Val á nýjum seðlabankastjóra ætti að vera auðvelt
6.7.2014 | 17:06
Umsóknarfrestur um stöðu seðlabankastjóra rann út þann 27. júní sl. og voru nöfn umsækjanda birt síðasta þriðjudag. Það vakti athygli að á meðal umsækjanda er Lilja Mósesdóttir sem einhverjir hafa eflaust leyft sér að álykta að væri hætt öllum afskiptum af íslensku efnahagslífi. Með umsókn sinni hefur hún sýnt fram á það að það er öðru nær og greinilegt að það eru þó nokkrir sem fagna umsókn hennar um leið og þeir vona að hún hljóti stöðuna.
Það verður reyndar að viðurkennast að lítið hefur farið fyrir umfjöllun fjölmiðla um umsækjendur eða kynningu á bakgrunni þeirra. Listinn yfir þá tíu sem sóttu um embættið var birtur sl. þriðjudag og tvö til fjögur nöfn tekin út úr honum þar sem almennt er vísað í núverandi eða fyrrverandi stöðu umræddra umsækjenda. Á ruv.is eru nöfn eftirtaldra dregin fram með þessum hætti: Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, Lilja Mósesdóttir, fyrrverandi þingmaður, og Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við HR, eru meðal umsækjanda. (sjá hér)
Viðskiptablaðið vekur athygli á því að meðal umsækjendanna tíu eru þrjár konur en dregur síðan nöfn þessara fjögurra fram sérstaklega: Meðal umsækjenda eru Ragnar Árnason og Friðrik Már Baldursson hagfræðiprófessorar, sem og Lilja Mósesdóttir fyrrverandi Alþingismaður. Þá er Már Guðmundsson, núverandi seðlabankastjóri, í hópnum. (sjá hér) Þar er auk þess vakin athygli á að skipunartími Más Guðmundssonar rennur út 20. ágúst n.k.
Í fréttum ruv.is og vb.is vekur það athygli að ekkert er minnst á hagfræðimenntun Lilju en það er tekið fram að Friðrik Már Baldursson og Ragnar Árnason eru hagfræðiprófessorar. Í frétt mbl.is um þetta efni segir hins vegar: Meðal umsækjenda eru Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður og Ragnar Árnason prófessor við hagfræðideild HÍ. (sjá hér)
Í fréttinni er ekkert getið um starfstitla karlanna en þvælt með starfstitla kvennanna til orðsins alþingiskona sem hlýtur að teljast til nýyrða ef orðanotkunin er ekki bara hreint og klárt klúður. Miðað við athugasemdirnar sem eru gerðar við þessa frétt er ekki útlit fyrir að þeir sem lesi visir.is hafi kynnt sér hugmyndir Lilju.
Við frétt Eyjunnar hefur skapast forvitnilegur þráður sem endurspeglar ekki aðeins afstöðu þeirra og viðhorf, sem leggja til innlegg við fréttina, heldur bera mörg innleggjanna vitni um það að þeir eru þó nokkrir sem vilja sjá Lilju Mósesdóttur í embætti seðlabankastjóra. Hér verða dregin fram tvö dæmi en það þriðja og efnismesta stendur undir lok þessara skrifa.
Í ljósi sögunnar, bæði fyrir og eftir hrunið haustið 2008, þá ætti öllum að vera ljóst að kominn er tími til að í stöðu bankastjóra Seðlabanka Íslands verði ráðinn heiðarlegur og hæfur einstaklingur sem gangi einungis erinda íslenskra almannahagsmuna, til sátta og til heiðarlegs uppgjörs eftir hrunið.
Í hópi umsækjenda má finna þann heiðarlega og hæfa einstakling og það er auðvitað Lilja Mósesdóttir. [...] Hún er rétta manneskjan í starfið og henni er fullkomlega treystandi til að ganga einungis erinda íslenskra almannahagsmuna. (sjá hér)
Það er fullt tilefni til að bæta við það sem þegar er komið af örkynningu á þeim fimm sem fréttamiðlarnir drógu helst fram í fréttaskrifum sínum í tilefni þess að nöfn umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra voru birt. Fyrst má benda á að væntanlega muna einhverjir eftir Friðriki Má Baldurssyni fyrir það að hann er fyrsti kostaði prófessorinn við íslenskan háskóla þar sem heiti kostunaraðilans er tengt við prófessorsstöðu í fjármálum, fjármálahagfræði eða hagfræði. Þó slíkt hafi verið nýmæli hér á landi árið 2007 þá er það mjög algengt hjá háskólum í Bandaríkjunum og víðar samkvæmt þessari frétt hér.
Árið 2009 færði Friðrik Már sig hins vegar yfir til Háskólans í Reykjavík þar sem hann tók við stöðu forseta viðskiptadeildar frá 1. ágúst það sama ár (sjá hér). Í dag gegnir hann stöðu prófessors í hagfræði við sama skóla. Margir muna eflaust eftir honum frá því í Icesave-umræðunni þar sem hann varaði við ákveðnum efnahagsþrengingum ef ekki yrði gengið frá þessum samningum. (sjá hér) Hann hefur líka verið virkur í annarri efnahagsumræðu sem snerta almannahagsmuni þar sem hann hefur m.a. talað fyrir einkavæðingu raforkufyrirtækja (sjá hér).
Hann hefur líka varað við afleiðingum skuldaniðurfellingar núverandi ríkisstjórnar (sjá hér). Á ársfundi Samtaka atvinnulífsins, sem haldinn var í apríl síðastliðnum eins og frægt er orðið, gaf hann svo e.t.v. tóninn varðandi það hvert hann stefndi þar sem hann sagði: að gjaldmiðillinn yrði alltaf ákveðin hindrun. Það væri þó hægt að ná betri árangri með krónuna með bættri hagstjórn og aga. (sjá hér) Það vekur svo athygli að Friðrik á sæti í nefnd sem Bjarni Benediktsson hefur nýverið skipað en hún hefur það hlutverk að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands (sjá hér).
Myndin hér að ofan sýnir þá sem eiga sæti í sérfræðinganefndinni sem Bjarni Benediktsson skipaði í maí síðastliðnum til þess hlutverks að taka lög um Seðlabankann til heildarendurskoðunar. Það hlýtur að vekja furðu að annar kollega Friðriks Más í þessari nefnd, Ólöf Nordal, á líka sæti í þeirri hæfnisnefnd sem á að meta það hvort ferill hans og annarra, sem sækjast eftir seðlabankastjórastöðunni, standist settar kröfur (sjá hér).
Á það skal minnt að Ólöf Nordal er ekki aðeins formaður þessarar nefndar heldur er hún líka formaður bankaráðs Seðlabankans. Eins og áður hefur komið fram þá situr annar umsækjandi um embætti seðlabankastjóra, Ragnar Árnason, með henni í bankaráðinu (sjá hér). Þetta hlýtur að vekja upp þá spurningu hvort Ólöf Nordal geti talist hæf í þá hæfnisnefnd sem er ætlað að meta umsækjendur; væntanlega á jafnréttisgrundvelli.
Ég geri ráð fyrir því að flestir þekki það vel til ferils Más Guðmundssonar að það sé óþarft að kynna hann ýtarlega. Hins vegar má minna á að áður en hann tók við embætti seðlabankastjóra, um mitt ár 2009 (sjá hér), hafði hann verið yfirmaður hjá Bank for International Settlements (BIS) og The European Money and Finance Forum (sjá hér).
Reyndar er ekki annað að sjá en að Már hafi haldið einhverjum þessara embætta til ársloka 2011 þrátt fyrir að hafa tekið við seðlabankastjórastöðunni tæpum þremur árum áður (sjá hér). Í því sambandi má minna á það að það var í byrjun árs 2012 sem hann fór í mál við Seðlabankann til að freista þess að fá ógildingu á því að laun hans skyldu lækkuð (sjá hér).
Að mati Más og a.m.k. Láru V. Júlíusdóttur, fyrrverandi formanns bankaráðs Seðlabankans, var það eðlilegt að bankinn borgaði málskostnaðinn (sjá hér). Ragnar Árnason sem sat með Láru í ráðinu, og er einn umsækjendanna nú um seðlabankastjórastöðuna nú, hefur haldið því fram að bankaráðið hafi aldrei fengið þær upplýsingar svo hann viti að formaðurinn ætlaði að láta bankann greiða málskostnað Más (sjá hér)
Þó það megi e.t.v. draga þá ályktun af ofangreindu að það sé í sjálfu sér einboðið að Lilja Mósesdóttir verði sú sem taki við af núverandi seðlabankastjóra má ekki gleyma því að Friðrik Már Baldursson virðist vera hátt skrifaður innan þess hóps sem er freistandi að kalla einu nafni fjármálavaldið en nafngiftin er í beinu samhengi við ítök eignastéttarinnar í öllu því sem lýtur að ásýnd samfélagsins.
Hugmyndir Ragnars Árnasonar virðast vera í þágu sama hóps en hann hefur það fram yfir Friðrik Má að hann tók þokkalega almenningsholla afstöðu í Icesave þó hann hafi ekki dirfst að beita sér gegn Icesave-samningunum með beinskeyttum hætti. Lilja Mósesdóttir var hins vegar í hópi þeirra þingmanna sem lögðust gegn því að Steingrímur J. Sigfússon undirritaði samninginn í sumarbyrjun 2009 (sjá hér).
Lilja tilheyrði þeim hópi sem Jóhanna Sigurðardóttir kallaði villikettina í VG. Miðað við mynd Halldórs hér að neðan er ekki útilokað að ætla að hann hafi grunað Lilju um þýðingarmikið hlutverk í þeim hópi.
Lilja Mósesdóttir er með doktorspróf í hagfræði frá Bretlandi og hefur starfað sem hagfræðingur og háskólakennari bæði hér á landi og erlendis. Áður en hún vakti athygli á jafnræðislegri viðbrögðum við efnahagshruninu en þeim, sem hefur verið fylgt hér á landi frá hruninu haustið 2008, þá hafði hún starfað sem lektor við Háskólann á Akureyri, dósent við Háskólann í Reykjavík, sem sérfræðingur við Háskólann í Luleaa í Svíþjóð, hagfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík og prófessor við Háskólann á Bifröst.
Meðal annarra starfa sem Lilja hefur gengt og hafa aukið henni reynslu og þekkingu er starf hagfræðings hjá ASÍ, ráðgjafa hjá Iðntæknistofnun, sérfræðings félagsmálaráðherra grænlensku heimastjórnarinnar og alþingismanns á Alþingi Íslendinga (sjá hér). Núverandi starf Lilju er samanburðarannsóknir á lífskjörum og velferðarstefnu í Noregi og á alþjóðavettvangi við eina stærstu félagsvísindastofnun Noregs.
Af því yfirliti sem hefur verið sett fram hér og því sem almenningi ætti að vera fullkunnugt um af þingstörfum Lilju Mósesdóttur verður ekki betur séð en hún sé langhæfasti umsækjandinn. Sigurður Hrafnkelsson dregur það helsta sem mælir með henni í embætti seðlabankastjóra, umfram aðra umsækjendur, fram á býsna einfaldan og skýran hátt í athugasemd við frétt Eyjunnar frá síðastliðnum þriðjudegi. Hann segir:
Lilja Mósesdóttir er eini umsækjandinn sem sagði strax árið 2008-9 að skuldastaða landsins stefndi í að verða algerlega ósjálfbær.
Það var hlegið þá, ekki síst í hennar eigin flokki, en þó vitum við öll í dag að þetta reyndist rétt hjá henni, skuldastaðan er algerlega ósjálfbær eins og hún sagði fyrir 5-6 árum síðan.
Lilja er líka eini umsækjandinn sem hefur lagt fram raunverulegar tillögur um hvernig eigi að taka á þessari skuldastöðu, gjaldmiðlinum og höftunum. [sjá hér] Hennar tillögur hafa hvergi verið hraktar með neinum rökstuðningi.
Hafi núverandi stjórnvöld einhvern alvöru áhuga á að ráðast í það að leysa þessi hafta-, gjaldmiðils- og skuldamál, þá er Lilja langbesti kosturinn í stöðu Seðlabankastjóra. ( sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))
Bankar geta ekki án ríkisins verið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Facebook
Athugasemdir
Frábær pistill hjá þér og svo sannarlega upplýsandi.
Því miður, held ég, vegna pólitísks plotts og spillingu,
að okkur verði ekki sú gæfa gefin að fá Lilju.
Þetta segi ég vegna áhorfs á pólitík sl. 30ár.
Flokkapot og kunningja/vina greiðar, hafa því miður
alltaf ráðið för, en ekki hver er hæfastur eða bestur
fyrir Íslenskt samfélag.
Miðað við þínar upplýsingar og tengingar um viðkomandi
fólk sem sækist eftir þessari stöðu, þá er það alveg
augljóst.
M.b.kv.
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 17:02
( Eftirskrift frá síðuhaldara: Vegna smákúðurs við birtingu þá fór þessi bloggfærsla tvöföld í loftið. Sigurður setti þessi athugasemd við þá sem átti ekki að fara í loftið og þó ég sé ekki alveg sátt við hana þá fannst mér sanngjarnt að afrita hana og setja hana við þá færslu sem átti að fara bara einföld)
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 17:58
Ég ætla að byrja á því að biðja þig afsökunar á klúðrinu sem kom upp hjá mér með því að birta sömu færsluna tvisvar. Eins og ég segi hér á undan þá átti sú sem þú gerðir athugasemdina við aldrei að fara í loftið. Þar sem ég skil aftöðu þína mjög vel, þó ég vilji fá að vera bjartsýn þar til niðurstaðan gefur mér ástæðu til annars, þá ákvað ég að afrita athugasemdina þína og setja hana við þá sem átti að fara í loftið.
Ég þakka þér svo kærlega fyrir uppbyggjandi hól
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.7.2014 kl. 18:09
Já sæl Rakel, og takk fyrir birtinguna.
Sjálfur held ég að, allt hér heima sé svo
spillt og undirgefið 4 flokkunum að ekki sé
nokkur von fyrir þá sem vilja breyta til hins betri vegar.
Meðan prófkjörin eru sett upp þannig, að sá sem fær fæst
atkvæðin í fyrsta sæti, skuli fá þingmannastól,
(Steingrímur með 199 atkvæði í sínu kjördæmi)
þá spyr fólk sig, á ekki sá sem fær flest atkvæðin
að fara í fyrsta sæti..????
Það var mér kennt í barnaskóla að sá sem fengi
flestar hendur upp, hann var kosin.
En nei, ekki í póllitík. Þar er allt önnur Ella.
Er nema von að fólk missi trúna á þessum prófkjörum
þegar lýðræðið í þessum kosningum er einskis virði..???
Af hverju erum við ekki með í prófkjörum á Íslandi,
að sá sem fær flest atkvæðin, hann/hún fer í fyrsta sæti. ??
Nei, þetta er allt sýndarlýðræði og gert til þess að tryggja
áfram haldandi setu þeirra sem á jötuna hafa komist.
Hverju hefur flugfreyjan og vörubílstjórinn skilað okkur
almenning einhverju til hagsbóta eftir öll þessi ár á
þingi....???
Skjaldborg..?? Endaði með tjaldsorg..!!
Eftir næstum því 30 ár á þingi, hefur ekkert komið
frá þessu fólki sem almenningur getur vitnað til
um að þau hafi gert eitthvað gott.
Sorglegt en satt. En svona er saga flestra
pólitíkusa á Íslandi.
Sigurður K Hjaltested (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 21:51
Þá er bara að reyna að breyta því Í því sambandi langar mig til að vekja athygli þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við ráðningu Lilju Mósesdóttur til embættis seðalbankastjóra að nú er hægt að vekja athygli á stuðningi við ráðningu hennar hér: https://www.facebook.com/pages/Lilju-Mósesdóttur-sem-næsta-seðlabankastjóra/1451137291806872?fref=ts
Persónulega finnst mér það dularfullt að ekkert hefur farið fyrir umræðu um það að hún er á meðal umsækjenda og er það ekki sísta ástæða þess að ég lækaði! En svo er ég líka á því að hún sé langhæfasti og samfélagshollasti umsækjandinn.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.7.2014 kl. 23:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.