Á Hirsholm með Rúnu
27.6.2008 | 17:43
Ég var í Danmörku frá 30. maí til 15 júní. Ég fór aðallega til að ferðast en Danmörk varð fyrir valinu vegna þess að Rúna bauð mér að heimsækja sig. Fyrir þá sem þekkja ekki Rúnu. Þá er þetta hún:
Við Rúna urðum reyndar samferða út, þó ég flygi frá Akureyri en hún frá Keflavík Við héldum svo ferðinni áfram saman eftir eina helgi í Kaupmannahöfn. Við fórum með næturlestinni til Fredrikshavn þar sem við tókum póstbát yfir til Hirshom. Þar beið okkar listamannaíbúð sem Rúna varð sér úti um fyrir júnímánuð. Ég var þar með henni í eina viku.
Vikan sem ég eyddi með henni þar var síðasta vikan sem hitabylgjan, sem gekk yfir Danmörku, stóð. Það hentaði mér auðvitað æðislega að liggja fáklædd úti í sólinni
Hérna er mynd sem sýnir u.þ.b. 1/4 af eyjunni. Ég tók hana úr gamla vitanum á eyjunni. Hún er ekkert mjög skýr en þarna sést bryggjan og húsið sem við vorum í. Það eru þrjár íbúðir í húsinu og við vorum í þeirri í miðjunni. Úti við sjóndeildarhringinn glittir í Fredrikshavn.
Það var að flestu leyti yndislegt að vera þarna. Mávurinn spillti reyndar töluvert fyrir friðsældinni en eyjan er friðland fyrir hann. Við vorum þarna á þeim tíma sem ungarnir voru að koma úr eggjunum þannig að maður var með fuglabjargsgargið í eyrunum allan sólarhringinn
Þið ráðið hvort þið trúið því en varpstöðvar hettumávsins teygðu sig inn í bakgarðinn hjá okkur. Myndin er sönnunargagn fyrir vantrúaða Ég tók þessa mynd út um baðherbergisgluggann á íbúðinni sem við vorum í en baðherbergið er á efri hæð íbúðarinnar.
Það er hins vegar fáránlegt að einblína um of á það neikvæða því annað var allt jákvætt. Sól, hiti og þægindi. Við vorum þess vegna úti allan daginn. Ég flatmagandi í sólinni, oftast í garðinu en við fórum líka í göngu um eyjuna og grilluðum gjarnan niður við bryggjuna á kvöldin.
Einn daginn fór ég líka á ströndina sem er á eyjunni og lá þar allan daginn. Það var yndislegt Það er greinilegt að það eru margir sem nota sér þessa paradís sem þessi eyja er. Alla daga var stöðugur straumur fólks sem kom siglandi á hraðbátunum sínum. Sumir komu gagngert til að flatmaga í sólbaði. Bátnunum var þá hreinlega lagt við akkeri og svo óðu farþegarnir í land með nestistösku og jafnvel lítið ferðagrill meðferðis. Aðrir lögðu bátnum við höfnina og virtust eingöngu vera komnir til að skoða þetta friðland fugla og listamanna. Sumir hafa nefnilega áhuga á mávum Það voru líka einhverjir sem höfðu áhuga á listamönnunum. Einhverjir meiri en góðu hófi gegnir Rúna orðaði þetta mjög skemmtilega þegar hún benti á að þetta fólk kæmi fram við okkur eins og gíraffa í búri
Nú svo voru alltaf einhverjir sem komu með póstbátnum sem er eina almenningssamgöngutækið við þessa eyju. Hann fer fjórar ferðir þrjá daga í viku. Mánudagarnir eru einu líka dagarnir sem er hægt að skreppa fram og til baka.
Að lokum ætla ég að fræða áhugasama aðeins um eyjuna og mannlífið þarna. Í eyjunni búa ekki nema sex til sjö manns. Það er staðarhaldarinn sem á kærustu sem heimsækir hann stöku sinnum. Einn ellilífeyrisþegi sem fær reglulegar heimsóknir frá sinni konu. Svo eru hjón sem ég held að séu frá Færeyjum bæði og eru öryrkjar. Hann vegna parkinssons. Rúna sagði mér svo að þarna byggju líka fuglafræðingur og konan hans. Þessi eyja er víst fræg meðal fuglafræðinga
Einhver kann kannski að velta því fyrir sér hvers vegna ég, sem þekki varla nágranna mína í stigaganginum í sjón, hafi komist svona vel inn í hver var hvað þarna og hvað hann gerir Ástæðurnar eru:
1. Eyjan er pínulítil. Eiginlega ekki nema á stærð við lófa
2. Það voru allir voðalega forvitnir um okkur og flestir kynntu sig einfaldlega fyrir okkur.
3. Svo vildu flestir upplýsa okkur um sig en aðallega náungann
Við komumst fljótlega að því að uppáhaldsumræðuefni eyjaskeggja er listamennirnir sem koma þarna og dvelja í einn mánuð í einu. Eftir að ég var farin heyrði Rúna eina mergjaða kjaftasögu sem gengur um okkur og staðarhaldarann. Ég reikna með að persóna mín sé þegar sveipuð þoku í þessari sögu en ég lifi samt áfram í henni sem kærasta Rúnu. Samkvæmt sögunni á staðarhaldarinn að hafa misst grersamlega alla sjálfstjórn einhvern tímann þegar hann kom að okkur í sturtu saman Ekki orð um það meir
Hvað á þetta fólk svo sem að gera sér til dundurs annað en að kynnast listamönnunum og hafa gaman af þeim Þarna er ekkert við að vera fyrir það nema að segja sögur af þessu stórfurðulega fólki Það er engin búð, ekkert kaffihús eða krá. Þarna er reyndar ein kirkja og þar er messað nokkrum sinnum yfir sumarið en það er fyrir ferðamanninn
Ég segi þetta gott af Danmörku þar sem annað sem ég gerði þar var óskaplega dæmigert Það eftirminnilegasta af því var þó ferð á Skagens Museum Enda þessa fyrstu alvörufærslu þess vegna með einum af uppáhalds- málurunum mínum frá Skagen. Það þekkja örugglega allir þetta verk sem heitir Hip, hip, hurra og er eftir Peter Severin Kroyer (það á reyndar að vera o með skástriki en ég er ekki viss um hvar ég finn það á lyklaborðinu þannig að ég vona að mér fyrirgefist rithátturinn hér).
Það sem mér finnst svo dásamlegt við þessa mynd er að þarna eru margir af þekktustu listamönnunum sem tengdust þessari frægu listamannaklíku á Skagen. Auðkenni Kroyers sjálfs er t.d. hatturinn (sem ég reikna með að hann hafi sofið með) Vegna hans er hann auðþekkjanlegur á öllum myndunum sem hann kemur fyrir á, eins og þessari.
Athugasemdir
Gaman að heyra það Mér er það heiður að færa henni þakkir þínar og vináttuvott
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.7.2008 kl. 18:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.