Auðvitað hefði ég viljað sjá fleiri en...

Frámótmælunum á AusturvelliÞeir sem mótmæltu fyrir framan Seðlabankann á föstudaginn fyrir rúmri viku voru 200. Í dag mættu helmingi fleiri og einu hundraði betur. Næst þegar blásið verður til mótmæla, sem verður vonandi ekki seinna en um næstu helgi, mæta svo tvisvar sinnum fimmhundruð og tveimur hundruðum fleiri. Nema að það verði þrisvar sinnum fleiri og þremur hundruðum betur. Kannski verða þeir fjórum sinnum fleiri og ...

Auðvitað vonaði ég og fleiri að þeir yrðu fjölmennari sem fyndu sig knúna til að láta óánægju sína í ljós með þátttöku í mótmælunum í dag. Hins vegar er eins og mörgum finnist mótmæli af öllu tagi vera eitthvað sem er fyrir neðan sína virðingu. En mig langar til að minna á að á meðan þjóðin lætur ekki í sér heyra er eðlilegt að draga þá ályktun að við séum með því að leggja blessun okkar yfir aðgerðir stjórnar Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar að undanförnu. Aðgerðir sem rúðu okkur ekki bara efnahagslegu sjálfstæði heldur virðingunni sem þjóð í leiðinni!

Við verðum að hætta að haga okkur eins og Bjartur í Sumarhúsum sem gat aldrei fundið samhljóm sinna skoðana með neinum örðum. Hann var svo upptekinn af sínum sérhagsmunum að hann gat aldrei fundið samleið með meðbræðrum sínum heldur var í stöðugri baráttu við allt og alla. Þess vegna áttaði hann sig aldrei á því hverjir áttu sömu hagsmuna að gæta og hann sjálfur og hverjir voru hinir raunverulegu óvinir hans sem unnu gegn því að hann kæmist af. Þessi afstaða hans varð svo stærsti þátturinn í falli hans og niðurlægingu í lokin.

Við megum ekki láta það sama henda okkur sem einstaklinga eða þjóð! Virkjum vandlætinguna og sýnum hug okkar í verki. Lýðræðið snýst ekki eingöngu um að krossa við bókstaf þeirra sem við treystum best að taka þátt í stjórnarsamstarfinu næstu fjögur árin. Virkt lýðræði snýst nefnilega líka um að veita stjórnvöldum aðhald með því að sýna hug okkar í verki. Hvaða vettvangur er betur til þess fallinn en mótmæli af því tagi sem hafa verið skipulögð að undanförnu?

Ég vona að þeir dugmiklu einstaklingar sem stóðu að baki þeim láti ekki hugfallast heldur haldi áfram. Ég vona líka að þeir sem eru ekki sáttir við það hvernig hefur verið haldið á málum þjóðarinnar að undanförnu, af hendi stjórnarherranna, ákveði að slást í hóp mótmælenda næst. Það skiptir ekki máli þó okkur greini á í einhverjum smáatriðum því nú eru það alltof stór aðalatriði sem hafa forgang.

Látum ráðamenn þjóðarinnar vita að okkur stendur ekki á sama. Ég trúi því nefnilega að við getum öll verið sammála um að þeim hefur orðið á alvarleg mistök. Að mínu viti er það mikilvægt að þeim skilaboðum verði komið á framfæri þannig að mark verði á tekið. Það má líka benda á það að lokum að með því að safnast mörg saman og mótmæla þeim aðstæðum sem ráðamenn þjóðarinnar hafa leitt yfir íslensku þjóðina og krefjast þess að þeir sem mestu ábyrgðina bera verði látnir sæta ábyrgð gjörða sinna, eins og í nágrannalöndum okkar, þá endurheimti íslenskur almenningur sjálfsvirðingu sína á ný.

Es: Ég vil bæta því við að Helgi Jóhann Hauksson var svo vinsamlegur að benda á að það væri hreinlega ekki rétt farið með tölur um þann fjölda sem safnaðist saman á Austurvelli í fréttinni sem ég tengdi þessari færstlu. Hann sendi mér slóð inn á bloggið sitt þar sem hann er með myndir sem sýna allt aðrar staðreyndir um mannfjöldann en mbl.is. Ég vona að hann hafi ekki á móti því að ég veki athygli á myndunum hans hér.

 

 


mbl.is Mótmæla Davíð Oddssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Reyndar voru langtum fleiri en 500. Næst ættir þú líka að mæta sjálf þá sæir þú það eigin augum. Annars tók ég nokkrar myndir sem gefa til kynna fjöldann. Nokkrar þeirra eru á blogginu mínu hér. http://hehau.blog.is

Helgi Jóhann Hauksson, 19.10.2008 kl. 01:03

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir ábendinguna Helgi og vísunina á myndirnar þínar. Þær eru góður vitnisburður um að þarna hafa verið miklu fleiri saman komnir en 500 manns. Ég tók reyndar eftir því að tölum bar ekki saman á mbl.is og visir.is Annar segir 500 en hinn mörg hundruð.

Það er aldrei að vita nema ég ferðist suður yfir heiðar til að taka þátt í mótmælum fyrir framan alþingishúsið eða Seðlabankann og virki þannig vandlætingu mína. Ég hefði líka mjög gjarnan viljað vera viðstödd þau í dag. 

Það er gott að vita að mótmælin á Austurvelli hafi vakið athygli fjölmiðla en vont til þess að vita að þeir hafi leyft sér að draga úr fjölda mótmælenda. Veist þú hvort einhverjir fulltrúar erlendra fjölmiðla voru þarna staddir?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.10.2008 kl. 01:20

3 Smámynd: Johann Trast Palmason

Amen Rakel brilljant pistill hjá þér takk fyrir hann

Ég benti líka á þetta í bloggi mínu frá í gær þar sem ég setti 39 myndir sem ég tók af mómælunum, fyrir áhugasama sem vilja rannsaka eða skoða þetta mál.

Johann Trast Palmason, 19.10.2008 kl. 14:27

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir það. Ég er búin að skoða bloggið þitt frá því í gær og myndirnar þínar líka. Ég sé að þær bera gott vitni um að þeir sem voru mættir niður á Austurvöll telja gott betur en 500. Það er gott að þú og Helgi Jóhann voruð þarna báðir með myndavélar. Myndirnar sýna það gleggst að það er alls ekki farið rétt með tölurnar um fjölda mótmælenda í fjölmiðlum

Rakel Sigurgeirsdóttir, 19.10.2008 kl. 15:48

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir það kæra vinkona. Ég er alveg hjartanlega sammála því sem mér finnst þú ýja að í seinni efnisgreininni þinni að ástandið virðist því miður bara versna. Maður þarf að hafa svolítið fyrir því að horfa til framtíðarinnar og halda í bjartsýnina.

Annars hef ég saknað þess svolítið að sjá ekki einmitt eitthvað meira frá þér um þetta hamfaraástand allt saman. Þér er kannski líkt farið eins og mér. Maður veit ekki hvar maður á að byrja og enn hræddari um að ef maður byrjaði að skrifa þá endaði það í svo miklum hita að allt sem maður setti niður á blað yrði eins og risastór blóðrauð reiðiklessa

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.10.2008 kl. 02:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband