Mikið finnst mér það gott

Mér þykir gott að sjá hvað margir mættu á borgarfundinn sem haldinn var í Iðnó í gærkvöldi. Það er reyndar dapurlegt að einhverjir sem ætluðu sér að vera viðstaddir þurftu frá að hverfa. Þar sem ég komst ekki á þennan fund af landfræðilegum ástæðum þá þarf ég að treysta á fréttir.

Enn og aftur veldur orðalag þeirra sem fjalla um aðgerðir almennings á undanförnum dögum mér vangaveltum. Í fréttinni á mbl.is er talað um að fundargestir hafi gert „hróp og köll að [...] alþingismönnum, sem voru mættir“. Í framhaldi er það dregið fram að alþingismennirnir hafi verið beðnir að koma til að svara spurningum fundargesta.

Ég veit ekki hvort blaðamaðurinn sem skrifar þessa frétt áttar sig ekki á því að þessi framsetning dregur óneitanlega upp mjög neikvæða mynd af fundargestum. Það bendir allt til þess að þeir séu skríll sem kann sig ekki. Af öðrum heimildum er þó ljóst að þetta á alls ekki við um gestina sem mættu á þennan fund. Árni Gunnarsson er einn þeirra sem mættu á fundinn og gerir athugasemd við þessa frétt á blogginu sínu. Ég treysti því sem hann segir um þetta mál miklu betur en því sem segir í fréttinni á mbl.is og vona að honum sé sama þó ég vísi á leiðréttingar hans í þessu sambandi.

Fréttin af þessum fundi á visir.is er líka miklu ítarlegri og vandaðri en sú á mbl.is. Þó þar sé líka talað um að hiti hafi verið í fundargestum og þeir hafi púað „á alþingismenn þegar þeir hugðust taka til máls“ þá er ljóst af öðru sem kemur fram í fréttinni á visir.is að þarna hefur verið samankominn siðmenntaður og góður hópur. Þar er líka hægt að gera sér ágæta grein fyrir því sem frummælendur fundarins höfðu til málanna að leggja. Hvað stemminguna á fundinum varðar þá treysti ég því sem María Kristjánsdóttir segir um hana og tek undir það með henni að „maður fyllist von um að einhverju verði hægt að breyta fyrst almenningur er farinn að taka lýðræðið í sínar hendur“ eins og þeir sem skipulögðu þennan borgarafund.

Þeir eru hetjur og eiga hrós og þakkir skildar. Það var viðtal við einn skipuleggjandanna í Kastljósi í gærkvöldi. Ég veit að það er ljótt að vera alltaf að setja út á en ég hnaut sérstaklega um tvær spurningar spyrilis í viðtalinu við Davíð A. Stefánsson sem er einn skipuleggjendanna. Það virkaði a.m.k. mjög hjákátlega í mínum eyrum þegar Davíð var spurður: Af hverju honum fyndist vera þörf fyrir svona fund? og hvort honum finnist að almenningur hafi orðið út undan í umræðunni?

Það sem gladdi mig hins vegar var að það kom fram í þessu viðtali að það stæði jafnvel til að setja upptökur af einhverju af því sem þarna fór fram inn á youtube.com. Ég lifi í voninni um að ég fái að heyra og sjá flutning Lilju Mósesdóttur og Vilhjálms Bjarnasonar en mér skilst að innlegg þeirra beggja hafi verið afar áhugaverð og vönduð. Það sem er haft eftir Einari Má inni á visir.is er líka frábært! Þar segir:

Þá líkti Einar ríkisstjórninni við persónur úr bók sinni Englum alheimsins sem fóru á Hótel Sögu og fengu sér að borða án þess að greiða reikninginn. Einar sagði að ríkisstjórnin væri ábyrgðarlaus líkt og persónurnar í bókinni. Munurinn væri aftur á móti sá að samfélagið hefði tekið af þeim ábyrgðina en ríkisstjórnin hefði verið kosin til að taka ábyrgð.

Þjóðin getur ekki beðið eins og Breiðavíkurdrengir eftir hvítbók, að mati Einars sem kallaði jafnframt eftir ábyrgð greiningardeilda bankanna sem hefðu verið á launum við ljúga.

Mér finnst þetta einstaklega vel til fundnar samlíkingar!!

Es: Að lokum er hér slóð inn á myndband sem er tekið af bloggi Péturs Tyrfingssonar. Hér segir Richard Wolff, sem er amerískur hagfræðiprófessor, með hvaða aðferðum eigi að ráða niðurlögum þeirrar kreppu sem gengur yfir efnahagslíf Vesturveldanna núna. Pétur segir á blogginu sínu: „Karlinn talar í 40 mínútur en það er þess virði að hlusta á hvað hann hefur að segja.“ Við sem erum búin að hlusta á hann erum sammála því og þess vegna ætla ég að taka þátt í því að vekja athygli á þessu myndbandi.


mbl.is Húsfyllir í Iðnó - hiti í fundargestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband