Innrömmuð áætlun

Það er sennilegra að það eigi við um þó nokkra að þeir hafi ekki heyrt talað um „rammaáætlun“ fyrr en vorið 2012 en þá var þetta hugtak á hvers manns vörum eins og nú. Hugmyndafræðin sem liggur að baki þessu ferhyrna hugtaki á sér þó töluvert lengri sögu þó orðið sjálft hafi e.t.v. ekki borið á góma fyrr en í kringum árið 1999. 

Þingveturinn 1985-1986 lagði Hjörleifur Guttormsson fram tillögu „um gerð áætlunar um verndun vatnsfalla og jarðhita sem leggja skyldi fyrir þingið“ Þar sem virkjunarhugmyndum, bæði vatnsafli og jarðvarma, yrði raðað „í forgangsröð með hliðsjón af umhverfisáhrifum þeirra.“ (sjá hér)

Tveimur árum síðar fór hann í kynnisferð til Noregs. Í framhaldi hennar lagði hann fram tillögu um áætlun „þar sem kannað yrði annars vegar hagrænt gildi virkjunarhugmynda og hins vegar umhverfisáhrif þeirra og verndargildi virkjanasvæðanna“ Tillagan var „samþykkt vorið 1989 sem ályktun Alþingis og send nýstofnuðu umhverfisráðuneyti 1990.“ (sjá hér)

rammaaaetlun(Klikkaðu endilega á myndina, sem er tekin héðan, ef þú vilt fá hana fram stærri)

Það þarf ekki að koma á óvart að íslenska aðferðafræðin tekur aðeins að nokkru leyti mið að þeirri norsku. Meginmunurinn liggur í því að hér á landi er ekki bara verið að velta fyrir sér vatnsaflsvirkjunum heldur jarðvarmavirkjunum líka. Í Noregi höfðu auk þess verið framkvæmdar umfangsmiklar „líffræðilegar, landfræðilegar og jarðfræðilegar rannsóknir auk áhrifa [vatnsaflsvirkjanna] á samfélagið og atvinnuvegina, svo sem ferðaþjónustu.“ (sjá hér)

Saga íslenska Umhverfis- (og nú) auðlindaráðuneytisins hefur verið rakin þokkalega ýtarlega á þessum vettvangi á öðrum stað (sjá hér). Það hefur komið fram hér að ofan að ráðuneytið var stofnað árið 1990. Á þeim tíma sat Steingrímur Hermannsson yfir sínu þriðja ráðuneyti í fjórflokkastjórn Framsóknar-, Alþýðu- og Borgaraflokks ásamt Alþýðubandalaginu (sjá hér). Tæpu ári eftir að stjórnin tók við völdum var Júlíus Sólnes, þá formaður flokksins, skipaður í embætti fyrsta umhverfisráðherrans hér á landi. 

Í fyrrgreindu bloggi er eitt og annað dregið fram af stuttri sögu þess. Eitt þeirra atriða sem þar er vakin athygli á er:

[...] að frá stofnun þess hafa mismunandi hugmyndir um eignarhald, virkjunarframkvæmdir og verndunarsjónarmið verið mjög í sviðsljósinu. Eftir síðasta kjörtímabil ætti það að vera ljóst að þó stjórnmálamennirnir kunni að takast á um einstaka virkjunarkosti þá telja þeir flestir eðlilegt að leigja aðgang að náttúruauðlindunum og verðleggja hvers konar nýtingu þeirra.(sjá hér)

Í þessum anda hafa veiðigjöld verið sett á fiskinn, vatnsveitur verið seldar til einkafyrirtækis (sjá hér) og aðrar auðlindir verðlagðar (sjá hér). Í þessum anda var Rammaáætlun síðustu ríkisstjórnar sett saman þar sem svonefndir „virkjunarkostir“ voru flokkaðir niður í þrjá mismunandi kosti sem eru eftirfarandi: orkunýtingar-, bið- og verndarflokkur (sjá hér). Sú hugmyndafræði rammaáætlunarinnar að líta á vatnsföllin og jarðvarmann sem peningauppsprettur hefur svo litað nær alla aðra opinbera umræðu um náttúruna.

Ramar mismunandi virkjunarkosta(Þessi mynd er klippt saman af vef Framtíðarlandsins)

Í athugasemdum við þingsályktunartillögu Katrínar Júlíusdóttur, fyrrverandi iðnaðarráðherra, sem kallaðist Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða með undirtitilinn Rammaáætlun, segir:

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011 skal iðnaðarráðherra leggja í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í verndar- og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar (sjá hér)

Það kemur fram í orðum Katrínar Júlíusdóttur, hér að ofan og líka í greinargerðinni með stjórnarfrumvarpinu til laga um sama efni, að þeir merkimiðar, sem eru settir á náttúruna undir hattinum „virkjunarkostur“, verða endurmetnir á a.m.k. fjögurra ára fresti. Þar kemur líka fram að endurmatið muni vera unnið út frá verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahags-, umhverfis- og samfélagslegum áhrifum nýtingar (sjá hér).

Þetta orðalag sýnir ágætlega hverjar hugmyndir fulltrúa síðustu ríkisstjórnar eru um þá “virkjunarkosti“ sem þeir deila um nú. Það er ekki að sjá að þær skeri sig í neinum grundvallaratriðum frá viðhorfum núverandi stjórnvalda.

Neðri hluti Þjórsár(Neðri hluti Þjórsár)

Samkvæmt því, sem fulltrúar núverandi stjórnarandstöðu, lögðu til og samþykktu á síðasta kjörtímabili þá eru Þeistareykir, Þjórsá, Markarfljót og Geysir allt virkjunarkostir. Þó þeim hafi verið raðað í þrjá mismunandi flokka þá skildu þeir möguleikann til að breyta henni eftir galopinn. 

Þeir stjórnarandstöðuþingmenn sem beita sér hvað ákafast í málþófinu sem á sér stað á Alþingi núna höfðu svo sannarlega tækifæri til að setja lög til að vissar náttúruperlur stæðu fyrir utan flokkunarramma virkjunarkostanna. Þeir gerðu hins vegar ekkert til að halda þeim þar fyrir utan. Það segir sig einginlega sjálft að sú aðferðarfræði sem var búin til með Rammaáætluninni gefur tilefni til að rífast út í eilífðina um það hvaða verðmiði innan virkjanakostana mali mesta gullið.

Virkjanakostir: Nýtingar- eða biðflokkur(Hagavatn, Hágöngur, Hólmsá og Skrokkalda)

Rifrildið að undanförnu hefur staðið um eftirtalda virkjunarkosti: Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Hágönguvirkjun I og II og Skrokkölduvirkjun auk Hagavatnsvirkjunar og Hólmsárvirkjunar við Atley (sjá hér). Nú hefur reyndar verið fallið frá hugmyndinni um virkjun Hagavatns, í bili a.m.k. (sjá hér).

Sú sem þetta skrifar viðurkennir að hún hefur aldrei verið virkjunarsinni og á því erfitt með að skilja þá virkjunaráherslu sem henni finnst koma fram í því að setja alla helstu fossa og hveri landsins undir hatt virkjunarkosta. Að mínu mati hefði verið nær að koma sér saman um það að þrátt fyrir að það megi ná einhverjum megavöttum út úr allflestum hérlendum vatnsföllum og jarðhitasvæðum þá er gildi margra náttúrusvæða hafið yfir peningaleg verðmæti. Að ramma þessi svæði inn í áætlun um virkjunarkosti er hins vegar boðin leið til virkjunar þeirra síðar meir.  

Þrætueplin á vorþingi 2015(Tekin af visir.is)

Í kjölfar Rammaáætlunar, síðustu ríkisstjórnar, var lagt fram frumvarp til laga um náttúruvernd sem byggði á þeirri hugmyndafræði sem sett er fram í Rammaáætluninni. Töluverð umræða varð um frumvarpið og töluðu sumir um „frumvarp boða og banna“ (sjá hér). Að endingu voru lögin þó samþykkt en gildistöku þeirra frestað til 1. apríl 2014 (sjá 94. grein hér).

Síðastliðið haust ákvað nýr umhverfis- og auðlindaráðherra að afturkalla lögin sem voru samþykkt rétt fyrir þinglok síðasta kjörtímabils (sjá hér). Gildistöku heildarlaga um náttúrvernd var síðan frestað til 1. júlí n.k. (sjá hér). Fram að þeim tíma stóð til að skoða einstaka þætti laganna betur (sjá hér). Nú stendur hins vegar til að fresta gildistökunni enn frekar eða til 1. janúar 2016. Þetta er gert til að tryggja að frum­varp um nátt­úru­vernd fái full­nægj­andi um­fjöll­un á Alþingi“ (sjá hér).

Það er mjög líklegt að þessar frestanir standi í beinu samhengi við þær verðmiðamerkingar sem hér hafa verið til umræðu. Ég leyfi mér reyndar að efast um að nokkurt náttúruverndarákvæði dugi sem vörn þeirri náttúruperlu sem hefur verið hengt á verðmiðinn „virkjunarkostur“. Það að núverandi stjórnarandstaða eyði nú dögum og vikum í málþóf, náttúrunni til síðborinnar varnar, snýst þar af leiðandi sennilega um eitthvað allt annað en umhverfisvernd. 

Sjá líka:
„Rétt að færa alla átta kostina í nýtingarflokk“ 13. maí 2015 visir.is
Auðlindir landsins 1.800 milljarða virði
 11. apríl 2015 ruv.is
Auðlindir nokkrar milljónir á mann 9. apríl 2015 ruv.is
Efast um lögmæti tillögu um virkjanakosti 29. nóvember 2014 visir.is
Vilja skilgreina auðlindir landsins 6. október 2014 mbl.is
Flóahreppur hafnar Urriðafossvirkjun 15. júní 2007 visir.is

Annað forvitnilegt efni:
Nánar um einstaka virkjunarkosti
Lög um verndar- og nýtingaráætlun (Lög nr. 48 16. maí 2011)
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (bloggfærsla höfundar frá 22. febrúar 2014) 


mbl.is „Með hreðjatök á þinginu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Thakka góda grein. Öll thessi umraeda eins og hún birtist manni, hefur verid óttalegt tros og varla ad madur nenni lengur ad fylgjast med umraedunni á thinginu, ef umraedu skildi kalla, thetta endalausa málthóf sem thar á sér stad. Thad er athyglisvert, hve stjórnarandstadan finnur sér marga fleti til nidurrifsstarfssemi sinnar. Ef henni tekst ekki ad afnema fullveldid med inngöngu í Brusselaexlid, skal efnahagur landsins tekinn í karphúsid, málthóf stundad á Althingi og jafnvel lagst í víking erlendis, thar sem einsatkvaedisformadur einsmálsflokksins lagdi sig í lima vid ad fá bjúrókrata og blýantsnagara fjórda ríkisins til ad djöflast á löglega kjörnum stjórnvöldum. Thad virdast öll medul leyfileg hjá minnihlutanum, thví midur.

Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 23.5.2015 kl. 02:16

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlit og innlegg! 

Það er kannski ekki nema von að fólk gefist upp á að fylgjast með því umræðan er ekki bara ofbeldiskennd heldur yfirmáta óheiðarleg líka!

Framsóknarþingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir varpar ágætu ljósi á þetta í nýjustu bloggfærslu sinni: http://vigdish.is/frekjupolitik-og-kosningaosigur/?fb_ref=AL2FB

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2015 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband