústorg. Ég hef minnst á það áður að það hefur vakið athygli mína að lögreglan hér hefur greitt fyrir mótmælendum með því að stöðva umferð upp og niður Kaupangsstrætið við gatnamótin næst upphafi göngugötunnar. Þeir gerðu það líka í dag en þeir gerðu fleira til að greiða fyrir mótmælunum núna.
Það er búinn að vera brunagaddur hérna fyrir norðan í allan dag. Það var m.a.s. svo kalt í hádeginu að ég þurfti að þýða upp læsinguna á bílstjórahurðinni á bílnum mínum þannig að hurðin lokaðist aftur. Kuldinn beit líka á mótmælendum í göngunni en þegar við komum inn á Ráðhústorg beið lögreglan okkar með heitt kakó, kaffi og piparkökur. Þjónustan var slík að þeir voru m.a.s. með mjólk fyrir þá sem þoldu ekki fullan hita.
Kaldir mótmælendur nýttu sér þetta að sjálfsögðu og verðir laganna slógu því fram í hálfkæringi að sælla væri að gefa en taka. Ræðumenn dagsins voru tveir. Það voru þeir Guðmundur Ármann Sigurjónsson, myndlistarmaður og -kennari, og Þorsteinn Pétursson, lögregluþjónn. Betur þekktur sem Steini P. hérna fyrir norðan.
Guðmundur Ármann lýsti yfir áhyggjum sínum af lymskufullri aðgerðaráætlun stjórnvalda undanfarnin ár sem hefur miðast að því að sölsa undir sig öll svið samfélagsins og vinna þannig að algerlega einsleitri upplýsingamiðlun og skoðanamyndun. Hann tók nokkur dæmi þar að lútandi en lauk máli sínu með mjög fróðlegum ábendingum um það hvernig mætti lesa í líkamstjáningu ráðherranna.
Ég veit að myndin hér til hliðar er alls ekki nógu góð en þó sýnir hún eina af þessum algengu handa- hreyfingum sem Guðmundur tók dæmi um að ráðherrar noti mikið í viðtölum og túlkaði fyrir okkur. Þessi staða handanna sagði hann að táknaði það að ráðherra gerði sér fulla grein fyrir því að málflutningur hans væri fullkomlega óheiðarlegur.
M.ö.o. það sem við eigum að lesa út úr þessari handahreyfingu er það að það sem ráðherrann er að segja, á meðan hann beitir höndunum þannig, er fullkomin lygi. Það er einmitt mjög fróðlegt að skoða líkamstjáningu Ingibjargar Sólrúnar í viðtalinu Blóðug fjárlög og ekki síst handahreyfingar hennar í þessu samhengi!
Steini P. var næstur á stokk og þar sem þó nokkur umræða hefur verið um stöðu lögreglunnar gagnvart mótmælendum þá var ákaflega jákvætt að fá að heyra rödd eins úr þeirra hópi. Í stuttu máli þá bergmálaði ræða hans það sama og við sem mótmælum höfum ítrekað hvað eftir annað.
Ástæðan fyrir því að svona er komið í íslenskum efnahagsmálum er engin tilviljun heldur stafar það af mannavöldum. Stjórnvöld verða að taka ábyrgð á núnverandi ástandi og skipa rannsóknarnefnd sem nýtur trausts og rannskar aðdragandann ítarlega. Þeir sem bera ábyrgð eiga að sæta henni. Allt, auðvitað, eitthvað sem liggur í augum uppi fyrir öllum heilbrigðum einstaklingum en það er samt jákvætt að einn úr hópi lögreglunnar skuli hafa burði til að standa upp og taka undir réttlætiskröfur sístækkandi hluta þjóðarinnar.
Steini P. lauk svo máli sínu með því að ítreka að við erum þjóðin. Við erum ein fjölskylda og við verðum þess vegna að standa saman. Sagði hann til að knýja fram réttlæti? Held það en ég vona að hann fyrirgefi mér ef ég er að skeyta því við málflutning hans.
Í lok fundarins boðaði Guðrún Þórs, sem stýrði fundinum í dag, áframhaldandi mótmælaaðgerðir hér á Akureyri n.k. laugardag kl. 15:00.
Vekjaraklukka fyrir stjórnvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.3.2009 kl. 16:47 | Facebook
Athugasemdir
Var á tveimur fundum og mótmælum í dag. Hitti Ara á mótmælum sem stóð vaktina fyrir Norðurlandið. Einnig hitti ég Katrínu. Nú er bara að standa vaktina áfram og standa vörð um réttlætið.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.12.2008 kl. 18:38
...sem er hunsað nú á tímum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 13.12.2008 kl. 18:38
Nákvæmlega. Fyndið að þú hafir hitt Ara. Ég hef aldrei hitt hann en hann býr hérna fyrir norðan. Ég held m.a.s. á Akureyri
Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.12.2008 kl. 18:50
Steini P er snillingur og hefur alltaf verið. Man eftir honum í skátunum í gamla daga.
Haraldur Bjarnason, 14.12.2008 kl. 06:46
Já, hann hefur verið ötull í æskulýðsstarfi hér á Akureyri. Ég kynntist honum sjálf þannig að hann var leiðsögumaður og ég ráðskona í hópi sem tók sér ferð á hendur upp á hálendið á vegum Ferðafélags Akureyrar. Það var mjög góð viðkynning.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.12.2008 kl. 08:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.