Erum við kannski gíslar grimmra útrásarvíkinga?
25.10.2008 | 01:40
Ég er svo heppin að ég er búin að finna fréttaveituna eða fjölmiðilinn sem ég treysti til að halda mér upplýstri á þessum síðustu... Miðillinn sem ég er að tala um er bloggið hennar Láru Hönnu Einarsdóttur. Hún er reyndar svo dugleg að ég hef ekki haft undan að setja mig inn í allt sem hún hefur birt í þessari viku. Auk hefðbundinna skrifa er hún nefnilega mjög dugleg að safna saman áhugaverðu efni úr innlendum og erlendum fjölmiðlum.
Það var þess vegna ekki fyrr en núna í kvöld sem ég fann mér tíma til að lesa og skoða almennilega færslu hennar frá 21. okt. sl. sem hún nefnir Þjóð í gíslingu. Þarna eru tveir Kompásþættir sem eru mjög, mjög upplýsandi og viðtal Sjónvarpsins við Robert Aliber sem er eins konar punktur yfir i-ið. Eftir þetta allt saman verð ég bara að segja að ég furða mig alltaf meir og meir á þeim sem tala um einelti og öfga okkar sem krefjast uppstokkunar í stjórn Seðlabankans. Hún er reyndar nauðsynleg miklu víðar en mér sýnist að hún verði að byrja þar.
Mér finnst þetta reyndar svo alvarlegt mál að sjálfsvirðing mín sem Íslendings mun bíða óbætanlegan hnekki ef enginn þarf að sæta ábyrgð fyrir það að hafa skapað 30 klíkubræðrum/-systkinum kjöraðstæður til að arðræna landið. Þetta lið eru sannkallaðir víkingar en þetta eru engar hetjur. Ég hélt reyndar að mannskepnan hefði þroskast frá tíma víkingaaldarinnar hinnar fyrri.
Eins og við vitum var á þeim tíma til hópur/-ar ófyrirleitinna einstaklinga sem þótti það sjálfsagt að ráðast inn í þorp og betri býli í þeim eina tilgangi að koma sér upp auði. Þeir hirtu einfaldlega allt fémætt en ruddu öllum úr vegi með bitvopnum sínum sem hindruðu þá fyrirætlan. Sumir þessara settust einmitt að hér á landi. Þeir notuðu hinn illa fengna auð til að koma undir sig fótunum í þessum nýju heimkynnum.
Munurinn á þeim og afkomendum þeirra er að forfeðurnirnir voru á flótta undan stjórnvöldum í sínu fyrra heimalandi. Arftakar þeirra, útrásarvíkingarnir svokölluðu, virðast hins vegar vera í klíku með stjórnarherrunum. Það er m.a.s. útlit fyrir að þeir séu algerlega með þá í vasanum. Í skjóli þessarar nánu vináttu hafa þeir sölsað undir sig þjóðarkökuna, hertekið ríkiskassann og hafa komið honum um borð í einhverja einkaþotuna. Áfangastaðurinn er sólrík skattaparadís í fagurbláu hafi...
Þetta síðasta er að sjálfsögðu skáldlegar ýkjur en þó byggt á því sem komið hefur fram síðustu daga. Það er reyndar synd að segja að maður hafi það á tilfinningunni að það hafi allt komið fram. Það dapurlegasta í þessu öllu saman er að það er útlit fyrir að íslensk stjórnvöld hafi annaðhvort látið útrásarvíkingana teyma sig algerlega á asnaeyrunum eða að þeir hafi verið með þvílíka glýju í augunum yfir þessari sveit að þeir hafi látið hagsmuni hennar ganga fyrir hagsmunum heillar þjóðar. Er nema von þó Aliber kalli íslenska stjórnarherra fífl í viðtalinu sem ég vísaði til hérna í upphafi!!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2008 kl. 03:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.